Fór frá Íslandi í ESB-atkvæðagreiðslu og kem í Icesave hasar
11.8.2009 | 06:08
Þegar fréttaflutningur er jafn alþjóðlegur og raun ber vitni er maður bæði heima og erlendis í senn, það er að segja - það er val hvers og eins. Þegar ég lagði upp í núverandi reisu var verið að kjósa okkur í þá ánauð sem ég tel að ESB-viðræðurnar séu, þar sem tíma og orku er eytt í vafasamar viðræður meðan önnur brýnni mál ættu að vera í brennidepli. Nú, þegar ég kem heim eftir rétt um sólarhring verður væntanlega ekki kominn botn í Icesavemálið, eitt eldfimasta mál íslensks nútíma.
Mér finnst mikil blessun að vera í góðu sambandi við landið mitt og fólkið mitt á meðan ég er erlendis en það merkir ekki að það sé ekki hægt að njóta yndislegra stunda við vinum sínum og njóta þess að vera í fallegu, framandlegu og ofurhlýju umhverfi. Og forréttindin eru þau að eiga erindi á aðrar slóðir, vera vinnandi með góða samvisku, því það er svo sannarlega ekki lengur sjálfsagður hlutur að hafa gefandi vinnu sem getur á góðum degi látið mann skrimta nokkuð þokkalega, síst hjá svona sjálfstætt starfandi fólki eins og mér.
Síðustu dagarnir hér í Washington-fylki hjá Elfu Gísladóttur
10.8.2009 | 03:49
Þá fer að líða að heimferð eftir frábæra dvöl í næstum mánuð heima hjá Elfu Gísladóttur leikkonu og menningarmiðstöðvarstjóra hér vestast í Bandaríkjunum þar sem náttúrufegurð er með eindæmum. Í gær fórum við á sveitaskemmtun hér á sveitabæ í um kílómeters fjarlægð frá Conway Muse, þar sem Elfa er að byggja upp ótrúlega merkilega menningarmiðstöð, þvert á vilja bæjaryfirvalda sem hafa gert allt sem í þeirra valdi stendur til þess að leggja stein í götu Elfu sem er útlendingur, kona og meira að segja ljóshærð á amerískan mælikvarða. En þeim er ekki stætt á því og ég hef sjaldan heyrt annað eins hól um nokkurt framtak og menningar- og félagsmiðstöðuna hennar Elfu. Hér eru listsýningar, leikhópar, tónlistarfólk og barnastarf á vegum ýmissa aðila og það er bara brot af því sem gert er hérna. Veðrið hefur leikið við mig mestallan tímann og meira að segja eftir rigningarspá í dag var glaða sól mestallan seinni partinn. Í dag hreinsuðum við Elfa upp allar spurningarnar sem höfðu safnast upp að undanförnu þannig að ég ætti að vera í stakk búin að skrifa það sem útaf stendur af ævisögunni hennar, sem hefur verið að fæðast á undraverðum hraða að undanförnu. Þetta er eiginlega ævintýri líkast.
Við gengum heim af sveitaskemmtuninni arm í arm eins og íslenskar táningsstelpur á leiðinni heim, svo þegar við vorum að verða syfjaðar kom Lindsay hin ótrúlega sjálfsörugga vinkona Elfu og Joe maðurinn hennar sem er af indjánaættum, lögfræðingur og sagnfræðingur eða mennt, Harvard menntaður og ótrúlega fallegu dæturnar tvær. Við sáum og spjölluðum fram á nótt og þær litlu duttu útaf í þægilegum sófum meðan við þessi gömlu vorum á sögu- og sagnasukki.
Búið að opna sýninguna mína í Mosó
7.8.2009 | 02:29
Hvað er til ráða ef þarf að hengja upp heila myndlistarsýningu og maður er fastur úti í heimi? Þá er að leita á náðir fjölskyldunnar. Ég á góða fjölskyldu sem er búin að hegja upp heila myndlistarsýningu fyrir mig í Íþróttamiðstöðinni Lágafelli í Mosfellsbæ í samráði við hana Kristbjörgu, sem sér um sýningarhald þar. Ég reyndi auðvitað að raða saman myndum áður en ég fór hingað til Bandaríkjanna þar sem ég er við störf um þessar mundir, en það er aldrei alveg hægt að sá svona fyrir nema á staðnum. Þannig að ég tel að þau hafi unnið þrekvirki og sýnist á myndum af staðnum að vel hafi tekist til. Svo þegar ég kem heim í næstu viku efni ég til opnunar.
Fylgst með úr fjarlægð og ævisaga Elfu Gísladóttur
30.7.2009 | 06:53
Þegar ég var á leið Keflavíkurveginn um daginn áleiðis til móts við flugið sem bar mig hingað til Bandaríkjanna hlustaði ég á seinustu þingmennina gera grein fyrir atkvæði sínu varðandi ESB-aðildarumsókn, mál sem mér finnst það stærsta sem íslensk stjórnvöld hafa glímt við að undanförnu. Samfylkingin, sem sótt hefur aðildarviðræður hvað harðast, hafði naumlega betur í þeirri viðureign.
Síðan hef ég fylgst með á færi, fyrst með ESB-málunum, síðan Icesave og reyndar ýmsu öðru. Mér finnst af einhverjum ástæðum enn einkennilegra að vera stödd hér í Bandaríkjunum núna en það var í október síðastliðinn, þegar bankahrunið varð, en þá var ég líka hér vestan hafs.
Hins vegar er þessi ferð mín hingað til Washington-fylkis, rétt norðan við Seattle, hið besta mál. Ég er að skrifa ævisögu Elfu Gísladóttur leikkonu með meiru, sem rekur öfluga menningar- og listastarfsemi í héraðinu norðan við Seattle. Það hefur ekki gengið átakalaust fyrir hana að fá öll leyfin fyrir starfseminni, en hún hefur haft sigur í baráttunni við yfirvöld, dýran að vísu, en hún er baráttujaxl.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 06:57 | Slóð | Facebook
Atkvæðagreiðslan um ESB-aðildarumsókn á morgun - valkostir í atkvæðagreiðslu fyrir þingmenn
16.7.2009 | 01:32
Baráttan gegn ESB-aðildarumsókn er að ná hámarki, hvort sem okkur ESB-andstæðingum líkar betur eða verr. Var að fá smá facebook-pælingu sem mér finnst rétt að fara aðeins í gegnum:
Mgi langar að kortleggja og lesa aðeins í möguleikana sem þingmenn hafa til að segja hug sinn á morgun. Tel hjásetu ekki með, þótt hún hafi verið iðkuð í EES-samningnum:
1. Með breytingartillögu - hún felld - móti aðildarumsókn.
2. Með breytingartillögu - hún felld - með aðildarumsókn.
3. Móti breytingartillögu - hún felld - móti aðildarumsókn.
4. Móti breytingartillögu - hún felld - með aðildarumsókn.
5. Með breytingartillögu - hún samþykkt - móti aðildarumsókn.
6. Með breytingartillögu - hún samþykkt - með aðildarumsókn.
7. Móti breytingartillögu - hún samþykkt - móti aðildarumsókn.
8. Móti breytingartillögu - hún samþykkt - með aðildarumsókn.
Ég ætla ekki að raða þingmönnum á þessa bása að svo stöddu. Hef samt grunsemdir, en ekkert er víst í þessum efnum nema að Samfylkingin mun eflaust raða sér öll á bás 4 eða 8 eftir því hver örlög breytingartillögunnar yrðu. Ef ég sæti á þingi núna myndi ég væntanlega kjósa nr. 1 eða 5.
Er í þeirri undarlegu stöðu að vera að fara utan á morgun en mun fylgjast með atkvæðagreiðslu, umræðu, eða hverju því sem verður í gangi þar til ég fer í flugið síðdegis.
Erfitt verk fyrir höndum að bjarga heilu þjóðfélagi - eyðum ekki tímanum í ESB-vitleysu
10.7.2009 | 22:48
Jónsmessugleði í Garðabæ - tek þátt í útisýningu
24.6.2009 | 15:37
Það er ábyrgðarhluti að vera kominn á fullt í myndlistinni eftir aðeins of langt hlé. Nú er erfitt að halda aftur af sér, þó það sé ekki hægt að gera allt. Missti af þátttöku í gjörningi í tengslum við kvennahlaupið, vegna eigin sýningar, en nú verð ég sannarlega með í Jónsmessugleði í Garðabæ í kvöld. Hvet alla að nota góða veðrið og líta við hjá okkur, þetta er á ströndinni við Sjálandshverfið, á yndislega fallegum stað.
Hér er er aðeins meira um dagskrána:
JÓNSMESSUGLEÐI Í GARÐABÆ 24. JÚNÍ GEFUM, GLEÐJUM, NJÓTUM.
Nú á Jónsmessunni miðvikudaginn 24. júní frá kl. 20:00 24:00 munu myndlistarmenn úr Garðabæ halda útimyndlistarsýningu við Strandstíginn í Sjálandinu.
Um tuttugu myndlistarmenn taka þátt og munu með því leggja sitt að mörkum til að skapa eftirminnilega kvöldstund þar sem gestir og gangandi geta komið saman með það í huga að gefa, gleðja og njóta.
Tónlistarfólk, kórar bæjarins, skátafélagið Vífill og fleiri aðilar hafa lagt sitt af mörkum til að gera þetta kvöld sem eftirminnilegast. Myndlistarmennirnir eiga þann draum að þetta verði upphafið að árvissri Jónsmessunæturgleði í okkar ágæta bæ.
Úlfaldar allra landa sameinist og farið gegnum nálaraugað! Ríki maðurinn fer þangað ekki. Það var sannarlega kominn tími til að halda myndlistarsýningu ...
20.6.2009 | 20:01
Það var sannarlega kominn tími til þess að halda myndlistarsýningu. Mér er gjarnt að vinna með þemu, stundum árum saman, þannig hafa kettir og úlfaldar verið á sveimi í myndheiminum sem ég er að skapa. Sjaldan þó eins og núna. Hellamálverk af köttum og úlfaldar, ásamt smámyndum og módelstúdíum eru viðfangsefni sýningarinnar. Í framhaldi hef ég svo dottið niður í alls konar pælingar um úlfalda, sem NB urðu mjög spennandi í mínu lífi, þegar ég upplifði að fara á bak slíkri skepnu í Marokkó þegar ég var bara sex ára gömul. Mér finnst hins vegar mjög margt varðandi úlfalda spennandi, þolgæðið auðvitað eiginleiki sem ég vildi gjarnan hafa enn meira af (er með slatta) og svo eru formin í skepnunni bara ótrúleg. Og eins og árar þá finnst mér einboðið að við eigum eftir að horfa á fullt af úlföldum skokka eins og ekkert sé gegnum nálaraugu. En það er nú önnur saga.
Fyrri degi sýningarinnar er lokið en á morgun, sunnudag, verður sýningin áfram opin milli klukkan 13 og 18 í húsi Loftorku, Miðhrauni 10, Garðabæ, á móti Marel.
Í dag var rennerí nokkuð jafnt og þétt, nema hvað ég veit núna að það er of snemmt að hefja sýningar klukkan 13 á daginn, hélt ég væri svona tillitssöm við þá sem væru að fara annað, en fyrsta korterið eða tuttugu mínúturnar voru dauður tími, eftir það bara frábært ... áfram er opið á morgun og allir velkomnir, að sjálfsögðu!
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 20:03 | Slóð | Facebook
Sýning um helgina - Hellar og eyðimerkur 2009
19.6.2009 | 16:55
Sennilega eru hellar og eyðimerkur ekkert ofarlega í hugmynd fólks en ég ætla nú samt að hafa það sem þema sýningar sem ég verð með um helgina hjá Loftorku í Garðabæ, - nánar tiltekið í Miðhrauni 10. Öllum er velkomið að líta við og hér að neðan, undir myndinni, er leiðarlýsing.
Sýninguna kalla ég Hella og eyðimerkur 2009
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 17:14 | Slóð | Facebook
Sorglegast að heyra fólk segja: Þetta er bara byrjunin ...
17.6.2009 | 22:56
Verð að viðurkenna að ég kunni varla við það að fara og skoða rústirnar í nágrenninu við húsið mitt, hálfgerður óhugur í manni vegna þeirrar óhamingju sem liggur að baki. En svo eftir fréttirnar í kvöld var eiginlega ekki hægt að verja það að skoða ekki þessa samtímasögu á meðan hún var að gerast fyrir framan nefið á manni. Svo við Heiða vinkona, sem var stödd hjá mér, litum við og þarna var múgur og margmenni og þungt yfir flestum. Ótrúlega mikið raunverulegra að koma að þessum stað og sjá með eigin augum, en að skoða fréttir fjölmiðla.
Það voru fleiri en einn staddir þarna sem sögðu eitthvað á þessa leið: Þetta er bara byrjunin ... og mér finnst það sorglegt. Hef ekki hugmynd um hvort það er rétt eða ekki, en þessi atburður er óneitanlega stingandi yfirlýsing um hvernig einn tiltekinn maður að minnsta kosti upplifir ástandið. Fólki á vettvangi var líka tíðrætt um að bankar tækju aldrei neina ábyrgð heldur settu hana eingöngu yfir á aðra. Og bankarnir ...
![]() |
Bankinn fékk ekki lyklana |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |