Hæfasti heilbrigðisráðherrann hættir - Icesave-fórnir
30.9.2009 | 13:18
Ég er ekki ein um þá skoðun að leitun sé að hæfari heilbrigðisráðherra en Ögmundi Jónassyni. Þótt einstaka ýlustrái segi annað þá hef ég það eftir fjölmörgum í stofnunum sem heyra undir heilbrigðisráðuneytið að hann hafi komið og innleitt ný vinnubrögð, samráð og samkennd með þeim sem hann vinnur fyrir. Sett sig ákaflega vel inn í málin og ekki unnt sér hvíldar þrátt fyrir að vera þátttakandi í ríkisstjórn við ómanneskjulega erfiðar aðstæður og í eldlínu í einu eldfimasta máli lýðveldissögunnar, Icesave.
Það er illt að sjá á eftir manni sem honum úr þessu mikilvæga ráðuneyti, eiginlega alveg óþolandi. Hins vegar bauð yfirlýsing forsætisráðherraum helgina upp á að svona gæti farið, þótt ég hafi ekki séð þessa atburðarás fyrir. Sumir vilja reyndar meina að það hafi forsætisráðherra ekki gert heldur.
Ögmundur er klókur stjórnmálamaður og einn þeirra fáu sem hefur ekki tapað hugsjónum sínum í öllum klókindunum. Fulltrúar VG á þingi og í ríkisstjórn eru sem betur fer hugsjónafólk og fleiri klókir en Ögmundur, en á engan hallað þó ég telji hann meðal þeirra klókustu. Okkur Ögmundur hefur aðeins greint á í einu máli, það er hver sé æskilegust leið til að halda Íslandi utan ESB. Við erum hins vegar sammála um einu ásættanlegu niðurstöðuna, Ísland verði áfram utan ESB.
ESB-þjóðirnar England og Holland hafa tekið okkur í kennslustund um kúgun þeirra rótgrónu nýlenduherra sem ráða ferðinni innan ESB. Icesave-samningarnir eru tækið núna og ekki það eina sem unnt er að beita gagnvart lítilli þjóð í vanda.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 1.10.2009 kl. 16:04 | Slóð | Facebook
Írland verður látið kjósa um Lissabon-sáttmála ESB aftur og aftur og aftur, þó NEI þýði NEI - Elvis segir Nei!
22.9.2009 | 22:43
Það þarf ekki að hafa mörg orð um þetta myndband sem slóvenskur kunningi minn og Facebook-vinur setti á Facebook:
Áfram Ísland - ekkert ESB
18.9.2009 | 19:57
Heimssýn hefur haldið uppi merki gegn aðild Íslands að ESB af talsverðum krafti að undanförnu. Bendi á heimsíðuna: www.heimssyn.is og bloggsíðuna: http://www.heimssyn.blog.is/blog/heimssyn/
Fróðleg lesing og tenglar á ágætis upplýsingar um ESB.
Kinks - 14. september
14.9.2009 | 14:52
Kinks hefur alltaf verið ein af mínum uppáhaldshljómsveitum og endurómað í mörgum af bestu hljómsveitum seinustu ára, nægir að nefna White Stripes, sem er ein af þeim skemmtilegri. Las það í Mogganum í dag að í dag væru 44 ár (!) síðan hljómleikar þeirra í Austurbæjarbíói voru haldnir - þannig að ég var sem sagt nýorðin þrettán ára þegar ég fór á þessa hljómleika. Sumarið 1965 var um margt mjög skemmtilegt, ég var nefnilega nýflutt ,,út á land" og komin á fullt í handbolta með Ungmennafélaginu á staðnum auk þess sem við fórum vikulega á á föstudagskvöldum á hvaða farartækjum sem gáfust, vörubílspöllum, köggum og heyflutningskerrum, í sundlaugina í nærliggjandi bæ, sem var fimm kílómetra leið.
Nærliggjandi bærinn var Hafnarfjörður og sveitin mín var Álftanes og er enn. Börnin mín, sem nú eru komin á fertugsaldur, upplifðu heyskap hér í sveitinni en nú er ýmislegt breytt.
11. september á sína veraldarskírskotun, 12. september lika, hér á Íslandi alla vega, 13. september er mér persónulega minnisstæður (1985) og núna er 14. september kominn í safnið líka.
Kinks standa alltaf fyrir sínu. Ekki er ég viss um að þeir hafi flutt þetta lag hér að neðan á tónleikunum í Austurbæjarbíói, það kom alla vega ekki út á plötu fyrr en tíu vikum seinna, og þá var sagt að þetta væri afrakstur Íslandsferðarinnar. Ekki talið eitt af þeirra bestu lögum, en ja, það er alltaf ákveðin stemmning yfir því.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 14:58 | Slóð | Facebook
Framtíðin sem byrjar í dag
12.9.2009 | 22:33
Ég hef alltaf tekið stjórnmál alvarlega. Hef, held ég, húmor fyrir flestu öðru, en pólitík er að mínu mati ekkert grín. Vitna stundum í orð Svavars Gests skemmtiþáttastjórnanda, Lionsmanns og trommara (sárasaklauss af Icesave) sem sagði þegar hann var spurður hvort hann ætlaði ekki í pólitík, hvort það vantaði ekki húmorista á þing. Hann svaraði: Nei, það vantar menn sem taka pólitík alvarlega.
Þetta segi ég ekki af því mig dauðlangi aftur á þing. Þegar ég kvaddi alþingi eftir sex ára góða veru þar, var það til að snúa mér að öðru, sem ég gerði svo sannarlega. Búin að skrifa nokkrar bækur, klára master númer 2 (í tölvunarfræði) og ýmislegt fleira síðan þá. En eftir búsáhaldabyltinguna í vetur, hrunið og vegna fyrirsjáanlegrar ESB-umræðu og jafnvel aðildarumsóknar, sem nú er orðin að veruleika, neyddist ég til að snúa til baka og er því orðin varaþingkona enn á ný - í fúlustu alvöru, þótt skyldur mínar verði varla miklar á þessu kjörtímabili, margir til kallaðir.
Brátt er liðið ár síðan allt breyttist á ytra borðinu. Breytingarnar urðu miklu fyrr, með nýfrjálshyggjunni og einkavinavæðingunni. Ég er fegin að VG er við völd, ekki af því VG ráði ferðinni í öllum málum, þá værum við ekki búin að sækja um aðild að ESB, heldur vegna þess að ég sé ekki annan betri kost í að móta framtíðina, sem því miður er ennþá að byrja, í dag. Allt of mikill tími hefur farið í óþarfa. ESB bull. Icesave-samninga og samningsbætur. Því verður ekki breytt. Það eina sem við getum breytt er framtíðin. Þrátt fyrir skuldbindingar eigum við mikið inni hjá framtíðinni. En til þess þarf að fara að einbeita sér að uppbyggingu og að fara í harkalegan niðurskurð á bulli og sækja þann pening sem útrásarvíkingar og vitleysingar stálu af okkur. Ég veit það kvíða margir vetrinum. Meira að segja Pollýönnu-mengaða æska mín megnar ekki að láta mig raula fyrir munni mér: Don't worry, be happy! Fjárlagafrumvarpið sem lagt verður fram í haust verður áreiðanlega enn einn skellurinn. Mér finnst reyndar að það eigi að fara að taka þjóðina á sálarfræðinni og leggja fjárlagafrumvarpið fram á björtum vordögum, og elska ég þó skammdegið eins og fleiri Íslendingar sem eru með skerta skammdegisþunglyndishneigð, skv. rannsóknum Jóhanns Axelssonar.
Framtíðin byrjar á hverjum degi og ég held að það sé kominn tími til að notfæra sér það lag sem nú er til þess að stokka alveg upp á nýtt og skapa nýtt og réttlátara samfélag, áður en allt fellur í sama farið og bölsýni og brokkgengt minni fær okkur til að gera sömu mistökin aftur.
Hvalir í sjó og endur á polli
11.9.2009 | 15:07
![]() |
Andarnefjur aftur á Pollinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Helgin á sýningunni minni var góð og tek hana nniður fyrir næstu helgi - verð við milli 17 og 19 fimmtudag
3.9.2009 | 00:39
Þá er sýningin mín í Íþróttamiðstöðunni Lágafelli að enda. Það var gaman að sýna þar og seinasta helgi var notaleg þegar gestir og gangandi litu við. Því miður náðist ekki að prenta út auglýsingu fyrir íbúa Mosfellsbæjar en vonandi hefur það tekist núna, því ég ætla að vera við á morgun, fimmtudag, milli kl. 17 og 19, svona rétt í bláendann á sýningunni.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 00:40 | Slóð | Facebook
Flokksráðsfundur og sýningarleiðsögn á sýningunni minni í Mosó
28.8.2009 | 02:58
Á morgun og laugardag er haldinn flokksráðsfundur okkar Vinstri grænna á Hvolsvelli og ég hlakka til að renna austur og ræða pólitík á þessum eldheitu tímum. Hins vegar ætla ég að sleppa því að skreppa með í sumarferð VG sem verður í kjölfarið og liggur að þessu sinni í Þórsmörk. Þótt allmörg ár séu liðin síðan ég fór seinast í Þórsmörk, þá finnst mér alveg ágætt að sinna öðru um helgina, þoka handritinu að bókinni minni áfram og á sunnudag ætla ég að vera til taks á sýningunni minni í Íþróttamiðstöðunni Lágafelli í Mosfellsbæ og lóðsa þá sem vilja um hana og segja frá verkunum. Verð þar milli klukkan 15 og 19 á sunnudag. Endilega mætið ef þið hafið áhuga á, þetta er í leiðinni í og úr bænum.
Mikið rosalega er ég komin heim ... !
23.8.2009 | 18:05
Það fer ekkert á milli mála að ég er komin heim til Íslands. Reyndar alveg með ólíkindum að ekki séu fleiri en 11 dagar síðan ég kom. Eflaust stutt í að ég stingi af upp í bústað aftur, átti þar góða og vinnusama helgi um síðustu helgi og held reyndar alveg dampi í vinnumálum þótt ég sé að vasast í öllu því nauðsynlegasta sem ég þarf. Hver ætli skammturinn fyrir 11 daga törn og smá uppsöfnuð verkefni sé annars - fyrir utan vinnuna:
- Eitt áríðandi afmæli á Akranesi
- Ein sýningaropnun
- Fjórir fundir
- Eitt viðtal tekið og skrifað
- Ein grein skrifuð
- Ein ræða undirbúin
- ... og fleira
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 22:12 | Slóð | Facebook
Indæl opnun á óheppilegum tíma
13.8.2009 | 23:13
Sýningin mín í Íþróttamiðstöðunni í Lágafelli var hengd upp 4. ágúst en ákveðið hafði verið að hafa smá formlega ,,opnun" þegar ég væri komin heim frá Bandaríkjunum. Þegar tímasetningin var ákveðin, m.a. með hliðsjón af fyrri opnunum, var auðvitað ekki vitað að þetta myndi skarast við samstöðufundinn í dag. Hef smá móral af því að hafa haft fundinn af mömmu, en það var samt mjög gaman að hún skyldi vera tímanlega á opnuninni og hitta gesti og gangandi. Einhverjir gestanna höfðu látið vita að þeir myndu mæta seint og koma af fundinum. Þannig að þetta var mjög indæl opnun, gestirnir dreifust mjög mátulega á tímann sem ætlaður var fyrir hana og upphengingin hefur tekist alveg rosalega vel hjá fjölskyldunni minni. Reyndar frétti ég það að Óli hefði verið aðalmaðurinn og farið eftir skjali sem hann var með í símanum og svo komu Hanna og Ari með hjálparhönd þegar á leið og ég var síðan í tölvupóstsambandi og skoðaði afraksturinn á myndum úr símanum hans Óla í henni Ameríku.
Sýningin verður út mánuðinn á mjög rýmilegum opnunartíma, sem sagt frá morgni til kvölds, þegar íþróttamiðstöðin er opin. Veit að slatti af fólki ætlar að skoða hana á öðrum tíma en í dag og einhverjir höfðu þegar komið, þótt ég hafi lítið auglýst hana, en að vísu hefur máttur Vikunnar, sem sagði frá henni í síðustu Viku, greinilega verið álitlegur. Sem sagt, endilega kíkið þið við og skoðið sýninguna. Er að hugsa um að láta vita hvenær ég verð á svæðinu, og þá væntanlega hér á blogginu og Facebook. Sting kannski fleiri myndum hér inn seinna.