Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Já, já, þau eiga það svo sannarlega skilið að komast áfram ...

Regína Ósk og Friðrik Ómar hafa sinnt sinni pligt í Belgrad af mikill elju og samviskusemi og sýnt fagmennsku sem fleytti þeim í úrslitaþáttinn. Óska þeim alls góðs.


Baksviðs í Belgrad er greinilega rekki með silfurlitum stuttkjólum

Hunskast til að horfa á forkeppni 2. Þau Regína og Friðrik hafa unnið fyrir áframhaldi, hvað svo sem verður, þau hafa verið dugleg, áhugasöm, jákvæð og hress.

En ég undrast alla stuttu silfurkjólana sem fulltrúar Svíþjóðar, Úkraínu, Tékklands og nokkrar frá Hvíta-Rússlandi (að minnsta kosti) hafa klætt sig í. Ég held að það hljóti að vera rekki með fullt af silfurkjólum baksviðs og svo séu konur að lendia í að týna kjólunum sínum.

Annars fannst mér Króatía krúttleg, áður hef ég séð Finnland og þeir eru flottir og svo finnst mér Serbía með gott lag. Nú er búlgarska framlagið og sá sem spilar á gítar gæti verið sonur Johnny Halliday, franska flagarans sem fáir hér á landi þekkja (og ekki mikils misst). Svo sem allt í lagi með umbúðirnar á þessu lagi.

Og Sigmar, ekki líkja saman þessi lamaða Ho, ho, ho-i sem einhver sjóræningjasveit var með, við okkar ágæta Hó, hó, hó sem er fjarri góðu gamni.

Malta er með flott lag, ég er að heyra megnið af þessum lögum í fyrsta sinn, en yess, loksins sovna eitthvað sem minnir á anarkistana í Chumbawamba hér um árið (komi til Íslands með I get knocked out! lagið sem ég man ekki hvað heitir). Og svo var söngkonan í stysta silfurkjólnum, það náði bara niður að mitti, en sem betur fór var hún í svörtum buxum þar sem kjólnum sleppti, hefur greinilega tekið vitlaust númer af rekkanum.

 


Undirskrift samninga um Álftaness sögu, meistaraprófsfyrirlestur framundan og á leið í Sandgerði og til Ungverjalands

Margt að gerast í lífinu núna. Var að undirrita samning um viðbót við ritun Álftaness sögu. Er á leiðinni í Sandgerði, hef verið að vinna í lokahnykk á þeirri sögu, sem kemur vonandi út núna á árinu. Svo er ég að fara að flytja meistaraprófsfyrirlesturinn minn í tölvunarfræði í næstu viku, átti að vera á mánudag en búið að biðja mig að færa hann yfir á fimmtudag, sem er bara ágætt líka. Eftir það dríf ég mig aðeins til Ungverjalands, vinnutörn hjá okkur mæðgunum báðum, þannig að við verðum saman, Hanna í prófum og ég að vinna á fullu í mínum verkefnum. Eitt annað (smærra) verkefni, sem fer í gang um svipað leyti, ekki tímabært að fjalla um það svo ég hef í nógu að snúast. Svona hefur þetta alltaf verið á mínum free-lance árum, fer kannski hægt af stað en áður en ég veit er ég komin á meira en fullt. Bara gaman. Og inn á milli tókst mér að taka eitt stk. viðtal fyrir Húsfreyjuna og búin að skila inn öllum gögnum. Já, þessi lausamennska er bara svolítið fjörug.

Réttur David vann ameríska Idol-ið og Jason stal senunni

Eftir að Bob Dylan þáttur Scorsese var búinn datt ég inn í Idol-ið eins og til stóð. Var sem betur fer búin að byrgja mig upp af verðugum forgangsverkefnum sem ég var að sækja fyrr um kvöldið og vann í þeim, því hrikalega var þátturinn dreginn á langinn. En úrslitin eru ljós og mjótt á munum, en ég er sátt við að David Cook vann. Þess má svo geta að ómótstæðilegur flutningum Jasons á Buckley útgáfu Haleluja var eiginlega lagið sem stal senunni, það var einmitt rétt eftir að ég byrjaði að horfa/hlusta. Restin var eiginlega allt of teygður lopi, þrátt fyrir urmul af stórum nöfnum. Kannski mest gaman að sjá fræga leikara dansa ömurlega sem bakraddasöngvara. Farin að sofa, stífur dagur framundan á morgun.

Forgangsröðin verður að vera rétt: Bob Dylan heimilarmyndin er miklu áhugaverðari en nokkurt Idol

Æltaði að fara að horfa á American Idol í kvöld, eins og ég var búin að boða, en það verður bið á því, seinni hluti af frábærri heimildarmynd Scorsese um Bob Dylan, sá megnið af fyrri hlutanum líka. Must see. Idol má bíða.

Battle of the Davids - bein útsending: Klukkan ellefu í kvöld, þið sem getið vakað til klukkan eitt ;-)

Þá er það bein útsending um miðnæturskeið (eftir fund hjá mér, eða vinnutengda lotu, eftir því hvort hefur yfirhöndina). Þar sem svo heppilega vill til að tveir bestu söngvararnir eru eftir í American Idol, sem hefur nú ekki alltaf verið raunin, þá verður ábyggilega gaman að horfa í kvöld. Ég vona að þeir félagar syngi einhver skemmtileg lög. Besta frammistaða beggja hefur verið mjög áhugaverð, en á milli hefur komið smá meðalmennska.

Svo er auðvitað freak-show annað kvöld, Eurovisionkvöldið þegar örlög íslenska framlagsins ráðast. Held auðvitað með Íslandi, þótt mér finnist ekki hafa verið rétt valið í úrslit þetta sinnið, þá verður ekki af þeim söngvurum skafið að þau leggja sig öll fram og það skal svo sannarlega virt. Óska þeim alls góðs.

Jamm, það er reyndar eitt lag í keppninni sem komst áfram í gær, sem vert er að halda með, Finnlandi, hef heyrt það af og til í útvarpi og þetta er fantagott lag. Eiríkur Hauks myndi sóma sér vel með þessum strákum.


Himinlifandi á Hillary-vaktinni

Fyrstu spár bentu ekki til mikils sigurs Hillary í Kentucky en núna er henni spáð stórsigri og ég vona að það haldi. Oregon er vestar og óvissara, en ef Hillary næði betri árangri þar en ætlað var gæti farið svo að tvær grímur rynnu á ofurfulltrúana sem hafa ekki þorað að lýsa yfir stuðningi við Hillary. Fyrir nokkrum vikum var henni spáð meirihluta þeirra en Obama hefur verið að fá suma þeirra til sín. Þeir hljóta líka að vera hugsandi yfir þeim fréttum að stuðningsfólk Hillary sé ekki allt tilbúið að kjósa Obama, ætli að sitja heima eða jafnvel kjósa McCain. Hvað sem manni finnst um það, þá er ekki hægt að pína fólk til að kjósa eftir öðru en því sem það sjálft velur, það eru leikreglur lýðræðisins. Þannig að ... kannski er að draga til tíðinda vestanhafs, hver veit?
mbl.is Clinton spáð sigri í Kentucky
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Battle of the Davids" og Jósep segir ...

American Idol á lokaspretti og eins og Simon Cowell spáði verður úrslitaþátturinn "Battle of the Davids" enginn Golíat heldur bara tveir Davíðar. Veit varla með hvorum ég held meira. Cook hefur unnið á, á því leikur enginn vafi.

Einn skemmtilegasti leikurinn sem við fórum í var Jósep segir. Býst við að flestir þekki hann, einn skipar fyrir hvað hinir eiga að gera, og ef hann segir: ,,Jósep segir" á undan, þá á að hlýða, annars ekki. Á ensku heitir þessi leikur Simon says, og mér heyrist að það sé einmitt búið að hlýða því sem Simon (Cowell) segir hér með.


Samstarf ríkisstjórnarflokkanna: Pirringur á dag kemur skapinu örugglega ekki í lag

Mér finnst gæta vaxandi pirrings milli stjórnarflokkanna og yfirlýsingar jafnt sem aðgerðir einstakra ráðherra ala á slíku. Nú veit ég ekki alveg hvernig samþykkt verklag er innan þessarar ríkisstjórnar, en svo virðist sem hver og einn ráðherra megi segja og framkvæma nokkuð frjálslega án þess að það sé lagt fyrir ríkisstjórnina sem heild. Lagalega séð er það svo sem alveg í lagi, löngu búið að taka umræðuna um að ríkisstjórnin sé fjölskipað stjórnvald, en út frá samstarfi innan ríkisstjórnarinnar finnst mér ég stundum sjá daglega núningspunkta og stundum ummæli í kjölfarið. Það virðist ekki hafa verið gengið frá neitt of mörgum lausum endum þegar efnt var til þessarar ríkisstjórnar, eða að þeir eru farnir að trosna eitthvað.


mbl.is Hagsmunum fórnað með veiðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tónleikar sumarsins ... valkvíði! Lýsi eftir skoðunum ...

Er staðráðin í að fara á einhverja þeirra fjöldamörgu góðu tónleika sem eru framundan. Margt sem kemur til greina en að sama skapi er ég ekki tilbúin að ákveða mig enn og margt sem veldur. Meint annríki, óvissa um hvenær ég ætla að vera á landinu og meðreiðarfólk. Búin að missa af Rufusi, sem kom vel til greina, en þegar ég heyrði tónleikana hans í útvarpinu um daginn þá áttaði ég mig reyndar á því að ég þoli ekki að heyra of stóran skammt af of líkum lögum í einu, og röddin hans er svo spes að minn skammtur er að hlusta á stök lög, og helst á Halelujah, oft!

Mig langaði ekki á Bob Dylan þegar hann kom seinast til Íslands, hann hafði ekki verið að gera neitt sérstaklega góða hluti þá árin á undan, og svo spilaði eflaust inní að ég var ekki á landinu (þau eru súr, segir refurinn). Skemmtilegustu tónleikar að fara á eru harðir keyrslutónleikar, Megadeath, White Stripes og Jethro Tull minnisstæðir (missti af Rammstein, það var glæpsamlegt, hélt ég hefði verið í Noregi, en svo minnir að það hafi verið hringt í mig af tónleikunum og mér sagt að mæta, rétt þegar ég var búin að lofa mömmu að gera eitthvað með henni um kvöldið, en kannski voru það aðrir tónleikar). En þetta með keyrslutónleika er ekki einhlítt, lágstemmd Patty Smith, Lou Reed og Cohen forðum afsanna það. Hmmm, millistigið: Travis voru æði! alltaf fílað þá betur en Coldplay og Elton var líka mega.

Þumalfingursreglan að sjá hljómsveitir helst á hátindi frægðar sinnar var einu sinni fín viðmiðun, en eftir að ég klúðraði endurkomu Deep Purple á þeim forsendum að ég hefði skemmt mér svo vel 1973 áttaði ég mig á því að þetta er bara bull.

Þannig að ef þið, ágætu lesendur, getið gefið góð ráð þá er ég opin fyrir þeim. Neita að fara á James Blunt, veik fyrir Whitesnake og finnst Eric Clapton spennandi kostur. Lausir miðar alls staðar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband