Allt finnst þetta um síðir - sumt í skrýtnum búningum

Í seinasta bloggi frá í sumar var ég að kvarta undan því að hafa ekki fundið ,,réttu" útgáfuna mína af Ungverskri rapsódíu nr. 2 eftir Liszt, með hljómsveitarútgáfu undir stjórn Stanley Black. Þessi útgáfa er ögn myrkari en flestar aðrar sem ég hef heyrt en mér finnst hún svo góð, og gamla vinyl-platan mín er orðin skaðlega rispuð. Af og til hef ég tékkað á hvort þessi útgáfa væri komin inn einhvers staðar og já, loksins. Myndefnið sem fylgir er að vísu óskaplega furðulegt, en þessi útgáfa hefur einhvern sjarma sem ég ekki ætla að reyna að skilgreina frekar. Þannig að hlustið, en ekki endilega að horfa.

https://www.youtube.com/watch?v=qf9qSHx3aRM


Að eltast við lög ...

Engar lagaflækjur hér, bara fækjustigið sem eitt sinn fylgdi því að eltast við uppáhaldslögin. Tónlistarfíklar eins og ég hafa oft þurft að hafa fyrir því að finna réttu plöturnar, listamennina, lögin. Seinasti peningurinn farið í plötu í staðinn fyrir strætófar, vinylplötur lifað af ýmsa flutninga og óendanlegur tími farið í að ,,taka upp" á gamla skrapatólið, mónósegulbandið mitt. Það voru ekki allir tilbúnir að lána dýrmætar plötur út af heimilunum, og ef fjallið kemur ekki til Múhameðs kemur Múhameð til fjallsins með meðalstóra segulbandstækið sitt, á strætó náttúrulega. Og sumt fannst ekki fyrr en eftir furðulegar tilraunir, HMV og Virgin á Oxford Street höfðu á að skipa merkilega glöggum giskurum. Hvernig er til dæmis að finna barnapíulagið hennar Bjarkar (Short Term Affair, með Tony Ferrino, mæli með stúdíóútgáfunni) og vita ekkert nema smálegt úr textanum. Hvernig á manni að detta í hug að þetta lag leynist á plötu með enskum söngskemmtikrafti sem er ekki beint á vinsældarlistunum þegar hér er komið sögu?

lotte

En nú er allt sem orðið nýtt, ærnar, kýr og smalinn, og Lotte Lenya, sem syngur lög mannsins síns, Kurt Weil, við ljóð Berthold Brecht, best af öllum. Á unglingsárum gróf ég upp plötur með henni á ameríska bókasafninu (of all places), seinna eignaðist ég safnið á vinylplötum, einhvers staðar á ég slíkan spilara en þarf að redda mér magnara, eða ekki. Þetta er allt að finna á YouTube. Og í kvöld hef ég bara notið þess að grafa upp allt sem mig langar að heyra og meira til. Meira að segja Napoleon XIV er kominn mestallur á YouTube, svo nú er hægt að hlusta á Photogenic Schitzophrenic you. 

Vel að merkja, ég á eftir að finna ,,réttu" útgáfuna af ungverskri rapsódíu nr. 2 eftir Lizst, held það sé Stanley Black sem stjórnar.

 


Útúrdúrar og ferðirnar sem voru misvel farnar (auk hamlandi hagsýni)

Vinkona mín elskar París. Engu að síður endaði hún með því að búa í tíu ár í London, sem er aftur á móti uppáhaldsborgin mín til langs tíma. 

Frá ung-táningsárum var ég alltaf á leiðinni til London, að skoða Carnaby Street, Chelsea og Bítlana. Það var áður en ég snerist til Stones-trúar. Viskuna mína fékk ég mest úr gömlum Vikum þar sem blaðamennirnir vissu nákvæmlega hvað heillaði þrettán ára unglinga á þeim tímum, þessa sem mættu á Kinks og Herman‘s Hermits í Austurbæjarbíói.

Screen Shot 2015-07-14 at 17.58.13

En leiðin til London var ekki greiðfær á þessum tímum. Fermingarferðin mín lá til Skotlands og þar fékk ég öll flottu bítlafötin mín, sem ég hafði engan veginn efni á að kaupa mér þegar ég bjó fjórum árum síðar í London og annars staðar í Englandi um hálfs árs skeið. Sumarkaupið þegar ég var fimmtán ára átti að fara í Lundúnaferð, en af því ég var ung og blönk, en furðu hagsýn, þá fann ég út að ferð með Gullfossi til Edinborgar og Kaupmannahafnar, með sex daga stoppi þar, var miklu hagstæðari. Þar átti ég ótrúlega skemmtilegan tíma með Sirrý úr Keflavík, sem var dóttir eins úr áhöfninni. Við stunduðum La Carusel og dönsuðum fram á morgun við speisaða tónlist Summer of Love. Á daginn fórum við í Tívolí, enda bara 15 ára.

 

tivoli

Ég var alltaf á leiðinni til London. Sumarið sem ég var sextán var ég í fjóra mánuði í Osló og vann í Studentbyen. Það var vegna þess að Guðný vinkona mín bjó þar. Yndislegt sumar, ég næstum flutti inn á listasafn borgarinnar og kynnist Rondo, sem var mikill og góður skemmtistaður á merkilegum söguslóðum borgarinnar. Og þar dansaði ég við þyngra rokk fram á rauðan morgun, enda orðin sextán. En ég var auðvitað á leiðinni til London. 

Svo þegar ég var átján ára komst ég loks til London. Fyrstu kynnin af borginni voru meðan ég bjó og vann enn á ströndinni, í Bognor Regis, en fór með Matta vini mínum á Pink Floyd tónleika í Hyde Park. Alls var ég í hálft ár í Englandi í þetta skiptið og stundaði ýmis störf í London, aldrei átti ég erindi eða fjárráð fyrir Carnaby Street eða Chelsea en kynntist Kilburn og Bloomsbury þess í stað, Keypti mér kjól á Portobello Road daginn áður en ég fór heim, flottan, síðan, brúnan hippakjól sem ég notaði í mörg ár og hef ekki enn tímt að henda. 

pink

Það var ekki fyrr en á fertugsaldri að ég kom í fyrsta sinn til London án þess að vera skítblönk, en svosem ekkert rík heldur. Fór þá í fyrsta sinn í Harrods, en hafði löngu, löngu áður meðal annars haft þann starfa að velta fokdýrum marsípanávöxtum upp úr duftlit og sykri og stinga laufblöðum í þá, áður en þeir voru seldir á uppsprengdu verði í Harrods. Enn hagsýn, fór út með halva-box úr matvörudeildinni, annað ekki.  Og vinkonan sem er enn á leið til Parísar var dugleg að skjóta yfir mig skjólshúsi. 

Þegar ég ákvað fyrir fimmtán árum að mennta mig ögn alþjóðlegar en í sagnfræði og datt í tölvunarfræðina, þá blundaði alltaf í mér að þetta væri alþjóðlega hagnýt menntun, og kannski myndi ég einhvern tíma taka að mér verkefni eða vinnu um einhverra mánaða skeið – í London auðvitað. Og vissulega hafa tækifærin verið þar, líka, bara ekki réttu tækifærin. Rétt fyrir jólin 2013 hafnaði ég starfi í Hammersmith í London. Ástæðan: Ekki nógu vel borgað miðað við hvað það kostaði að búa í London. Og um daginn varð ég að segja nei við 6 mánaða samningi í Vestur-London af sömu ástæðu. Það er svo skrambi dýrt að lifa í London, verð bara að viðurkenna það. 

En ég hef dansað fram á rauðan morgun með tölvunördum bæði í Kaupmannahöfn á ástralska barnum þar sem Friends lagið hljómaði svo oft og á Mandaley í Hamborg við teknótónlist. Svo alþjóðlega menntunin býður upp á ýmis ævintýri. En ég hef aldrei dansað fram á rauðan morgun í London. 

Og svo líður mér bara ljómandi vel í Hamborg, þar sem ég hef verið í hartnær sjö mánuði. Og kannski er bara kominn tími til að koma sér aftur heim, sérhver ferð heim togar mig meira í þá áttina. Get alltaf haldið áfram að skoða þau verkefni sem bjóðast í London, en mig grunar að ég verði komin á eftirlaun þegar ég fer aftur þangað til einhvers konar dvalar, enda er ekkert svo voðalega langt í þau. 

Og einmitt af því ég er orðin þetta gömul þá rifjast upp fyrir mér að kannski voru skandinavísku og þýsku áhrifin á unglingsárunum meiri en ég hélt. Ég átti fleiri leikaramyndir með hinni þýsku Conny Frobess en Birgittu Bardott (nokkra tugi af hvorri) sá allar Conny og Péturs myndirnar í Tónabíói, var áskrifandi af Bravo, þýska bítlablaðinu og Vi Unge, því danska. Hlustaði á Sven Ingvars meðan ég var nógu ung til að þora og gott ef ég man ekki enn Vi gratulerer, norsku útgáfuna af Cliff-laginu Congratulations. 

 


Lestin brunar (eða ekki)

Fyrirsögnin býður uppá misskilning, þetta hefur alls ekki verið viðburðaríkur ferðadagur. Strætó niður á aðalbrautarstöð og aftur til baka reyndar lokið fyrir klukkan níu í morgun og dagurinn enn ungur. Þetta var fyrirsjáanleg fýluferð, aðeins þriðjungur langferðalesta gengur meðan á næstum vikulöngu verkfalli lestarstjóra stendur. En það leiddi hugann að því hvernig maður velur ferðamáta. Lestir hafa alltaf verið uppáhaldið mitt og flestar lestarferðirnar mínar frekar þægilegar, þótt finna megin skrautlegar undantekningar. Hvað er það eiginlega við lestarferðir sem heillar mann? Mér finnst gott að geta hoppað uppí lest, sætin oftast þægileg, allt sem til þarf á löngum ferðum, hægt að rétta úr sér og ganga um, farangur innan seilingar, veitingar og snyrtingar yfirleitt nothæfar og svo finnst mér hreyfing lestanna og þytur bara svolítið heillandi, ennþá, eftir allmargar ferðir um ævina. 

En það eru ekki allar lestarferðir dans á rósum. Smávægilegar tafir geta endað með því að allar áætlanir fara úr skorðum, því skiptingar eru oft ansi knappar. Vegna yfirstandandi lestaverkfalls datt mér í hug hvernig bresku járnbrautastarfsmennirnir höfðu það rétt fyrir jólin 1973, þegar ég var á leið til að halda jól með foreldrum mínum í Congresbury rétt hjá Bristol í Englandi. Nýsloppin til Englands eftir að flugfreyjuverkfall á Íslandi hafði verið leyst um þrjú leytið. Átti sem betur fór ekki bókað í lest frá Reading (einhvern veginn komst ég þangað) fyrr en um níu leytið um kvöldið. Og steig upp í lestina í rétta átt á réttum tíma. En hún brunaði framhjá áfangastaðnum, Yatton, og ég varð eftir á næstu stoppustöð í Weston-Super-Mare. Þar fékk ég skýringuna: Þetta var sko ekki níu-lestin sem ég hafði stigið um borð í, heldur þrjú lestin frá því fyrr um daginn, ,,aðeins" of sein. Járnbrautastarfsmenn voru nefnilega í aðgerðum sem heita ,,working to rule" og fylgdu öllum leiðbeiningum út í ystu æsar og tóku sinn tíma í það. Svona mikinn tíma tekur að fara eftir öllum reglum. 

Mér var eitt sinn vísað úr lest um miðja nótt í Tarta-fjöllum sem nú eru í Slóvakíu hluta fyrrum Tékkóslóvakíu. Hafði verið tekin í misgripum fyrir austur-evrópubúa og nálgaðist landamæri sem voru ekki ætluð vesturlandabúum. Allt endaði það vel eins og annað, fyrir mig alla vega. Fyrr í sömu langferð um Evrópu var hins vegar annað atvik sem ekki endaði eins vel, þótt ég hafi sloppið. Þá varð ég að fara út, einnig um miðja nótt, ásamt öðrum lestafarþegum, vegna slyss sem hafði orðið á lestinni úr gagnstæðri átt, en þetta var eitt af stærstu lestarslysum Evrópu, Zagreb í Króatíu haustið 1974. Fyrir tíma farsíma var það erfitt fyrir fjölskylduna að vita ekki nóg um málið strax, en það vissi ég ekki þegar ég stóð ásamt fleira fólki, ekkert okkar vissi vel hversu alvarlegar aðstæðurnar voru, en við vissum að það hafði orðið slys. Þetta var á meðan Austurlandahraðlestin var enn gömul og niðurnídd, fór alla leið til Asíu (Íraks) um Júgó, og kryddlyktin var alls ráðandi. Okkur var sagt að húkka okkur far með lestum sem fóru hjá og það tókst, en svo mikil voru þrengslin alla leið þar til sumir fóru af lestinni til að taka aðra í átt til Sarajevo, að ég og ástralskt par þurftum að skiptast á við að standa á öðrum fæti. Það var gólfpláss fyrir fimm fætur í senn hjá bakpokunum okkar. Eftir á að hyggja hljómar þetta fáránlega.

Einhvern tíma þarf ég að bæta við köflum um ,,Pros and Cons of Hitchhiking" en af þeim ferðamáta hef ég eingöngu reynslu frá Íslandi og Englandi, að vísu nokkuð litríka líka. Merkilegasta ferðin annað hvort þegar við vinkonurnar sváfum í hlöðu í Englandi eftir baráttu við að fá far á fáförnum vegi og síðan brenninetlur eða þá þröngi bíllinn sem endaði (dó) á Sogaveginum, eftir að gírstönginni hafði verið kastað út um gluggann og skrúfjárn tekið við í gírskiptingunum á Suðurlandsveginum. Sem betur fór gerðist það árið áður en ég varð bílhrædd. 

Flugferðir eru líka á listanum, þótt fólk kvarti og kveini yfir þrengslum í vélum og biðtíma á flugvöllum, þá er sá ferðamáti alveg ótrúlega þægilegur og oft ódýrari en mínar ástkæru lestaferðir um sama veg. Útsýnið í björtu veðri að degi sem nóttu er oft alveg ótrúlega skemmtilegt. Káti flugþjónninn sem lýsti ferðinni frá Albuquerque til Chicago eins og íþróttakappleik og sá sem tók við af honum til New York og sagði: For those of you on the left hand side there is a beautiful view over Manhattan, for those of you on the right hand side: You are just screwed! Útsýnisflug, reyndar bara venjulegt áætlunarflug, yfir fræga lestalínu frá Tælandi til Singapúr, hvalaskoðunarflug í London í janúar 2006. Við fengum auka lágflug yfir London að kvöldi til þegar hvalurinn hafði synt upp Thames. Lágflugið var ekki af góðsemi einni saman, heldur þurfti að kíkja undir vélina hvort hjólin væru komin niður, sem þau voru, en ljós sögðu annað. 

 


Við höfum öll okkar ástæður fyrir því að vilja standa utan ESB

Ég er alþjóðasinni og hlynnt góðum samskiptum þjóða á meðal. Nú er ég tímabundið flutt til ESB-lands, Þýskalands, til að starfa þar. Vinnufélagar mínir eru alls staðar að úr heiminum, frá Kirgistan og Ástralíu, Perú og Síberíu, Singapore og Argentíu. Þeir sem koma frá löndum utan ESB þurfa eilíflega að standa í stappi við ,,kerfið" sem vill eiginlega ekki sjá fólk sem kemur frá löndum utan ESB. Mér finnst hálf vandræðalegt að tilheyra forréttindaklúbbnum sem hyglar fólki frá ,,sínum" löndum og lýtur að miklu leyti lögmálum sem sköpuð eru af stórfyrirtækjum og sterkustu hagsmunaaðilum sem hafa afl til að tala máli sínu í hinu miðstýrða ESB-veldi skrifræðisins í Brussel. Þetta eru mínar ástæður, ekki þær einu, en vega þungt. Mamma, sem var á Þingvöllum 17. júní 1944 í hellirigningu, vill alls ekki sjá að við töpum sjálfstæði okkar aftur, Henrik frændi minn i Danmörku var að nálgast tírætt þegar hann sagði við mig að hann vildi eiginlega ekki deyja fyrr en Danmörk væri komin út úr ESB, en hins vegar nennti hann ekki heldur að lifa sumarið, af því það þurfti nefnilega að gera við þakið á húsinu hans. Og hér eru enn fleiri ástæður, sumar þær sömu og ég hef þegar viðrað, en líka svo margar aðrar.

Mér finnst reyndar merkilegt að hér í Hamborg sé ég aldrei fána ESB blakta, bara fána Hamborgar, Þýskalands og ef ég skrepp í golf til Glindi þá er það fáni Slésvíkur-Holstein og einhver annar héraðsfáni í Buxtehude og Stade. Mér finnst þetta notalegt, mér finnst alltaf sætt þegar fólk tengist nærumhverfi sínu vel. ,,Think globally, act locally" er sagt í öðru samhengi, en á alltaf við. Man að það stakk mig svolítið í fríi í Portúgal að sjá jafnvel minnstu girðingarstubba merkta ESB í bak og fyrir eins og verið væri að segja: Þessi girðing er í boði ESB ... 


Hamborg, ,,hérumbil" og alveg

Skrýtið með sumar borgir, sem maður hefur oft ,,hérumbil" komið til. Þar til vinnan bar mig hingað í borgina hafði ég nokkuð oft ,,hérumbil" komið þangað. Og óneitanlega skildi borgin eftir sig ýmsar góða rminningar, þótt ég geti varla sagt að ég hafi leitt hugann að henni, - fyrr en nú. Bloggaði aðeins um jólamarkaðina þar, þegar ég kom við í borginni rúman sólarhring í nóvemberlok, erindið þá var aðeins eitt viðtal og að skilaði mér hingað til ögn lengri tíma en venjulega. 

Þegar ég var 22 ára átti ég erindi til Frakklands, þar sem foreldrar mínir voru þá búsettir. Ákvað að fljúga um Köben því ég vissi að þar var hægt að fá góðan stúdentapassa (hvíta passann) sem veitti hressilegan afslátt af lestarferðum í Austur-Evrópu. Eitthvert flugfélag Guðna í Sunnu var þá með flug til Kaupmannahafnar, en þegar til átti að taka var lent í Hamborg í báðum leiðum og farið með liðið í rútu til Köben. Sem var svosem allt í lagi fyrir mig, en daginn eftir fór ég svo gegnum Hamborg á leið til Frakklands, en hvíta passanum ríkari. Rútuferðin var mjög minnisstæð því það var komið kvöld og sumir íslensku rútuferðalanganna létu svo illa að rútubílstjórinn hótaði að láta þá út úr rútunni einhvers staðar í dimmu, dönsku skóglendi. Séra Árelíus Níelsson tók að sér að róa liðið með því að ganga á milli og bjóða haltu-kjafti brjóstsykur. 

Næst áttum við hjónin erindi til Hamborgar um haust, þegar mamma hafði unnið bökunarkeppni með fallegri piparkökuskál (skál úr piparkökum) og ákvað að gefa okkur miðana sem hún vann til Hamborgar, líklega af því við höfðum þá ekki farið úr landi í fimm ár (kemur ekki fyrir aftur!). Við tókum bílaleigubíl á Hamborgarflugvelli og ókum strax út á Lüneburgarheiði og svipuðumst eftir ,,Zimmer frei" skilti (það var internet þess tíma). Hittum á gamlan gaur með tvo hunda sem við gistum hjá. Spurðum hann daginn eftir hvert við ættum að fara til að komast til Miðjarðarhafsins, en okkur þyrsti í sól. Jamm, sagði sá gamli. Keyrið út að næstu vegamótum og ef þið ætlið til Spánar beygið þið til hægri, en ef þið ætlið til Ítalíu þá til vinstri. Við vorum með ótakmarkaðan akstur í 2 vikur og bílaleigan græddi ekki á okkur, við enduðum í næstum viku í gömlu Júgóslavíu í litlu þorpi með fullt af sól og útsýni yfir eyjarnar á Adríahafi, með viðkomu í Feneyjum (fleiri brýr í Hamborg en Feneyjum) og Rínardal. Í bakaleiðinni stoppuðum við við Alster-vatn og rétt skruppum út úr bílnum.

Svona 7 árum síðar vorum við aftur á ferð á Kielarviku og ætluðum svo að vera í 11 daga í viðbót í Norður-Evrópu og hófum þá för í Hamborg um kl. 11 um morgun. En þá brá svo við að veðrið var kalt og leiðinlegt, lestarferðir dýrar, svo við brugðum okkur á ferðaskrifstofu (og enn er þetta fyrir almennilega notkun á interneti). Minn ágæti eiginmaður sannfærði þýska ferðasalann um að hann myndi ekki selja öðrum ferð suður á bóginn upp á þau býti að fara af stað næstu 2-3 klukkutímana. Hann endaði á því að setja saman 11 daga pakka til Majorka og við fórum í loftið um hálf fjögur um daginn, meðan á fluginu stóð var fundin handa okkur ágæt gisting í bænum Cala Ratjada (svona ca. þannig skrifað) með hálfu fæði. Samferðarfólkið á Kielarvikunni, sem við hittum fyrir tilviljun í rútunni einhvern tíma á milli tvö og þrjú var aðeins undrandi á svipinn þegar við upplýstum breyttar fyrirætlanir. 

skurður2

Þetta eru aðeins nokkar minningar af hérumbil ferðum til Hamborgar, en nú er ég farin að kynnast þessari ágætu borg miklu betur, enda bækistöð mín vegna vinnu nú um stundir. Þetta er gullfalleg borg og aðeins Suður-Evrópubúarnir og Suður-Ameríkanarnir sem vinna með mér eru óhressir með veðurfarið. Ég og Austur-Evrópubúarnir, ekki síst fólk úr ýmsum löndum sem áður voru Sovét, Kirgistan, Kazakstan og ýmsum öðrum snjóþungum slóðum, kvörtum ekki. Áhugaverð borg og kannski ferðablogga ég eitthvað meira um hana seinna á þessum vettvangi. 


Jólamarkaðir í Hamborg

Skipulögð ferðamennska er margs konar, leikhús- og menningarferðir, sólarferðir, sukkferðir (örugglega til annað fínna nafni fyrir þær) og verslunarferðir. Af og til hef ég séð auglýstar aðventuferðir á jólamarkaði í Þýskalandi. Ekki verið spennt, ég meina það, hverjum getur dottið í hug að fara í ferð sérstaklega til að skoða útimarkað í kulda, og það til að skoða/kaupa hreinasta óþarfa eins og alls konar jóladót? Ég ætla mér alls ekki að fara að taka mér orð Hallgríms Péturssonar í munn: Þetta sem helst nú varast vann/varð þó að koma yfir hann.

20141128_183407.jpg

En … ég fór sem sagt á fjóra jólamarkaði í Hamborg um daginn. Átti allt annað erindi til borgarinnar, svo það sé á hreinu. Fékk þessa fallegu bón að kaupa eina, fallega, handmálaða jólakúlu. Hver getur neitað slíkri bón? Og fyrra kvöldið mitt í borginni fór ég á fyrsta markaðinn. Engin kúla þar, en ótal básar. Svo var öllu lokað.

20141128_183400.jpg

Seinna kvöldið var ég komin fyrr á vettvang. Ögn fleiri básar opnir þá, en engin kúla, ekki af réttri gerð. Ég vissi nákvæmlega að hverju ég var að leita. Næsti markaður var innan seilingar, Google-frændi með í ráðum og ég vissi alveg hvar ég átti að leita. Það var ekki fyrr en á þriðja markaðnum, ráðhúsmarkaðnum, að þær blöstu við: Fallegar, handmálaðar kúlur í öllum stærðum og gerðum. Og komust meira að segja óbrotnar heim.

20141128_180052.jpg

Þá fyrst tók ég eftir að flestir á markaðnum voru alls ekki að leita að handmálaðri jólakúlu. Þarna voru flokkar fólks að fá sér jólaglögg og ristaðar möndlur og alls konar þýskar krásir eftir vinnu á föstudegi. Ekkert ósvipað pöbb í London á góðu síðviku-síðdegi. Vinnustaðahópar og vinahópar mest áberandi. Allir dúðaðir og hífaðir. Ekki farnir að bresta í söng þegar ég færði mig á fjórða og síðasta markaðinn, við Alster vatn. Engar handmálaðar kúlur þar heldur. Bara til að spara öðrum sporin.

2014-11-27_20_43_53.jpg

Fór með jólalyktina í nösunum heim á hótel og þó ég hafi enn engan skilning á jólamarkaðsferðamennsku, þá var þessi óvissuferð í aðra menningarheima mjög skemmtileg. Hver veit nema ég endi í Hafnarfirði?


Bangsi gefur blóð og rauðir hundar

Krakkar herma ýmislegt eftir foreldrum sínum, einkum þegar þeir (krakkarnir) eru litlir. Það eru hins vegar ekki allir krakkar sem eiga mæður sem vinna í Blóðbankanum. Þegar ég var lítil vann mamma einmitt í Blóðbankanum og að sjálfsögðu tóku leikirnir á heimilinu mið af því. Nýlega fékk ég í hendur mynd sem rifjaði upp þessa bernskuleiki mína, því auðvitað þurfti ég að láta bangsann minn gefa blóð, myndin hefur verið tilklippt og eitthvað smálegt meira verið gert við hana, en hún stendur alltaf fyrir sínu.

anna_bangsi2.png

 Á neðri hæðinni á Uppsölum, Aðalstræti 18, þar sem ég bjó þegar ég var lítil (í risíbúðinni með turninum fallega sem nú hefur blessunarlega verið stældur í nýrri hótel- og veitingabyggingu), voru læknastofur. Og einhvern tíma þegar ég veiktist var farið með mig til nafnkunns læknis á neðri hæðinni. Ég gleymi því aldrei þegar þessi fullorðni karlmaður, læknirinn, leit á mig og tilkynnti mér að ég væri með ,,rauða hunda". Ég man að ég leit upp eftir honum og líklega með mikilli fyrirlitningu, því mér fannst það með ólíkindum hvað svona virðulegur maður héldi eiginlega að börn væru heimsk. Ég var veik, en ekki með neina hunda, hvorki með mér né heima. 


Skáldlega óskáldleg staðarnöfn

Það getur oft verið forvitnilegt að fá fólk í heimsókn erlendis frá. Kunningi systurdóttur minnar, Murdoch, kom til okkar fyrir nokkrum árum og það var ótrúlega gaman að hafa hann í húsi. Við þurftum svosem lítið að hafa fyrir honum, hann bjargaði sér mest sjálfur, en skruppum þó með hann um nágrannabyggðirnar og í stuttan túr á Snæfellsnes, sem alltaf er gaman að upplifa gegnum augu annarra. Hann spurði mikið um staðanöfn og sennilega hefur það runnið upp fyrir okkur um svipað leyti og honum hversu hversdagsleg og hrein og bein mörg þessara nafna eru, lýsa því sem fyrir ber (eða bar) og ekki mikið fleiru. Hafnarfjörður, Álftanes, Reykjavík, Akrafjall, Skarðsheiði, Hafnarfjall, Langjökull, Mýrar, Staðarstaður, Búðir, Snæfellsfjökull, Rif ... og nöfnin voru auðvitað óteljandi og undrun hans sífellt meiri. 

 


Lágmarkskröfur í gistingu og andaglas með IRA

Var að bóka hótel eina nótt í London, sem er ekki í frásögur færandi. Endaði með því að velja hið augljósa: Góða staðsetningu, skikkanlegt herbergi með baði (lítið) og frítt internet. Annað þarf ekki. En mér finnst næstum jafn gaman að skoða gistimöguleika eins og ferðamöguleika og sá vel staðsett hótel í London á furðu góðu verði. Það reyndist þá vera Kex-hostel stíllinn, kojuherbergi en allt mjög hipp og kúl. Fann að ég var komin yfir það stig, nema í neyð auðvitað. Ég var reyndar orðin harðfullorðin, virðuleg tveggja barna móðir þegar ég gisti einhverju sinni á gamla Hótel Búðum með alveg rosalega mörgum Kvennalistakonum. Man að einhverjar sváfu á stigapalli, ekki ég, nei ég fékk fínt svefnpláss á dýnu, en þurfti reyndar að vera með helminginn af dýnunni (og 40% af mér, sem betur fer ekki hávaxin) UNDIR RÚMI hjá annarri Kvennalistakonu. En við sváfum og það var bara gott.

En af þessu rifjaðist upp fyrir mér þegar ég var að vinna í London átján ára gömul með frábært einkaherbergi i Bloomsbury sem fylgdi vinnunni, þar til Esthera Vechery vinkona mín var rekin (júgóslavnesk/ungversk og með kjaft!). Ég greip tækifærið og sagði upp henni til samlætis (og af því mér leiddist vinnan ósegjanlega). Við tóku ýmis störf og ég flutti aftur í herbergið mitt í Kilburn, sem ég deildi ýmist ekki með neinum eða allt að sex til sjö öðrum. Það var svona kojugisting. Eitt kvöldið fylltist gistiheimilið og að okkur fastagestunum var hvíslað að þetta væru IRA-menn. Þetta var áður en IRA varð illa þokkað í London vegna sprengjutilræða (vinkona mín lenti í sprengju í Old Bailey þremur árum síðar, þá nýútskrifaður lögfræðingur), en auðvitað dularfullt og hættulegt samt. Eitt kvöldið var ég ásamt annarri íslenskri vinkonu minni heima á Priory Park Rd 101 og þá datt einhverjum í hug að fara í andaglas (!). Með IRA-mönnunum! Nema við höfum verið svona 6-7 alls og auðvitað þurfti andinn sem kom í glasið að tala DÖNSKU! Tek það fram að ég er saklaus og ég varð ekki vör við að vinkona mín ýtti glasinu neitt heldur.

Þannig að val á gisti- og dvalarstöðum getur leitt til alls konar ævintýra, - eða ekki. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband