Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Lykill að ótrúlega fjölbreyttum og fullkomnum heimi

Frjáls hugbúnaður hefur geysilega marga kosti. Framþróun gerist hratt þar sem allir geta verið að ítra og lagfæra kóða og bregðast við villum og öflug samfélög myndast sem hafa það í för með sér að margir eru til að bregðast við ef vandamál koma upp, og þeir gera það flestir í áhugamennsku.

Hvað merkir notkun frjáls hugbúnaðar fyrir notendurna? Ég held að stóra systir mín, sem er ekkert sérlega upptekin af hugbúnaðarmálum eins og ég, vill bara að dótið virki! hafi sagt allt sem segja þar þegar ég hlóð niður hjá henni Open Office (sem er hliðstætt Office pakkanum með ritvinnslu, glærusýningar og fleira) - hún fiktaði smá og ég sagði henni ekkert til, þar til hún kvað uppúr með það: ,,Þetta er miklu lógískara og auðveldara en önnur ritvinnsluforrit sem ég hef notað!".

Ég hef notað frjálsan hugbúnað í fjöldamörg ár, ýmsar útgáfur af Linux stýrikerfinu sem alltaf er í framþróun og orðið mjög notendavænt. Mæli til dæmis með Ubuntu, sem er orðið mjög fullkomið og með alls konar fídusa sem ég er mjög hrifin af, og aðra sem eru kannski bara skemmtilegir. Fyrir utan Open office, sem kemur flestum að gagni, væntanlega, þá mæli ég sérstaklega með myndvinnsluforritinu GIMP sem er alveg æðislegt, þægilegt, lógískt og ókeypis. Svo er auðvitað besti vafrinn á markanum að mínu mati og margra annarra Firefox.

Óleyst vandamál? Já, þau eru svo sannarlega til, þótt þau séu ekkert í líkingu við sum þeirra sem maður er að lenda í til dæmis í ritvinnsluforritum sem maður er að kaupa fyrir einhverja tíuþúsundkalla. Ég á enn í mikilli baráttu vegna stórs verkefnis sem ég er byrjuð á og þvælist með milli Open office og Word (97/2003). Þar er slatti af aftanmálsgreinum og yfirfærslan virðist ganga ágætlega í nokkur skipti hjá mér, en svo allt í einu frýs allt í Word og ég fæ vísbendingar um að ég sé búin að tapa öllum textanum mínum (sem reynist svo ekki rétt, allt með skilum þegar ég fór út úr tölvunni og aftur inn, gamla trikkið er það eina sem virkar í þetta sinn) :-( .... þannig að ég er enn að engjast svolítið. Kostir þess að nota Open office eru að mér líkar vel við það, þetta er það forrit sem til dæmis netkaffihúsin á Kanarí, sem ég þekki vel og nota mikið, nota, eins er yfirleitt auðvelt að vista skjöl sem .doc og opna í Word, en þar er efinn, ég vil ekki íþyngja þeim sem gætu lenti í vanda eins og ég lenti í uppúr þurru um daginn, með skjal sem var búið að virka nokkrum sinnum! Auðvitað auðleyst, en samt er vont að setja þá, sem ekki eru jafn ákafir tölvuunnenndur og ég, í vandræði.

Á hinn bóginn þá veit ég að þessi vandi er leysanlegur án mikilla leiðinda, sem aftur á móti notkun á nýjasta Wordinu mínu (2007)er alls ekki, þar þarf ég alltaf að vista skjöl niður í Word 97/2003 af því ég býð ekki þeim sem ég á samskipti við uppá að þurfa að hlaða niður lagfæringa-kitti til að geta opnað skjöl úr Word 2007 (með endingu .docx). Auðvitað er það ,,ekkert mál" en sumum finnst það bara skítt og verða pirraðir. Þannig að ég vista mín word skjöl (þau sem fleiri en ég eiga að nota) bara ennþá niður í eldri útgáfuna sem allir ráða við, en það er óþarfa aukaskref og stundum gleymi ég því og fæ bréf til baka: Hvernig á ég að opna þetta? Þannig að ... : Að vera eða vera ekki kominn alveg yfir í frjálsan hugbúnað, það er efinn.

Skrifað á litlu, bleiku tölvuna mína sem er með tveimur stýrikerfinum, Windows Vista og Ubuntu (sem er Linux stýrikerfi). Sýnir best hversu tættur maður er.

 


mbl.is Allt opið og ókeypis?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kvikmynd um að ólíklegur maður sé kjörinn forseti Bandaríkjanna, hvernig er hægt að gera slíka mynd ,,öðru vísi

Einn af kostunum við að vera hér uppi í bústað að vinna er að það eru færri sjóvarpsstöðvar sem glepja, en ég var samt ákveðin að horfa á ,,Man of the year" með Robin Williams, og sé ekki eftir því. Fantafín mynd. Hún er svo sem um klassískt efni, ólíklegur maður er kjörinn forseti Bandaríkjanna, kommon, hvernig er hægt að taka það dæmi frumlega? En ef þið hafið ekki séð myndina, þá er hún vel kvöldstundar virði.

Ljúft veður, smá dugnaður og annað skemmtilegt

Eftir ágæta vinnurispu seinni partinn í gær og í gærkvöldi tók ég letimorgun í sólinni, eins og ég geri gjarnan hér uppi í bústað, en svo allt í einu sá ég að við svo búið mátti ekki standa og dreif í að vökva tré og blágresisvesalinginn sem ég tók upp úr garðinum heima og setti niður hér, þetta er önnur tilraun til að koma upp blágresisbrekku hér bakvið bústaðinn og vonandi tekst þessi. Þegar ég var komin með slönguna í hendi og vígaleg í gúmmístígvélum fannst mér næst tilvalið að bera á einn þyrstan vegg tæpan þriðjung af pallinum okkar, það er að segja þeim efri. Þetta var bara stórskemmtilegt trimm og manni líður afskaplega vel í skrokknum eftir svona ævintýri. Held ég skelli mér bara í pottinn eftir þetta, það gæti að vísu orðið til að flýta ferð hestamannanna í Fornahvamm (lógískt að Ari hringi þegar ég er komin í pottinn, ekki satt?). En þá er bara að fara uppúr, þurrka sér og sækja mannskapinn ef með þarf. Og svo er ég líka búin að forgangsraða vinnunni næstu tvo daga, og það er alltaf ágætt mál.


Hestamenn á heimleið

Þá eru nú hestamennirnir, Ari minn, Bjössi mágur hans og fleiri sem tengjast bæði Borgarfirði og Álftanesi, á heimleið, ríða gamla leið yfir Holtavörðuheiði og niður í Fornahvamm á morgun. Símasamband hefur verið frekar stopult í ferðinni en seinustu daga hef ég þó heyrt í þeim. Það verður gaman að fá Ara hingað í bústaðinn, en hann verður hér næstu nætur meðan verið er að koma hestunum í sumarhagana sína. Enn eru þau fyrir norðan og hafa fengið alls konar veður. Ferðaáætlun hefur riðlast gersamlega vegna veðurs og vatnavaxta en þau reyna kannski aftur að ári. Svona ferðir eru alltaf ævintýri, ég hef elt hestamenn í nokkrum slíkum og alltaf gaman að ferðast um landið. En sannast sagna hefur veðurblíðan hér á Vesturlandinu togað meira en ferðir norður, svona hingað til alla vega en ég hef haldið því opnu að skreppa norður og hitta hópinn, en frekar sátt við að á það reyndi ekki. hesturHalldorPetursson

 


Sko Hrafn ...

Hrafn Gunnlaugsson var gestur í síðdegisútvarpi sem hljómaði í bakgrunni sólar, náttúru og gutls í pottinum og alltaf gaman að hlusta á hann, þótt ekki sé ég nú alltaf sammála honum. Mér hefur reyndar alltaf þótt hann sterkastur sem smásagnahöfundur, þar er hann virkilega að rokka, en sjálfur segist hann hafa haft mest gaman af því að vera ljóðskáld. Það var þó andstaðan sem hann lýsti við aðild að Evrópusambandinu sem greip eyru mín og ég hlakka til að heyra hann fylgja þessari yfirlýsingu eftir. Sjálfsagt lógískt miðað við þær anarkísku hugmyndir sem hann virðar, en því miður eru ekki allir sem nenna að tengja Evrópusambandsandstöðu við andstöðuna við skrifræði og ofstýringu.

Blíðan er uppi í Borgarfirði

Klukkan ekki orðin tíu og hitinn þegar kominn yfir 12 gráðurnar og glaðasólskin. Ég er sem sagt aftur komin í Borgarfjörðinn, það leynir sér ekki. Hér er fallegt og gott og nú er ég búin að kaupa langa framlengingarsnúru fyrir tölvuna mína svo ég geti unnið lengur en  einn, tvo klukkutíma í senn úti í blíðunni.

Kæra króna ...

Ég er ein af þessum undarlegu manneskjum sem fyrirlít ekki krónuna, tel að vel sé mögulegt að nota hana, sé vilji fyrir hendi. Þar með loka ég ekki á aðra möguleika og geri ekki lítið úr því að erfitt sé að vera með lítinn gjaldmiðil í alþjóðlegu umhverfi. En það eru mýmargir möguleikar á að stýra notkun gjaldmiðils, við þekkjum nokkra þeirra, fljótandi gengi, gengi bundið við myntkörfu, jafnvel við tiltekinn gjaldmiðil, en fyrst og fremst þarf að eyða óvissunni um hvaða gjaldmiðil við hyggjumst nota í framtíðinni og gera síðan þær ráðstafanir sem hægt er að gera (og skynsamlegt er) til þess að hægt sé að nýta okkar sjálfstæða gjaldmiðil af einhverju viti. Nýta möguleikana, sem eru miklu meiri til stýringar í efnahagssveiflum ef við ráðum yfir gjaldmiðli okkar, og sneiða annmarkana, til dæmis hávaxtastefnuna, af. Ekki má gleyma því að gengi krónunnar var lengi allt of hátt skráð og það vissu allir, til ómælds tjóns fyrir útflutningsatvinnuvegina. En þeir sem taka þátt í þessar furðulegu umræðu sem hefur verið að undanförnu gera það eflaust af ýmsum ástæðum. Mér sýnist í fljótu bragði að bera megi kennsl á eftirfarandi erkitýpur:

  1. Þá sem vilja taka upp gjaldmiðilinn Euro (Evra er ekki til á Evrusvæðinu) til að koma okkur inn í Evrópusambandið.
  2. Þá sem vilja taka upp Evruna með samningum til að halda okkur utan við ESB. Við fáum skýr skilaboð úr öllum áttum um að þetta sé ekki hægt, en engu að síður er þessi hópur til.
  3. Þá sem vilja taka upp Evruna einhliða og segja við ESB: Sorrí, okkur er sama þótt við verðum ekki vinsæl.
  4. Þá sem vilja taka upp einhvern annan gjaldmiðil en Euro og halda okkur utan við ESB.
  5. Þá sem vilja taka upp einhvern annan gjaldmiðil en Euro og hafa ekki gefið upp afstöðu sína til ESB (sem merkir oft að þeir vilji ólmir inn).
  6. Þá sem vilja tengja krónuna einhliða við annan gjaldmiðil.
  7. Þá sem vilja tengja krónuna við myntkörfu.
  8. Þá sem vilja taka á efnahagsvandanum og halda krónunni.
  9. Þá sem vilja taka á efnahagsvandanum og gera eitthvað annað en að halda krónunni, vita ekki alveg hvað.
  10. Þá sem stinga hausnum í sandinn.

Þið megið bæta við þennan lista.


Ástæða til að samgleðjast

Nú er sannarlega ástæða til að samgleðjast Benedikt. Þetta hlýtur að vera sæmileg þolraun og gaman að allt gekk upp. Til hamingju!
mbl.is Tókst að synda yfir Ermarsund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bækur, bækur, bækur og glæsileg garðveisla þar sem gestgjafinn kemur á óvart (sem var kannski ekki svo óvænt ;-)

Er stödd á þeim punkti í tveimur aðalverkefnum mínum að heimsókn í Þjóðarbókhlöðuna er óhjákvæmileg. Þess vegna meðal annars er ég enn í bænum. Átti góða stund í dag þar sem ég fór í gegnum tímarit sem geymd eru niðri í kjallara Þjóðarbókhlöðunnar og dáðist enn og aftur að því hversu gott er að vinna í því ágæta húsi, jafnvel þótt vatnið umhverfis húsið sé ekki til staðar eins og sakir standa. Hvort það er vegna yfirstandandi gluggaþvottar veit ég ekki, en hvers vegna ætti það að vera? En það er nú annað mál. Hins vegar hef ég ekki þurft að fara klyfjuð bókum af safninu að undanförnu, hef yfirleitt lokið ætlunarverkinu á staðnum, en nú brá svo við að ég þrammaði með svona 15 kíló af bókum út, fann nefnilega tilvísun í áhugaverða bók þegar ég var rétt að ljúka vinnu upp úr tímaritunum sem ég var með í höndunum og þegar ég var komin að hillunum sýndist mér að nokkrar aðrar bækur kynnu að vera gagnlegar líka. Þannig að nú er bíllinn minn hlaðinn bókum um sjávarútveg fyrr og nú, flestum nýútkomnum reyndar, því ég var búin að kanna ýmsar eldri heimildir. Meiri ósköpin sem er skrifað, en ég þarf að skoða allar mögulega bitastæðar heimildir.

Svo var að bruna heim og skipta um föt og hlutverk. Var á leið í afskaplega vel heppnaða garðveislu, þar sem Ragnar Arnalds var að halda uppá sjötugsafmælið, sem er auðvitað fáránlegt, þar sem hann ætti ekki að vera mikið meira en sextugur og heldur ekki hans ágæta kona, Hallveig, sem er nýkomin úr brúðuleikhúsferð til Síberíu, eins og kom fram í viðtali við Ragnar um daginn í einhverju blaðinu. Ragnar er formaður Heimssýnar og þar liggja okkar leiðir saman um þessar mundir, hann er góður málsvari sjálfstæðis þjóðarinnar. Flestir vita líklega einnig af því að hann er góður rithöfundur, hefur aðallega fengist við leikritun, en ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki hugmynd um að hann væri farinn að semja sönglög, en við fengum að heyra dæmi um það í garðveislunni góðu og ekki spurning að listahæfileikar hans ná til þess sviðs einnig. Þetta var bæði óvænt uppgötvun og um leið ekkert svo óvænt. Gott fólk í kringum Ragnar og skemmtilegir endurfundir við gamla vinkonu sem ég vissi að yrði þarna, en hef ekki séð í óþarflega mörg ár, ekki síðan ég stundaði afmælisveislur á Sundlaugaveginum.


Tennis eftir tíu ár (eða þannig)

Það eru komin meira en tíu ár síðan ég hef spilað tennis af einhverju viti. Var komin niður í einn leik á ári (á Kanarí) en seinustu tvö eða þrjú árin er sú iðja komin niður í núll skipti á ári. En núna í kvöld dreif ég mig í Tennishöllina þar sem boðið er uppá kvennakvöld á mánudögum. Fyrsta kvöldið lofar góðu (þrátt fyri að ég villtist aðeins á leiðinni, sem segir allt sem segja þarf um hversu langt er síðan ég hef spilað tennis í Kópavoginum). Mér líður vægast sagt frábærlega eftir þetta.

1897_tennis_match

(Kannski ekki svoooona langt síðan ég fór seinast í tennis).


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband