Ætlaði alltaf að fara snemma á eftirlaun og skrifa glæpasögur
9.11.2020 | 00:42
Góðu fréttirnar fyrst: Í byrjun nýs (og betra) árs, 2021, kemur út fyrsta glæpasagan mín hjá forlaginu Sæmundi. Við erum tímanlega með hana tilbúna í prentun, sem er gott á þessu makalausa ári 2020.
Vinnufélagi minn sagði eitt sinn við mig, þegar ég sagði að ég stefndi á ,,early retirement": ,,How early is early?" Meiningin var að fara að skrifa glæpasögur og helga mig því það sem eftir væri ævinnar og flækjast aðeins um heiminn í leiðinni. Mér tókst alla vega að fara aðeins fyrr á eftirlaun en gengur og gerist hér á landi, var aðeins 65 ára þegar ég neyddist til að drífa mig á eftirlaun, vegna annríkis. Það vor, 2018, var ég að fylgja tveimur bókum mínum eftir í útgáfuferli. Hvorug þeirra var glæpasaga. Nú, næstum þremur árum síðar, er mín fyrsta að koma út, önnur í vinnslu, þriðja og fjórða mótaðar í kollinum en það er mikið verk að skrifa. Fullyrði ekkert um hvort þær koma í kjölfarið, það bara kemur í ljós.
Skrifaði mína fyrstu glæpasögu þegar ég var tólf ára, lesandinn var Amalía vinkona mín og hún vildi að ég skrifaði fleiri. Það dróst aðeins. Ég verð eiginlega að muna að senda henni eintak af glæpasögu nr. 2. Af þeirri nr. eitt man ég ekkert nema að söguhetjurnar hétu Ína og Ída, og að ég myndskreytti bókina. Núna er ég reyndar að myndskreyta bók sem kemur út seinna á næsta ári, en hún er eftir allt annan höfund og næstum alveg glæpalaus. Þannig að ég er búin að skipta gömlu aðferðinni minni upp í tvo verkþætti.
Var að fá tillögu að kápumynd á mína (glæpa)sögu og er mjög hrifin, gaman að sjá hvernig aðrir upplifa frásögnina mína. Auðvitað hafa fyrri bækurnar mínar líka farið í hendur fagfólks með góðum árangri, en það er svolítið annað.
Meira um þessi ævintýri þegar nær dregur.
Ef covid lokar sýningu þá er bara að opna hana á netinu
7.10.2020 | 18:09
Á laugardaginn var fagnaði ég opnun sölusýningar minnar, Á LEIÐINNI, í Bókasafninu í Kópavogi í góðum sal og fínu umhverfi. Þar sýni ég vatnslitamyndir og brot af eilífðar myndverkinu Bleik hús, sem er ljósmyndaverk með 214 húsum (af hundruðum).
Í dag þurfti að loka safninu, og þar með sýningunni, vegna covid, alla vega til 19. október. Ráðagóðir félagar mínir hafa verið að bregðast við áhrifum covid á þeirra sýningar með því að skella þeim á netið og það gerði ég.
Verið velkomin að skoða vefútgáfu sýningarinnar, Á LEIÐINNI, og síðan mun ég láta vita þegar/ef hún hefur verið opnuð aftur. Á þessum skrýtnu tímum er best að fullyrða sem minnst, en að sjá sýningu heildstæða hefur alltaf ákveðinn sjarma.
Á meðan þetta:
Ekki búið fyrr en það er búið ...
30.4.2020 | 01:47
Hunskaðist heim á fjórða degi úr langþráðu tveggja vikna ferðalagi, sem ég hafði í tvígang slegið á frest af gildum ástæðum. Síðan eru hundrað ár, enda var þetta 15. mars síðastliðinn. Nú stend ég mig að því að velta fyrir mér ýmsum ferðamöguleikum. Það er ekki af fórnfýsi, prívat og persónulega mun ég ekki megna að endurreisa ferðaiðnað heimsins. Hins vegar eru vísbendingar um að einhvern tíma muni fólk aftur fara að ferðast og ég hef hug á að taka þátt í því. Óvissan er þó svo mikil að engar áætlanir væru raunhæfar á þessu stigi. Óvissan snertir ferðatíðni, verðlagningu, sóttkví og önnur nauðsynleg úrræði gegn því að veiran nái sér aftur á strik. Leyfi mér að snara enskum frasa sem mig grunar að mörgum komi í hug um þessar mundir: Þetta er ekki búið fyrr en það er búið ...
... vil sigla og hlýði þeim byr sem gefst
3.1.2020 | 00:00
Ætla má að ákvörðun um að fara á eftirlaun, jafnvel ,,of snemma", hafi í för með sér fyrirsjáanlega atburðarás. Sú varð ekki raunin hjá mér. Í fyrsta lagi varð ég að hætta rúmi ári fyrr en ég ætlaði vegna annríkis í öðrum, launuðum og ólaunuðum, verkefnum. Í öðru lagi þá hef ég alls ekki haft eins mikinn tíma til að spila golf og ég hafði séð í hillingum, þannig að forgjöfin mín haggast ekki á meðan. Og í þriðja lagi þá hef ég enn einu sinni sogast inn í myndlistariðkun en þegar slíkt hefur gerst á ævitetrinu mínu, þá hefur það alltaf endað með því að myndlistin hefur náð yfirhöndinni yfir flestu öðru sem ég tek mér fyrir hendur. Vissulega hugsaði ég gott til glóðarinnar að geta aftur tekið upp þráðinn þar sem ég skildi hann seinast við mig fyrir hartnær tíu árum, en fyrst ætlaði ég að klára nokkur aðkallandi verkefni. Nú eru þau unnin í hálfgerðum hjáverkum og ég geri það sem ég verð að gera, í þetta sinn fæ ég útrás í vatnslitnum, sem alltaf hefur verið hálfgerð afgangsstærð í minni myndlist, nema ef vera skyldi einhvern tíma rétt fyrir árþúsundamótin.
Myndlist er ekki og hefur aldrei verið ,,hobbý" hjá mér. Þau á ég mörg og vanræki þegar myndlistin togar. Lengi hef ég litið svo á að ég hafi, þegar ég hætti í Myndlista- og handíðaskóla Íslands 22 ára gömul, hafnað því að gera hana að ævistarfi. Það er ekki allskostar rétt. Líklega hef ég haft hana jafnt að ævistarfi og ef ég hefði ekki farið í annað nám og starfað á þeim vettvangi sem ég menntaði mig meira til og formlegar (í tvígang meira að segja). Telst svo til að ég hafi fengist í 17 ár við hvort, skrif (fjölmiðlun og sagnfræði) og tölvunarfræði, sem ég lærði um fimmtugt. Og þar á milli fjölskylda og pólitík. En setjum svo að ég hefði ákveðið að helga mig listinni, klára MHÍ og hvað? Lifa á listinni það sem eftir er ævinnar? Ætlast til að mér yrði ,,haldið uppi" svo ég gæti þóst lifa á listinni? Það fyrrnefnda var svo sem ekki útilokað, en beið aðeins örfárra okkar sem vorum í MHÍ á minni tíð. Það síðarnefnda hefði ég aldrei sætt mig við. Þess í stað hef ég tekið mjög öflug tímabil á ævinni, þar sem myndlistin hefur verið í forgangi, gefið svo í í öðrum verkefnum á milli og safnað kröftum í næstu átök. Sótt mér heilmikla myndlistarmenntun í viðbót, en í skorpum. Haldið sýningar hist og her og sýnt talsvert með öðrum með misformlegum hætti. Og nú er ég komin aftur á fullt, var að setja upp sýningu og önnur seint á árinu, einhverjar samsýningar sjálfsagt, lífið er skemmtilegt.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 00:02 | Slóð | Facebook
La Palma sögð vera brattasta eyja í heimi
1.4.2019 | 19:47
Þessi eyja er kölluð ýmsum nöfnum, Fagurey (La Isla Bonita) og eyjan græna, en mér finnst áhugaverðast að hún hefur verið kölluð brattasta eyja í heimi, og það er áreiðanlega ekki fjarri lagi. Meira að segja höfuðborg eyjarinnar er snarbrött.
La Palma er norðvestust Kanaríeyjanna og hér er lítil ferðamennska miðað við Gran Canaria, Tenerife og jafnvel Fuerteventura og Lanzarote. Helst er það göngu- og útivistarfólk og farþegar skemmtiferðaskipa sem koma hér við og svo alla vega ein áhugakona um litskrúðug hús (ekki bara bleik). Það er sú sem þetta ritar sem hoppaði upp í ferju, leigði sér furðulega þriggja hæða, þó ekkert stóra, íbúð við strandgötuna á góðu verði og dvelur hér í rúma viku. Áður var pínulítill bar í húsinu og eldhúsið á jarðhæð er barinn lítið breyttur, besta viðbótin er þó þvottavél. Best af öllu er miðhæðin, svefnherbergi/stofa, sem yndislegum gluggasvölum, en svalirnar sem taka hálfa þriðju hæðina á móti aukarúmi og sturtu, eru mjög furðulegar.
Árið 2017 voru skipulagðar ferðir á vegum Heimsferða hingað, en lögðust af eftir eitt tímabil, enda er áfangastaðurinn mjög ólíkur þeim Kanaríeyjum sem Íslendingar sækja til. Ekki veit ég hve margir lögðu leið sína hingað meðan uppá ferðir hingað var boðið frá Íslandi. Hins vegar eru beinar flugferðir á nýlega lengdan flugvöllinn ótrúlega strjálar, í nokkur ár var ein ferð í viku frá hvorri borg, London og Manchester, en nú eru ferðirnar orðnar tvær í viku frá London. Flug frá nokkrum borgum í Þýskalandi, vikulega hver, sýnist mér, reddar því að flesta eða alla daga er flug frá meginlandi Evrópu í boði og vikuleg flug frá Hollandi, Belgíu og Sviss finnast líka. Önnur flug eru innanlandsflug, til Spánar en þó aðallega til annarra Kanaríeyja. Flestir koma hingað hins vegar með ferjunni frá Los Cristianos á Tenerife, aðeins 3ja tíma sigling.
Höfnin í höfuðborginni, Santa Cruz de la Palma, á sér langa og merkilega sögu, því hún var mikilvægur tengiliður við karabíska hafið og Suður-Ameríku eftir ,,landafundina og skapaði mikinn auð á tímabili. Áhrifin frá karabíska hafinu þykja mjög sterk, og litskrúðugu húsin sem heilla mig svo mjög eru gott dæmi um það. Hér er líka talsverð tóbaksrækt í grennd við höfuðborgina, sem er einnig arfur frá þessum tíma.
Eyjan er mjög eldvirk og í raun er stór hluti eyjarinnar eldfjallahryggur. Margir hafa eflaust lesið um dómsdagsspár um að Cubre Vieja, gamli tindur (sem er gígaröð sem tekur um 2/3 hluta syðri hluta eyjarinnar) muni einhvern tíma í náinni eða fjarlægri framtíð springa og valda hamfaraflóðbylgju sem gæti lagt byggð við austurströnd Bandaríkjanna og stendur Evrópu að einhverju leyti, meðal byggða í hættu er New York og London. Skiptar skoðanir eru um hversu raunveruleg þessi hætta er hér og nú. Tvö meinleysislegri gos hafa orðið á síðustu áratugum, 1949 og 1971.
Ég er nokkuð viss um að La Palma er ekki allra, en hún er merkileg fyrir margra hluta sakir og rétt rúm vika ef mjög fljót að líða.
Borgirnar ,,mínar og skrýtin gleymska og smá Absalon
19.9.2018 | 23:51
Fyrsta borgin sem ég féll fyrir var París. Þá var ég sjö ára á ferð eftir hálfs árs dvöl á Spáni, þar sem ég hafði meðal annars komið til fallegu borgarinnar Granada, og einnig til Malaga og Madrid. Ólafur fóstri minn hafði komið átta sinnum til Parísar þegar hér var komið sögu og aldrei upp í Eiffel-turninn. Úr því var snarlega bætt. Eftir París tók við tveggja vikna dvöl hjá Fríðu ömmusystur á Vesterbrogade í Kaupmannahöfn, Tívolí með rússíbanaferð og gíraffahringekju. Kaupmannahöfn, borgin þar sem pabbi ólst upp, tikkaði ekki inn þá.
Fimmtán ára gömul var ég orðin ólm að komast til London. Þar voru Bítlarnir (þetta var 1967) og Carnaby Street. Hvers var frekar hægt að óska sér? Ég nurlaði saman fé með því að vinna í prentsmiðju allt sumarið (í pilsi og nælonsokkum) fyrir Lundúnaferð, en praktísk eins og alltaf, endaði ég á ódýrari ferð með Gullfossi, sem þá fór enn til Leith og Kaupmannahafnar, þetta var haustferð og sex daga stopp í Höfn. Mér þótti það súrt í broti, en ferðin var einfaldlega næstum helmingi ódýrari en hin heittelskaða Lundúnaferð sem beið enn um sinn. Þarna kynntist ég frábærri dóttur háseta á Gullfossi, Sirrý, og við stunduðum bæði Tívolí og skemmtistaðinn La Carrusell fram undir morgun, og stundum lengur, því þegar La Carrusell lokaði klukkan fimm á morgnana opnaði Jomfruburet á Strikinu. Seinasta kvöldið vorum við á ferð með íslenskum nýstúdentum minnir mig og fórum meira að segja á Club Six. Á La Carrusell var allt það besta spilað, sennilega hljómsveitir og ég tengi þetta við að uppgötva Eric Clapton, Small Faces (Itchyco Park) og fleiri sækadelic hljómsveitir. Á Club Six aftur á móti heyrði ég A Whiter Shade of Pale og mér fannst hann aðeins of slísí fyrir mig (eins og Jomfruburet, sem var leiðindastaður).
Merkilegasta upplifunin í þessari Kaupmannahafnarferð var þó þegar við Sirrý fórum á árabát um höfnina og ég var rétt sest undir árina öðru megin nálægt Knippelsbro þegar stór ferja kom blásandi með látum stormandi undir brúna (sem opnaðist fagurlega) og við rerum lífróður, bókstaflega, undan þessu ferlíki. Ég hægar en messaguttinn sem rerir á móti mér, en hann hafði vit á að fara á mínum hraða svo við færum ekki í hringi. Ævinlega þakklát fyrir það, hann varð ekki eigin kraftahroka að bráð, sem hefði geta verið hættulegt. Í sömu ferð á árabátnum sigldum við inn eftir skurðum eða síkjum og sáum yfirgefin hús eftir herinn. Þetta var skrýtin draugaborg sem seinna varð Kristjanía. Á þessum tíma voru hipparnir á Nikulais plads og ég var skíthrædd við þá, þeir voru virkilega skerí fyrir fimmtán ára stelpu sem þorði ekki einu sinni að drekka bjór. Við Sirrý keyptum flott flöt, satínblússur og stutt plíseruð pils og tvílita skó í stíl, hún í eplagrænum og grænum tónum og ég í appelsínugulum og brúnum.
Ári seinna var stoppið stutt í Kaupmannahöfn eftir sumardvöl í Osló, keypti notaðan pels í Nýhöfninni en þetta árið (1968) var Gullfoss farinn að leggja að nær henni. Mér fannst hún svolítið hættuleg að sjá. Gisti tvær eða þrjár nætur á KFUK með Sollu og Ernu, vinkonum mínum, sem voru að koma frá sumardvöl í Svíþjóð. Fór í Tívolí og í hangiróluhringekju í þetta sinn sem fór mjög hátt og ég gat snert trjágreinar með tánum.
Átján ára komst ég loks til London og gat ekki slitið mig frá henni, elska hana enn.
Næst gerði ég stuttan stans í Kaupmannahöfn þegar ég var orðin 22 ára, var á leið í heils mánaðar Evrópuferð og vantaði hvíta stúdentapassann sem tryggði mér hræbillegar lestarferðir um alla Austur-Evrópu. Ég keypti flug með Guðna í Sunnu til Kaupmannahafnar, en Sunna hafði ekki lendingarleyfi í Höfn í hvorugri leiðinni, svo við lentum í Hamborg og ég rétt náði að hirða upp passann áður en ég fór í lestina til Parísar þar sem foreldrar mínir biðu mín. Á bakaleið var sama sagan, stutt stopp, gisti eina nótt á Missionshotel Absalon og svo rúta til Hamborgar. En á ferjunni aðra hvora leiðina hitti ég reyndar tilvonandi tengdaforeldra mína og mág í fyrsta sinn, ekkert okkar vissi auðvitað um framtíðartengslin okkar, en tengdamamma fann þetta út.
Síðan kom ég ekki aftur til Kaupmannahafnar fyrr en 1987 eftir tveggja vikna Evrópuflakk að hausti, með mínum heittelskaða, en við enduðum í viku með systkinum hans og þeirra mökum og börnum í Kaupmannahöfn. Frábær dvöl. Danir eru svo ,,fornuftig sagði mágur minn með réttu, þau bjuggu þarna, ekki við. Þremur árum síðar, eftir hartnær mánaðar skútuflakk um sænsku vötnin og skerjagarðinn kynntum við krakkana okkar, þá 11 og 13 ára fyrir Tívolí í Kaupmannahöfn (ég varð hrædd/sjóveik í hringekjunni þá) og gistum á Absalon í tvær nætur, í stóru, snyrtilegu risherbergi. Þremur árum seinna lenti ég í átta stunda óvæntu stoppi í Kaupmannahöfn, traffíkin yfir Evrópu var í hámarki, og seinkun á flugi til Parísar, þar sem flugvél til Kamerún beið (varla) eftir okkur. Við vorum fjögur saman, við tvö sem fórum í bæinn og keyptum fóðraðar rússkinnsúlpur á krakkana okkar (og tókum með til Kamerún) og svo hinir, þessir skynsömu, sem keyptu sér svefnskápapláss sem þá var í boði á Kastrup (1993). Við sem fórum í bæinn vorum þreytt daginn eftir á ráðstefnu, en ég vakti þó.
Einhver smástopp átti ég í Kaupmannahöfn næstu árin, man eftir skemmtilegu kvöldi í Nýhöfninni sem þá var orðin falleg og einhverju fleiru, en alltaf á leið héðan og þaðan og aldrei beinlínis þangað. Svo í byrjun ágúst 2001 fór ég fyrir vinnuna í 2-3 daga til Kaupmannahafnar, þá var ég farin að vinna í hugbúnaðargeiranum. Þessir fyrstu dagar urðu 10 og frá 1. október þegar ég fór í aðra 2-3 daga ferð þangað var ég alltaf frá sunnudegi til fimmtudags að vinna í Kaupmannahöfn (Bröndby) nema í desember, þá hætti ég að koma heim á fimmtudagskvöldum, fyrr en 17. desember (en þá átti ég eftir að fara í tvö próf fyrir jól sem ég náði!). Það sem eftir lifði vetrar fór ég sjaldnar og næstu árin en stopulla, en þó man ég eftir einum degi þegar ég fór með morgunflugi á námskeið í Bröndby, skrapp svo í Tívolí og tók kvöldvélina heim. Ég var að vinna með yndislegum vinnufélögum að nánast óleysanlegu verkefni, eina vikuna var mér sendur Óli sonur minn mér til halds og trausts í tæknilegri hugbúnaðarprófanir, við unnum öll eins og þjarkar, en Danirnir sem við unnum með fórum heim klukkan fjögur á daginn.
Miðað við að við unnum oft til miðnættis (og sungum jafnvel eins og galeyðuþrælar eftir tíu á kvöldin) þá náðum við að fara á ótrúlega marga veitingastaði, suma mjög góða, og djamma alveg óheyrilega mikið, stundum lengur en til fimm á morgnana eins og þegar ég var fimmtán á La Carrusell. Held að það hafi verið Helle vinkona mín sem kynnti okkur fyrir áströlskum bar rétt fyrir neðan Strikið, sem var góður, við fórum líka á Fræbbbla-konsert, það var daginn sára þegar Íslendingar töpuðu 6-0 á Parken og ekki allir í jafn góðu skapi. Helle spurði varlega hvort Fræbbblarnir hefðu verið í löngu fríi, en ég sagði að söngvarinn hefði alltaf sungið svona. ,,Nú ... sagði hún.
Næst varð ég ástfangin af Hamborg, en kom þó reglubundið við í Kaupmannahöfn og fékk meðal annars eitt besta salat ævi minnar þegar við Elísabet systir héldum upp á stórafmæli hennar með einkaferð til Susse frænku helgarpart meðan ég bjó í Hamborg.
Allt þetta og ótal margt fleira rifjaðist upp fyrir mér þegar ég skrapp í örstutta Kaupmannahafnarferð (gist á 4* hótelinu Absalon) um daginn, eiginlega á því augnabliki þegar ég settist með Ara mínum á veitingahús á Vesturbrú, sæmilega þreytt eftir daglangt rölt um bæinn og fór að segja honum brot af því sem ég hef nú sett á blað. Nostalgían helltist yfir mig, allar góðu Kaupmannahafnarminningarnar sem ég á. Þarna á ég líka rætur, yndislega ættingja, hef rápað stefnulaust um æskuslóðir pabba án þess að átta mig á því, farið á flottan ballett (auðvitað í Tívolí) séð Victor Borge (en þá var ég bara sjö ára og ekkert svo sleip í ensku) og farið á yndislegar listsýningar í Glypotekinu og Louisiana. Öll skynsemi segir mér að ég ætti að eiga Kaupmannahöfn sem mína uppáhaldsborg, kannski uppgötva ég það einhvern tíma að hún er það, en þangað til: Halló London, Hamborg, Seattle, Montreal, Budapest, Singapore, Auckland ...
P.S. ef einhver er ósáttur við stafsetningu (skemmti)staðanafna þá er ég á skáldaleyfi í þetta sinn og fæ að hafa þetta svona. Stundum hef ég reyndar efast um að staðurinn hafi verið til (þessi rangt stafsetti) því enginn virðist muna hann nema ég, en hann VAR til:
https://www.setlist.fm/venue/le-carousel-copenhagen-denmark-3bd44c3c.html
Af því enginn spyr
16.5.2018 | 17:55
Orðið ansi langt síðan ég hef verið oddviti pólitísks lista, þannig að enginn hefur lagt fyrir mig þessar ljómandi skemmtilegu spurningar, svo ég geri það bara sjálf:
Hver er fallegasti staðurinn á Íslandi?
Jökulsárlón á góðum degi án túrista.
Hvar á Íslandi myndir þú helst vilja búa? (Fyrir utan eigið sveitarfélag)
Reykjavík.
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?
Smjörsteiktur, ferskur aspas.
Hvaða mat ert þú best/ur að elda?
Flókinn eggjakökurétt sem byggðist upphaflega á smá misskilningi milli mín og matreiðslubókar Helgu Sigurðardóttur.
Uppáhalds guilty pleasure lag?
Öll Monkees lögin.
Hvað er það vandræðalegasta sem komið hefur fyrir þig, sem segja má frá?
Þegar ég var send á Hótel Sögu að dekka einhvern atburð, nýbyrjuð í blaðamennsku, lenti í vitlausu partíi án þess að átta mig á því strax. Endaði með því að dekka bæði rétta og ,,vitlausa viðburðinn, en sá vitlausi var alls ekkert fréttaefni.
Draumaferðalagið?
Hef einu sinni farið umhverfis jörðina, væri mjög vel til í að endurtaka það með allt öðrum viðkomustöðum að hluta og eitthvað af siglingum og lestarferðum inniföldum
Trúir þú á líf eftir dauðann?
Útiloka ekkert.
Besti hrekkurinn sem þú hefur gert eða lent í?
Þegar ég var 18 ára í Bretlandi og orðin leið á asnalegum spurningum um eskimóa og snjóhús. Endaði með því að segjast búa á áttundu hæði í snjóhúsablokk, með lyftu upp og rennibraut niður og bullið var reyndar lengra, en þetta dugar.
Hundar eða kettir?
Kettir.
Uppáhalds guilty pleasure bíómynd?
27 dresses (hér þurfti ég að gúggla hvort þeir væru 49 eða 29).
Hvaða leikari ætti að leika þig í bíómynd?
Meryl Streep, hún getur leikið alla.
Í hvaða Game of Thrones ætt værir þú og af hverju?
Bolholtsættin, það á eftir að skrifa hana inn í seríuna.
Hefur þú verið tekin/n af lögreglunni?
Já, snemma árs 1972 þegar ég stóð fyrir utan Dómkirkjuna að spjalla ásamt þáverandi kærasta og nokkrum öðrum Fylkingarfélögum. Við sáum ekki framhlið Alþingishússins, en heyrðum allt í einu brothljóð. Herranætur-hópur þaut í ofboði í burtu með Árna Johnsen og gítarinn hans í fararbroddi (ekki í MR þá). Frétti síðar hver braut rúðuna, Árni er saklaus. Hálftíma seinna (!) kom löggan, tróð okkur aftur í löggu-fólksbíl og keyrði með okkur á lögreglustöðina á horni Pósthússtrætis og Hafnarstrætis. Þar var okkur haldið í tæpan klukkutíma í leiðinlegum félagsskap á hörðum bekkjum, enginn talaði við okkur og okkur var síðan sleppt.
Uppáhalds tónlistarmaður?
Leonard Cohen.
Uppáhalds bókin?
Blótgælur, fyrsta ljóðabók Kristínar Svövu Tómasdóttur.
Uppáhalds föstudagsdrykkur?
Hér var ekkert svar, sem getur alveg staðist, en ætli ég segi ekki Sítrónu-smoothie frá Joe and the Juice. Hann rennur. Að vísu dottinn af matseðlinum, en hef samt fengið hann sérlagaðan.
Uppáhalds þynnkumatur?
Vatn, áður en ég fer að sofa, sofna ekki fyrr en ég finn að það er farið að virka.
Þegar þú ferð í fríið, sólarströnd eða menning?
Hvort tveggja.
Hefur þú pissað í sundlaug?
Nei.
Hvaða lag kemur þér í gírinn?
Itchycoo park
Er eitthvað smávægilegt sem farið hefur í taugarnar á þér í þínu sveitarfélagi sem þú vilt laga?
Veðrið í dag.
Á að banna flugelda?
Nei.
Hvaða landsliðsmaður í knattspyrnu værir þú og af hverju?
Gylfi Sigurðsson, af því mig langar það.
Notendaviðmót: Þegar tölvan segir ekki nei, heldur Gaggalagú
19.10.2017 | 17:05
Margir þekkja dásamlega setningu úr sjónvarpsþáttunum Little Britain: The computer says no.
Hversu oft höfum við ekki lent í því að allt í einu er ekki hægt að leysa einföldustu mál, af því ,,tölvan" getur það ekki? Rakti um daginn dæmi þar sem ekki var hægt að leiðrétta falskt (allt of hátt) verð sem blasti við í afgreiðsluborði af því tölvan (sem var búðakassi í þessu tilfelli) vildi það ekki, og afgreiðslustúlkunni var slétt sama.
En stundum eru allir starfsmenn af vilja gerðir að hjálpa (og leysa málin) en einhver hefur útbúið notendaviðmót þannig að það er nánast útilokað að klóra sig í gegnum það og leiðin að því að komast í tæri við starfsmann er gríðarlega erfið. Af því mér er nú einstaklega hlýtt til þess fyrirtækis sem á í hlut og búin að láta þá tvo starfsmenn vita, sem ég á endanum komst í tæri við, þá hef ég gert lítils háttar breytingar á valkostunum sem fyrir hendi voru. Sorglega litlar reyndar.
Þetta snerist um eina, pínulitla, breytingu á skráningu. Í hlut átti ættingi minn sem er afskaplega tölvu- og símafær og eftir að hún hafði barist við kerfið í 4 klukkutíma og haft sigur, þá stóð á aðeins einu: Ég þurfti að samþykkja breytinguna á skráningunni. Hér er það sem gerðist næsta klukkutímann:
- Síminn hringir í vasanum á mér þegar ég var að keyra. Ég svara aldrei síma þegar ég er að keyra.
- Sé að það hefur verið hringt úr þjónustunúmeri.
- Sé sms frá ættingjanum sem í hlut á á þá leið að kona ætli að hringja í mig til að fá téða staðfestingu.
- Hringi til baka í þjónustunúmerið. Fæ fimm valkosti, enginn þeirra neitt nálægt því að passa við erindið. En ákveð að veðja á einn þeirra. Fæ skilaboð: Þú ert númer fimm í röðinni. Hvern langar að vera númer fimm í vitlausri röð? Legg á.
- Hringi í annað númer sama fyrirtækis. Fæ sömu fimm valkosti. Þeir hefðu alveg eins getað verið þessir:
- 1. Ef þig langar að klífa Everest, ýttu á 1.
- 2. Ef þig vantar svar við lífsgátunni, ýttu á 2.
- 3. Ef þú veist ekki hvaða skónúmer þú notar, ýttu á 3.
- 4. Ef þú vilt fá uppskrift af Tiramisu, ýttu á 4.
- 5. Ef þú vilt fá svar við öllum þessum spurningum á ensku, ýttu á 5.
- Svo beið ég eftir að fá lausnina: Ef ekkert er valið, færðu samband við skiptiborð. En þessi skilaboð komu aldrei, frekar en í þjónustunúmerinu, enda nákvæmlega sömu skilaboð. Mér skilst reyndar að margir velji það að fá að spjalla við einhvern á ensku þegar hér er komið sögu, af því þar eru skilyrðingarnar ekki eins þröngar og í hinum valkostunum, krefst aðeins enskukunnáttu. Datt það ekki í hug nógu fljótt.
- Það var líka hægt að skilja eftir skilaboð, og það gerði ég, sagði nafn mitt og símanúmer og nafnið á konunni sem hafði hringt í mig, af því það vissi ég úr sms-i ættingjans.
- Mig grunaði samt að ekkert myndi gerast, þannig að næst ákvað ég að fá samband við þjónustufulltrúa í gegnum netspjall. Því miður fékk ég nokkurn veginn sömu valkosti þar og í símanúmerunum tveimur. Reyndi fyrst einn valkost. Tenging hafði ekki tekist eftir nokkrar mínútur (tengistika í álverslitunum eina lífsmarkið). Þá reyndi ég næsta. Þar þurfti ég alla vega bara að bíða í nokkrar mínútur. Ekkert um að allir þjónustufulltrúar væru uppteknir. En svo kom þessi indæli maður í netspjallið og kynnti sig og spurði hvað hann gæti gert fyrir mig. Fundið þessa konu, sem ég nefndi með nafni. Já, hann var sko til í að reyna það.
- 5 mínútur liðu.
- Þá hringir þessi kona í mig, blessunarlega, annað hvort af því hún ætlaði að hringja aftur, af því að hún hefur fengið símaskilaboðin, eða af því að þjónustufulltrúinn var búinn að finna hana. Ég veitti henni staðfestinguna. Það tók ca. eina mínútu. Málið leyst.
Skömmu síðar kom þjónustufulltrúinn aftur á spjallið, ég var búin að pikka inn þakklæti fyrir að málið væri leyst, við skiptumst á einhverju kurteisishjali og kvöddumst með virktum.
Ævintýri á gönguför - um listina að ganga lengra
17.8.2017 | 19:53
Held það sé óumdeilt að ganga er ein allra besta alhliða hreyfing sem hægt er að stunda. Mátulegt álag, hægt að ganga hver á sínum hraða (þeir sem þurfa göngufélaga ættu að huga að því), rösklega ef markmiðið er brennsla, hægt ef það hentar betur og allt þar á milli.
Mér hefur alltaf þótt frekar gaman að ganga, en það háir mér að vera svolítið praktísk. Af hverju að ganga ef það er fljótlegra, betra, hlýrra, svalara, hentugra og hvaðeina að aka sjálf eða nota almenningssamgöngur? Sumir fá sér hund til að ,,neyðast" til að fara út að ganga. Það trikk hentaði mér aldrei og Tinni okkar fékk sína hreyfingu sjaldnast í boði mínu. Hins vegar læt ég hæglega litla, hvíta golfkúlu plata mig í alls konar gönguferðir og mest hissa að ég dreif ekki fyrr í að taka upp þá iðju. En í tímahraki fyrri æviára var líklega markvissara að stunda skvass og tennis, eins og ég gerði í allmörg ár og skemmti mér konunglega. ,,Þú vilt bara leika þér," sagði ein ágæt kona við mig fyrir nokkrum árum. Alveg rétt.
Fallegar leiðir eða ekki
Blessaður snjallsíminn hefur heldur betur ýtt undir göngufíknina mína. Nú þarf ég ekki að vera stödd í erlendri borg til að finna hjá mér þörf fyrir að kanna umhverfið og taka myndir. Mér finnst að vísu enn skítt að stundum er fólk að hringja í myndavélina mína, en sem betur fer eru sífellt fleiri farnir að nota miklu heppilegri samskiptamáta, enda af nógu að taka. Eins og ég gat um í seinasta bloggi þá elska ég að ganga um nýjar og gamlar slóðir í fallegum og/eða áhugaverðum borgum, gjarnan í góðu veðri en stundum er það ekki skilyrði. Hamborgarárið mitt gekk ég auðvitað alltaf eitthvað á hverjum degi, hvernig sem viðraði, en eftir fyrsta mánuðinn þegar ég bjó í afleitlega óáhugaverðu hverfi, fann ég íbúð í gullfallegu hverfi, Winterhude, og eftir það var ég óstöðvandi að gera út þaðan, eða frá vinnustaðnum í Hafencity fyrstu vikurnar og eftir það frá miðborginni. Alltaf var eitthvað nýtt að sjá. Út frá vinnunni minni í Reykjavík er hægt að velja gullfallegar gönguleiðir (til austurs) eða frekar leiðinlegar (til vesturs, nema gengið sé alla leið í bæinn). Mér finnst best að fara í fallega göngutúra, en ýmsir eru alveg sáttir við að fara sama hringinn í vitlausa átt dag eftir dag. Misjafn smekkur og ekkert annað.
Álftanesið
Það tók mig sem sagt dálítinn tíma að færa þennan dásamlega Hamborgar-lífsstíl heim. En nú er ég farin að finna góðar gönguleiðir, ekki bara út frá vinnunni minni, heldur líka með því að gera út í nokkrum uppáhaldshverfum. Oft hef ég tekið göngurispur hér á Álftanesi, enda margt fallegt að sjá, þegar ég var unglingur gekk ég oft niður að sjó, einkum ef hugurinn var æðandi aðeins of hratt, og þá var bara kostur að rölta í roki og rigningu, en auðvitað vel klædd. Það var líka gott að eiga vini á Suðurnesinu, í tvær áttir, og alltaf gengum við á milli, svona 20 mínútur hvora leið ef ekkert glapti hugann. Væri ég á leið í Vesturbæ gekk ég bara rakleitt fram og til baka, en lægi leiðin í Gerðakot vorum við vinkonurnar að rölta fram og til baka að fylgja hver annarri heim lengi frameftir kvöldi. Og oft var Álftanesvegurinn allur genginn, ef ekki hentaði að bíða eftir strætó eða Ólafi fóstra mínum eftir skóla. Sjaldnar alla leið úr Reykjavík, en það kom þó fyrir.
Áhrif búsetu
Á miðbæjar- og menntaskólaárum var oft lang þægilegast að fara ferða sinna fótgangandi og svo kom fyrir að leiðin lá í Keflavíkurgöngu, en ég gerðist aldrei svo fræg að ganga hana alla. Lengst í einum spretti fór ég í Kúagerði, en þá var eitthvert skólaafmæli um kvöldið og tíminn gafst ekki í meira. En yfirleitt gekk ég úr Hafnarfirði eða Engidal og í bæinn og einhvern tíma, líklega oftar en einu sinni, með vagn eða kerru og krakkana með.
Eftir að ég flutti hingað aftur fyrir þrítugt, þá hafa skipst á göngutímabil og önnur minna virk. Á seinni árum hef ég sinnt gönguhópum í sjálfboðastarfi af og til og leitt hingað og þangað um nesið, finnst það alltaf gott. Nokkur ár gekk ég ein míns liðs kringum Bessastaðatjörn áður en varpið byrjaði, gjarnan á skírdag. Það voru alltaf fínir göngutúrar, og svo er ég eins og fleiri Álftnesingar stundum í smágönguferðum, en ef þannig viðrar þá er stundum meira spennandi að fara á golfvöllinn.
Úti í náttúrunni með lofthræðslu í farangrinum
Frá því ég hætti að vera virk í skátunum á unglingsárum hef ég lítið gengið um óbyggðar slóðir. Mér finnst íslenska náttúran vissulega falleg, en nálgast hana helst á bíl og geng svo styttri vegalengdir í áfangastað. Þegar ég var á Úlfljótsvatni þriðja sumarið mitt, 12 ára gömul, þá fékk ég vissulega vænan skammt. Við fórum vikulega í fjallgöngu á Búrfell í Grímsnesi og fyrir 2. stigs prófið þurftum við að ganga 35 km meðal annars eftir einstigi á gljúfurbarmi. Ég er hrikalega lofthrædd og varð eiginlega nokkuð frábitin svona ferðum upp frá því. Ég hætti líka að fara til Seyðisfjarðar á sumrin um svipað leyti þegar pabbi og konan hans fluttu í bæinn. Þar fannst mér reyndar margar gönguleiðir skemmtilegar kringum bæinn, einkum upp í Botnatjörn.
Platan keypt fyrir strætópeninginn
Þegar ég er í fríi finnst mér fátt skemmtilegra en að vera stödd í erlendri borg í góðu veðri og ganga út um allt. Fyrir utan gömlu borgirnar ,,mínar" London og Hamborg, þá finnst mér sérlega gaman að ganga um í Montreal, Oslo, Seattle og New York. Nokkrar gönguminningar standa þó upp úr héðan og þaðan. ,,Fjallganga" upp stiga í haustlitaferð í New Haven, rölt um Georgetown í Washington milli bókabúða með gamla vinnufélaga mínum, Jóni Ásgeiri Sigurðssyni dagspart fyrir allt of löngu, en það voru fyrstu kynni mín af bókakaffihúsum. Gönguferð úr gamla hverfinu mínu í London, írska hverfinu Kilburn, þegar ég ákvað að eyða síðasta peningnum sem ég var með á mér í plötu sem ég hafði lengi leitað að (Robert Palmer Johnny and Mary), en það þýddi að ég þurfti að rölta þennan klukkutíma gang aftur í bæinn. Gönguferð á fund við Ingibjörgu í Auckland á Nýja Sjálandi, en hún bjó í fallegu hverfi með blúnduhúsum um eins og hálfs klukkutíma fjarlægð frá hverfinu hennar Möggu frænku. Þar sem strætóverkfall var í borginni þá gekk ég báðar leiðir og ekki endilega þá stystu hvora leið. Og annar bókabúða-/kaffihúsarúntur með Nínu systur í London, þegar við uppgötvuðum að vinir og ættingjar voru ekkert mjög áfjáðir í að þvælast með okkur í bókabúðir og áttum það sameiginlegt, það var eiginlega þriggja daga göngutúr.
Ganga til skemmtunar eða skyldu
Í tíu vetur vöndum við Ari komur okkar til Kanarí á veturnar, og þar var mikið gengið, því hvorugt okkar var mikið fyrir að liggja í sólinni. Alls konar gönguferðir og yfirleitt stefnulaust, strætó stundum í liði með okkur og gert út frá ýmsum áfangastöðum. Stundum gengum við ströndina milli bæjarhluta, framhjá svokallaðri grátittlingaströnd, en það var ekki uppáhaldsleiðin okkar. Held það hafi farið svolítið í taugarnar á okkur þegar við komumst að því að það var keppikefli (og þegnskylda) margra Kanarífara að það ,,yrði" að fara þessa leið á hverjum degi, ef ekki tvisvar á dag. Ágætis gönguleið, en ekki á hverjum degi.
Gönguminningarnar mínar eru óteljandi og kannski bæti ég fleirum í bloggsarpinn síðar.
Síki, mannlíf og gömul hús
12.8.2017 | 01:38
Í þessari viku kom ég í fyrsta sinn til Írlands, í snöggri ferð til Dublin. Það er að vísu alveg stórundarlegt, hef bara ekki átt erindi þangað. Þegar menntaskólaárgangurinn minn fór í fyrsta sinn í fimmta bekkjarferð til útlanda var það til Írlands. Í þá ferð fór ég ekki, bæði vegna blankheita og líka vegna þess að ég hafði dvalið í Englandi í hálft ár árið á undan. Á þeim árum útilokaði svoleiðis lagað nánast að rápa meira næsta ár. Nú er ég komin á þann aldur að geta leyft mér að minnka vinnu, eða alla vega að gera hana sveigjanlegri en áður, og stökkva jafnvel á virkum dögum á nothæf tilboð út í bláinn og næstum án erindis. Þess vegna var ég allt í einu komin til Dublin. Á heimleiðinni heyrði ég í kring um mig ávæning af því hvað aðrir Íslendingar höfðu verið að gera á Írlandi og áttaði mig allt í einu á því að ég er ekkert að sækjast eftir því sama og margir aðrir í svona ferðum, sem er auðvitað besta mál. Fer ekki á víkingasöfn, krár, í bjór- eða viskíverksmiðjur, á leiksýningar (það geri ég reyndar í London) né söfn og gallerí, nema ég viti af einhverju sérstöku sem ég ,,verð" að sjá. Og mér finnst ekkert gaman að fara í búðir, er venjulega fljót að afgreiða það sem ég ætla að kaupa (guð blessi Google frænda) í þeim búðum sem selja það sem mig vantar/langar í og get fengið handa mér eða öðrum.
Allt frá því ég fór ein til Kaupmannahafnar 1967, þá fimmtán ára, bjó í London 1970, rápaði um Evrópu, mest austanverða, 1974 og fram til þessa dags þá gerist nokkurn veginn það sama þegar ég kem til nýrrar eða kunnuglegrar borgar. Ég rölti af stað, hoppa upp í strætó, finn falleg hverfi (alltaf kostur að sjá falleg hús og flest gömul) og bara geng um, skoða mannlífið, best finnst mér að finna vatn og þá gjarnan síki. Þar er oft skemmtilegasta umhverfið og mest að gerast. Datt auðvitað í lukkupottinn Hamborgarárið mitt, 2015, sem var alls ekki heilt ár, en þar er Alster-vatn og ótal síki auk hafnarsvæðisins og fallegum slóðum meðfram Elbe. Nokkrar myndir úr nýjustu ferðinni minni svona í lokin.