Allt sem getur gerst meðan þú ert upptekin
4.9.2010 | 22:47
Endingargott sumar - á ýmsa vegu
29.8.2010 | 18:01
Um allmargra ára skeið hef ég farið í sumarfrí á veturna frekar en á sumrin, en samt tekið einhverja frídaga eða frítíma á sumrin. Þetta sumar og hið síðasta hafa verið einstaklega veðurblíð og sennilega næstu sumur á undan líka. Meðan ég var að vinna í lausamennsku, aðallega við skriftir, gat ég setið á pallinum fyrir utan sumarbústaðinn og skrifað. Núna, þegar ég ákvað að fara aftur að vinna sem tölvunarfræðingur, er ég að vísu mjög ánægð með svalirnar á hæðinni okkar, þangað út tek ég tölvuna stundum ef ég er að vinna í verkefnum sem ekki útheimta tvo skjái. Það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að leggja á sig til að elta sólina. Þess í stað hef ég notið útivistar með því að skipta sumarleyfisdögum í smáhluta og elt góðar sólarstundir þegar tími hefur unnist til, án þess að skerða sumarfríið sem ég ætla að taka í vetur neitt voðalega. Ekki spillir að oft hafa helgarnar verið góðar. Hlýindin framundan, þótt þeim fylgi einhver væta, eru til þess fallin að gera sumarið endingarbetra en ella væri. Það sem þó hefur mest áhrif á lengd sumarsins er að vera fallin fyrir íþrótt sem dregur mann út á golfvöll í tíma og ótíma, ótrúlegt hvað það gerir sumarið mikið lengra að njóta þess úti við. Sem sagt, nokkuð endingargott sumar, hingað til alla vega ...
Gegnum augu annarra og okkar góða Gay!
7.8.2010 | 00:26
Ólesnar spennusögur – Kindle og pappír
22.7.2010 | 19:43
Það er fátt sem gerir mig órólega og mér leiðist sjaldan, ef nokkrun tíma. En hins vegar verð ég að játa að ég finn fyrir smá ókyrrð og öryggisleysi er ég á ekki alla vega 2-3 ólesnar spennusögur innan seilingar. Fátt tæmir hugann eins vel og að lesa spennusögu fyrir svefninn og svo þjónar þessi iðja einnig því hlutverki að ýta gáfulegum hugsunum og geggjuðum hugmyndum á brott, en það er auðvitað valkvætt hvað hver og einn vill gera við svoleiðis lagað. Einstaka sinnum tek ég óskrifuðu minnisbókina framyfir spennusöguna á náttborðinu og krota hjá mér allar þessar hugsanir og hugmyndir. Það má stundum moða úr því að morgni.
Engu að síður er alveg nauðsynlegt að eiga svona slökkvilið við hendina og geta svæft allt hugarflug með góðri spennu fyrir svefninn. Um helgar má svo stundum grípa í bókina líka í vakningaferlinu, sofna aftur eða detta inn í spennuna sem góð spennusaga þarf að bjóða upp á og lesa sér til óbóta.
Nú er ég búin að baktryggja mig. Hlaða niður ókeypis forriti á tölvuna mína sem gerir að sumu leyti sama gagn og hið allt of dýra Kindle-lestól, að ég tali nú ekki um iPad-inn sem er enn dýrari. Hvort tveggja of dýrt til þess að ég hafi þurft að taka hina afdrifaríku ákvörðun um hvort henti mér betur. En nú get ég keypt og átt í tölvunni minni varasafn af spennusögum, þannig að strangt til tekið þá þarf ég aldrei að verða uppiskroppa með spennusögur fyrir svefninn. Til þess hefur ekki komið enn, en óneitanlega er þessi kostur betri en sá að renna út í Hagkaup (opin allan sólarhringinn í GB og Skeifunni) með stýrurnar í augunum eftir nýrri spennusögu. Það hef ég heldur ekki gert, en allur er varinn góður, er það ekki?
Veðurblíða og vitleysa
16.7.2010 | 20:22
Veðurblíðan þessa dagana og fyrr í sumar reyndar líka er alveg einstök og afskaplega vel þegin. Fyrir fólk eins og mig, sem hefur aldrei alveg áttað sig á hvort það er hundkristið eða heldur heiðið, þá brýst þakklætið út í mikilli þörf fyrir að þakka einhverju almætti fyrir almennilegheitin, hvort sem það eru veðurguðirnir eða hinn eini sanni guð. Hreinskilnislega sagt, þá bara veit ég það ekki. En þakka samt.
Vitleysan er hins vegar sú að fyrir réttu ári var samþykkt að ganga til aðildarviðræða við ESB fyrir hönd sumra Íslendinga. Oft hef ég hugsað um gamla brandarann þegar einhver sagði alveg rasandi kringum EES-málið: Er ekki bara hægt að láta Jón Baldvin fá einstaklingsaðild að ESB? Það ár sem liðið er síðan þessi umdeilda - og að mínu mati afskaplega vonda - ákvörðun var tekin hefur sýnt svo ekki er um að villast að þetta var ekki gert í þágu almennings, kostnaður, umfang og fyrirhöfn, auk ólíðandi tímasóunar, er á kostnað annarra og miklu betri verka. Mig svíður í vinstri græna hjartað að þetta skuli hafa gerst.
Golf fyrir óinnvígða
12.7.2010 | 01:39
Í nokkur ár hef ég reynt að venja mig á golf. Minnug þess að á landinu eru tennisvellir ekki víða og tennisiðkun útheimtir að hafa mótspilara tiltækan á réttum tímum, þá vissi ég að ef mér tækist að venja mig á golf, þá hefði ég að einhverju að keppa þegar ég væri að njóta útiverunnar og oft á tíðum einnig veðurblíðunnar. Vissulega átti ég góð tennisár, einkum fyrstu árin sem ég ánetjaðist þeirri íþrótt, en svo fór að koma misgengi milli aðgangi að mótspilurum (á réttum tímum), góðviðrisdaga og annarra þátta sem skiptu máli. Auk þess fer illa saman að spila skvass og tennis, of líkar íþróttir sem krefjast of ólíkrar tækni. Svo úr þessum lúxus dró um sinn alla vega.
Og þá fór ég að reyna að venja mig á golf. Það gekk vægast sagt brösuglega (vona að g-ið sé leyft í þessu orði, mér gengur illa að sætta mig við stafsetninguna brösulega, sem ég held að sé ögn algengari). En alla vega, með einbeittum ásetningi er mér að takast að venja mig á þessa ágætu íþrótt og búin að uppgötva að spilið skánar ekki nema maður sinni þessu eitthvað meira en 5 sinnum á sumri, sem er mitt fyrra met (og þá er ég ekki að tala um 5 heila golfhringi). Ég á eflaust langt í land að verða innvígð í þennan heim sem ég hélt eitt sinn að væri bara fyrir eldgamalt fólk, pabbi var áreiðanlega á fertugsaldri þegar ég sá hann vera að spila :-) og Sverrir lögga á annarri hæðinni, sem notaði glas og teppið heima til að æfa pútt var ábyggilega eldri en hann. Núna er ekki þverfótað fyrir unglingum á litla vellinum þar sem ég æfi mig, svo ég er með eldri iðkendum. Vonandi að ég ánetjist þessari íþrótt af einhverjum viti.
Því miður er ekki boðið upp á svona holur, eins og ég fann þegar ég googlaði konur, skrípó og golf. Þá væri ég farin að æfa holu í höggi.
Í dagmunaði litlu að ég ætti völlinn ein. Allt í einu voru allir að hverfa af vellinum - og þá allt í einu mundi ég að ég ætlaði líka að horfa á úrslitaleikinn.
Háskóli Íslands - pistill án ástæðu
7.7.2010 | 23:48
Það góða við blogg er að við þurfum ekki afsökun fyrir því að blogga um hvaðeina sem hugur stendur til hverju sinni.
Þannig að hér er örlítið blogg um Háskóla Íslands. Þessi stóri, svolítið klunnalegi skóli, sem kemst samt allt sem þarf að fara, hefur verið athvarf langflestra þeirra sem farið hafa í háskólanám á Íslandi. Ég er ein þeirra. Eftir stúdentspróf vildi ég óð og uppvæg komast í myndlistarnám og fór í háskólann í leiðinni, bara ,,til að nota prófið". Hafði engar skyldur og því lítið mál að vera í tvöföldu námi. Sumir reka heimili, standa í brauðstriti og kaupa íbúðir og bíla meðan þeir eru í háskólanámi, ég lagði upp með það að þurfa engu að sinna nema náminu og djamminu.Og jafnvel þarf þarf að forgangsraða.
Það var mikil lukka að slysast svona hálfpartinn í háskólann. Þar gat ég sinnt námi sem ég elskaði - eins mikið og ég vildi, bókmenntum og sagnfræði, og hef unnið á þeim grunni ávallt síðan, með gott veganesti, þar til ég söðlaði um fyrir um áratug og sneri mér að tölvunarfræðinni og auðvitað í Háskóla Íslands. Fékk nýtt veganesti þar og enn breiðari grunn til að vinna á.
Þau fög sem ég valdi í HÍ voru kennd á frekar ,,akademískan" hátt sem oft er notað sem andstæða þess praktíska náms sem sumir aðrir skólar leggja áherslu á. Þetta segi ég ekki út í bláinn, vinnufélagar mínir sem hafa verið í háskólum sem hafa meiri tengsl við atvinnulífið en HÍ hefur (yfirleitt), hafa flogið inn í sérhæfð störf sem krefjast ákveðinnar þekkingar. Hin, sem koma úr HÍ, koma með annars konar styrk og þekkingu sem er bæði víðari, óáþreifanlegri og tímalausari. Ég held að flestum sé ljós þessi munur og hann er ekki neikvæður heldur jákvæður. Blanda af þessu er fín fyrir fyrirtækin og stofnanirnar.
Kennararnir við Háskóla Íslands hafa langflestir, þeir sem ég hef kynnst, verið framúrskarandi, og nokkrir eins konar mentorar sem skilja mikið eftir sig. Leiðbeinendur mínir í framhaldsnámi, Ebba Þóra Hvannberg í tölvunarfræði og Jón Guðnason í sagnfræði eru svo sannarlega í þeirra hópi.
Smá kynni af öðrum háskólum og þó aðallega háskólakennurum, sem fela m.a. í sér einn kúrs við enskan háskóla og nokkur erindi eða seminör sem ég hef flutt eða tekið þátt í, hafa verið skemmtileg viðbót við nám og kynni af Háskóla Íslands, fullvissað mig um að margt er þangað að sækja en háskólinn okkar stendur vel fyrir sínu í samanburðinum.
Og ef þið eruð að bíða eftir pólitíska punktinum í þessum pistli, þá er það eiginlega ekki hann sem skiptir máli. Auðvitað hvet ég til að skólinn fái að vaxa og dafna, hvað annað? En það er ekki þess vegna sem ég skrifa þetta. Það þarf ekki alltaf ástæðu til.
Enn og aftur um kattasmölun
6.7.2010 | 23:46
Það var fróðlegt að sýna mynd sem heitir Kattasmölun á Jónsmessuhátíð í Sjálandshverfi fyrir rétt rúmri viku. Viðbrögð fólks voru í rauninni áhugaverðust, myndin sjálf átti hluta athyglinnar en þeir sem lásu heiti myndarinnar: Draumur um kattasmölun, brugðust mjög sterkt við, yfirleitt með hlátri og fyrrverandi stjórnmálamenn hlógu ekki minnst, meira að segja vinkona mín sem lengst af var mjög handgengin Jóhönnu og hefur verið virk í Samfylkingunni frá upphafi. Einum virkum Samfylkingarmanni sem áður var í Framsókn stökk að vísu ekki bros, en hann var undantekningin. Þið sem skoðið myndina, veitið því athygli úr hverju kötturinn er gerður.
Næstskrýtnasti sautjándinn
17.6.2010 | 16:08
Sá skrýtnasti var auðvitað jarðskjálfta-sautjándinn. Náttúruöflin hafa minnt á sig svo um munar undanfarin ár og ég vona og óska að skilaboðin séu skýr, við erum bara partur af náttúrunni og ekki sá merkilegasti og ættum að virða hana.
Einmitt í dag þótti við hæfi að ESB samþykkti aðildarviðræður Íslands við ESB þrátt fyrir að drjúgur meirihluti þjóðarinnar sé andsnúinn aðild.
Í dag langar mig ekki að rölta niður í Kvenfélagsgarðinn hér á Álftanesi. Litlu að fagna ef þetta er seinasti sjálfstæði sautjándinn okkar. Það nöturlega er að ef til vill sýnir dómurinn frá í gær fram á að engin þörf er á því að svipta okkur sjálfstæðinu. Enn sem fyrr finnst mér að allt höfuðborgarsvæðið eigi að sameinast um öll stærri mál en hvert svæði haldi sjálfsstjórn og sérkennum sínum, jafnvel fái sjálfstjórn og geti hlúð að sérkennum sínum. ,,Synir Breiðholts" hafa látið á sér kræla, þegar ég bjó í Vesturbænum vorustofnuð þar ein fyrstu hverfasamtökin, Íbúasamtök Vesturbæjar, en reyndar man ég eftir Framfarafélagi Breiðholts líka.
AGS er farinn að sýna aukna hörku í viðskiptum við Ísland, ekkert elsku mamma hér, bjóðið upp heimili fólksins í hvelli eða hafið verra af!
Dómurinn í gær hefur þó vakið miklar vonir um úrlausn fyrir fjöldamörg heimili, fyrirtæki og sveitarfélög (Álftanes). Mér fannst það viturlega mælt sem ég heyrði í gær: Fyrst það er allt í lagi að láta fjölmörg heimili og fyrirtæki fara á hausinn, þá á ekkert að rjúka upp til handa og fóta og fara að grípa í taumana, loksins þegar (sumt) fólk eygir réttlæti. Og þetta sagði kona sem varaði sig sjálf á gjaldeyrislánunum og er að sligast undan verðtryggðu lánunum sínum.
Veðrið í dag er yndislegt, margir fagna, ég ætla að geyma mín fagnaðarlæti þar til síðar og treysti því að senn verði ástæða til enn dýpri og meiri gleði en einmitt í dag á þessum næstskrýtnasta sautjánda júní sem ég hef lifað. Stund þegar heimilin rísa upp undan klafanum, íbúar sveitarfélaga og landa ákveða sjálfir örlög sín og án þvingunar.
Sæl aftur Pollýanna!
15.6.2010 | 16:20
Best að gefa henni og Jóni Gnarr sjans.