Allt getur gerst
10.2.2007 | 12:31
Gat í glerþakið
9.2.2007 | 20:42
Biblían, tölvunarfræðin og kannski bráðum lagasafnið líka
9.2.2007 | 17:27
Gaman að heyra af því að gera á þessar breytingar á biblíuþýðingunni, hætta að ávarpa kristið fólk í karlkyni eingöngu. Það hafa verið gerðar ýmsar skemmtilegar tilraunir til að breyta karlmiðuðu tungutaki á undanförnum árum. Ég hef lúmskt gaman af þeim tilraunum sem ganga lengst í þeim efnum, einkum vegna þeirra hörðu viðbragða sem þær vekja. Þegar Auður Eir fór að segja: Hún guð! þá urðu margir óskaplega hneykslaðir. Ég hlakka til að sjá í hvaða kyni guð verður í næstu biblíuútgáfu, verður gengið svo langt að hafa guð í hvorugkyni?
Annars hef ég orðið vör við tilraunir til að leiðrétta hefðbundnar ímyndir í tungumáli á óvæntustu stöðum. Tölvunarfræðin er mikið karlafag enn sem komið er en ótrúlega margir höfundar bóka á því sviði hafa valið að kvenkenna alla sem vísað er til í bókum sínum og ekki eru manneskjur af holdi og blóði: Verkfræðingar, forritarar, verkefnisstjórar og fleiri eru allir ,,she" en ekki ,,he" eins og maður er vanastur. (Maður er vanastur ... ég veit að Rauðsokkur sögðu Konan er maður, en samt :-). Frá hinni yndislegu bók: The joy of Linux til Contextual Design með viðkomu í ótal bókum og tímaritsgreinum. Þarna er ráðist gegn þeirri viðteknu hugsun að ,,normið" sé karlmaður og frávikið kona. Oddur Benediktsson prófessor í tölvunarfræði gekk reyndar svo langt að reyna að hafa sama háttinn á þegar hann var að kenna kúrs í Gæðastjórnun í hugbúnaðargerð í meistaranámi háskólans, en eftir áratuga uppeldi við annað tungutak er þetta ekkert auðvelt. Búin að lofa sjálfri mér að grufla aðeins meira í þessu þegar ég er búin að berjast í gegnum seinustu stærðfræðina sem bíður mín.
En hvenær ætli lögin endurspegli þá staðreynd að bæði konur og karlar eru hluti samfélagsins? Man eftir rimmu í lagasetningu um kynferðisofbeldi þar sem ekki var hægt að hagga þeirri orðnotkun að nauðgun fælist í að maður beitti annan mann ofbeldi. Við sem vildum breyta þessu og nota til dæmis orðið manneskja í staðinn fengum liðsstyrk úr óvæntri átt, Eykon (Eyjólfur Konráð Jónsson heitinn, Sjálfstæðisþingmaður) sagði þá að honum þætti miklu manneskjulegra að nota okkar orðalag. En auðvitað var ekki eytt miklum tíma í þennan hluta umræðunnar, því hversu mjög sem hún skipti máli, þá voru þó lagabæturnar sem verið var að gera enn mikilsverðari.
Þótt ég kunni enga algilda lausn í þessum efnum þá held ég að samhengið verði að ráða mestu. Í lagatextanum skaut þetta skökku við, kona og karl hefði verið nákvæmara og manneskja ásættanlegt. En ég er ekki búin að venja mig af því að segja: maður segir ... og langar ekki að dauðhreinsa málið. Þannig að ég held ég skilji hvað við er átt með orðalaginu ,,þar sem því verður við komið" í fréttinni um biblíuna. Alla vega vona ég það.
![]() |
Biblía 21. aldarinnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:50 | Slóð | Facebook
Sólarlandaferðir og vímulaus elli
9.2.2007 | 01:36
Eftir að hafa látið mig dreyma um það í fjölmörg ár að komast í vetrarfrí í sólina þegar kuldinn og hálkan eru að hrella mig á morgnana, þá vildi svo til fyrir sjö eða átta árum að ég lenti af tilviljun í sól og sumri um miðjan vetur, á suðlægum slóðum (vinnuvélasýningu í Las Vegas). Síðan varð ekki aftur snúið og nú er aðalsumarleyfistími okkar Ara míns á veturna - Las Vegas hefur að vísu ekki verið heimsótt aftur, en þess í stað höfum við leitað á önnur mið. Á sumrin er svo hægt að taka styttri frí hér heima sem koma restinni af sumarleyfisdögunum léttilega í lóg.
Sólarlandaferðir á Íslendingaslóðir á Kanarí (engu ómerkilegri en Íslendingaslóðir í Kaupmannahöfn) eru skemmtilegt fyrirbæri. Eiga í rauninni ekkert sameiginlegt með því að ferðast til útlanda. Ferðalög eru líka skemmtileg, en þau eru bara allt annað fyrirbæri. Kanaríferðir minna meira á þjóðflutninga þrákálfa sem nenna ekki að elta stopula sólina á sumrin, en finnst samt þægilegt að vera á hlýjum stað í stuttbuxum og stuttermabol einhvern hluta ársins. Þetta eru ferðir í betra loftslag, félagsskap eftir því sem hverjum hentar og síðan gerir hver það sem henni og honum þykir skemmtilegast. Þannig lærði ég þythokkí í fyrra og sú sem kenndi mér var nýskriðin á áttræðisaldurinn en núna býst ég við að komast í tívolí í fyrsta sinn, vegna þess að systursynir mínir verða á sama tíma og við á ferðinni. Gamlar fermingarsystur, vinir, kunningjar, ættingjar, vinir vinanna og kunningjar kunningjanna mynda misstóran hóp sem hittist yfir góðri máltíð á kvöldin eða situr á útikaffihúsi eða bar fram eftir kvöldi, spilar pool eða lyftir glasi. Sumir iðka golf eða tennis, aðrir aðallega glasalyftingar. Sögur eru um sóldýrkendur með eldspýtur á milli tánna, en þá hef ég ekki séð enn. Sumir metast um sólbrúnkuna meðan aðrir stæra sig af því að ganga lengri vegalengdir en aðrir, gera betri kaup eða borða betri mat en allir hinir. En flestum er slétt sama og skilja metinginn eftir heima.
Tengdafaðir minn, sem átti það til að lauma góðum athugasemdum að mér hnippti eitt sinn í mig þegar við vorum á rölti á Kanaríeyjum og spurði, sakleysið uppmálað: ,,Skyldi ekki vera þörf á því að stofna Vímulausa elli hérna?" Athugasemdin kom til aðallega af tvennu: Af gefnu tilefni þar sem fjöldi eldri borgara sækir í sólina á veturna og sumir þeirra detta rækilega í það, hvort sem það er vegna þess að þeir eru lausir undan vökulu auga barnanna sinna eða vegna þess að þeim er í blóð borið að spara, og dropinn er ódýrari þarna en heima. Eða eru bara hreinlega óþurrkaðir alkar (hinir komast á AA fundi). Hin ástæðan var reyndar sú að ég hafði þá um nokkurt skeið starfað með samtökunum Vímulaus æska og honum fannst það frekar forvitnileg hlið á tengdadótturinni. En á Kanarí er ég í fríi og stofna engin samtök.
Eftir smá tíma þar hellist slökunin yfir mig, langir göngutúrar um fallegt umhverfi, tennis eða minigolf og sífellt færri ferðir á netkaffið, strætóferðir í nágrannaþorpin og notalegar stundir á kvöldin með vinunum skila manni úthvíldum heim eftir tvær eða þrjár vikur. Vægir fordómar mínir í garð sólarlandaferða af þessu tagi hafa horfið eins og dögg fyrir sólu í bókstaflegri merkingu.
Líta stjórnvöld á efnahagslífið sem ,,extreme sport"?
8.2.2007 | 17:21
Það leikur enginn vafi á því að sjálfstæð efnahagsstefna Íslendinga hefur leikið lykilhlutverk í því að halda samfélaginu á floti meðan stjórnvöld hafa leikið sér við að skapa ofþenslu og hættulega sveiflur í efnahagslífinu. Ákvarðanir um stórframkvæmdir og ýmsar aðrar stjórnvaldsákvarðanir vekja hjá mér spurningar um hvort stjórnvöld líti kannski á efnahagslífið sem ,,extreme sport" (afsakið að íslenska þýðingin jaðaríþrótt nær ekki inntakinu).
Það er vissulega rétt hjá Davíð að með því að reka okkar eigin efnahagsstefnu og hengja okkur ekki utan í evruna hefur verið hægt að grípa til aðgerða til að draga úr skaðanum en betra hefði verið að setja þetta nauðsynlega stjórtæki í hendurnar á ábyrgari aðilum. Sjáum til hvernig næstu kosningar dæma efnahagsstjórina.
Þegar verið var að taka upp evruna innan Evrópusambandsins urðu fjölmargir til að vara við einmitt þessu atriði, að kippa svona mikilvægu stjórntæki úr höndunum á þjóðunum sjálfum og færa miðstýrðu yfirvaldi. Meðal þeirra voru allmargir þungavigtarmenn í Þýskalandi, menn sem að öðru leyti tóku ekki afstöðu gegn Evrópusambandinu. Flest þeirra orð eru enn í fullu gildi, sértækar aðgerðir gegn svæðisbundnu atvinnuleysi eru til að mynda torveldar í þessu miðstýrða efnahagstjórnunarumhverfi. Og þótt okkar efnahagsvandamál séu af öðrum toga veitir okkur sannarlega ekki af því að eiga eigin stjórntæki við öfgafullar aðstæður, hvort sem eru að mannavöldum eða annarra óblíðra afla.
![]() |
Davíð: Mesta furða hvað krónan hefur dugað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Framtíðarlandið og hægri grænir á þeysispretti
8.2.2007 | 02:16
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:36 | Slóð | Facebook
Hvernig ,,best" viljum við vera?
7.2.2007 | 15:42
Hvernig ,,best" viljum við vera? Best af því við erum fremst í flokki í umhverfismálum eða af því við bjóðum fyrirtækjum afslátt af umhverfisvernd? Best af því við bjóðum einstaklingum mestan jöfnuð í skattamálum eða af því við bjóðum fyrirtækjum hagstæðasta skattaumhverfið? Best af því við tryggjum öllum launþegum sanngjörn kjör, innlendum sem erlendum, eða af því við tryggjum fyrirtækjum lágmarkslaunakostnað?
Mér finnst við best af því við erum frjáls og sjálfstæð þjóð sem á samskipti og viðskipti við allar þjóðir en njörvum okkur ekki innan Evrópumúra. Mér finnst við best af því við höfum ekki enn spillt öllum okkar náttúrugæðum. Mér finnst við best af því við erum að hækka menntunarstig þjóðarinnar. Mér finnst við líka best þrátt fyrir ýmislegt sem aflaga fer. Það er bara viðfangsefni til úrlausnar.
![]() |
Er Ísland best í heimi? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:25 | Slóð | Facebook
Salt í sárin og ,,þetta sagði ég þér"
7.2.2007 | 01:38
Hefur ykkur ekki oft langað að segja: Þetta sagði ég þér! þegar einhverjir eru loksins að átta sig því sem þið eruð búin að segja þeim hundrað sinnum? Og vantar ekki stundum vettvang til að dvelja aðeins lengur við einhver afglöp sem einhver hefur gert sig sekan um? Í samræðum við góða vinkonu mína, sem nú er reyndar að nálgast áttrætt, spratt eitt sinn upp sú hugmynd að halda saman smá yfirliti yfir allar þessar ,,þetta sagði ég þér" stundir lífsins - og þá er ég að tala um í pólitík, NB.
Það er auðvitað alltaf umdeilanlegra hvort við hæfi sé að nudda salti í sárin. Lifandi dæmi ætti að skýra mál mitt aðeins betur. Frjálslyndir héldu að hljómgrunnur fyrir rasisma-daðri þeirra mundi færa þeim fylgisaukningu í það óendanlega í skoðanakönnunum. Brotthvarf Margrétar og hennar hóps átti nánast engu máli að skipta. Þá sagði ég á hinu blogginu mínu að þetta yrði þeim dýrt. Svo þegar ég ég sá nýjustu könnunina í Blaðinu í morgun rann upp hið dæmigerða ,,þetta sagði ég þér" augnablik. Ef ég bít nú hausinn af skömminni einhvern tíma á næstunni og ný þeim þessu um nasir af einhverju (eða engu) tilefni, þá flokkast það undir ,,salt í sárin." Mér finnst, eins og fleirum, að gott fólk innan Frjálslynda flokksins hafi aðeins látið blekkjast af því nýja afli sem stormaði inn í samtök þeirra. Þótt ég deili ekki pólitískum skoðunum með flokknum þá hef ég haft ágæt kynni af fólki úr röðum hans og því hefði ég alveg getað unnt flokknum þess að sleppa við þessar hremmingar. Kannski er það ekki pólitískt klókt að láta sér annt um aðra flokka en sinn eigin, en það verður bara að hafa það. Ég vil engum flokki það að feta í fótspor norrænna rasistaflokka og óttast að ákveðin öfl innan Frjálslyndra stefni þangað.
Boða hér með sérstakar síður á þessu bloggsvæði sem munu heita: ,,Salt í sárin" og ,,Þetta sagði ég þér" sem verður haldið úti með óreglubundnum hætti og hefja göngu sína þegar þurfa þykir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:43 | Slóð | Facebook
Aumingjaskapur að líða að níðst sé á börnum
6.2.2007 | 13:05
Umfjöllunin um Breiðavíkurheimilið hefur vakið mikil viðbrögð og hollt að draga svona þaggaðar staðreyndir úr fortíðinni fram í dagsljósið. Umræðan hér á Moggablogginu hefur verið lífleg og nægir að nefna ágæta umfjöllun sem Salvör Gissurardóttir hefur verið með á sínni síðu í tvígang.
Það er þessi þöggun sem er hættulegust alls en ég held að þjóðin sé að taka við sér. Það er ekki lengur þagað þunnu hljóði yfir því að hæstaréttardómarar kveði upp óafsakandi vægan dóm yfir kynferðisbrotamanni sem níðst hefur á ungum stelpum. Það er ekki lengur þagað yfir ljótum dæmum um kynferðismisnotkun og/eða sifjaspell, þökk sé Thelmu Ásdísardóttur, Bylgju Sigurjónsdóttur og fleiri ungum hetjum sem opnað hafa þá sársaukafullu umræðu. Það er ekki lengur þagað yfir hlutskipti fjölskyldna fíkniefnaneytenda, þökk sé hetjunum í Foreldrahúsinu.
Þöggunin er hættulegust. Í nokkur ár naut ég þeirra forréttinda að vera í lausamennsku sem blaðamaður og vann einkum blöð fyrir ýmis félagasamtök. Þá fékk ég tækifæri til að koma á framfæri efni frá ýmsum aðillum í samfélaginu sem ekki áttu endilega upp á pallborðið á þeim tíma. Eitt það eftirminnilegasta var blaðið sem ég ritstýrði fyrir Kvennaathvarfið sem þá var frekar nýtt, en áður hafði ég tekið hringborðsumræður um þau málefni og unnið fyrir Vikuna. Stígamót voru ekki komin til skjalanna á þessum tíma og lítil umræða um hlutskipti barnanna í Kvennaathvarfinu. En í þessu blaði var sjónum beint að því málefni. Mér er sérstaklega minnisstætt þegar Ingibjörg Georgsdóttir barnalæknir, sem þá var nýkomin frá Kanada, margendurtók að hægt væri að koma í veg fyrir ofbeldi og sifjaspell í fjölmörgum tilfellum, bara með því að opna umræðuna. Með því að sætta sig ekki við þöggun. Með því að tilkynna (eins og lög kveða á um) ef minnstu grunsemdir vakna um misnotkun á börnum. Með því að hætta að þegja. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar en enn eru þeir til sem reyna að þagga þessa umræðu, með vægum dómum, véfenginum á sannleiksgildi framburðar barna og ýmsu öðru. Ég held að þjóðin sætti sig ekki við slíka þöggun.
Það er líka verðmætt skref fram á við að fara nú að fjalla um hlutskipti barna sem ekki hafa getað varið sig í umhverfi ókunnugra. Fyrst kom upp sterk umræða um hlutskipti heyrnarlausra barna, ömurlegt dæmi um þöggun. Breiðuvíkurmálið er annað dæmi um meðvitaða þöggun. Kannski er Byrgismálið þriðja dæmið, mér finnst menn ef til vill hafa meiri áhyggjur núna af peningunum en konunum sem í hlut áttu, en það er önnur saga. Gætir kannski fordóma í garð ,,þessara kvenna"? Og hver er sagan að baki neyslu þeirra og þess að þær eru svona auðsótt fórnarlömb? En umfjöllun ffjölmiðla er að minnsta kosti hetjuleg tilraun til að rjúfa þetta samsæri þöggunar og það er vel. Heiður þeim sem heiður ber.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:25 | Slóð | Facebook
Gaman að vera vinstri græn
6.2.2007 | 11:41
Get ekki annað en glaðst yfir góðu gengi flokksins míns, Vinstri grænna. Skilaboðin til stjórnvalda eru skýr - gildi okkar hafa náð hljómgrunni. Mér finnst sérstaklega vænt um að sjá allan þennan fjölda hugsjónakvenna slá i gegn í VG, sem eru hver annarri hæfari og baráttuglaðari. Forvalið hér á suðvesturhorninu var greinilega þeirra stund og þjóðin virðist ákveðin í að skila þeim sem flestum á þing og reyndar feministum af báðum kynjum.
Varðandi gott gengi Sjálfstæðisflokksins þá held ég að þar njóti hann nýs fólks sem gefur sig út fyrir að tala fyrir mýrki gildum og meiri umhverfisvernd en áður. Einnig þess að takast að firra sig ábyrgð á flestu því sem aflaga hefur farið að undanförnu en njóta þess sem skárra hefur verið. Og svo er þetta einfaldlega flokkur með ótrúlega mikið af ,,af því bara" fylgi.