Hafsteinn kvaddur
17.2.2014 | 19:53
Stundum er maður svo lánsamur að kynnast stórfjölskyldum vina sinna. Foreldrar þeirra Ása og Önnu, okkar góðu vina, hafa líka orðið sérstakir vinir okkar hér í Blátúninu. Núna þegar Hafsteinn faðir Önnu hefur kvatt og verður vísast fagnað á góðum stað, þar sem dóttir hans og tengdasonur eru, þá langar mig bara að rifja upp skemmtilega vísu (í gömlu blogg, smellið á tengilinn) sem hann gaukaði að okkur fyrir nokkrum árum á Kanarí, en þá bloggaði ég um hann í þessari færslu og reyndar einhverjum af þeim næstu líka, reyndi meira að segja að senda honum vísur á móti, en mikið lifandis ósköp var hann nú betra skáld en ég. Þakkir og saknaðarkveðjur til indæls manns: http://annabjo.blog.is/blog/annabjo/entry/130098/
Suðurnesin eru sérstök
15.2.2014 | 19:53
Í dag skrapp ég til Keflavíkur í yndislegu veðri. Af því ég var ein á ferð leyfði ég huganum að reika og hann þáði það með þökkum. Mér hefur alltaf fundist heillandi að koma á Suðurnesin og þegar ég var sex ára á leið til Spánar með saltfisksskipi, ásamt mömmu og ömmu, til hálfs árs dvalar, fannst mér eiginlega alveg jafn merkilegt að fara í fyrsta sinn til Keflavíkur.
Seinna var Keflavík bítla- og tískubærinn og sumar vinkonur mínar lögðu á sig rútuferð til Keflavíkur til að kaupa sér flottustu skóna á landinu, sem ekki fengust í Reykjavík. Tveimur árum seinna var ég komin á ball í Stapanum fimmtán ára með töffarakrökkunum af Álftanesi.
En sjarminn við Suðurnesin eru ekki bara góðar minningar frá fyrri tímnum heldur ekki síður seinni tíma ævintýri, sem sum ná reyndar lengra aftur til fortíðar en sixtís-minningarnar. Ferðir með bátum milli hafna og út á sjó með slysavarnarbát eða hvalaskoðunarskipi, því Suðurnesin eru auðvitað svo nátengd sjónum. Uppgötvaði gömlu húsin í Keflavík í fylgd Rakelar heitinnar Benjamíns. Nokkurra ára viðvera í Sandgerði þegar ég sá um útgáfu á handriti fyrra bindis sögu sveitarfélagsins og skrifaði sjálf seinna bindið (sem bíður enn útgáfu, enda skrifum formlega lokið á hrundaginn sjálfan). Þá spjallaði ég við fjölda fólks af þessum slóðum og kynntist nýrri hlið á þessu fallega svæði og fegurð Hvalsneskirkju. Við bröltum meðal annars á Básenda með Heimi Stígssyni, þeim mæta ljósmyndara. Mér verður líka oft hugsað til Sigurðar tengdaföður míns sem fór á sjóinn frá Stafneshverfi aðeins 14 ára gamall og harðduglegra frænkna minna sem ólust upp í litlu koti rétt hjá Hvalsneskirkjunni fallegu við aðbúnað sem erfitt er að tengja nútímanum.
Við röltum líka Ögmundarhraun með Birni Þorsteinssyni og Birni Th. oftar en einu sinni, sagnfræðinemarnir í HÍ, og þá rifjaðist upp þegar Guðmundur teiknikennari var aðfara með okkur krakkana í Hagaskóla í alls konar hrauna- og hellaferðir ögn norðar á Reykjanesskaga.
Ætli Suðurnesin státi ekki líka ein af því að bjóða upp á golfholu (á þar sem hægt er að slá frá Evrópu og yfir til Ameríku (ef áttaskynið ruglar mig ekki) en flekamót heimsálfanna eru einstakt náttúrufyrirbrigði. Leiðin frá Grindavík til Hafna er ein sú skemmtilegasta sem hægt er að fara, hvort sem er á leið af golfvelli eða bara í sunnudagsbíltúr.
Og þeir sem koma til Íslands og sjá bara Bláa lónið ná meira að segja að skoða ótrúlega skemmtilegan anga af íslenskri ferðaþjónustu.
Eigi skal gráta Björn bónda heldur skreppa á bíó!
4.12.2013 | 20:08
Ótrúlegar sögur af ,,uppsagnamarkaðinum"
30.11.2013 | 01:14
Ekki get ég nú sagt að ég hafi haft tíma til að átta mig á breyttri stöðu minni í tilverunni (sjá fyrra blogg). Það mun koma í ljós nógu fljótt hvaða áhrif hún hefur. Bloggið mitt frá kvöldi uppsagnarinnar hefur hrundið af stað atburðarás sem ég sá ekki fyrir. Góðar óskir og hvatningarorð frá vinum mínum, nánum sem ókunnum á Facebook og víðar komu mér ekki á óvart, nema kannski að það voru ívið meiri viðbrögð en ég átti von á. Hins vegar kom það mér verulega á óvart hvað ég hef heyrt í mörgum sem hafa ótrúlegar sögur að segja af eigin reynslu af uppsögnum. Bæði hvernig þær snerta fólk persónulega og fjárhagslega og hvernig atburðarásin kringum þær hafa verið. Þetta hefur borist mér eftir ýmsum leiðum, persónulega, á samfélagsmiðlum og í samskiptum við það fólk sem ég hef hitt á þessum rúmu tveimur sólarhringum sem bloggið mitt hefur verið í loftinu. Meira að segja fólk sem stendur mér tiltölulega nærri hefur sagt mér ýmislegt markvert sem ég hef ekki áður heyrt. Mig óraði ekki fyrir því að svona mikil þöggun væri í gangi á þessu sviði. Mig langar vissulega að deila svo mörgu af því sem ég hef heyrt, en í bili er ég varla til skiptanna og gæti það því ekki þótt ég fegin vildi. Og ekkert myndi ég hvort sem er segja án samráðs við viðkomandi. En nú þarf ég að fara að einbeita mér að því að vinna uppsagnarfrestinn, finna mér nýtt starf og/eða verkefni og rækta sambandið við fólkið mitt í vinnunni og heima. Og halda sálarró.
Ég var dálítið efins um að þetta blogg mitt ætti erindi út í samfélagið. Ég efast ekki lengur. Samt hef ég enn ekki heyrt frá neinum sem sagt var upp á RUV þótt ég þekki þar margt gott fólk. Það sem þar gerist hefur ekki farið framhjá nokkrum þeim sem fylgist með fjölmiðlum. En það er greinilega margt að gerast annars staðar á ,,uppsagnamarkaðinum, svo margt að ég er enn að undrast.
ÞAÐ VORU VÍÐAR HÓPUPPSAGNIR EN Á RÍKISÚTVARPINU Í DAG
27.11.2013 | 19:41
Jæja, ég þurfti að verða 61 árs til að lenda loksins í þeirri lífsreynslu að vera sagt upp. Þetta var hópuppsögn, ein af mörgum sem aldrei fá fókus, og ég var í hópi margra góðra vinnufélaga. Ég var líka í lúxusstarfi. Fá fyrirtæki hér á Íslandi leyfa sér þann lúxus að hafa sérstakan tæknihöfund í fullu starfi. Víðast hvar þurfa aðrir starfsmenn að sinna því hlutverki í hjáverkum. Ég hef sjálf gert það hjá öðrum fyrirtækjum. Það er vaninn og lúxus er það sem fyrst er skorið. Það tók talsverðan tíma að sannfæra þáverandi æðsta stjórnanda míns ágæta fyrirtækis um að tímabært væri að ráða tölvufræðimenntaðan tæknihöfund í fullt starf, þegar ég réðst til starfa þar fyrir fjórum árum. Starfið fæddist með mér og í dag dó það með mér, í bili alla vega. Þannig að ég get sagt: Ég skil þetta allt saman ósköp vel.
Kemur mér samt á óvart hvað þetta er erfitt, þótt ég geri mér vissulega grein fyrir öllum tækifærunum sem nú munu (vonandi) opnast. Tækifærin fyrir góða tæknihöfunda ættu að vera óþrjótandi, það er bara að finna þau. Heimurinn allur í rauninni sá markaður sem ég þarf að skoða á næstu vikum, á meðan ég vinn uppsagnarfrestinn minn. En í dag er þetta bara áfall.
Í sjálfu sér er ég alveg sátt við margt varðandi þessa uppsögn, þótt ég hefði svo sannarlega viljað vera áfram í þessu starfi og hjá þessu fyrirtæki. Fólkið sem ,,lenti í því að segja mér upp var líklega það besta sem ég hefði getað fengið á þessari erfiðu stundu. Þótt ég væri bæði dofin og héldi að ég væri hress þegar þetta dundi yfir, þá er það mikils virði, eftir á að hyggja, að það voru einmitt þau tvö sem voru þarna með mér. Ég er alveg viss um að það er ekki öllum gefið að taka þetta hlutverk að sér. Þau vita það best sjálf að þau stóðu sig vel gagnvart mér.
Það að fyrirtæki þurfi að skera niður kostnað er svo sannarlega ekkert nýtt. Launakostnaður vegur yfirleitt þungt og uppsagnir því nauðsynlegar í bland við aðrar aðgerðir eins og í þessu tilfelli.
Ég hef aldrei verið hrædd við að fara út í óvissuna og jafnvel óhikað sagt upp starfi án þess að vera búin að tryggja mér annað. Verið órög við að vinna í lausamennsku ef ég fengið skemmtileg verkefni og þessar tilraunir hafa leitt mig í ýmsar áttir og yfirleitt til enn betri tilveru á endanum. Treysti því að svo verði nú, en fyrirhafnarlaust verður það sjálfsagt ekki.
Enn vestari haustlitir
17.10.2013 | 22:37
Þar sem íslenskar ár geta verið vestari og vestri eftir hentugleikum (eða alla vega austari og eystri) þá ætla ég að leyfa mér að kalla Kyrrahafsströnd Bandaríkjanna vestari ...
Haustlitirnir í Montreal í Kanada voru tilefni seinasta pistils en í þessum koma nokkrar svipmyndir frá Seattle frá því fyrr í vikunni:
Haustlitir
5.10.2013 | 04:08
Mér er það enn minnisstætt þegar ég var stödd í vegabréfaskoðun í Singapore og fékk þessa góðu spurningu: ,,Iceland? Do you have seasons there?" Já, við höfum sannarlega árstíðir á Íslandi, að minnsta kosti fjórar, mjög mislangar og breytilegt eftir árum.
Einu sinni hélt ég að haustlitir væru svona hálfpartinn séríslenskt fyrirbrigði. Þá hafði ég verið hálft ár á Spáni en önnur útlönd þekkti ég minna, þótt ég hefði reyndar vitjað þeirra að hausti, en einhvern veginn voru haustlitirnir í Köben ekki minnisstæðir, þótt ég kynntist þeim seinna af góðu einu.
Haustlitirnir hér í Montreal eru alveg magnaðir eins og meðfylgjandi myndir sýna vonandi. Laufin tolla lengi á trjánum og í 20 stiga hita getur verið skrýtið að horfa á haustlitina í kringum sig. Sums staðar er eins og ekkert hafi haustað enn, trén á golfvellinum eru ótrúlega græn ennþá og eiginlega bara græn, þannig að ég þurfti að spyrja mig hvaðan þessi appelsínurauðu lauf sem appelsínugula kúlan mín týndist í, hefðu eiginlega komið. Kannski eru trén þar svona græn af því öll appelsínugulu laufin eru dottin af þeim. Hmmm, en það sér alla vega ekki högg á vatni.
Eitt sinn fór ég í haustlitaferð til New Haven í Connecticut í Bandaríkjunum. Hópur Íslendinga fór saman upp á fjall (reyndar klifum við stiga til að komast upp á fjallið, sem mér þótti skrýtið og þykir enn). Fjölbreytnin og litadýrðin voru ótrúleg. Það var einmitt um svipað leyti árs og nú er. Man ekki alveg tímasetninguna á annarri góðri (og óvæntri) haustlitaferð, en það var þegar ég þurfti snögglega að fara til Noregs um haust og þannig stóð á að eina farið sem í boði var var með millilendingu í Stokkhólmi í báðum leiðum. Ekki beint í leiðinni. Ég átti ekki eftir að sjá eftir því, aðra eins litasinfóníu var erfitt að hugsa sér og hvort sem það var tilviljun eða velvild flugstjórans með fulltingi einhverra flugumferðastjóra, þá flugum við býsna lágt á milli þessara höfuðborga. Það var einkum í frameftirleiðinni sem litirnir nutu sín, sennilega verið eitthvað meira skýjafar á bakaleiðinni.
Engu að síður þá jafnast fátt við haustlitina á Þingvöllum og ég enda með einni mynd þaðan. Eftir á að hyggja er hún enn svolítið sumarleg, en þið virðið viljann fyrir verkið.
Leitin að fegursta orði íslenskrar tungu komin á háskólastig
24.9.2013 | 14:55
Fyrir nokkrum árum notaði ég þetta blogg til að leita að fegursta orði íslenskrar tungu (gamall draumur). Nú er þessi leit komin til kasta háskólastofnana og ég get ekki annað en glaðst innilega. Til að koma ekki með áróður á kjörstað mun ég ekkert upplýsa hvernig fór ...
![]() |
Leitað að fegursta orðinu í málinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kettirnir á Ísafirði
17.8.2013 | 21:47
Mér hefur alltaf líkað vel við Ísafjörð, en sennilega aldrei eins og undanfarna þrjá daga, þegar ég bæði naut þess að skoða bæinn og komst að raun um það að þar býr urmull katta. Þessi þrílita, fallega á tröppunum á Gamla gistihúsinu, sem hvessti á okkur augun, sá silalegi sem þurfti að reka annan yngri yfir götuna hvað eftir annað á meðan við sátum við gluggann á Húsinu og svo þessi undurfagri sem ég sá í Neðstakaupstað í morgun:
Suðureyri við Súgandafjörð í gær
17.8.2013 | 21:39
Einn af örfáum bæjum á Íslandi sem ég hafði ekki heimsótt, fyrr en í gær, er Suðureyri við Súgandafjörð. Við Nína systir hoppuðum upp í strætó við Pollinn á Ísafirði og fórum í gegnum göngin góðu og síðan út með löngum Súgandafirði þar til Suðureyri blasti við. Þar röltum við um, fengum okkur frábært kaffi á kaffihúsinu (með húmorískum uppeldisskilaboðum á vegg) og kíktum á handverk.
Besta útsýnið var auðvitað á hæstu götunni svo við röltum hana nánast út á enda.
Þótt liðið sé á sumar virðist enn nokkuð mikið um ferðalanga í bænum, bæði erlenda og súgfirska sem voru að pakka saman eftir ferðalög annars staðar um landið. Glaðlegt yfirbragð mætti okkur alls staðar en þarna fjölgar víst fólki nú og smábátaútgerðin blómstrar og fiskvinnslan virðist ganga út að nýta sem mest og best þann afla sem kemur að landi.
Þótt verið sé að gera fjölmörg hús upp með miklum myndarbrag var þó eitt hálfrifið sem vakti sérstaka athygli mína, ég safna nefnilega myndum af bleikum húsum, en þetta var bleikt að innan!