Býst við að margir hafi lent í því sama og ég, að ,,týna" lögum tímabundið, kannski árum eða áratugum saman. Frumflutningur á Gunnarshólma Atla Heimis ýfði eitt gamalt ,,týndralaga" sár, ég bara VERÐ að finna einhvers staðar ,,Guðjón bak við tjöldin" snilldartexta Þórarins Eldjárn við lag Atla Heimis Sveinssonar. Hef orðað þetta við skólasystkini mín úr Menntó (útskrift 1972) fyrir ótrúlega daufum eyrum. Þó sungum við þetta lag með öðru lagi en hinu ágæta lagi Harðar Torfasonar - en ég sakna þess upprunalega sárt. Fattaði auðvitað ekkert að biðja minn gamla kennara, Atla Heimi, að leiða mig á rétta slóð og geri það sjálfsagt ekki, við hittumst sjaldan.
En fátt er svo með öllu illt og allt það. Þetta leiddi mig á slóðir fleiri týndra laga og með hjálp elsku YouTube fann ég eftir margra ára hlé eitt af fallegustu lögum sem ég hef heyrt, það sem villti um fyrir mér var að í þeirri útgáfu sem ég heyrði á sínum tíma var textinn ekki eins, þá var nefnilega til sameinuð Júgóslavía.
Flottur fundur Heimssýnar og óskaplega falleg tónlist Atla Heimis
2.12.2009 | 00:48
Heimssýn hélt fullveldisfagnað í dag í Salnum í Kópavogi. Mjög góður fundur og ekki spillti að frumflutningur Gunnarshólma eftir Atla Heimi Sveinsson heppnaðist einstaklega vel. Fífilbrekkuhópurinn er einstaklega glæsilega skipaður og Atli Heimir er tónskáld sem ég hreinlega dái og er þó sannarlega góðu vön sem Álftnesingur þar sem mörg af okkar bestu tónskáldum búa. Veit ekki hvort allir átta sig á öllum þeim lögum sem Atli Heimir hefur samið og eru orðin almenningseign vegna ljúfleika - Snert hörpu mína sennilega eitt af þeim þekktari. Það er eitt fallegasta lag í heimi. En ég er reyndar líka afskaplega hrifin af annarri tónlist Atla Heimis líka, þeirri sem kannski útheimtir aðeins annars konar hlustun. Svona þegar ég er ein heima set ég stundum í spilarann ,,nútímatónlist" ekki síst Atla Heimi og Karólínu, því ég nýt þess betur að hlusta á tónlist þegar hún fyllir allt rýmið í kring um mig (heyrnartól eru ekki alltaf í uppáhaldi) og er allt of löt að fara á tónleika - helst hérna heima á Álftanesi að ég dríf mig einstaka sinnum.
Að undanförnu hefur verið alveg ótrúlega margt að gerast á vegum Heimssýnar, en það sem ég fann svo vel í dag var hvað mismunandi viðburðir á vegum Heimssýnar laða að sér margbreytilega hópa. Hlýnaði um hjartarætur að sjá baráttufélaga sem ég sé sjaldan ella og er svolítið kát yfir því að sjá hverjir standa í þessari baráttu um fullveldið sem Guðmundur Hálfdánarsonvar að upplýsa okkur um að Íslendingar hafi alla tíð verið dauðhræddir um að missa. Þar sem ég missti af fundinum með honum í hádeginu í dag vegna annars fundar og heyrði bara útvarpsviðtal þekki ég ekki allar hans röksemdir enn en grunar að við séum ekki sammála um allt, en þetta tiltekna atriði get ég tekið undir.
Þar til ég set inn efni sem tilheyrir erindinu skelli ég þessu lánsefni af YouTube inn:
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:49 | Slóð | Facebook
Fullveldishátíð Heimssýnar 1. desember - frumflutningur á verki Atla Heimis
30.11.2009 | 19:37
Á morgun, 1. desember, verður fullveldishátíð Heimssýnar í Salnum í Kópavogi. Ræðumenn eru Ásbjörn Einar Daðason, Ragnheiður Elín Árnadóttir og Guðni Ágústsson. Tónlistarflutningur verður í höndum Fífilbrekkuhópsins en hópurinn frumflytur meðal annars verk Atla Heimis Sveinssonar sem byggt er á Gunnarshólma. Atli Heimir kemur á þann hátt óvænt inn í þennan fund, en hann er ekki þekktur sem andstæðingur ESB-aðildar Íslands, þvert á móti, en tónlistin klífur alla múra þannig að þessi ágæti fyrrum kennari minn úr Menntaskóla hafi þökk fyrir. Það er tengslum hans við Ragnar Arnalds og Styrmi Gunnarsson að þakka að verkið er frumflutt á fullveldishátíð Heimssýnar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:17 | Slóð | Facebook
Kaffi og landafræði - myndlistarsýningin mín á Café Rót
28.11.2009 | 23:26
Í dag var ég að hengja upp fjórðu einkasýninguna mína á árinu, á Café Rót í Hafnarstræti. Á morgun milli kl. 14 og 16 verður þó aðeins þriðja opnunin mín því skvass- og tennismyndirnar mínar í Veggsporti eru aðeins óformlegri sýning en hinar. Síðustu fimmtán mánuði hef ég málað meira en alla ævina fram til þessa, það var eins og einhver stífla brysti þegar ég byrjaði aftur í september í fyrra. Þá hafði liðið óvenjulangt á milli þess að ég sinnti myndlistinni almennilega og greinilega eitthvað sem safnast hafði upp og ekkert lát á því. Þessi sýning er með smá enduróm af fyrstu sýningunni minni í sumar, litlu kaffibollamyndirnar mínar halda áfram að fæðast. En hins vegar er meginþema sýningarinnar yfirstærð af aðeins leiðréttum landakortum. Hálfgerðar gátur. Það er gaman að hengja myndir upp á Café Rót, sem er flottur staður með alls konar húsgögnum og mjög dýnamísku mannlífi, þar hef ég rekist á byltingarsinna og broddborgara, farið á fundi en því miður ekki enn að dansa tangó eða Lindýhopp, því það kann ég hreinlega ekki. Mergjuð hljómsveit að æfa í morgun þegar ég var að hengja upp, því þarna er líka samastaður mjög framsækinna rokkhljómsveita. Sem sagt fjölbreytt umgjörð fyrir myndirnar mínar. Lýsingin er engin sýningarlýsing, en ég hef svo sannarlega gaman af því að glíma við umhverfið þarna, þetta er miklu líkara því sem gerist þegar myndirnar komast í eigu annarra en mín og á veggi alls konar íbúða. Sýningarhúsnæði er stundum einum of sterilt, þetta er það svo sannarlega ekki.
En sem sagt skrýtin landakort og kaffibollar fyrir alla á Café Rót í Hafnarstræti (húsið við hliðina á Rammagerðinni og ská á móti Heimssýnarskrifstofunni þar sem ég hef verið löngum stundum undanfarnar 5-6 vikur).Og þið eruð auðvitað öll velkomin á morgun milli 14 og 16 eða á öðrum tíma í desember, en sýningin er opin út mánuðinn.
Í gærkvöldi sendi ég línu til Hildar hjá forlaginu mínu, Sölku, hin og þessi smáerindi. Varð ekkert smá hissa þegar ég fékk svarið: Bókin (mín um Elfu Gísla) er komin út! Þar sem ég átti ekki von á henni fyrr en á mánudag og var einmitt að segja félögum mínum það á fundi í gær, m.a. virðulegum bóksala sem einnig á bók á jólamarkaðinu, Bjarna Harðar, þá var ég auðvitað mjög þægilega hissa. Komst ekki fyrr en um tvö-leytið til að sækja mér eintak og þá var þegar búið að biðja um viðbót í (Borgar)Kringluna. Ánægjulegt!
Tímamót í sögu Heimssýnar
16.11.2009 | 02:10
Á liðnum degi voru tímamót í sjö ára sögu Heimssýnar á aðalfundi samtakanna. Samtökin eru liðlega sjö ára og aldrei stærri. Ragnar Arnalds, sem hefur verið formaður frá stofnun Heimssýnar, sagði af sér formennsku en situr áfram í stjórn og við tók Ásmundur Einar Daðason en varaformaður var kjörin Heiðrún Lind Marteinsdóttir.
Að undanförnu hafa verið stofnuð Heimssýnarfélög á 11 stöðum á landinu og fleiri félög eru í undirbúningi. Þá er Heimssýn bæði virk hér á blogginu þar sem Heimssýnarbloggið lifir góðu lífi og með vefsíðuna heimssyn.is.
Nýjasta og sprækasta viðbótin er Facebook-síða Heimssýnar www.facebook.com/heimssyn en þaðan bárust fréttir af fundinum jafnóðum og þær urðu.
Svo eru auðvitað fjölmargir öflugir bloggarar að blogga um ESB-málin og nokkrir þeirra gengu til liðs við stjórn Heimssýnar á aðalfundinum, má þar nefna Vilborgu Hansen bloggvin minn og Harald Hansson, sem hefur verið sérlega öflugur að undanförnu í umfjöllun sinni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:14 | Slóð | Facebook
Óbærilega spennandi tímar (og bókin sem á jafn mikið í mér og ég í henni)
14.11.2009 | 02:27
Það er margt sem hefur haldið spennustiginu í lífi mínu uppi í þessum mánuði.Nóvember er alltaf svolítið spennandi mánuður, í fyrra var það heimkoma úr hitanum í kreppuna og aftur í hitann í frostinu á Austurvelli. Minnist margra spennandi nóvembermánuða, sem yfirleitt hafa verið mun meira afgerandi mánuðir í minni tilveru en október, einhverra hluta vegna. Man það yfirleitt vel að frá og með afmælisdeginum hans pabba (3. nóvember), þegar ég reyni yfirleitt að láta loga á kerti á leiðinu hans í Fossvogi veit ég að það er góður mánuður framundan, en oft óþarflega viðburðaríkur.
Útkoma ævisögu Elfu Gísla verður án efa hápunkturinn, en hún kemur einmitt út í lok mánaðarins. Finn hvað það skiptir mig miklu máli að sem flestir kynnist ævintýralegri sögu hennar sem svo sannarlega er töluvert ólík því sem mig grunar að fólk eigi von á. En ekki minna spennandi, því get ég lofað. Gerði mitt besta til þess að skrifa hana af trúmennsku við Elfu en auðvitað á ég heilmikið í bókinni og hún reyndar enn meira í mér.
Svo er ég að breyta um kúrs í tilverunni, eins og ég geri af og til, og er talsvert spennt að botn komist í það nákvæmlega hvert það muni leiða mig. Enginn vafi á því hvert ég er að stefna en hvaða leið nákvæmlega ég fer er að skýrast þessa dagana.
Ofan á þetta stökk ég inn í verkefni fyrir mín ágætu samtök Heimssýn skömmu fyrir seinustu mánaðarmót og þar hefur okkur Reyni félaga mínum tekist að undirbúa aðalfund samtakanna og skipuleggja þrjá frábæra fundi nýrra Heimssýnarfélaga, í Húnavatnssýslum, Þingeyjarsýslu (ágæt kona segir að báðar sýslurnar saman séu engu að síður eintala og trúi ég henni) og svo á Suðurnesjum. Í leiðinni höfum við haldið skrifstofunni ágætlega gangandi þótt enn eigi eftir að skrá inn nýjustu félaga og sum verkefnin bíði næstu viku.
- Allir á aðalfund Heimssýnar á sunnudag kl. 13:30 í sal Þjóðminjasafnsins!
Bókin mín um Elfu Gísladóttur kemur bráðum út ...
23.10.2009 | 02:51
Það er svo gaman að segja fólki frá því að ég hafi verið að skrifa ævisöguna hennar Elfu Gísladóttur leikkonu. Sérstaklega er gaman að heyra hvernig fólk man eftir henni ... það er svo ótrúlega fjölbreytilegt. ,,Já, var hún ekki í SÁL-skólanum?" (Jú, eitt ár) ,,... bíddu við, dóttir Gísla Alfreðs?" (jú, jú), ,, ... aha, amma hennar var alltaf svo stolt af henni!" ... og svo auðvitað: ,,Hvar hefur hún verið í öll þessi ár? Er það satt að hún hafi ekkert breyst?" (alveg rétt). Þrátt fyrir að Elfa hafi líklegast veriö mest í sviðsljósinu á meðan hún tók þátt í ævintýrinu í kringum stofnun Stöðvar 2 og síðar vegna brúðkaups aldarinnar þegar þau Elfa og Jón Óttar gengu í hjónaband er það tímabil ekkert endilega efst í huga þeirra sem ég hef verið að spjalla við - jú ég hef verið spurð hvort hún sé líka í ,,Herbalife" dæminu, en annars, nei, ekki svo mikið. Árin á Íslandi, sem sagt mið-kaflinn í ævi Elfu, (sem var mikið vestan hafs fyrstu 18 æviárin og aftur seinustu 18 árin), eru þau ár sem fólk þekkir en dramatíkin í ævi hennar í Bandaríkjunum og Kanada er samt eiginlega ekkert síðri. Alla vega ... ég er orðin spennt, og ég er þó búin að lesa bókina (og reyndar skrifa hana líka).
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 02:53 | Slóð | Facebook
Haust í huga
5.10.2009 | 21:19
Haustið er fallegur árstími en stundum sækir að manni hrollur. Þetta haust er hrollurinn óvenju áleitinn. Hótanir og spörk eru það sem við fáum frá meintum vinaþjóðum - nema auðvitað Færeyingjum og Pólverjar virðast einbeittari í því að styðja okkur en margar aðrar þjóðir, þótt þeir þurfi eflaust að lúta ægivaldi ESB. Stjórnmálaumræðan í sjónvarpinu núna er ekkert of málefnaleg og þótt vandinn sé mikill virðist ábyrgðartilfinning stjórnarandstöðunnar almennt ekki hafa vaknað og stjórnarliðar, sem ég vissulega styð, eru vel meðvitaðir um að fjárlögin sem nú hafa verið lögð fram eru vondar fréttir fyrir marga. Þó held ég að flestir Íslendingar vilji snúa af braut þess skattkerfis sem helst hefur hyglað og hlíft þeim sem mestar tekjurnar hafa og sé reiðubúin að sjá hærri fjármagnstekjuskatt með frítekjumarki, hátekjuskatt og stighækkandi skatta. Þegar tekjuskattur var lækkaður og tekið upp eitt skattstig var mikið talað um að skattkerfið væri orðið svo ,,einfalt og stílhreint". Það sem gleymdist var að það var ,,einfalt, stílhreint og óréttlátt".
Óþægilega viðburðaríkir dagar
1.10.2009 | 15:42
Mitt í upprifjun á hruninu í fyrra eru miklir viðburðir sem varða okkur flest að eiga sér stað. Niðurskurðarfjárlög að koma fram seinna í dag, Icesave-langavitleysan ef til vill enn á ný framundan og Ögmundur nýbúinn að segja af sér. Ég óska Álfheiði Ingadóttur velfarnaðar í því mikilvæga hlutverki sem hún hefur nú tekið að sér.
Á morgun munu Írar í annað sinn vera kvaddir að kjörborðinu til að reyna að neyða þá til að samþykkja Lissabon sáttmálann. Þótt ein jákvæð könnun hafi komið fram, um að Írar munir ótrauðir aftur fella þessa dulbúnu stjórnarskrá ESB, þá eru aðrar kannanir sem sýna að líklega muni þeir nú samþykkja Lissabon-sáttmálann.
Aðildarviðræður við ESB voru samþykktar í sumar illu heilli. Eftir rúma viku mun ég taka þátt í ráðstefnu í Noregi um hvort ESB sé að gera velferðina að markaðsvöru. Sannarlega brýn umræða.
Næstkomandi laugardag hefst fundaröð um ESB-umræðu innan Vinstri grænna. Grasrótarhópur hefur undirbúið fundina og á fyrsta fundinum, laugardaginn 3. október kl. 13 í Kragakaffi, Hamraborg 1-3 í Kópavogi mun Páll H. Hannesson félagsfræðingur og alþjóðafulltrúi BSRB fjalla um ,,Markað eða samfélag? - Baráttuna fyrir almannaþjónustunni". Páll tekur fyrir almannaþjónustuna og ESB, m.a. tilskipanir eins og þjónustutilskipunina og tilskipun um veitingu heilbrigðisþjónustu yfir landamæri. Þetta eru mál sem varða miklu í ESB-umræðunni og hafa ekki fengið þá almennu umfjöllun sem ástæða væri til. Nánar auglýst á vef VG vg.is
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:03 | Slóð | Facebook