Frá þessum kvenna-konum
12.6.2010 | 01:26
,,Þið þessar kvenna-konur!" var það eina sem viðmælenda mínum datt í hug að segja við mig fyrir einum 25 árum þegar ég var í heilagri reiði að kanna orðróm um að ekki ætti að gefa frí smá dagspart í tilefni af mikilli kvennasmiðju sem haldin var á tíu ára afmæli kvennafrídagsins.
Þetta orð, sem átti ábyggilega að vera skammaryrði, fannst mér alltaf svo indælt og hef reynt mitt besta til að koma því í umferð. Ýmislegt hefur breyst en kveikjan að þessum vangaveltum nú er annars vegar væntanleg heimsókn danskrar konu sem telur að íslenskar konur séu þær frábærustu í heimi og hafi náð ótrúlegum árangri og hins vegar alls konar hugsanir sem hafa verið að flögra að mér frá því ég sat ráðstefnu tengslanets kvenna á Bifröst um daginn, gríðarlega góða ráðstefnu. Ég er auðvitað að hugsa, erum við búnar að ná svona miklum árangri eða ekki? Þekkt er virkni kvenna fyrir rússnesku byltinguna og í henni og hvernig þeim var svo ýtt til hliðar, eftir bankahrunið átti að gera allt öðru vísi en áður og kalla konur til, er það að ganga eftir á þann hátt sem við vildum? Þegar ég hlusta á Sigríði Benediktsdóttur og Evy Joly efast ég auðvitað ekki, en samt, ekki sofna á verðinum.
Og margt er enn tabú. Mér fannst að mörgu leyti fróðlegt að heyra í Sóleyju Tómasdóttur velta fyrir sér hvort við séum enn á flótta undan óþægilegustu umræðunni í kvenfrelsismálum og mannréttindum, umræðunni um vændiskaup, súlustað, mansal, nauðganir og allt það sem enn virðist umdeilt þótt það ætti ekki að vera umdeilanlegt. Hvort það er sú umræða sem pirrar fólk og skýrir ef til vill minna fylgi VG í Reykjavík en margir væntu? Ég er reyndar ein þeirra sem tel bæði Sóleyju og Þorleif frábæra VG-félaga og harðneita að vera dregin í VG-dilka (nema hvað ég er mjög stolt yfir því að tilheyra ósmalanlegum köttum), en ég varð mjög hugsi þegar Sóley varpaði þessu fram. Hugs, hugs, eins og hún Gurrí vinkona mín segir. Það er bara hollt að fara í hlutverk þessara kvenna-kvenna.
Afmæli á ,,ösku"degi og ,,hinir" sem áttu afmæli 4. júní
5.6.2010 | 01:09
Það er alltaf jafn gaman að eiga afmæli en ég held samt að ytri umgerð þessa nýliðna afmælisdags míns hafi verið ein hin undarlegasta. Við á höfuðborgarsvæðinu höfum lítið þurft að finna fyrir öskufallinu til þessa, þótt ferðaáætlanir sumra okkar hafi raskast nokkuð, þá er það vegna ösku sem stödd hefur verið uppi í lofti en ekki verið að falla niður á bílana okkar. Hugurinn hefur vissulega leitað af og til austur í fallegu Fljótshlíðina mína, þar sem ég var í sveit í sex sumur, og vissulega væri það forvitnilegt að starfa við grasræktartilraunir á tilraunastöðinni á Sámsstöðum við þessar aðstæður eins og ég gerði þessi sumur, en aðeins forvitnilegt, ekki skemmtilegt og sannarlega önugt fyrir konu með linsur í augunum, eins og ég er með.
Í dag fengum við hænufetsskammt af því sem fólkið fyrir austan má búa við og það var stórundarlegt að upplifa öskudag í sumarbyrjun. Kannski verður þetta sumar svolítið undarlegt. Tékkaði auðvitað á vefmyndavélinni í Borgarnesi (á menntaskólanum) og sá að þangað fór askan líka, litlu síðar en sú sem kom til okkar.
Hvernig ætli okkur hér, sem fáum smáskammtana, væri innanbrjósts ef við ættum lífsafkomuna undir búskap og byggjum við margfaldan þennan skammt?
Um áramót, á afmælisdögum og öðrum tímamótum er alltaf gaman að velta fyrir sér lífinu og tilverunni og þó ég hafi það ekki að lífsstarfi eins og tveir af þeim sem deila með mér afmælisdegi, Gunnar Dal og Páll Skúlason heimspekingar. Við sem eigum afmæli á þessum degi, 4. júní, erum reyndar úr öllum áttum, auk heimspekinganna tveggja deili ég afmælisdegi með jafn ólíku fólki og geggjaranum Russel Brand, Angelinu Jolie og Gyðu Guðmundsdóttur sem var önnur af stofnendum McDonalds á Íslandi.
Vertu sæl Pollýanna!
28.5.2010 | 19:50
Ég er alin upp við Pollýönnu-lestur og upplestur. Hélt að það væri hægt að leysa allt með því að vera nógu rosalega jákvæð. Jamm og já. Sé á bókalistanum hér til hliðar að ég hef verið farin að velta henni fyrir mér út frá hruninu fyrr en ég hélt. Leyfi því að standa sem ég hef þegar skrifað. En í morgun, þegar ég var að hlusta á erindi Barböru Ehrenreich á geysilega fróðlegri ráðstefnu á Bifröst, þá sagði ég í huganum, í gamni og alvöru: Vertu sæl Pollýanna.
Öll erindin í dag hafa verið einstaklega fróðleg, en ég staldra við Barböru til að byrja með. Erindi hennar leiddi til hugsana um þennan ,,þetta reddast"-hugsunarhátt okkar Íslendinga, auk þess sem hún fór á kostum þegar hún sagði frá hinni pínlegu gleðikúgun sem jafnt krabbameinssjúklingar sem efasemdarfólk um aðferðir útrásarvíkinganna (fyrir hrun) eru beittir. Veslings danskur bankamaður sem varaði við hruninu og fleiri álíka voru úthrópaðir og ráðlagt að fara í endurmenntun og krabbameinssjúklingum er sagt að vera bara nógu rosalega jákvæðir og þá muni þeir sigrast á sjúkdómnum. Sem sagt ef þú deyrð samt, þá varstu bara of neikvæð! Barbara talar af reynslu, hún lifði af krabbamein fyrir um það bil tíu árum, en ekki vegna þess að hún væri svo jákvæð eða elskaði krabbameinið, eins og sumir reyndu að segja henni að gera. Held að hana langi í ,,helvítis fokking fokk"-bol, hún er nefnilega nógu hugrökk til að taka málstað þeirra sem kvarta hástöfum þegar ástæða er til.
Er það von að maður fari að efast um Pollýönnu?
Merkilegt að hlusta í kjölfarið á Sigríði Benediktsdóttur brillera í erindi sínu um bankahrunið þar sem hún hafði loksins enn betri tíma til að flytja mál sitt, en hún hafði þegar hún sló í gegn við kynningu bankahrunsskýrslunnar. Tek undir með þeim sem sögðu að nú viljum við fá Sigríði heim! Hún og Eva Joly virðast vera þær sem litið er til við endurreisnina.
Brynja Guðmundsdóttir, frumkvöðull og töffari, vakti líka sérstakan áhuga minn, en hún rakti stofnun fyrirtækis síns sem er að gera það einstaklega gott. Mikið er ég ánægð með að hún skuli vera Álftnesingur og farin að láta til sín taka á nesinu með stofnun Hagsmunasamtaka íbúa Álftaness, sem eru reyndar ein af fáum samtökum á Álftanesi sem ekki bjóða fram við þessar kosningar, enda var það yfirlýst stefna samtakanna frá upphafi að vinna þvert á allar flokkslínur.
Og þannig leið dagurinn á Bifröst í blíðunni og með hvert dúndur-erindið á fætur öðru. Herdís Þorgeirsdóttir, sem stóð fyrir þessari ráðstefnu í fimmta sinn nú í ár, á sannarlega heiður skilinn. Ég á erfitt með að slíta mig frá dýrðinni hér í Borgarfirði, mikill lúxus að vera hér uppi í bústað enn einu sinni, hér er ekki hægt annað en láta sér líða vel, en Álftanesið bíður með alla sína blíðu og kosningar á morgun, svo kannski er rétt að fara að renna aftur í bæinn og kannski þarf ég að lesa Pollýönnu aftur við tækifæri. Ef eitthvað kemur út úr því mun ég án efa leyfa blogglesendum að fylgjast með. Lofa samt engu.
Vor
4.5.2010 | 00:49
Það fer ekkert á milli mála að vorið er komið og ég leyfi mér hér með að óska okkur öllum góðs sumars, einu sem fá ærlega vætuspá í maí alla vega, eru Rangæingar og Skaftfellingar svo þeir losni við öskuna úr túnunum sem fyrst.
Við þurfum líka á vori að halda í samfélaginu. Alvöru vori þar sem hlúð er að því sem máli skiptir.
Michael Moore og Internationalinn
1.5.2010 | 01:11
Loksins um daginn sá ég myndina Capitalism: A Love Story, eftir Michael Moore. Ég er ein af þeim sem er bara einfaldlega hrifin af því sem sá náungi er að gera hér og þar. Hvet fólk til þess að sjá þessa mynd ef það á kost á því. En þessi mynd vakti athygli mína á mjöööööög óhefðbundinni útgáfu á Internasjónalnum, læt ykkur um að dæma um hvort þetta er að virka:
Þol fyrir stórtíðindum?
21.4.2010 | 01:38
Merkilegt hvað það skiptir mismiklu máli að byggja upp þol fyrir stórtíðindum. Stundum getur þol verið nauðsynlegt, eins og þegar flugumferð liggur niðri dögum saman og einhver í fjölskyldunni þarf nauðsynlega að komast leiðar sinnar um loftin blá. Jafnvel þegar slíkt gildir um þann sem er að byggja upp jafnaðargeðið sjálfur.
Í öðrum tilfellum getur beinlínis verið skaðlegt að byggja upp þol fyrir stórtíðindum og það tel ég að eigi við þegar litið er á skýrsluna góðu og efni hennar. Skýrsluna sem leikararnir í Borgarleikhúsinu lásu svo ógleymanlega og þó ótrúlega hlutlaust. En þó fyrst og fremst skýrsluna sem var unnin af einlægni og heiðarleika, jafnvel ákveðnum eldmóði í þágu réttlætisins. Það má vel vera að í henni finnst villa, en allt hitt, sem kórrétt er, er svo miklu, miklu mikilvægara. Hef hlustað, fylgst með, lesið sumt sjálf og á endanum verður þetta allt of þunga (í kílóum talið) verk mögulega jafn mikið lesið og Litli prinsinn og ljóðabækurnar mínar góðu. Ég er ekki að grínast, mér finnst fróðlegt að fá að vita hvernig þetta gat og getur gerst, í smáatriðum. Þess vegna endaði ég með að kaupa eintak af skýrslunni góðu, þótt netútgáfan hafi margar kosti, m.a. möguleika á orðaleit innan hvers kafla fyrir sig (þægilegast) þá er bara svo ljómandi gott að grípa í þetta verk stund og stund.
Svo vonandi nýtist þol-kvótinn á réttum stöðum.
Hressandi bilun í mæli! 36 gráðu frost í Skálafelli - nei ég held ekki!
19.4.2010 | 01:13
Eins og margir aðrir Íslendingar er ég veðurspárfíkill og skoða bæði veðurspár, veðurathuganir og skjálftavirkni reglubundið. Sjaldan villur að sjá á þeim ágæta vef Veðurstofunnar en ég er ekki frá því að ég hafi fundið eina núna áðan. Það er oft kalt á Skálafelli, en 36 gráðu frost í nótt, nei ég vona ekki!
Virðing fyrir náttúruöflunum og smá húmor líka
16.4.2010 | 00:00
Ef við eigum að lifa með blessuðum náttúruöflunum þá er eins gott að bera tilhlýðilega virðingu fyrir þeim. En brandararnir (misgóðir) sem hafa flogið í dag eru sumir virkilega góðir.
Rakst á þetta á Guardian-blogginu:
rollmop
how much is the Icelandic government contributing to the carbon offset?
how much is the Icelandic government contributing to the carbon offset
The 'carbon' part.
Snilldarþættir Hauks Arnþórssonar um netfrelsi og -öryggi
15.4.2010 | 13:48
Kominn tími á nýja könnun
14.4.2010 | 23:03