Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008
Það er farið að gæta vaxandi bjartsýni í skoðanakönnuninni á blogginu mínu, þar sem núna er fjórðungur farinn að halda að allt sé upp á við, en þriðjungur enn að gera ráð fyrir tveimur erfiðum árum í viðbót. Aðrar tölur hafa hreyfst minna, þó hefur fækkað ögn í hópnum sem heldur að við séum að verða nægjusamari. Þegar ég setti þessa könnun inn snemmsumars var áberandi meiri svartsýni í gangi, 40-45 % töldu að næstu tvö ár yrðu erfið en svona 17 % að þetta væri allt upp á við.
Kannski er þetta bara sólin? Það væri annars gaman að fá rökstuðning fyrir þeim skoðunum sem fólk hefur á því annað hvort að næstu tvö ár verði erfið eða að allt sé að skána. Merkilegt nokk, þá hefur alla vega einn valkostur verið hunsaður að mestu: Að ástandið verði áfram svipað og það er nú.
Dýrðardagur í mörgum sveitarfélögum - og enn eru 27 gráður á útimælinn (sem er í skuggsælu umhverfi)
30.7.2008 | 19:52
Þetta er búinn að vera ótrúlegur dýrðardagur. Vaknaði við sól og blíðu og kláraði svefninn úti á vindsæng (eftir að hafa unnið fram á nótt). Dró tölvuna út á pall undir hádegið og vann í sólarsælunni þar til Gunna vinkona kom að norðan úr Austur-Húnavatnssýslu. við fengum okkur í svanginn en svo var haldið í leiðangur dagsins til að sækja ömmu hennar Katarínu, tengdadóttur Gunnu í flug. Við vorum búnar að ákveða að fá okkur kaffi á leiðinni á Súfistanum í Hafnarfirði og þar sátum við hálftíma lengur en við höfðum ætlað í steikarblíðu úti (auðvitað) vegna seinkunnar á flugi frá Frankfurt. Amman, sem er 84 eða 87 ára (munum hvorug hvort er) vippaði sér eins og unglingur úr tollinum og í bankann að skipta pening og svo ókum við hingað upp í bústað og eyddum smá stund hér, áður en þær héldu áfram norður í land. Klukkan var orðin hálf átta núna í kvöld og hitinn enn í 27 gráðum þegar þær lögðu í hann, en sem betur fór hafði þokunni létt, sem hafði hvílt yfir langmestri leiðinni að norðan þegar Gunna kom til mín hingað í Borgarfjörðinn. Tímasetningar eru knappar, því í nótt leggja Guðmundur og Katarína af stað suður og snemma í fyrramálið í frí til Tyrklands, en amman er meðal annars að koma til að hjálpa til við að passa Elísabetu litlu, sem er orðin ansi dugleg að hreyfa sig.
Á morgun er frábær spá hér í Borgarfirðinum en aftur á móti á að fara að rigna í bænum, þannig að ég hugsa að ég verði hér áfram fram á kvöld alla vega, kannski lengur. Á meðan ekki er málningaspá (spár hafa reyndar ekki alltaf gengið eftir þessa dagana og miklu betra veður en lofað hefur verið). Ég er gjörn á að kalla hitamælinn í Hafnarfirði bjartsýnismæli en þennan í Mosó grobbmæli, en sá síðarnefndi sýndi 31 gráðu upp úr sex í dag!!!!
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 20:21 | Slóð | Facebook
Tímabundnu sumar(framkvæmda)frí frestað um stund - módelmyndir úr hættu - og bláþráðstungl á himni
30.7.2008 | 02:13
Smá langloka undir svefninn, miklu betra að blasta þessu á bloggið en að taka allar hugsanirnar með sér í háttinn ;-)
Töfrarnir hérna í Borgarfirðinum eru ekki bundnir við blíðviðrið heldur datt ég í vinnugírinn sem ég ætlaði mér, og það gerðist eins og hendi væri veifað um leið og ég sneri inn eftir svefndrukkinn dag í sólinni. Þetta eru svo sem engir töfrar, ef að er gáð, en bara meira gaman að kalla þetta einhverju heillandi nafni. Heima kalla verkefnin meira á mig, fleira ógert í augnablikinu, þótt hér uppfrá megi vissulega finna óunnin verkefni líka. Þannig að vinnan kemst í meiri forgang en framkvæmdirnar og það er reyndar mjög gott mál núna, mig langar að ljúka ákveðnum hluta verkefna minna fyrir helgi og sýnist að það muni takast. Þá get ég sungið við málningavinnuna, enda þurrkspá frá og með föstudegi, jibbí! og eflaust ítarlegri þurrki. Þetta sumar hefur nefnilega verið með þeim ósköpum gert að oft hefur ekki orðið úr rigningu sem spáð hafði verið, en flest sumur sem ég man eftir fram til þessa hafa frekar verið öðru marki brennd.
Fékk indælis heimsókn í kvöld, Arý móðursystir hans Ara kíkti við hér í bústaðnum, ég var að láta hana fá myndina sem ég ætlaði að gefa henni fyrir um það bil tuttugu árum, en hvarf á dularfullan hátt og fannst ekki fyrr en núna í vikunni þegar ég neyddist til að fara í gegnum allar myndirnar mínar til að redda þeim frá handtökum Henriks smiðs, sem af siðsemi rúllaði öllu þessu nakta fólki saman, þessi sem Arý fékk var ekki bara nakin heldur líka ólétt, ég get ímyndað mér að það hafi ekki verið vinsælt. Annars munaði litlu að blessunin hann Henrik smiður lenti á körfuboltaleik þegar við vorum, með hjálp pólsku orðabókarinnar, að reyna að finna út hvað hann vildi gera fyrstu helgina á Íslandi. Við fórum línuvillt í orðabókinni og vorum að hugleiða hvaða körfuboltaleik væri hægt að finna þegar við tókum eftir að orðið sem fingurinn nam við var alls ekki körfubolti heldur kirkja. Og þess vegna vitum við allt um kaþólskuna hans Henriks, hann sótti kirkju mjög ötlullega á meðan hann var að vinna fyrir okkur, en við vorum svoilítið áhyggjufull þegar hann hætti, hann var nefnilega kominn í félagsskap annarra og ekki eins kirkjurækinna landa sinna. En okkur kemur það svo sem ekkert við, myndirnar mínar virðast hafa bjargast blessunarlega. Þessi sem hér fylgir var reyndar aldrei í hættu af því hún kúrði örugg inni í vatnslitamöppu þar til ég fann henni annað heimili.
Tunglið er eins og smá augnhár á himninum og úr þessu getur ekkert gerst annað en það fari að stækka á nýjan leik. Áður en góð götulýsing kom á Álftanesið var ég alltaf mjög vel að mér í tunglstöðunni en núna er það helst á Kanarí og í Borgarfirði sem ég tek eftir tunglinu og er reyndar nýfarin að veita því eftirtekt eftir björtustu sumarvikurnar.
Blágresisfræin mín fara niður í fyrramálið, ef að líkum lætur, og svo förum við Gunna vinkona í smá leiðangur til að sækja ömmu hennar Katarinu. Jamm, viðburðaríkur og ofurhlýr dagur framundan á morgun.
Horfst í augu við staðreyndir - stutt sumarfrí skollið á
26.7.2008 | 20:33
Skátinn og feministinn (játningar stoltrar móður)
26.7.2008 | 14:00
Virkasti feministinn í fjölskyldunni er sonur minn, sem er tæplega þrítugur, eins og ég hef áður getið um. Hann mun væntanlega eyða verslunarmannahelginni með karlahópi Feministafélagsins að berjast gegn nauðgunum. Er auðvitað að springa af stolti og mest að hann hefur haft mikið frumkvæði í þessum málum undanfarin ár.
Núna er dóttir okkar með heila hersingu af skátum á Landsmóti skáta, hún er rúmlega þrítug og hefur unnið við æskulýðsmál meira og minna alla sína ævi. Hefur það raunar að sumarstarfi í sumar. Ég held hún hafi verið 17 ára þegar hún hélt sinn fyrsta foreldrafund og um svipað leyti hvíslaði ég að Ara mínum: Gerir þú þér grein fyrir að dóttir okkar er æskulýðsleiðtogi.
Ekki vinnufriður fyrir tiltekt - best að koma sér aftur upp í bústað!
24.7.2008 | 18:50
Það er ekki vinnufriður hér heima fyrir tiltektarköstum, af nógu er að taka að endurreisa heimilið eftir tveggja og hálfs árs endurbætur (sem eru ekki búnar - en hérumbil). Smiðurinn okkar rammkaþólski gerði sitt besta til þess að eyðileggja allar gömlu módelmyndirnar mínar og það er margra tíma verk að slétta úr þeim, hann rúllaði þeim sem sagt upp með miklum látum og staflaði! en minn góði kennari, Hringur Jóhannesson, hafði lagt ríka áherslu á það frá upphafi að ég geymdi þær liggjandi og alls ekki upprúllaðar. Ég sé hann eiginlega fyrir mér, úff, syndsamlegt, ekkert nema bert fólk, það skal sko rúlla því upp, rúllu eftir rúllu. En rosalegt magn er þetta og of seinlegt í þetta skipti að grisja það af einhverju viti.
En sem sagt hægt og hægt er ég að leggja þær í bunka og slétta þær og á milli ræðst ég á smá horn uppi og lagfæri, hendi smálegu úr möppum sem eru orðnar úreltar, raða bókum úr skápum niðri og upp í bókahillurnar þar, þetta potast allt saman, og nokkuð lagt síðan ég hef tekið til hendinni þarna upp og þá er tilhneigingin sú að að fólk staflar dóti í stað þess að raða því, ég er ekki undanskilin.
Þungbúin og drungaleg ský - en ægifögur
23.7.2008 | 17:16
Hef verið ansi upptekin af því að taka myndir af fallega sólgylltum skýjum, en síðastliðna sunnudagsnótt féll ég gersamlega fyrir þungbúnum skýjunum sem áttu sök á úthellisringinunni á mánudaginn. Treysti því að þið séuð sammála.
Bróðurbörnin mín með börnin sín fimm og maka í heimsókn í bústaðnum í hellirigningunni
22.7.2008 | 01:25
Fékk skemmtilega heimsókn í dag uppi í bústað, Stebbi, Guðrún og Katrín Ólöf, börn Georgs bróður komu í heimsókn með fríðu föruneyti, Margréti konu Stebba og Runólfi, manninum hennar Guðrúnar og ekki má gleyma börnunum fimm, sem öll eru bráðung, Guðrún á Bensa og tvíburana Emil og Elínu og Stebbi á Kötlu Maríu og einn son svo ungan að hann hefur enn ekki fengið nafn. Það var glatt á hjalla í Gljúfraborg eins og sjá má á þessum myndum og ég er enn brosandi allan hringinn.
Stolt móðir, Margrét, með nýfædda soninn
Katrín Ólöf og Bensi
Tvíburarnir Emil og Elín
Guðrún fékk nýja frænda lánaðan
Runi með Elínu og Margrét með Emil
Katla María orðin stóra systir og Guðrún með Emil
Stebbi með nýja soninn og Runi með Emil
Elín litla komin í boltann
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 01:45 | Slóð | Facebook
Tíu daga hestaferð lauk í Gljúfraborg
20.7.2008 | 19:57
Skemmtilegur endir á hestaferðinni hans Ara, seinustu þremenningarnir í ferðinni síbreytilegu, sem fóru lokaáfangann um Jafnaskarð, enduðu ferðina hér hjá mér í Gljúfraborg í kaffi, sem var auðvitað alveg æðislegt. Þau riðu yfir Gljúfurá á gömlu brúnni hér fyrir neðan og svo voru hestarnir settir í aðhald hér við endann á pallinum, seinni hópurinn er hér enn þegar þetta er skrifað en verður sóttur á eftir. Við Ari skruppum upp að Hreðavatni, þar var bíllinn og hestakerran, á meðan sendum við stelpurnar, Steinu og Karen, í pottinn, nema hvað!
Þegar fjölmennast var voru tíu manns í ferðinni, en seinustu daga hefur hópurinn verið að þynnast, enda var mislangur tími tekinn frá fyrir ferðina eftir því hversu mikil frí fólk hafði. Þau Karen, Ari og Steina hafa verið með allan tímann og sumir hættu ekki fyrr en í gær eða snemma dags í dag, þannig að þetta hefur verið mikið úthald fyrir alla. Veðrið lék við mannskapinn um miðbik ferðarinnar, en byrjaði og endaði í rigningu, að vísu voru ekki nema nokkrir dropar sem náðu þeim seinustu í dag.
En hér í Gljúfraborg er greinilega alveg réttur staður fyrir hestana, og ég set hér með nokkrar myndir af líðandi stundu inn í bloggið til áréttingar.