Endingargott sumar - á ýmsa vegu

Um allmargra ára skeið hef ég farið í sumarfrí á veturna frekar en á sumrin, en samt tekið einhverja frídaga eða frítíma á sumrin. Þetta sumar og hið síðasta hafa verið einstaklega veðurblíð og sennilega næstu sumur á undan líka. Meðan ég var að vinna í lausamennsku, aðallega við skriftir, gat ég setið á pallinum fyrir utan sumarbústaðinn og skrifað. Núna, þegar ég ákvað að fara aftur að vinna sem tölvunarfræðingur, er ég að vísu mjög ánægð með svalirnar á hæðinni okkar, þangað út tek ég tölvuna stundum ef ég er að vinna í verkefnum sem ekki útheimta tvo skjái. Það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að leggja á sig til að elta sólina. Þess í stað hef ég notið útivistar með því að skipta sumarleyfisdögum í smáhluta og elt góðar sólarstundir þegar tími hefur unnist til, án þess að skerða sumarfríið sem ég ætla að taka í vetur neitt voðalega. Ekki spillir að oft hafa helgarnar verið góðar. Hlýindin framundan, þótt þeim fylgi einhver væta, eru til þess fallin að gera sumarið endingarbetra en ella væri. Það sem þó hefur mest áhrif á lengd sumarsins er að vera fallin fyrir íþrótt sem dregur mann út á golfvöll í tíma og ótíma, ótrúlegt hvað það gerir sumarið mikið lengra að njóta þess úti við. Sem sagt, nokkuð endingargott sumar, hingað til alla vega ...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband