Bangsi gefur blóð og rauðir hundar

Krakkar herma ýmislegt eftir foreldrum sínum, einkum þegar þeir (krakkarnir) eru litlir. Það eru hins vegar ekki allir krakkar sem eiga mæður sem vinna í Blóðbankanum. Þegar ég var lítil vann mamma einmitt í Blóðbankanum og að sjálfsögðu tóku leikirnir á heimilinu mið af því. Nýlega fékk ég í hendur mynd sem rifjaði upp þessa bernskuleiki mína, því auðvitað þurfti ég að láta bangsann minn gefa blóð, myndin hefur verið tilklippt og eitthvað smálegt meira verið gert við hana, en hún stendur alltaf fyrir sínu.

anna_bangsi2.png

 Á neðri hæðinni á Uppsölum, Aðalstræti 18, þar sem ég bjó þegar ég var lítil (í risíbúðinni með turninum fallega sem nú hefur blessunarlega verið stældur í nýrri hótel- og veitingabyggingu), voru læknastofur. Og einhvern tíma þegar ég veiktist var farið með mig til nafnkunns læknis á neðri hæðinni. Ég gleymi því aldrei þegar þessi fullorðni karlmaður, læknirinn, leit á mig og tilkynnti mér að ég væri með ,,rauða hunda". Ég man að ég leit upp eftir honum og líklega með mikilli fyrirlitningu, því mér fannst það með ólíkindum hvað svona virðulegur maður héldi eiginlega að börn væru heimsk. Ég var veik, en ekki með neina hunda, hvorki með mér né heima. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband