Öðru vísi Kanaríeyjar - Fuerteventura

Fuerteventura er norðaustasta Kanaríeyjan og sú næststærsta á eftir Tene. Veit ekki til þess að í boði hafi verið beint flug þangað frá Íslandi lengi, en einhvern tíma voru þangað skipulagðar ferðir. Veit reyndar ekki hvort hún Ásta, sem sagði mér frá sinni heimsókn þangað, kom með íslenskri ferðaskrifstofu en þykir það líklegt. Auk Gran Canaria og Tene hefur verið í boði beint flug til La Palma og Lanzarote á einhverjum tímum. Nú er búið að boða beint flug til þeirrar síðarnefndu sem eru góðar fréttir fyrir fólk eins og mig sem kann vel að meta Fuerteventura. Ferjusigling milli eyjanna tekur bara hálftíma að jafnaði, og það sést yfir til Fuerteventura frá syðsta oddi Lanzarote (býst ég við, alla vega frá F. til L.). Flug frá Gran Canaria tekur 40 mín og ferjan frá Las Palmas ekki nema tvo tíma til Morro el Jable. Strætókerfið innan eyjarinnar er mjög gott, ekki eins gott og á Krít, en gott. Eitt sem þarf þó að vara sig á, ef strætó er fullur og allir í sætum, er ekki undir nokkrum kringumstæðum bætt við fólki. Það reynir sjaldan á þetta nema í kringum flugvöllinn, þar getur þurft að bíða eftir 2-3 vögnum, en ferðir eru þokkalega tíðar, á korterinu um miðjan daginn nema á sunnudögum. Aðal rósin í hnappagatið ef flögið er beint frá Fuerteventura (þá þarf að millilenda einhvers staðar) eru sólarsvalirnar í flugstöðinni. Vel þess virði að mæta snemma, fínt latté selt þar og dásamlegt að ná seinustu geislum sólarinnar fyrir heimferð. 

Það sem kom mér mest og best á óvart þegar ég kom til Fuerteventura var hversu mikil áhersla er lögð á útilistaverk af ýmsu tagi í flestum bæjarfélögum þar. Ber þar hæst ótal skúlptúra og alltaf að bætast nýir við og síðan heilmörg vegglistaverk. 

Morro del Jable

Fyrst þegar ég fór til Fuerteventura fór ég til Morro. Ágætis bær, meira af túristum en heimafólki, hlýasta spáin var þar þegar ég fór í nóvember og ágætis veður, með þeim fyrirvara þó að Fuerteventura er annálaður rokrass, en rokið er hlýtt. Þangað sækja einkum þýskir túristar en Marek í Ingenío á GC sagði mér að staðurinn væri líka vinsæll meðal hans heimamanna, Pólverja, af því hann væri tiltölulega ódýr. Þar eru stórkemmtilegir skúlptúrar meðfram strandlengjunni sem er óralöng. Prófaði golfvöllinn fyrir ofan bæinn (Jandia hlutann) og hann er því miður alveg ömurlegur, illa við haldið og með lélegar merkingar. Þegar ég var í Morro fór ég til Gran Tarajal gagngert til að skoða veggmynd af úlfalda og það var ferðarinnar virði, en þar er of lítið við að vera að öðru leyti fyrir minn smekk.

IMG-7049

 

Puerto del Rosario - höfuðborgin

Í næstu ferð, sem var í janúar 2019, ákvað ég að prófa að gista í höfuðborginni, Puerto del Rosario. Þar er lítill túrismi, tvö hótel nálægt höfninni, eitthvað af slíku í jöðrunum og svo airbnb. ,,Mitt" hótel var með ómótstæðilegum þaksvölum á 5. hæð með flottu útsýni yfir höfnina. Nokkru sinnum í viku fyllist bærinn af túristum af skemmtiferðaskipum, sem stoppa einhverjar klukkustundir í bænum, söngprógram í kirkjunni og hægt að fara og skoða heimili existensíalistans Miguel Unamuno, sem spönskunemendur MR um 1970 voru píndir til að lesa. Það var gott að vera í þessum bæ, fínt latté víða að fá og mikið af alls konar hollusturéttum á veitingahúsum. Þeir sem vilja frekar óhollustu fara í mollið, Rotondo. Útivistarfólk og heilsufrík sækja eyjuna heim, eins og La Palma, en ég held að heimamenn haldi þessum veitingastöðum uppi. Þar í bæ eru, eins og í Morro, skúlptúrar með allri ströndinni og fullt af bráðskemmtilegum veggmyndum, mín uppáhalds á bílastæði. IMG-8648

Já, ég fór líka að skoða Unamuno safnið, það er heillandi. Fyrirgef honum að hafa kennt mér 17 orð yfir öldugjálfur (öll gleymd) en ekki að kaupa mér ís. Það lærði ég sex ára í Andalúsíu, en síðan hafa komið kynslóðir ísa og byggst upp nýr orðaforði. Þarna í bænum eru smá brekkur en ósköp þægilegar á fótinn. Þegar ég var í Puerto fór ég að skoða nyrstu borgina, Corralejo, þar sem enskir túristar halda sig. Miðbærinn við höfnina er mjög skemmtilegur þar, meira af heimafólki en ferðalöngum, þeim er plantað í jaðarbyggðir bæjarins. Og svo sést yfir til Lanzarote. Ég fór líka í dýragarð nálægt Morro og heilsaði upp á gömlu slóðirnar þar, síðast en ekki síst fór ég í golf í Caleta de Fuste, þar eru tveir velli og sá nyrðri þykir betri. Einn sá þægilegasti sem ég hef spilað, en engin stórkostleg tilþrif í brautunum. Það réði vali mínu á bænum sem ég hafði ákveðið að heimsækja næst og eftir 5-6 tilraunir á tímum veikinda og covids, þá tókst það loks um daginn. Það fór þó í verra að bakið á mér ákvað að mér væri ekki óhætt að taka leik.

Caleta de Fuste

Þarna lenti ég loksins í algerum ferðamannabæ á borð við Kanarí. Fallegur sem slíkur, en engir spennandi skúlptúrar og vegglistaverk. Café del Town bætti skaðann að nokkru leyti, eðalkaffihús á móti hótelinu mínu (og hótelnetið oft ínáanlegt þar, sem var gott þar sem ég tók vinnuna með mér, fjarvinna á sólarströnd virkar sem sagt). Fullt af túristaveitingahúsum, aðdáendur indverskra staða og appelsínuanda á kínverskum geta unað við sigg. Allt til alls og mikið reynt að skemmta gestum, enda Bretar víða. Fínn bær, en næst ætla ég til Corralejo, en fór bæði þangað og til Pierto í þessari ferð, á frídögunum mínum sem voru furðufáir. Mun einnig gefa mér fleiri frídaga ef ég hef vinnuna aftur með mér í sólarfrí, sem er að mörgu leyti fín hugmynd fyrir fólk sem nennir ekki alltaf að bíða eftir að maki og fjölskylda komist með í ferðina. Ferðalög eru svo ólík eftir því hvort við erum ein á ferð eða með öðrum. 


Til hamingju Controlant með UT-verðlaunin - frábært að vinna

Controlant er einstakt fyrirtæki á margan hátt. Margvíslegar viðurkenningar hafa fallið fyrirtækinu í skaut, ekki einungis frá því það komst í sviðsljósið sem mikilvægur hlekkur í þeirri keðju sem gerði heimsbyggðinni kleift að spyrna myndarlega við fótum þegar kórónaveiran fór að herja og virti hvorki landamæri né annað. Strax árið 2009 mátti sjá hvert stefndi, þegar Controlant fékk frumkvöðlaverðlaunin Gulleggið (en er nú orðið bakhjarl verðlaunanna). Í dag bættust merkileg verðlaun í safnið, UT-verðlaunin sem veitt eru á UT-messu Ský á ári hverju. Sömu stofnendur fyrirtækisins tóku við þeim og forðum daga fyrir 14 árum. 

Heimasíða Controlant gefur hógværa mynd af því hverju fyrirtækið hefur áorkað, en er engu að síður áhugaverð. Controlant

Ögn meira var sagt fyrirtækinu til hróss fyrir tveimur árum þegar Útflutningsverðlaunin voru veitt: Controlant Útflutningverðlaun og í ótal blaðagreinum sem birst hafa á undanförnum árum. 

Já, það er frábært að vinna. Og það get ég sagt í tvennum skilningi, annars vegar var auðvitað Controlant að vinna og hins vegar er ég búin að vinna hjá Controlant í rétt rúmt ár. Hrein tilviljun réði því að ég var viðstödd þessa verðlaunaveitingu, sat úti í sal og fagnaði innilega, því ég hafði ekki hugmynd um að nákvæmlega núna fengi fyrirtækið sem ég vinn hjá nákvæmlega þessi verðlaun. Ég var ekki einu sinni stödd á UT-messunni á vegum fyrirtækisins, því ég hef sótt þessa messu nánast óslitið frá upphafi, rétt fyrst á vegum hugbúnaðarfyrirtækja sem ég hef unnið hjá, en frá árinu 2016 á vegum Ský, þar sem ég fékk það verkefni að skrifa 50 ára sögu hugbúnaðargerðar á Íslandi, sem út kom 2018, á vegum þeirra. Fyrir næstum mánuði nefndi ég við minn næsta yfirmann hvort það væri í lagi að ég eyddi þessum degi í þá endurmenntun sem UT-messan ávallt er, og hún hélt nú það. Svo kom babb í bátinn því annar þeirra sem veitti verðlaununum móttöku í dag var búinn að skipuleggja heils dags vinnufund okkar í rannsókn og þróun innan fyrirtækisins. Ég treysti því að því yrði frestað, og það reyndist rétt, svo ég komst, og hann auðvitað að taka við þessum verðlaunum. 

Þegar ég fór á eftirlaun fyrir fimm árum var það ekki síst til að hafa tíma til að fylgja eftir í gegnum útgáfu þessari tölvusögu sem Ský réð mig í að skrifa. Síðan tóku við fjölmörg verkefni, glæpasagnaskrif, vatnslitun og ekki síst góðar stundir með mömmu, meðan hennar naut við, en í dag eru þrjú ár síðan hún lést, níræð að aldri. Þetta var dýrmætur tími. Alltaf gat ég þess samt að ég gæti hugsað mér að snúa aftur í hugbúnaðarbransann og fyrir 13 mánuðum kom dóttir mín inn um dyrnar heima og sagði: Mamma, það er verið að auglýsa eftir þér! Þremur vikum síðar hóf ég störf hjá Controlant, átti þá fjóra mánuði í sjötugt. 

UT-messan er alltaf eins og stúdentaafmæli. Gaman að hitta gamla vinnufélaga og nýja, kennarana sem eiga heiðurinn af því að mér tókst að ljúka mastersnámi í tölvunarfræði (hitti einn þeirra í dag og náði að þakka honum) en þetta er í fyrsta sinn sem ég ákvað að vera viðstödd verðlaunaafhendinguna! Ekki veit ég hvað rak mig inn í salinn, en mikið var ég glöð að hafa ákveðið þetta. Fyrr um daginn hafði ég hlustað á einn félaga okkar hjá Controlant eiga stjörnuframkomu í einu af ótrúlega mörgum góðum erindum á messunni. Svolítið stolt í dag, og mig grunar að ég hafi verið eina af okkur vinnufélögunum sem var alveg grunlaus um hvað í vændum var, því ég var þarna í mesta sakleysi á vegum Ský (og þar á bæ kann fólk að þegja). ut verdlaun


Kemur sjómannadagurinn öllum við?

Þegar ég var lítil vissi ég lítið af sjómannadeginum. Það var ekki fyrr en pabbi flutti til Seyðisfjarðar og ég fór að fara til hans á sumrin, að ég áttaði mig á því hvers konar roknadagur þetta væri. Pabbi var alltaf að reyna að koma því svo fyrir að ég yrði komin til hans á sumrin þegar sjómannadagurinn væri, en það stangaðist á við að geta haldið upp á afmælið mitt 4.júni fyrir vinkonurnar hér fyrir sunnan. Þess í stað sýndi hann mér skemmtilegar myndir sem hann hafði tekið og sagði mjög lifandi frá viðburðum dagsins þegar ég kom, yfirleitt örfáum dögum eftir herlegheitin. 17. júní, sem ég hélt yfirleitt uppá á Seyðisfirði, var víst bara svipur hjá sjómannadagssjóninni en nógu góður samt. 

Það þurfti spákonu til að vekja athygli mína á því að örlög fjölskyldu minnar hefði snarsnúist vegna drukknunar sjómanns í fjölskyldunni. Aha, hugsið þið, þetta er hægt að segja við alla. Já, eflaust, en það vill bara svo til að þetta fékk mig til að hugsa um hann langafa sem lést frá eiginkonu og tveimur ungum börnum, þar á meðal ömmu Kötu, þá bara rúmlega eins árs. Amma var sett til vandalausra eða á munaðarleysingjahæli, eins og hún kallaði það og man víst eftir sér þar. Langamma fluttist til Seyðisfjarðar og eignaðist þar nýja fjölskyldu, vel metinn kennara og/eða skólastjóra og eignaðist með honum sjö börn í viðbót. Amma mundi eftir sér á þessu munaðarleysingjahæli (hef ekki fundið heimildir um hvað það var, en þar var slæðingur af börnum). Tvær vel stæðar frænkur í veitingarekstri á Uppsölum í Reykjavík ákváðu að finna litla, ljóshærða stúlku og taka hana að sér, en amma (sem var hvorki lítil né ljóshærð) ákvað að þær tækju hana, sem varð. Hún var viljasterk kona. Síðar ætluðu þær að taka einnig að sér aðra, litla og ljóshærða stúlku, en amma hrakti hana á brott og það sagði hún mér sjálf. Langamma á Seyðisfirði sagði börnum sínum þar að amma væri prinsessa í Reykjavík, og víst var um það að farið var með hana sem slíka, en hún taldi að mamma hennar hefði alveg orðið afhuga henni. Magga systir hennar, elst þeirra sjö yngri, sagði okkur mömmu hins vegar frá þessu.

En sjómaðurinn langafi minn, hann Ólafur, sem var víst vænsti maður? Fyrir nokkrum árum fór ég að grufla aðeins meira í allt of stuttri jarðvist hans. Hann var vélstjóri og aðeins nýorðinn 27 ára þegar hann lést. Eitthvað vissi amma af því að hann hefði tengst Kötlunum í Kotvogi aðeins meira en Íslendingabók gefur upp núna en mér hefur ekki tekist að sanna það né hrekja, enda skiptir það minnstu máli, þetta var bara almannarómur. Hins vegar fann ég fyrir víst fréttir af því þegar hann fórst, eða réttara sagt þegar stórbóndinni í Nesi, sem mikið er mærður, fórst og með honum var maður sem ekki var einu sinni getið með nafni í einni fréttinni. Það var langafi. Mynd sýnir þrjár af fréttunum (þar sem hann er nafngreindur), önnur ömmu eftir að frænkurnar ættleiddu hana og sú þriðja er um2022-06-12_21-55-34 fraekorn.drukknun.langafalangafa í Íslendingabók. IMG_5358drukknun.langafa

drukknun.langafa.betri.frett


Mamma, það er verið að auglýsa eftir þér ...

Nei, ég er ekki týnd og ég var ekki týnd þegar dóttir mín sagði þetta við mig í byrjun þessa árs. Hún hafði hins vegar rétt fyrir sér. Allt frá því ég fór í lausamennsku/eftirlaun/glæpasagnaskrif/vatnslitun fyrir fjórum árum hef ég haldið því opnu að fylgjast með því hvort eitthvert upplagt starf innan hugbúnaðariðnaðarins byðist. Þetta hafa mínir nánustu vitað mætavel og þess vegna varð dóttur minni þetta að orði. Ég kannaði málið og mikið rétt, skemmtilegu tækifærin fyrir tæknihöfunda bjóðast jafnvel í okkar litla samfélagi. Svo núna um mánaðarmótin byrjaði ég í nýrri vinnu hjá fyrirtæki sem ég held að sé með þeim framsæknustu og áhugaverðustu á landinu nú um stundir, enda hefur það rakað til sín verðlaunum og skipt miklu máli í baráttunni við covid. Held samt að ég ætti að vera búin að vinna þar lengur en í tæpan mánuð áður en ég segi ykkur meira af því, en það er reyndar full ástæða til.

Það kom mér á óvart hversu gaman er að koma aftur í vinnu í þessum ævintýraheimi sem hugbúnaðargerð er. Hefðu blessuð bekkjarsystkini mín í MR átt að segja hvert okkar í bekknum væri ólíklegast til að útskrifast úr verkfræðideild Háskóla Íslands hefðu eflaust einhverjir veðjað á mig. Sú varð þó raunin þegar ég ákvað þessa stefnu um miðjan aldur. Ætlaði reyndar að útskrifast úr raunvísindadeild, fannst það raunverulegra, en svo æxlaðist að fagið mitt var flutt í verkfræðideildina og síðan hef ég verið með mastersgráðu frá þeirri deild. Síðan hefur starfsferillinn að mestu verið bundinn við nördinn í mér. Það var hreinlega eins og að koma heim að fara að vinna á þessum vettvangi. 

Þessi fjögur ár frá því ég vann seinast í þessum bransa hef ég notað vel. Fékk meiri tíma fyrir fjölskylduna en oft áður á mikilvægum tíma í tilverunni. Byggði upp glæpa(sagna)ferilinn þannig að ein bók er komin út og gekk alveg ágætlega, sú næsta kemur út eigi síðar en í apríl á þessu ári, ég er langt komin með fyrstu gerð af þriðju bókinni og byrjuð að henda inn hugmyndum og smáköflum í þá fjórðu. Auk þess datt ég enn einu sinni í að sinna myndlistinni af kappi, tveimur árum áður en ég ætlaði að henda mér út í þá djúpu laug, enn einu sinni. Lífið er ljúft. 

 

716e7a226594230ea3c57cb307c16c02


Eldri borgari í ,,öruggu" sæti gleymir sér - Stikkfríður sá þetta ekki fyrir

Af og til hef ég verið beðin um að setjast á framboðslista. Oft varist fimlega, nokkrum sinnum ekki og það hefur yfirleitt endað með mislangri skuldbindingu og gríðarlega löngum vinnudögum, -vikum, -mánuðum og jafnvel -árum. 

Ég veit ekki alveg hvað það var í upphafi sem fékk mig til að segja já við því að setjast á framboðslista (VG) eftir nokkurt hlé nú fyrir nokkrum vikum. Bað um ,,öruggt sæti", það er að engin hætta væri á þingmennsku. Fékk það. Taldi að ég væri einungis að lýsa yfir bjargföstum stuðningi mínum við framboðið með því að taka sæti á þessum lista, en trúði því að úr 20. sætinu þyrfti ég nú ábyggilega ekkert að gera, alla vega ekki mikið, eða alla vega ekkert rosalega mikið. Auk þess var ég nokkuð viss um að nú þegar ég er orðin virðulegur eldri borgari og óttalegur félagsskítur að auki (ekki einu sinni félagi í ungliðahreyfingu félags eldri borgara) yrði ég að hinni vinsælu ,,Stikkfríði" eins og við Kvennalistakonur forðum daga kölluðum margar yndislegar stallsystur okkar. 

En nú hef ég hrifist með, jafnvel þótt ofan á önnur verkefni mín (glæpasagnaskrif, frístundablaðamennsku fyrir Læknablaðið og spennandi myndskreytingarverkefni) hafi bæst verðugt fjölskylduverkefni. Svo ég stend mig að því æ ofan í æ að reyna að finna lausa stund og leggja mitt litla lóð á vogarskálina til að tryggja flokknum mínum brautargengi. Ég er ekki og hef aldrei verið neitt sérlega leiðitöm en í þetta sinn tek ég býsna ákveðna afstöðu með VG, þótt ég viti vel að ég mun ekki, og á ekki, að ráða för eftir kosningar. Get tekið þátt í umræðunni, en alls ekki vitað hvort og að hve miklu leyti mínar áherslur verða ofan á. Er mikið spurð þessa dagana hvernig stjórnarsamstarfi ég haldi að VG muni taka þátt í. Mitt hreinskilna svar er: Ég hreinlega veit það ekki, í flokknum eru skiptar skoðanir og mín tilfinning er að ólík stjórnarmynstur njóti álíka hylli flokkssystkina minna. Ég er hins vegar ánægð með árangur VG á þessu kjörtímabili og vildi svo gjarnan sjá áhrif okkar málefna vaxa og dafna. Þess vegna er ég komin inn í hringiðu stjórnmálaumræðunnar enn einu sinni. 

 

 


Allt sem gengur á

Velti mikið fyrir mér tímasetningum þessa dagana. Hvers vegna sífellt fleiri hugrakkar konur stíga fram og svipta hulunni af bitrum veruleika kvenfyrirlitningar og kynferðisofbeldis? Heyrði líka utan að mér í útvarpi viðtal við fagmanneskju sem velti því fyrir sér hvort mikil fjölgun mála er vörðuðu ofbeldi og/eða vanrækslu í garð barna væri tilkomin vegna fjölgunar þessara mála eða aukinnar vitundarvakningar um brotin. Aðdragandinn er auðvitað langur, ótal konur ruddu brautina og aðrir fylgdu í kjölfarið. En engum ætti að blandast hugur um að nú er eitthvað að gerast, það er eins og sprenging hafi orðið í umræðunni. Þótt ekki sé hægt annað en verða döpur þegar slíkur sannleikur kemur í ljós, þá er þessi umræða líka öðrum þræði sterk og fyrir suma jafnvel frelsandi. Svo margar sem hafa þagað þurfa ekki lengur að gera það. Því miður fá þær sem nú ryðja nýjum björgum úr brautinni yfir sig illsku líka, en fyrst og fremst stuðning.

Þögn og þöggun er oft vegna þess að einhver, stundum allir, eru sammála því að vera ekki að hrófla við hinu fullkomna samfélagi, hinni fullkomnu fjölskyldu, hinu fullkomna landsliði eða einhverju svipuðu. Sumt af því sem verið er að afhjúpa núna gerðist ekki endilega í gær, ekki í fyrradag, heldur fyrr, stundum miklu fyrr. Það hafa margir upplifað rask í tilverunni á undanförnum misserum. Sorgleg dauðsföll, erfið, langvinn veikindi herja á marga. Það að treysta ekki náttúrunni lengur þegar öfgar koma í ljós er sífellt algengara. Þótt við eigum lítið og krúttlegt eldgos í grennd við helstu þéttbýlisstaði, þá kom það í kjölfar erfiðs jarðskjálftatímabils og eflaust fleiri en ég sem rifjuðu upp orð Seyðfirðings eftir hamfaraskriðurnar rétt fyrir jólin: Ég treysti ekki fjallinu lengur.

Undir þessum kringumstæðum er þöggun og afneitun, sem oft er nærð af utanaðkomandi aðilum, erfiðari en áður. Það er ekki lengur hægt að segja: Svona ,,getur“ ekki gerst. Hann Lilli frændi er góður maður og gæti ekki hafa gert þetta. Hann Xman er svo góð fyrirmynd að þetta hlýtur að vera einhver misskilningur. Það er ekki verið að raska besta heimi allra heima lengur, rjúfa bestu fjölskyldubönd allra fjölskyldubanda. Fáir (en ekki engir) eru svo skyni skroppnir að átta sig ekki á að allt getur gerst og hefur gerst. Sumt er gott, annað mjög vont.

Það sem er að gerast hér á landi má allt eins yfirfæra á umrótið í heiminum, öfgar bæði í stjórnarfari, viðhorfum og viðbrögðum náttúruaflanna við áorðnum og yfirvofandi loftslagsbreytingum. Sú umræða er miklu stærri, afneitunin sums staðar miklu rótgrónari, þögn og þöggun enn meiri en við þekkjum af eigin raun.

Hugmyndasmiðir anarkista fyrri tíma köstuðu fram þeirri hugmynd að þörfin fyrir að eyðileggja væri jafnframt skapandi kraftur (Bakúnín og fylgismenn hans). Ekki treysti ég mér til að giska á hvað þeim fyndist um þær aðstæður sem nú hafa skapast eða afhjúpast. Hvort þeim tækist að halda í þá grimmilegu bjartsýni sem mér finnst felast í þessari hugmyndafræði veit ég einfaldlega ekki.  banksy


Gömul brýning - en: sé ekki eftir neinu

Á níutíu ára afmæli gamla kennara míns (og mömmu) í Myndlista- og handíðaskóla Íslands (1957-1958 og 1972-1974) Braga Ásgeirssonar, þá ákvað ég að rifja upp svolítið af okkar samskiptum. mhiSetti fyrst inn litla færslu á Facebook um lexíurnar sem ég lærði þegar ég var nemandi Braga í MHÍ 1972-1974. En öðru þurfti ég að fletta upp, það var brýning sem ég fékk frá honum þegar ég hélt mína fyrstu einkasýningu í Listamiðstöðunni við Lækjartorg 1984. Sýningu sem Bragi benti reyndar réttilega á að væri frekar samsýning fjögurra listamanna, eins og sést á einu skjáskotinu. Ég hef nokkrum sinnum á ævinni tekið þá ákvörðun að helga mig ekki myndlistinni, fyrst 1974 þegar ég ákvað að hætta í MHÍ og ljúka frekar námi í bókmenntum og sögu. Þá var concept-listin allsráðandi og þar átti ég ekki heima, en sagan og bókmenntirnar heilluðu mig mjög. Myndlistin hefur hins vegar aldrei látið mig í friði og fylgt mér af mismikilli ákefð alla ævina. Það hafa komið styttri pásur, en eftir á að hyggja hef ég sjaldan slegið slöku við. Þrátt fyrir aðra vinnu og verkefni, hef ég bæði sótt mér menntun hjá frábærum kennurum og haldið mér í þjálfun, til dæmis með því að teikna módel af miklu kappi árum/áratugum saman, meira að segja meðan mest var að gera í pólitíkinni.

Ég sé ekki eftir neinu (ok, hér er kominn tími fyrir þennan frasa frá Piaf: Non, je ne regrette rien). Flest sem ég hef fengist við hefur verið spennandi, sumt ævintýralegt. 

Samt varð ég svolítið hugsi þegar ég las aftur fyrstu og einu sýningarumsögn Braga Ásgeirssonar um sýningu mína. Og hver veit nema ég eigi eftir að taka hann á orðinu, samhliða öðrum störfum (ég er ekki hætt að skrifa glæpasögur). Flestir góðir myndlistarmenn sem ég þekki hafa þurft að sinna öðrum störfum meðfram svo mér væri það ekkert of gott. Það, í brýningu Braga, sem ég þarf að huga að er að gera þann neista, sem ég hef haldið vakandi, að báli. Er það ekki bara verðugt viðfangsefni? Þakkið Braga, ef mér teks2021-05-28_13-54-402021-05-28_13-50-59t það. Þarf að fara að vinna í málinu. 


Bækur, óbækur og bókmennt(afræðingurinn)

Er alin upp við mikla virðingu fyrir bókum og þar með talið bókmenntun, en líka alls konar öðrum bókum, svo sem æviminningum sem ekki teljast til ,,mennta". 

Frá því ég var svona átta eða níu ára hafa glæpasögur af ýmsu tagi verið í mestu uppáhaldi. Ekki bara þessar fyrir krakka (Enid Blyton kemur sterk inn) heldur líka ,,fullorðins". Við Kristín Klara bekkjarsystir mín lágum í Sherlock Holmes ungar að aldri og bekkjarbróðir okkar, Halli Blöndal, stundaði bókamarkaðina í Listamannaskálanum eins og ég. Þar keypti ég mjög margar óinnbundnar glæpasögur, sem margar voru góðar. Ein er mér minnisstæð, sú fyrsta sem ekki ,,endaði vel" (enda glæpasögur annars vel ef fjöldi manns hefur fallið í valinn?) Blaðamaður í Ameríku var að reyna að fletta ofan af mafíustarfsemi og bókin endar á því að hann gerir sér grein fyrir að hann hefur tapað og verði myrtur hvað á hverju. 

Glæpasögur teljast oft ekki til bókmennta í almennri umfjöllun, hvort sem það á rétt á sér eða ekki. Og snemma lágu leiðir mínar og ,,almennilegra bókmennta" saman. Kipling hefur vissulega verið úthýst vegna rasisma, en hann er barn síns tíma og samfélags. Dýrasögur hans merkilegar, einkum sagan um köttinn sem fer sínar eigin leiðir og allir staðir eru honum jafn kærir. Árið þegar ég var bókavörður vildu 14 ára nemendur mínir að ég mælti með ástarsögum handa þeim og í stað þess að benda á Feðgana frá Fremra-Núpi, þá sagði ég þeim að lesa Sumarást (Bonjour Tristesse) eftir Françoise Sagan. Fékk bara fuss og svei þegar þær voru búnar að lesa hana. Nýjustu bækur Laxness voru húslestur heima á Tjörn á kvöldin og 16 ára erfði ég mjög merkilegt bókasafn eftir pabba. Fékk ljóðabók Káins í fermingargjöf frá Sveini frænda og lagðist í lestur ljóða, meðal annars Steinunnar Sigurðardóttur, þegar hún fór að gefa út sínar bækur. 

En til að gera langa sögu stutta, þá tók ég bókmenntir í val í MR og kláraði BA-próf í Almennri bókmenntasögu frá HÍ 1978 og skrifaði BA-ritgerð um ljóðagerð Leonard Cohen. Í því námi kynntist ég óskaplega mörgum yndislegum bókum sem ég hefði aldrei lesið annars. Varð bergnumin af þá nýskrifuðum bókum sem flokkast undir töfrarausæi (Gabriel Garcia Marquez), Illjónskviða og grískir harmleikir hittu mig í hjartastað og ég las rosalega langar rússneskar skáldsögur mér til nokkurrar ánægju (þótt ég hafi ekki náð að klára 4. og stysta bindið af Lygn streymir Don fyrir próf). 

Með þetta veganesti lagði ég út í heiminn og þótt ég telji yfirleitt upp öll önnur störf þegar ég er spurð um (fjölbreytta) starfsævi og hafi á timabili haft smá samviskubit yfir því að hafa þegið menntun sem ég notaði lítið (fyrir nýtna konu eins og mig er það guðlast) þá varð eitthvað smálegt til að ég leiðrétti sjálfa mig fyrir nokkrum árum. Hálfu ári eftir BA-prófið fór ég nefnilega á dagskrárgerðarnámskeið hjá Ríkisútvarpinu og var í framhaldi ráðin í það starf að vera með fastan bókmenntaþátt í útvarpi í heilan vetur (tók upp þætti fyrirfram til að geta skroppið frá í mars til að fæða hann Óla son minn). Auk þess sá ég um marga staka þætti á sviði bókmennta allt fram til ársins 1987, þegar við Kristín Ástgeirsdóttir kynntum Sögu þernunnar (Tha Handmaid´s Tale) eftir Margaret Atwood fyrir Íslendingum. Við ætluðum að halda þessum bókmenntaþáttum áfram, en þurftu að hætta vegna framboðs á vegum Kvennalistans. 

Svo var það árið 2007, þegar ég var orðin 55 ára, að ég fékk (loks) lesblindugreiningu. Síðan hef ég lesið meira af glæpasögum og minna af þyngri texta, nema hvað ég held áfram að lesa rosalega mikið af ljóðum og af og til dett ég í lestur grískra gleðileikja, Oscars Wilde og meira að segja existensíalistans Miguels Unamuno (þennan skilja bara vinir mínir úr spönskunni í MR). Loksins komin upp á lag með hljóðbækur, Storytel og Hljóðbókasafnið (vegna lesblindu) - enn meira les ég á Kindle og fleiri tölvum/lesbrettum og það sem bara fæst í pappírsbókum eða ég á þannig, er lesið á pappír. 2021-02-24_00-33-462021-02-24_00-46-022021-02-24_00-47-072021-02-24_00-50-25


Tækin okkar stór og smá

Eitt af því fyrsta sem ég lærði í kúrsinum ,,Samskipti manns og tölvu" í tölvunarfræðinni var að vera ekkert að persónugera tölvuvædd heimilistæki. Að því sögðu þá vil ég bara taka það fram að við Ari eigum óvenju mikið af mjög viljasterkum og sjálfstæðum heimilistækjum. Uppþvottavélin okkar (sem ég hleypti inn á heimilið þegar við skiptum út bráðabirgðaeldhúsinnréttingunni eftir næstum 30 ár) ákvað snemma kvölds í kvöld að nú væri komið nóg af stuttum og orkusparandi uppþvotti og stillti sig á rúma fimm klukkutíma. Mér sýnist að hún hafi skilað þokkalegu verki. 

Hef áður nefnt nokkra góða karaktera, lengi vel var Jónas ryksuguróbott einn af sínu tagi, svo kom Jóhann, sem átti að vera miklu flinkari (rata heim til dæmis) en er soddan kveif að hann þolir mun minna álag en Jónas. Jóhannes skúrari er vannýttur af praktískum ástæðum. Tvær frekar gamlar fartölvur lifa enn með eigin dyntum, önnur þeirra heitir örugglega Mac the Knife, hef ekki ákveðið hvor, kannski þessi sem er að verða níu vetra. Njósnakerfið okkar uppi í sumarbústað sér meðal annars um að segja okkur að það sé ásættanlega hlýtt þar á veturna, en óþarflega þurrt loft. Myndin hér að neðan er hins vegar af uppsetningu annarrar njósnavélar. Þær heita ekki neitt, þá væru þær ekki njósnavélar.

En þá er það játning dagsins, elsku besta Tchibo-kaffivélin, þessi sem ég stillti mig um að kaupa í næstum heilt ár, en keypti svo 7 klukkutímum áður en ég flutti frá Hamborg, hefur orðið covid að bráð. Þegar ég fann ekki réttu kaffihylkin á netinu (síðustu 3 birgjar mínir hafa allir hætt störfum) þá var ég vön að fara bara til Þýskalands og kaupa mér lager, allt upp í hálfar ferðatöskur. Hratt gengur á þetta góss núna í covid og ekki fyrirsjáanlegt að ég komist til Þýskalands í bráð að kaupa meira. Hef sætt mig við margt, til dæmis að skipta um tegund hylkja í miðri á, en nú er svo komið að öll ábyrg viðskiptasambönd sem ég hef byggt upp til að þóknast minni ágætu Tchibo (hún er reyndar rosalegur ,,besserwisser") eru brostin. Og hvað gerir kona þá? Malar kaffi og hellir uppá? Já, hef gert það, pressukönnur skila skástum árangri, en sú eina ásættanlega á heimilinu hangir meira með ónefndri uppþvottavél en mér. Og nú er komið að svikastundinni, á morgun á ég von á póstsendingu með lítilli Nespresso-vél, mjólkurflóara og kaffihylkjunum sem Gurrí mælir með. Fékk mér eintak í rauðum lit í stíl við drottninguna Tchibo og nú er spennandi að sjá hvernig heimilishaldið þróast. Ef mér sýnist stríð í uppsiglingu set ég bara skapgóðu þvottavélina á stuttu stillinguna og læt hana syngja: Bjössi á mjólkurbílnum, sem er svona nálægt því að vera stefið sem hún notar til að láta mig vita að hún er búin að þvo þvottastykkin okkar. Thjofavarnarkerfid (2)


Svo fór allt að gerast svo hratt ...

Þegar ég loks þorði að upplýsa að glæpasagan mín, Mannavillt, mundi koma út núna í ársbyrjun 2021, þá lofaði ég að láta vita af henni þegar nær drægi. Svo gerðist þetta: Þannig týndist tíminn, og nú er komið fram í febrúar, sex vikur síðan bókin kom út og bæði á undan og eftir þeim merkisviðburði hefur margt gerst í tilverunni. Meiri hlutinn tengist einmitt glæpasögunni minni. Mikil viðbrögð, viðtöl, heimsóknir, áritanir (á covid tímum eru þær heima eða prívat á kaffihúsum) og alls konar skilaboð sem mér finnst vænt um. Núna þegar ég ætlaði að blogga um eitthvað allt annað, rak ég augun í þetta fyrirheit og í stuttu máli: Þetta hefur gengið lygilega vel. 2020-11-19_01-15-47


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband