Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Clapton svipmyndir úr símanum mínum - og lagalistinn frá í gær

Clapton tónleikarnir enn og aftur. Og ég var sem sagt með símann á lofti eins og fleiri, tók ekki sjansinn Mynd004á að  taka með mér myndavél, enda hefði það spillt tónleikunum ef allir hefðu verið með myndavélar á lofti með flassi út um allt, þannig að þetta var bara fínt, Mynd011nokkrir símar á lofti og svo fagmenn að taka aðalmyndirnar. En þetta er sem sagt úr símanum mínum, svipmyndir sem segja allt um stemmninguna, finnst mér. Og svo fann ég blogg þar sem mojo er búinn að taka saman lagalista gærkvölds og gefa einkunnir sem ég er sammála að mestu. Wonderful tonight fær kannski ekki fullt hús (skoðið athugasemdina) og ég verð að viðurkenna að eins og ég elska það lag, þá var miklu meira stuð í mörgum öðrum lögun, en þetta var allt frábært samt. Hér er lagalistinn á bloggi mojo. Mynd003


Þjófar í paradís, þrjár kindur staðnar að verki!

Viðkvæmum er ráðlagt að lesa þetta ekki, þarna er ákveðið ofbeldi á ferðinni, ekki þegar ég rak kindurnar burtu, heldur át þeirra á blásaklausum trjánum sem ég hef gróðursett fyrir aftan bústaðinn okkar. Sem betur fór björguðust flest laufin:

CIMG3002

 

 

 

 

 

 

 

CIMG3003


Til hamingju öll - bæði ,,svona" og hinsegin!

Samfélagið okkar er gott þegar gleðigangan stendur undir nafni, það er að ástæða sé til að gleðjast yfir því að staða samkynhneigðra í samfélaginu hefur batnað til muna. Fyrir allmörgum árum stöðu Samtökin 78 fyrir kvikmyndasýningu sem varð mér að minnsta kosti ógleymanleg, um ævi Harvey Milk, bogarfulltrúa í San Fransisco, sem var myrtur 1984 og varð eins konar píslarvottur samkynhneigðra manna. Enn stríða samkynhneigðir við fordóma einstaklinga, en samfélagið gleðst sem betur fer einlæglega yfir þeim sigrum sem hafa unnist.


Clapton - daginn eftir

Brjálað stuð á Clapton í gær. Það er fátt skemmtilegra en að fara á vel heppnaða tónleika, og þessir voru það svo sannarlega. Eitt lag sem Heiða taldi upp í útvarpinu að líklegt væri að hann spilaði sem ég saknaði virkilega, það var White Room. Veit ekki hvort hann tekur þetta lag nokkurn tíma nú orðið, en ef hann gerir það ekki, þá ætti hann að hugleiða það, því hljómsveitiin sem hann er með núna veldur þessu meistarastykki alveg ágætlega, það er ég sannfærð um. Minna mál með Laylu (þó að Norðmennirnir hafi fengið að hlusta á hann spila það ágæta lag) nýrri flutningur hans á því lagi er of hófstilltur fyrir minn smekk, ég vil ekki heyra hann flytja lagið miðaldra og afslappaður, heldur finnst mér útgáfan þar sem hann var ungur og örvæntingarfullur miklu betri. Annars voru þessir tónleikar brjálæðislega blúslegir og það var virkilega gott. Og þá er ég aftur komin upp í Borgarfjörðinn og ánægð með það, sé ekki eftir að hafa tekið þátt í þessum merkisviðburði, sem tónleikar Clapton eru óneitanlega. Þetta er listamaður sem aldrei hefur hætt og hrakar ekki neitt (þótt athygli hafi vakið að hann var með ,,starfsmann í þjálfun" sem tók slatta af góðum gítarsólóum).

Hvað var ég að hugsa? Uppfærsla á fréttum um Clapton og Borgarfjörð

Þegar ég var búin að taka endanlega ákvörðun um að það myndi alls, alls ekki henta mér á fara á Clapton, og setja hugrenningar þar um á bloggið mitt, svona svo ég tryði því sjálf, þá heyrði ég svolítið á Rás 2 (hjá Heiðu, sem er bara ágætis útvarpsmanneskja). Upptalningu á lögunum sem hann ætlar að spila. Og hugurinn fór á fullt, gott ef tárin voru ekki farin að laumast í hvarmana, ég hringdi nokkur símtöl í heimilismeðlimi (sem bera ekki eins sterkar tilfinningar til þessarar tónlistar og ég, eða viðurkenna það ekki) og niðurstaðan er sú: AUÐVITAÐ FER ÉG Á CLAPTON - þótt það henti mér alls ekki á þessum tíma, margt sem veldur, þá veit ég bara ekki hvað ég var að hugsa! En alla vega, við förum þrjú úr fjölskyldunni á þessa eðaltónleika, ég kem héðan úr sveitinni, það verður bara að hafa það, sumir leggja á sig lengri ferðir, og það er ekki helsta fyrirstaðan. En ekki orð um það meir!

 

Það hellirigndi þegar ég fór úr bænum, dró heldur úr úrkomunni þegar ég kom í Mosó, dropaði í Borgarnesi en hér í Gljúfraborg hafði ekki komið dropi úr lofti. Núna er úrkoman komin hingað og ég vona að litlu, sætu blágresisfræin mín kunni að meta það. Mamma varð að samferða mér í bæinn og fullyrti að henni þætti rigningin bara góð. Reyndi að vera eins fljót og ég gat að útrétta (nýr straumbreytir breytti gamla prentaranum mínum sem er kominn upp í sumarbústað í tryllitæki á nýjan leik, en þetta fæst ekki á hverju horni).


Haldið á nýjan leik í sveitina til að kafna ekki í framkvæmdagleði - og smá mórall yfir Clapton

Þá er tími til kominn að halda aftur í Borgarfjörðinn minn, hér heima sóa ég tíma í framkvæmdir og mannleg samskipti, og það dugar ekki til lengdar ;-) Nú er komin í mig fiðringur að taka aðra törn í verkefnunum sem ég er með í vinnslu. Búin að afgreiða það sem ég þurfti hér í bænum, blessunarlega, í bili alla vega.

Smá mórall í mér út af því að skrópa á Clapton, mér finnst nánast skyldumæting, en ég er hins vegar alls ekki í neinu stuði fyrir stórtónleika núna. Ýmislegt sem veldur og þarf ekki að skýra það fyrir alþjóð (nema ég finni hjá mér brennandi þörf fyrir það, sem er fjarri því að vera reyndin). Þannig er nú það.


Verslunarmannahelgi í góðum gír og smávegis í anda Karate kid

Gott að heyra að verslunarmannahelgin fór betur fram en oft áður og kynferðisbrotum fækkaði verulega, en eitt er of mikið, samt sem áður, vona að við fáum einhvern tíma að heyra af verslunarmannahelgi (og öðrum tilefnum) án nokkurs slíks ósóma. Heyri líka í fréttum að sá árangur sem nú hefur náðst sé þakkaður miklum áróðri gegn nauðgunum og get ekki annað en þakkað þeim sem hafa beitt sér í þeim málum. Svo finnst mér líka gott að heyra að Akureyringum tókst, með Möggu Blöndal í broddi fylkingar, að snúa Einni með öllu upp í mun indælli hátíð en síðastliðin ár. Óli minn var á Akureyri um helgina með karlahópi feministafélagsins og dreifði áróðri gegn kynferðisofbeldi og lét vel af dvölinni fyrir norðan og viðtökunum.

Heimilismeðlimir, sem heima voru um helgina, gerðust útipúkar þegar veður gafst og héldu áfram að mála húsið, skafa glugga og skrapa og bera á þá. Upphandleggsvöðvarnir orðnir nokkuð vel þjálfaðir (skafa, skafa) og ég get ekki annað en rifjað upp Karate kid myndina þar sem meistarinn lét strákinn æfa hreyfingar með því að pússa bíla og mála grindverk. Var alltaf hrifin af þeirri hugmyndafræði og mæli með henni eftir að hafa tekið þátt í henni í framkvæmd í bili.


Sameinuðu þjóðirnar skamma Íslendinga fyrir að taka með linkind á ofbeldi gagnvart konum og fleira er athugavert hjá okkur!

Íslendingar fá á baukinn í tilmælum sem Sameinuðu þjóðirnar senda okkur um að halda betur alþjóðasáttmála um jafna stöðu kvenna og karla. Margt er að, en fáum kemur víst á óvart að við stöndum okkur illa hvað varðar málsmeðferð og dóma í ofbeldismálum gagnvart konum. Hér er frétt Ríkisútvarpsins um málið:  

"Íslensk stjórnvöld eru hvött til að beita kynjakvóta enn frekar til að jafna stöðu karla og kvenna segir Guðrún D. Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands. Þetta kemur meðal annars fram í tilmælum nefndar á vegum Sameinuðu þjóðanna sem fylgist með því að unnið sé á grundvelli alþjóðasáttmála um jafna stöðu karla og kvenna.

Tilmæli nefndarinnar snúa einkum og sér i lagi að ofbeldi gagnvart konum á Íslandi, mansali og vændi, lágu hlutfalli kvenna í stjórnunarstöðum og umtalsverðum launamun kynjanna.

Guðrún vann að gerð viðbótarskýrslu fyrir nefnd SÞ og kom fyrir nefndina sem álitsgjafi. Hún segir tilmæli nefndarinnar mjög viðamikil í þetta sinn og segir athyglisverðast hve mikil áhersla sé lögð á að íslensk stjórnvöld finni betri úrræði hvað varðar kynbundið ofbeldi.

Fleiri alþjóðlegar nefndir hafa einnig hvatt til þessa. Nefndin lýsir meðal annars áhyggjum sínum af vægum refsingum í kynferðisbrotamálum hér á landi, þá sérstaklega nauðgunarmálum. Að mati Guðrúnar hvetur nefndin íslensk stjórnvöld til að beita kynjakvóta í meira mæli enn nú er gert, til dæmis til að hækka hlutfall kvenna í stjórnunarstöðum, sérstaklega hjá hinu opinbera og í dómskerfinu."


Látum ekki mikilvæga umræðu drukkna í aukaatriðum - Nei gegn nauðgunum!

Þegar AIDS kom til Íslands þá drukknaði sú alvarlega umræða í vangaveltum um hvað ætti að kalla sjúkdóminn á íslensku. Mig minnir að það hafi verið Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, sú ágæta fréttakona, sem vakti athygli á þessari staðreynd.

Mér sýnist annað svipað mál vera í gangi núna. Karlahópur feministafélagsins er að berjast gegn nauðgunum og með mikilvægan áróður til kynbræðra sinna, en það eina sem þeir (kynbræðurnir) virðast sjá er umræða um hvort ráðskona karlahópsins hafi móðgað Baggalút með því að misskilja (Baggalútur fullyrðir að um misskilning sé að ræða) texta sem sá ágæti hópur samdi. Hvort ætli sé nú mikilvægara, að berjast af alefli gegn nauðgunum, eða að karpa um hvort misskilningurinn hafi verið óþarfur eða ekki? Ég fíla Baggalút í tætlur en ég er ekkert hrifin af því að það skuli vera meiri umræða um þennan misskilning en um inntak áróðursins, sem er dauðans alvara. Og hananú!!!


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband