Evrópusöngur á RUV - hver veit meira um hann?

Í makalausri skýrslu kenndri við Willy de Clerk frá 1993, sem ég þreytist seint að vitna í, voru leiðbeiningar um hvernig gera ætti Evrópusambandið vinsælla meðal Evrópubúa. Smjaðra fyrir blaðamönnum og fjölmiðlafólki, ausa fé í háskólastyrki, nýta verkalýðshreyfinguna og umfram allt koma fánanum, nafninu og einhverjum jákvæðum, einföldum (fyrir okkur einfeldningana) skilaboðum á framfæri. En þeir nefndu ekkert um að búa til Evrópudýrkunarlög. Ég held að það hafi verið alvarleg yfirsjón af hálfu de Clerk, en kannski bara hugmyndaleysi.

En núna á morgnana vakna ég oftar en ekki við þetta undarlega lag um sundraða og svo seinna í laginu um ,,okkar sameinaðu Evrópu" á Rás 1 eða 2. Þetta er mjög dularfullt lag, einkum fyrir mig sem er að rumska á þessum tíma dags, milli kl. 7 og 9 og næ ekki að fá botn í textann við þær aðstæður. Ég er ekki ennþá búin að átta mig á því hvort þetta er brandari og ef svo er út á hvað hann gengur. Eða hvort þetta er dýrðarsöngur til sameinaðrar Evrópu, eins konar ástarljóð, en það hljómar samt þannig. Stíllinn á laginu er svona í anda hinna ástsælu Spaða. Kannast einhver við lagið og er það brandari eða hvað? Þar sem ég flakka óspart milli stöðva á frekar ónákvæmu útvarpi við rúmið mitt, þá hef ég ekki lagst í rannsóknir til að kanna hvaða stöð nákvæmlega spilar þetta merkilega lag en veit þó að það er önnur hvor ríkisrásin, reyni yfirleitt að hafa þær á og hlusta á fréttir RUV á morgnana.

Þar sem ég sigli ekki undir fölsku flaggi og þykist vera ,,opin fyrir öllum leiðum og ekki tilbúin að loka á neitt" gagnvart Evrópusambandinu þá er rétt að taka það fram að ég er Evrópusambandsandstæðingur. Alveg lokuð fyrir öllum leiðum og meira en tilbúin að loka á aðild að Evrópusambandinu, sem ég tel miðstýrt bákn undir stjórn skriffinna sem eru í litlum tengslum við þau samfélög sem þeir reyna að steypa í sitt sameinaða Evrópumót. Tek fram (af gefnu tilefni) að ég er mótfallin Evrópusambandinu vegna galla þess, ekki kostanna, sem vissulega eru líka til. Meira um það síðar (ábyggilega) en núna er ég bara hreinlega forvitin að vita eitthvað um þetta furðulega lag sem ég vakna stundum við.


Til að fyrirbyggja misskilning

Þegar ég byrjað að blogga á Mogganum fyrir tveimur sólarhringum eða svo hafði mikil umræða spunnist um frétt Morgunblaðsins um dóm Hæstaréttar yfir kynferðisbrotamanni. Fyrir níðingslegt brot þótti við hæfi að létta dóminn úr vægum í sama sem engan, 24 mánuðum í 18. Tek ofan fyrir ritstjórn Morgunblaðsins fyrir að hafa slegið málinu upp með þessum hætti. Ef þetta er ekki fréttnæmt, þá veit ég ekki hvað ætti að vera það. Tel ég þó að jafnaði að allt í lagi sé að stíga varlega til jarðar í blaðaumfjöllun, en blaðið sagði ekki annað en þáð sem satt og rétt var og uppstillingin á dómurunum, eins nöturleg og hún var, átti rétt á sér að þessu sinni. Það ER fréttnæmt hverjir taka slíka ákvörðun.

Til að fyrirbyggja þann misskilning að ég sé skoðanalaus í málinu, þá blanda ég mér hér með í umræðuna, þótt seint sé.


Vinnubrjálæðið

Alltaf að heyra fleiri og fleiri vísbendingar um að Íslendingar og reyndar líklega heimurinn allur, sé að missa sig í vinnubrjálæði. Og þetta kvað fara versnandi, nýjustu tölur hér á landi sýndu nokkurn árangur í styttingu vinnuvikunnar fyrir nokkurm árum en nú er allt að fara aftur í sama, vonda farið. Blessunarlega er ég að vinna á vinnustað þar sem yfirlýst stefna er að vinna ekki nema umsamdan vinnutíma en ytri aðstæður gera það erfitt þessar vikurnar og ég finn að nú er ég komin á þann stað í lífinu að ég vil ekki lifa svoleiðis lífi til langframa. Vissulega er gaman að taka góðar tarnir, svona eins og eina kosningabaráttu eða svo eða klára cand. mag ritgerð í sumarbústað eða að skrifa bók í Borgarnesi, jafnvel aðra bók á Kanaríeyjum, svo maður skrifi út frá eigin reynslu. En eins og góðar tarnir eru ágætar eru frí og það að LIFA jafn mikilvægt og reyndar miklu mikilvægara. Núna er ég í fyrsta sinn í mörg ár að fara í frí hérna heima, áður en leiðin liggur til Kanarí, og nýt þess út í ystu æsar. Og samt er bara sunnudagur og ég byrjaði í fríinu eftir vinnu á föstdag ;-)

Þegar ég lifði og hrærðist í pólitík í sex ár fjallaði eitt af uppáhaldsmálunum sem ég flutti á alþingi um styttingu vinnutímans án kjaraskerðingar. Ég held það sé tími til kominn að dusta rykið af þessu máli og taka það upp og líklega þarf það að gerast á öðrum vettvangi en alþingi, því þar talaði ég hreinlega fyrir fullkomlega daufum eyrum, þótt einhverjir yrðu til að taka kurteislega undir, án mikillar sannfæringar.


Vona að þetta sé rétt mat hjá Dönum

Fyrir nokkrum árum þegar núverandi stjórnarflokkar tóku við stjórnartaumunum í Danmörku, var greinilega kominn jarðvegur fyrir ákveðin kaflaskil þar í landi, kaflaskil sem voru að mínu mati mjög neikvæð. Ég var einmitt stödd í Danmörku vikurnar í kringum kosningarnar vegna vinnunnar og fylgdist með forundran með umræðunni. Danir sem höfðu sýnt svo mikið ,,umburðarlyndi" í garð innflytjendanna sinna (nema kannski systurþjóðarinnar Grænlendinga) voru orðnir svo svæsnir rasistar að mér stokkbrá hvernig umræðan var orðin. Einkum hve grímulaust sumir sigurvegarar þessara tilteknu kosninga töluðu hrokafullt um yfirburði síns eigin þjóðskipulags og trúar. Ég gat alveg með mínu gestsauga fundið ýmislegt athugavert við danskt samfélag, þannig er tilveran bara að ekkert samfélag er fullkomið og alltaf svolíitið hættulegt að vera með grjótkast úr glerhúsum.

Ef það er rétt að skopmyndadeilan, sem var svo sem ekkert fyndin, hafi haft þessi áhrif í Danmörku, að auka skilning á Islam, þá segi ég húrra fyrir því. Mér finnst það líka sanna að fáfræði sé uppspretta fordóma. Ég er ekkert að verja fordóma annarra í garð Dana, hvorki múslima né Íslendinga (má stundum passa mig sjálf, þótt kvart-Bauni sé). Það er ekkert einfalt mál að búa í friðsömu fjölmenningarsamfélagi. Bendi á að fullt af Evrópubúum (sem eflaust eru flestir kristnir) hafa valið að setjast að í múslimalöndum, til dæmis í Egyptalandi og Saudi Arabíu, svo ég nefni tvö ólík samfélög. Þeir ætlast til að njóta skilnings þar og eru kannski frekar ósáttir við það þegar þeirra eigin heilögu gildi eru fótum troðin, svo sem kvenréttindi og mannréttindi (!! - ennþá haf þessi tvö orð mismunandi merkingu - er það ekki merkilegt!?!).

Ég ætla rétt að vona að við Íslendingar sleppum við að fá það andrúmsloft tortryggni og skilningsleysi sem gætti í Danmörku fyrir nokkrum árum inn í okkar litla og fallega heim.


mbl.is Skopmyndadeilan hefur haft jákvæð áhrif á samskipti Dana við múslíma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líka hætt í menningarbindindinu, sem betur fer, ljósmyndasýning Soffíu rokkar

Þessi ár sem ég var í pólitísku bindindi var ég líka í menningar- og félagsbindindi, sem ég hélt að vísu misvel. Núna er ég farin að dreypa á smá menningu, þótt í hófi sé. Skrapp á opnun á ljósmyndasýningu Soffíu Gísladóttur sjávarmegin í Hafnarhúsinu áðan. Þarna er grafíkfélagið með lítinn og skemmtilegan sýningarsal, alveg passlegan fyrir myndirnar hennar Soffíu. Þetta er góð sýning, umhverfið betra en á seinustu sýningunni hennar sem ég sá á Sólon. Sýningin er vel þess virði að skoða hana og ég féll sérstaklega fyrir myndinni af manninum sem er að spila pool. Þeir sem líta þarna við (opið frá fimmtudegi til sunnudags) skilja ábyggilega hvað ég meina.


,,What's so funny about peace, love and understanding?"

Einhvern tíma á áratug pönksins og uppanna, áttunda áratugnum, sendi Elvis Costello frá sér plötu sem innihélt lagið: ,,What's so funny about peace, love and understanding?" Lagið er reyndar bara þokkalegt, en titillinn hefur alltaf af og til minnt á sig. Það eru sem betur fer heldur hagstæðari tímar fyrir umræðu um frið, ást og skilning nú en á áttunda áratugnum, þegar svoleiðis þótti bara hreinlega lúðalegt. Andrúmsloftið núna er andrúmsloft mikillar gerjunar, það er öflug friðar- og umhverfisumræða í heiminum en á meðan jafn svæsin hernaðarhyggja og fyrr og það sem hefur versnað er að nú ráða ríkjum ofsatrúarhópar með Bush í broddi fylkingar fyrir vestan og Bin Laden (væntanlega) fyrir austan. Stríðið í Írak á sér sífellt færri talsmenn en ekkert virðist geta stoppað hernaðarhyggjuna og nú eru vaxandi viðsjár í samskiptum við Íran. Þess vegna finnst mér svolítið hressandi að skoða slides-show frá Teheran með undirleik Cat Stevens, sem nú heitir Yussuf Islam. Þeir sem vilja kíkja geta farið á vefsvæði Ólafs Arasonar og kannski hreyfir þessi hversdagslega myndaröð við einhverjum eins og hún hreyfði við mér: www.olafura.com

Þarf að hugsa stjórnmálin og samfélagið upp á nýtt?

Mér hefur alltaf þótt það frekar hrokafullt að halda að einmitt núna sé samfélagsgerðin nákvæmlega eins og hún á að vera. Rétt eins og ég sætti mig ekki við þá hugsun að vísindin séu á þessu stigi ,,rétt" eða sagan sé ,,sönn". Saga vísindanna og reynsla sögunnar hefur reyndar afsannað þetta æ ofan í æ, en samt heyrum við þetta bull aftur og aftur, einmitt núna eru vísindin hafin yfir alla gagnrýni og geta í hæsta lagi tekið við einhverjum viðbótum af þekkingu, en ekki leiðréttingum. Á sama hátt eru sett allt of fá spurningamerki við grundvallaratriði samfélagsins eins og lýðræðið og kapítalismann. Allt of oft heyrist: Við höfum ekkert skárra en lýðræðið ( - í núverandi mynd - er þá átt við) eða að fall kommúnismans í Austur-Evrópu er notað sem rök fyrir ágæti kapítalismans. Hvar er metnaðurinn í svona hugsun? Eitt sinn sagði Halldór Laxness af öðru tilefni eitthvað á þessar leið: Eigum við ekki að hefja umræðuna á hærra plan, uh? Nokkuð góð setning. Woundering

Úr kjötbollublogginu yfir í hringiðuna

Eftir rúmlega tveggja ára kjötbollublogg á öðru indælu bloggsvæði er orðið tímabært að blanda sér í þjóðmálaumræðuna. Það er svo margt að gerast í samfélaginu að ég get einfaldlega ekki setið hjá lengur. Þessi vettvangur virðist virka Wink. Vinir mínir finna mig áfram á gamla blogginu og það verður áfram fréttaveita af fjölskyldu, vinum og kunningjum með ívafi stórra skoðana á litlum málum. Eða eins og Norðmaðurinn sagði við konuna sína: Konan mín tekur allar smærri ákvarðanir á heimilinu, eins og um húsakaup, bílakaup, barneignir og sumarleyfi en ég tek allar stærri ákvarðanir, eins og hver afstaða okkar til til skattamála, Evrópusambandsins og utanríkismála er. Þetta blogg er sem sagt hliðstætt kallinum ;-)


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband