Einkajarðskjálfti?
11.11.2010 | 00:48
Rétt uppúr miðnætti fundum við mæðginin, sem enn vorum vakandi, greinilega nokkuð þokkalegan jarðskjálfta. Tek það fram að Krýsuvíkurskjálftarnir finnast mjög vel hér á okkar svæði á Álftanesi alla vega, svo við vorum nokkuð viss um að hann væri úr þeirri áttinni. Smá hissa þegar við sáum að það var ekki öðru til að dreifa á þessum tíma en skjálfta uppá 2.8 (óyfirfarnar frumniðurstöður) í um 20 km fjarlægð. Hann virkaði nú aðeins stærri hér, hefði frekar giskað á 4. En þetta hefur greinilega verið okkar einkaskjálfti. Fer alla vega í safnið.
Þarf að stafa þetta ofan í ykkur ... ?
7.11.2010 | 16:05
Var að heyra fyrstu niðurstöður þjóðfundarins. Það kom mér ekki á óvart hversu mikil áhersla er lögð á fullveldi Íslands, verndun tungumálsins og yfirráð yfir þjóðareignum. Á sama tíma sýna kannanir, þrátt fyrir gríðarlegan og oft mjög ómálefnalegan áróður gegn ESB-andstæðingum, að meiri hluti þjóðarinnar vill ekki inn í ESB. Þarf að stafa þetta ofan í ykkur kæru kratar allra flokka?*
*(Undanskil að sjálfsögðu gæðakrata á borð við Stefán og fleiri góða menn sem vilja ekki sjá að Íslands gangi í ESB).
Á nesinu okkar
5.11.2010 | 14:39
Á Álftanesi er mannlíf meira í ætt við sveit en borg. Það hefur sína kosti og galla. Heiftin í héraðsmálum hefur því miður ekki farið framhjá mörgum, en þegar aldnir Álftnesingar falla frá má treysta því að saman safnist samferðafólk á öllum aldri í Bessastaðakirkju og fylgi þeim seinasta spölinn. Á þessum fallega vetrardegi er því einmitt svo háttað og ég tel mig heppna að búa í þessari litlu byggð, þar sem samkenndin er oftar meiri en sundrungin, þrátt fyrir allt.
Réttindaleysi (gervi)verktaka á vinnumarkaði og fyrsta þingmálið mitt
5.11.2010 | 02:22
Nöturlegar aðstæður í samfélaginu í dag hafa afhjúpað á nýjan leik mál sem ég fór að reyna að berjast fyrir þegar á árinu 1989. Það er nefnilega talsvert um að launafólk sé að vinna sem verktakar á vinnumarkaði og vakni svo upp við vondan draum nokkurn veginn réttindalaust. Þetta var rétt þegar ég samdi mitt fyrsta þingmál 1989 (eða kannski var það strax á árinu 1988) og er því miður enn rétt. Málið, sem er hér að neðan, fékk afgreiðslu á alþingi, nokkuð sem allt of fá þingmannamál fá, og var ,,vísað til ríkisstjórnarinnar" sem er talið ögn skárra en að fá þau afdrif að vera svæft í nefnd, en í þessu tilviki var lítið um efndir. Í ljósi frétta þessa dagana finnst mér þetta mál eiga fullt erindi enn á ný, rökin geta nánast staðið óbreytt nema að fólk er almennt ekki lengur í verktöku til að reyna að bera meira úr býtum (sem alltaf var umdeilanlegt). Vonandi eru verkalýðsforkólfar aðeins skilningsríkari nú en á þessum tíma í garð þessa rúmlega tvítuga máls.
Tillaga til þingsályktunar
um réttindi og skyldur á vinnumarkaði.
Flm.: Anna Ólafsdóttir Björnsson, Danfríður Skarphéðinsdóttir, Guðrún Agnarsdóttir,
Kristín Einarsdóttir, Málmfríður Sigurðardóttir, Þórhildur Þorleifsdóttir.
Alþingi ályktar að fela félagsmálaráðherra að gera sérstakt átak til að kynna fólki á vinnumarkaðinum réttindi þess og skyldur. Í því skyni skipi ráðherra sjö manna nefnd er kanni:
1. Hvernig best megi tryggja að allir er ráðast til starfa á almennum vinnumarkaði þekki réttindi sín og skyldur, þar með talin launakjör, lífeyrisréttindi, reglur um hvíldartíma, orlofsgreiðslur og uppsagnarákvæði. Nefndin kanni hvort lögbinding starfssamninga milli einstaklinga og atvinnurekenda sé æskileg leið til að tryggja að enginn sé ráðinn í vinnu án þess að þekkja réttindi sín og skyldur. Nefndin kanni enn fremur hvernig fræðsla um þessi mál yrði best felld inn í skólakerfið.
2. Hvernig best megi tryggja að einstaklingar, er fá laun sín greidd sem verktakar eða eftir uppmælingu, njóti eigi lakari kjara en launþegar í hliðstæðum störfum. Tekið sé tillit til heildarlauna, vinnutíma, álagseinkenna, lífeyrisréttinda og orlofs. Leitað verði upplýsinga um hve margir eru utan stéttarfélaga á vinnumarkaðinum.
Nefndin skili niðurstöðum eigi síðar en í júní 1990.
Kostnaður við störf nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.
Tillaga þessi var flutt á 110. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu þá og er því endurflutt nær samhljóða þar sem efni hennar er ekki síður tímabært nú en þá.
Íslenskt samfélag hefur tekið miklum breytingum á undanförnum áratugum. Mikill meiri hluti vinnufærs fólks stundar nú vinnu á almennum vinnumarkaði. Það ætti að vera réttur sérhvers manns í þessum stóra hópi að geta framfleytt sér af vinnu sem byggist á hóflegu vinnuframlagi.
Íslensk vinnulöggjöf er að stofni til frá fjórða áratug þessarar aldar og miðast um margt við aðstæður þess tíma. Algengast var þá að menn stunduðu almenna launavinnu og fengju greitt fast tímakaup eða fast mánaðarkaup. Þetta er að breytast. Sífellt fleiri eru ráðnir samkvæmt uppmælingu eða sem verktakar í störf sem áður voru unnin á föstu tíma- eða mánaðarkaupi. Fjöldi fólks telur sig bera meira úr býtum á þennan hátt útborguð laun eru meiri. En er það svo? Um það er ekki vitað. Fleiri krónur í budduna þurfa ekki að merkja betri kjör. Margir sem vinna samkvæmt uppmælingu eða sem verktakar njóta hvorki orlofs, né eru venjuleg launatengd gjöld greidd af kaupi þeirra. Atvinnuöryggi þeirra er lítið því þeir eiga hvorki rétt á að fá veikindadaga greidda né uppsagnarfrest. Vinnuveitendur þessa fólks greiða ekki að sínum hluta í lífeyrissjóð og brögð munu vera að því að ákvæðisvinnufólk og einstaklingar sem vinna sem verktakar greiði ekki í lífeyrissjóð, þótt í 2. gr. laga nr. 55/1980 standi skýrum stöfum: Öllum launamönnum og þeim, sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, er rétt og skylt að eiga aðild að lífeyrissjóði viðkomandi starfsstéttar eða starfshóps, enda starfi lífeyrissjóðurinn skv. sérstökum lögum eða reglugerð, sem staðfest hefur verið af fjármálaráðuneytinu.
Vinnutíma og einkenni álags innan þessa hóps þarf að kanna sérstaklega. Nefnd sú, sem hér er lagt til að verði skipuð, þyrfti að láta gera samanburðarkönnun á ákvæðisvinnu, tímavinnu og störfum einstaklinga sem fá greitt sem verktakar. Könnunin þarf að taka til meðalvinnutíma, vinnutekna og álags starfanna. Kannanir hafa verið gerðar er mæla einkenni álags í einstökum störfum. Má í því sambandi benda á ýmsar kannanir Vinnueftirlits ríkisins, könnun er gerð var að frumkvæði ASÍ, Landssambands iðnverkafólks og VMSÍ árið 1982, Fiskvinnsla: Heilsufar, vinnutilhögun, aðbúnaður og félagslegar aðstæður iðnverkafólks, er gefin var út árið 1984, skýrslu sömu aðila er gerð var sama ár, Fata- og vefjaiðnaður. Heilsufar, vinnutilhögun, aðbúnaður og félagslegar aðstæður iðnverkafólks, sem út kom í febrúar árið 1985 og hóprannsókn um einkenni frá hreyfi- og stoðkerfi Íslendinga á aldrinum 1665 ára, er Vinnueftirlit ríkisins gerði að mestu samkvæmt spurningalista samstarfshóps á vegum norrænu embættismannanefndarinnar um vinnuverndarmálefni (birt 1988).
Víðtækar breytingar hafa orðið á vinnumarkaðinum og ástæða til að ætla að þessar breytingar kunni að verða enn meiri. Með upplýsingabyltingu og tölvuvæðingu er áætlað að vinna geti færst meira inn á heimilin á nýjan leik, þar sem hver situr við sinn skjá og vinnur að tilteknum verkefnum. Ekki er ljóst hvernig slík vinna yrði metin og því fyllilega tímabært að hafa þessa framtíðarsýn einnig í huga. Einnig hafa ýmsar hugmyndir um breytt fyrirkomulag á stéttarfélögum verið til umræðu. Þar má einkum nefna stofnun vinnustaðafélaga.
Til að mæta þessum breyttu aðstæðum og vera búin undir frekari breytingar er nauðsynlegt að fylgjast vel með þróuninni og bregðast við henni á raunhæfan hátt. Í fyrsta lagi með því að gera sér grein fyrir hvað breytingar á vinnumarkaðinum hafa í för með sér fyrir starfsfólk í ýmsum starfsgreinum. Í öðru lagi með því að stórefla vitund og þekkingu fólks á vinnumarkaðinum á réttindum sínum og skyldum. Það ættu að vera lágmarksréttindi allra að fá einhverja fræðslu um vinnumarkaðinn á meðan á skyldunámi stendur. Líklegt er að þessi fræðsla ætti heima í efstu bekkjum grunnskólans og henni þyrfti síðan að fylgja eftir í framhaldsskólum.
Einnig ættu það að vera sjálfsögð mannréttindi að enginn gæti ráðist í vinnu án þess að þekkja réttindi sín og skyldur frá fyrsta degi. Þetta mætti gera með því að binda í lög að engan mætti ráða í vinnu eða í einstök verkefni án þess að við hann væri gerður bindandi starfssamningur. Mikilvægt er að vinna að þessum málum í góðri samvinnu við stærstu launþegasamtök landsins. Starfssamingur mundi ekki aðeins vera til hagsbóta fyrir þá er vinna samkvæmt uppmælingu eða sem verktakar heldur einnig fyrir almenna launþega. Ef allir, sem selja vinnu sína á vinnumarkaðinum, fengju frá upphafi yfirlit yfir laun sín, réttindi og skyldur yrði auðveldara fyrir hvern og einn að fá yfirsýn yfir kjör sín. Miðlun upplýsinga um kaup og kjör á vinnumarkaði yrði markvissari ef slíkir samningar væru fyrir hendi.
Á þessu máli er fyllilega tímabært að taka en án upplýsinga er erfitt að gera sér grein fyrir sífellt flóknari vinnumarkaði.
Haustið sem ekki kom ...
5.11.2010 | 01:04
Eins og það var gaman að halda hásumrinu fram í miðjan október, þá er ég hálfpartinn óhress með að fá veturinn beint í andlitið. Ekki svo að skilja að það hafi ekki verið fallegt að sjá snjóinn á trjágreinunum í Fossvogskirkjugarði í dag, það var fallegt. En snjó og frosti fylgir stundum hálka og mér er meinilla við hana. Sömuleiðis er ég orðin eldheitur aðdáandi langra daga og þurra eftir að ég féll fyrir golfinu, þannig að skammdegið er ekki nærri eins spennandi eins og á árunum um tvítugt þegar það var miklu lógískara að koma af balli út í náttmyrkrið heldur en koma úr reykmettuðum og skuggsýnum sölum sveitaballanna á sumrin og út í sólskin og blíðu (uppúr klukkan tvö að nóttu, því þá voru böllin ekki lengri). Vissulega verður gaman að sjá jólaskreytingarnar sem fyrr en varir verða komnar upp, en samt, hvar eru haustlaufin, mildu haustdagarnir, aðlögunin?
Það hefði verið svo upplagt að hafa haust fram í miðjan desember, en snögg ferð á Snæfellsnesið í 10 stiga hita og haustlitum í upphafi október reddaði haustlitunum þetta árið, vegna anna var sumarbústaðurinn vanræktur eftir að haustlitirnir fóru í alvöru að njóta sín. En það kemur haust í stað þessa týnda hausts og ég ætla mér ekki að missa af því.
Hlakka til að kjósa til Stjórnalagaþings - en hvað svo?
30.10.2010 | 16:57
Verð að viðurkenna að ég hlakka alveg sérlega mikið til að kjósa til Stjórnlagaþings. Búin að finna býsna margt fólk sem ég vil ólm kjósa og vissulega einnig örfáa sem ég vona heitt og innilega að nái ekki kjöri. En þetta er lýðræði og við erum ekki komin lengra en á það stig og nýtum það því vonandi vel. Síðan mun þetta fólk koma saman í alla vega tvo mánuði og ég er mjög spennt að heyra niðurstöðuna og ekki síður að sjá hvernig farið verður með þessa niðurstöðu. Hef setið í einni af fjölmörgum stjórnarskrárnefndum lýðveldisins og það gekk hvorki né rak þar. Ekki þar með sagt að allt sé ómögulegt í núverandi stjórnarskrá, en ég á mér þá ósk heitasta að það verði til stórkostleg stjórnarskrá fyrir sjálfstætt og framsækið (og þá á ég ekki við í sömu merkingu og útrásarpakkið notaði það orð) Ísland, þar sem mannréttindi, mannsæmandi lífskjör og sjálfsákvörðunarréttur fólks verður tryggður. Nú, eins og ávallt, er veður til að skapa.
Ef minn óskalisti nær kjöri kvíði ég engu og ég er viss um að margir fleiri hæfir fulltrúar, sem aðrir þekkja deili á og skoðunum þeirra, eru í framboði. Tvennt veldur áhyggjum, það er frítt að hafa áhyggjur segir góður maður sem ég þekki og rétt meðan það verður ekki sálfræðinga- eða lyfjadæmi. Ég hef áhyggjur af því að leyft er að auglýsa fyrir allt að 2 milljónir, því fólkið sem ég þekki réttsýnast hefur flest hvert ekki slíka peninga á milli handanna. Ég hef líka áhyggjur af því að þetta endi sem sýndarspil, ekki vegna þess að ég treysti ekki VG heldur koma fleiri flokkar að afgreiðslu þessara mála og þeim er mis-umhugað um réttsýnar breytingar. Varðandi fyrra atriðið þekki ég reyndar fullt af fólki sem ætlar EKKI að kjósa neinn þann fulltrúa sem eyðir peningum í auglýsingar, prinsippatriði. Íhugunarvert!
Stjórnlagaþing, pólitík, Sprengisandur, Smugan og Svipan
18.10.2010 | 17:03
Þjóðmálaumræðan er of spennandi til að hægt sé að slíta sig frá henni. Oft hef ég verið komin á fremsta hlunn með að skrifa status á Facebook, nafn á bloggi eða færsluna: Hætt í pólitík og farin að spila golf! En það er hægt að gera hvort tveggja og auk þess er golfkunnáttan rýr. Hins vegar þarf oft að forgangsraða ansi hressilega til þess að geta sinnt öllu, vinnunni (9:30-17:30), heilsunni (golfinu og skvassinu) og fjölskyldunni sinni (sem ekki er hægt að afgreiðan innan sviga).
Ef ofan á þetta bætist pólitískur áhugi, sem útilokað er annað en sækja sér stuttar og hnitmiðaðar upplýsingar og velja þær vel. Eins og ég er nú hrifin af RUV þá er engu að síður þáttur á annarri stöð sem ber af því sem þar er að finna, það er Sprengisandur á sunnudagsmorgnum. Þegar líður á sunnudagsmorgun og ég farin að rumska fálma ég eftir tökkum á útvarpi og renni yfir á þann þátt. Vissulega verð ég stundum öskureið þegar ég heyri fólk vera með gáfulegt bull, því það heyrist þar sem annars staðar, en Sigurjóni er það lagið að fá til sín einkar spennandi fólk í umræðuna.
Smugan er vefmiðill sem ég nýti mér oft og finnst sérlega gott að lesa suma af föstu pennunum þar, ritstýruna Þóru Kristínu, Einar Ólafs, þann góða mann og Ármann Jakobsson, sem virðist sjá fleti á málum sem öðrum tekst ekki og er ég þá eflaust að gleyma einhverju uppáhaldinu mínu.
Þá er það Svipan. Eftir að hafa leitað að almennilegri umfjöllun um þá sem bjóða sig fram til stjórnlagaþings sá ég að Svipufólk er að gera fantagóða hluti í umfjöllun sinni um þingið og frambjóðendurna, betra en aðrir sem ég hef fundið. Í kommentakerfinu er þegar búið að afhjúpa tengsl sem ekki voru gefin upp. Yljaði gamla anarkistahjartanu mínu því ég hef trú á ,,fólkinu" og opinni umræðu. Margt gott á þessum vefmiðli.
Taka höndum saman strax
15.10.2010 | 16:50
Áherslurnar í stjórnmálum eru um stundarsakir að breytast og raunveruleg viðfangsefni mögulega að hafa forgang, ekki allt of tímafrekt kjaftæði um það sem bara veldur ágreiningi, svo sem ESB og valdabaráttu einstaklinga. Ég er auðvitað skíthrædd um að annað en umhyggja fyrir heimilum ráði för einhverra, svo sem þörf og vilji til að koma höggi á ríkisstjórnina. Núna er hreinlega ekki hægt að sóa tíma í neina vitleysu, allir þurfa að taka höndum saman ef ekki á að verða uppreisn réttlátrar reiði þeirra sem hafa farið illa út úr kreppunni. Vonandi eru teikn á lofti um að alvöru umræða sé í gangi meðal allra sem koma þurfa að um raunverulegar aðgerðir sem gagnast sem allra flestum.
Mótmælt af mörgum ástæðum
4.10.2010 | 16:58
Í upphafi mótmælanna haustið 2008 fann ég fyrir því hvað það var margt og margvíslegt sem fólk var á mótmæla. http://www.annabjo.blog.is/blog/annabjo/entry/712917/
Sama er upp á teningnum núna, samt held ég að tvennt sem aðallega veldur mótmælunum nú. Annars vegar hin hræðilega staða sem mörg heimili eru í og krafa um miklu meiri úrbætur en gerðar hafa verið, hins vegar að spillingaröflin séu enn á fullu í öllum kimum samfélagsins. Réttlætiskenndinni er misboðið.
Gamla 11 kg ferðatölvan mín ...
21.9.2010 | 00:21
Fyrir nokkrum árum neyddist ég til að henda gömlu 11 kg ferðatölvunni minni sem hafði svosem verið fyrir og til einskis gagns í fjöldamörg ár, en mér þótti hálft í hvoru vænt um hana. Gömlu batteríshlunkarnir sem höfðu dagað uppi innanborðs voru farnir að leka baneitruðum (vænti ég) sýrum og út skyldi kvikindið. Hafði hálfgerðan móral, mér þótti vænt um hana þó hún væri þung, kraftlaus og löngu úrelt, meira að segja þegar ég fékk hana.
Það var sumarið 1989. Ég hafði skoðað fyrr um vorið unaðslegar Toshiba fartölvur, sem líktust talsvert mikið núverandi fartölvum. Þær voru í hæsta lagi 3 kg á þyngd og kostuðu um 300 þúsund kall í Singapore, þar sem ég þurfti að fara bæinn á enda til að finna tölvuverslun. Ekki beint sú verðlagning sem ég réð við. Um sumarið fann ég sárabótina, Amstrad PPC512, í vesturenda Oxford Street í London. Hún kostaði um 33 þúsund kall og það var meira að segja talsvert meira en ég taldi mig hafa efni á, en huggaði mig við að ég fengi virðisaukann endurgreiddan við brottför frá Bretlandi. Ávísunin sem mér var heitið á flugvellinum er enn ókomin en vélina átti ég í hálfan annan áratug.
Nostalgía, tölvunördaháttur og sagnfræði fengu mig til að fletta þessu bákni upp, og ég fann þá út að tölvan hefði ,,bara" vegið 11 komma eitthvað pund, eða sex kíló. En NB það var áður en maður hlóð hana með 10 risabatteríum og án hlunksins sem var straumbreytir og fylgdi með, en batteríin entust í klukkustund og þurftu að vera í þótt tölvan væri í sambandi. Þannig að ætli þetta hafi ekki slagað upp í 11 kílóin þegar til kom.
Og ef einhver heldur að ég hafi verið að gera meiri háttar mistök með því að henda henni, þá er það hvorki fjárhagslegur né tilfinningalegur skaði, ein slík fór á 12 pund (GBP) á eBay í sumar og tilfinningarnar við að drösla henni á milli staða voru blendnar, enda var þetta ekki einu sinni kallað ,,portable" fyrirbæri heldur ,,luggable". En gaman var að rifja upp kynnin og skoða myndir og staðreyndir.
Ég hef bæði séð talað af virðingu um þessa tölvu og svolítið niðrandi. Í lokin smá staðreyndir af netinu - tek fram að ég átti eldri og kraftlausari gerðina (512):
Amstrad PPC512,
PPC 640
type computercountry England
year 1988
os Dos 3.3, Gem
cpu Nec V30
speed 8 MHz
ram 512 KB /
640 KB
rom 16 KB
graphic 640x200
colors mono green
sound beeper
disk 3,5" floppy (720 KB)
ports Centronigs, RS323,
CGA, two expansion ports,
modemcomment Amstrad PPC 512
and PPC 640 are quite
heavy (6kg) portable
computers with poor LCD
screen and buit-in modem.
It's also works with 10
batteries, but only one
hour :).
AMSTRAD PPC512: I don't know if it is callable "notebook", it was far from a notebook... It has a cool design, but not very usable because it has not a harddisk and he need 10 size A battery (obviously not rechargeable) :)
(Og PS ... ég veit það er fleira að gerast í landinu).
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 00:25 | Slóð | Facebook