Nokkrar góðar stundir án netsins - og hugleiðingar um svefn, vinnu og vöku

Yfirleitt kemur það sér illa ef netið dettur út, sem gerist auðvitað aðeins um helgar, eða svo finnst mér alla vega. En í dag var ég netlaus í allmarga klukkutíma og svo heppilega vildi til að ekkert sem ég vissi um hvíldi á mér, var búin að senda sjálfri mér nýjasta textann sem ég var að skrifa (vinnan mín og það sem eftir er af námi byggjast á að skrifa) í tölvupósti og engar nýjar viðbætur eftir það, auk þess em USB lyklar eru alltaf til, því tölvan var á sínum stað. Þannig að ég átti bara nokkrar góðar stundir án netsins, en held ég hafi verið ein heimilismeðlima sem þetta ástand háði ekki að marki.

Nokkrum sinnum hef ég fjallað hér á blogginu um þessi aðfanga- og úrvinnslutímabil sem koma í öllum verkefnum og reyndar í tilverunni eins og hún leggur sig. Aðfangatímabilin krefast oft vinnu á dagvinnutíma og mikilla samskipta en afraksturinn er ekki eins sýnilegur. Úrvinnslutímabilið er yfirleitt skemmtilegra, þá er uppskeran að sýna sig. Og núna er ég á fullu í úrvinnslu á öllu því efni sem ég hef verið að sanka að mér að undanförnu. Klikkaði reyndar smá tíma á einu grundvallaratriði, mér finnst alltaf best að skrifa á nóttunni. Í þetta sinn var ég búin að vera svo lengi að vinna (sjálfstætt) á dagvinnutíma að ég hélt að ég gæti alveg eins skrifað á daginn. Og rembdist, og rembdist, þar ég ég loks gafst upp og fór að skrifa á nóttunni, eftir góðan morgunsvefn, afgreiðslu á praktískum málum svo sem símtölum og tölvupósti milli þrjú og fimm síðdegis, fínan síðdegisblund og smá sjónvarpsgláp áður en ég hófst handa. Frá því ég hætti að streitast á móti þessu vinnulagi sem hentar mér svona ljómandi vel, þá hafa skriftirnar gengið vel. Stundum kíki ég líka á tölvupóstinn áður en ég fer að sofa undir morgun, en ég vinn svo sem ekki alltaf fram á morgun. Reyni að sofa þegar ég er þreytt og vaka þegar ég er í vinnustuði, og þetta er bara svo ljómandi gott.

Hef alltaf verið afskaplega trúuð á að góður svefn geri vinnuna auðvelda (og svo er oft svo skemmtilegt að sofa, einkum ef draumarnir eru spennandi), en hins vegar geta góðar vökulotur verið mjög gagnlegar líka. Oftast hafa þær verið í sambandi við vinnulotur þegar ég er að ljúka verkefni, á meðan ég sinnti grafík að einhverju gagni var varla hægt að hefjast handa upp á minna en 20 stundir í senn og svo vann ég í nokkur ár með mjög skemmtilegu liði (hjá Betware) sem átti það til að vaka saman fram á morgun og skemmta sér í góðra vina hópi, það má heldur ekki vanmeta slíkt. Stöku sinnum tek ég líka svoleiðis tarnir með vinum, fjölskyldu og/eða ættingjum og það er gott ef allir eru í aðstöðu til að greiða svefnskuldirnar sem safnast upp. Ég er ekkert undrandi á þeim rannsóknum sem ég hef verið að lesa seinustu misserin um að hægt sé að greiða svefnskuldir eftir á eða jafnvel að safna upp svefninnistæðu. Grínaðist lengi með það ef ég fékk mikla svefnþörf að nú væri eitthvað að fara að gerast og ég í fyrirbyggjandi svefnuppsöfnun. Meira að segja einhver læknir hjá Ophru var víst að segja um daginn að hún svæfi hiklaust í 15 stundir ef henni fyndist hún þurfa á því að halda. Einmitt það sem ég leyfði mér á laugardaginn, endurnærð og nú er líka gott að halda áfram að vinna, eitthvað fram á morgun.

Eitt enn, þegar ég er í 9-5 vinnu (sem oft hefur gerst, jafnvel árum saman) á nánast ekkert af þessu við. Og ég er líka sannfærð um að fólk er misjafnt að þessu leyti, A-fólk, B-fólk og svo fólk eins og ég sem er ábyggilega C. Fyrir suma er reglulegur svefn áreiðanlega í öllu tilfellum réttur. Sumir verða hreinlega niðurdregnir á óreglubundnum svefni, en þá held ég reyndar að ekki eigi við það sem ég get (oftast) leyft mér, að vera í aðstöðu til að sofa þegar viðkomandi er þreyttur og vaka þegar vinnustuðið er gott. Það eru ákveðin forréttindi að vinna hjá sjálfum sér, en harðari húsbónda (húsmóður) er erfitt að finna, undir það veit ég að margir geta tekið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Það reynir á sjálfsagan að vinna hjá sjálfum sér.  Bara flott.

Sólarrhringurinn á að skiptast svona; 8-8-8.  Átta í vinnu, átta í svefn, og átta í að gera þroskandi og skemmtilega hluti.  Sammála?

Knús

Jenný Anna Baldursdóttir, 7.4.2008 kl. 10:02

2 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

8-8-8 - mér líst vel á það ef það má jafnast út á til dæmis viku. Svo er bara hvað er vinna, hvað eru tómstundir, stundum er skörun. Ekkert er einfalt, setja í þvottavél, strauja og þurrka af er reyndar eitt af því sem ég eyddi talsverðum tíma í á einhverju skeiði lífsins. En sjálfsaginn, já, hann er þarna alltaf einhvers staðar. Ekkert alltaf sama kerfi sem dugar. Hef samið mörg plön, skammtíma- og langtíma, en það er ekk þar með sagt að þau haldi, þar kemur nefnilega fleira inn í en við sjálf. Og ef aðrir breyta planinu þá þarf bara að vera sveigjanlegur og endurskoða það.

Ég hef notað það trikk á sjálfa mig á setja á mig þéttari skilatíma en nauðsyn krefur. Láta til dæmis einhvern vita að ég ætli að senda kafla í yfirlestur á ákveðnum tíma, þótt það sé ekki endilega nauðsynlegt. Þannig er alltaf hægt að áfangaskipta verkum.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 7.4.2008 kl. 14:40

3 Smámynd: TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.

Burt séð frá þvi Anna, langar þig ekki til að skvetta úr klaufunum!?

TARA ÓLA/GUÐMUNDSD., 8.4.2008 kl. 18:27

4 Smámynd: LKS - hvunndagshetja

Ég held ég sé líka í C-hópnum, ég skipti um gír eftir því hvað vinnan útheimtir hverju sinni. Þegar verkefnum fjölgar eða bresta á með óveðri, þá finnur maður til vökustaurana sína og fer í þægilega mussu/flíspeysu-klæðnaðinn og tréklossana, tekur stærsta kaffibollann úr bollaskápnum og labbar sig bara með kaffikönnuna eins og hún leggur sig að skrifborðinu og situr þar þangað til verkefninu lýkur, eða a.m.k. þangað til það er fyrirsjáanlegt að það náist að klára það á tilsettum tíma. En svo aðlagast ég reglunni og rólegheitunum ágætlega líka. En finnst kannski best að þetta skiptist á. Hmmm þarf að pæla meira í þessu, held ég barasta

LKS - hvunndagshetja, 8.4.2008 kl. 19:08

5 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Mér finnst reyndar gaman að vinna og gaman að vera í vinnutörn, en á milli skemmti ég mér svo sannarlega vel, takk Tara, fyrir ábendinguna. Giska á að næsta djammtímabilið mitt verði ekki fyrr en í sumar, en það er svo sem aldrei að vita. Góugleði hestamannafélagsins rokkaði og þá var ég nýkomin úr tveggja vikna djammi, Kanarí er nefnilega ,,út á hverju kvöldi" dæmi. Og hvunndagshetjan er með lýsingu sem ég kannast svo óskaplega vel við, ójá, allt eitthvað svo rosalega kunnuglegt og heimilislegt ;-)

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 9.4.2008 kl. 01:11

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband