Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Þarf að auka vægi framkvæmdavaldsins? Um skrifstofurnar 60 í tillögum Framsóknarflokksins.

Ekki veit ég hversu mikið vægi tillögur Framsóknarflokksins í Stjórnarráðsmálum er, en samt er alltaf vert að gefa því gaum þegar verið er að leggja einhverjar línur í grundvallarplagginu, sem stjórnarskrá hlýtur að teljast, alla vega meðal þeirra þjóða sem hafa slíkt plagg. Það sem ég hnýt um við fyrstu yfirferð í tillögum Frammara er ákveðin tilhneiging, vonandi óaðvitandi, til að auka vægi framkvæmdavaldsins á kostnað löggjafavaldsins. Mögum hefur reyndar þótt nóg um hversu mikið vald framkvæmdavaldsins er í raun. Þarna er tvennt sem ég get ekki skilið á annan veg, annars vegar að færa það vald sem löggjafavaldið hefur nú varðandi skipan ráðuneyta til framvkæmdavaldsins. Hins vegar eru það þessar 60 skrifstofur ráðuneytanna sem valda mér heilabrotum. Kannski er þetta ekkert nýtt, kannski eru skrifstofurnar svona margar nú þegar, vonandi ekki, en ég er samt ekki alveg að skilja. Mér finnst vera tilhneiging til að auka vægi skriffinna (afsakið ljómandi góða fólk í ráðuneytunum) og ég get ekki alveg varist þeirri hugsun að það sé verið að hugsa í áttina til fyrirkomulagsinshjá ESB í Brussel, sem þó er bullandi ágreiningur um í Framsókn hvort er draumaskipulagið. Skriffinnar í Brussel eru afskaplega óhressir með tilvist og vald Evrópusambandsþingsins og vilja það helst sem minnst,  og´mér finnst að sjálfrátt eða ósjálfrátt sé verið að stíga skref í þessa átt. Ekki gleyma því að þingmenn eru bara 63 og án persónulegra aðstoðarmanna, hvernig mun þeim ganga að glíma við 60 skrifstofur, jafnvel vel mannaðar, og ég segi glíma við, því ég hef sjálf upplifað pirring hjá ráðuneytisfólki þegar kjörnir fulltrúar fólksins eru eitthvað að reyna að breyta því sem ráðuneytisfólkið hefur ÁKVEÐIÐ. Mér finnst að við eigum að færast nákvæmlega í hina áttina, til meira lýðræðis alls fólks, en ekki aukins vægis fulltrúa sem ekki eru kjörnir af fólkinu.

Ef tillögur Framsóknarmanna eiga að hníga í aðra átt en það sem ég les úr þeim, þá vinsamlegast hefjið umræðu hér í blogginu mínu, því mér er það talsvert hjartansmál að afhenda ekki það litla vald sem enn er kosið um til þeirra sem ekki eru til þess kjörnir, það er embættismanna. Hef heyrt rökin um stöðugleika og að embættismenn (skipaðir af tilteknum ráðherrum og mögulega ævilangt flokkshollir) afi þurft að ,,lifa af" ákveðna ráðherra, en ég er bara einfaldlega ekki sammála þeim rökum. Eiga sem sagt 60 skrifstofurnar að lifa ótal ríkisstjórnir og þingmeiri og -minnihluta.

Hins vegar er ég afskaplega sammála því að ráðherrar eigi ekki að sitja á þingi, ástæðan er einföld, þeir hafa of lítinn tíma til að sinna þingstörfum og ekkert skrýtið að Framsókn leggi þá tillögu fram, því í þeim flokki hefur komið upp sú staða að illa hafi gengið að manna formennsku og aðrar skyldur í þingnefndum vegna þess að annar hver þingmaður flokksins er orðinn ráðherra. En það gerir tillöguna alls ekki minna rétta að mínu mati.


mbl.is Stjórnarráðsnefnd Framsóknarflokksins leggur fram tillögur að drögum að frumvarpi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vorið er komið hér í Cambridge

Stutt vinnuferð til Englands, eyddi deginum að hluta í Cambrigde og núna komin á fundarstað í Northampton, en fundurinn sem ég er að fara á er í fyrramálið. Að fundi loknum mun ég skreppa til Tang Hua vinkonu minnar sem búsett er í Cambridge. Hér er vorið komið, 19 stiga hiti í dag og kirsuberjatrén komin í blóma nú þegar. Ég er hugfangin af gróskunni og hlakka til vorsins heima, þegar litla kirsuberjahríslan mín mun vonandi státa af eins og þremur bleikum hnöppum, ekki mikið en það er svo margt annað fallegt. Fréttum að það snjóaði heima, er það rétt? Á eftir að kíkja á Mogga og/eða veðrið. Er að storma á undirbúningsfund núna innan nokkurra mínútna þannig að frekari vangaveltur munu bíða.

Menn vilja ekki heyra það sem lætur óþægilega í eyrum

Það hefur alla tíð legið fyrir að yfirráð yfir fiskveiðum kringum landið væri ógnað með Evrópusambandsaðild. Hins vegar eru margir sem vilja ekki heyra það, og aðrir sem reyna að sannfæra okkur um að þessi auðlind skipti okkur ekki máli. Enn aðrir skjóta sér á bak við að aflaheimildir séu hvort sem er í tröllahöndum og halda að þannig sé hægt að leiða málið yfir í annað, því flestir geta sameinast um að bölva kvótakónunum. En það er kannski sársaukaminna að kvótakóngurinn heiti Javier frekar en Jónas, Smith frekar en Siggi. Við losnum ekki við kvótakerfið með því að ganga í Evrópusambandið en kannski losnum við við kvótann, úr landi. Mér þykir það lítil væntumþykja í garð útgerðarstaðanna sem þegar blæðir, en kannski er þetta leið til að fá réttlætingu fyrir meiri mengunarkvóta svo við getum dritað fleiri stóriðjuverum út um landið. 
mbl.is Ragnar Arnalds: Hugmyndir um yfirráð Íslendinga ótryggar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brúna hárið hans Eiríks - mistök í litum

Heyrði sannleikann í síðdegisútvarpi Bylgjunnar, viðtal við Eirík, það er ekki hægt að kenna myndvinnslunni á myndbandinu um brúna litinn á hári Eiríks Haukssonar heldur eru þetta sorgleg mistök við litun. Inn hringdu hlustendur og ein svona verulega huggandi sem sagðist hafa lent í þessu sjálf, og: Rauða hárið kemur aldrei aftur! sagði hún svo sannfærandi að hrollur fór um mig. En svo fékk ég uppörvandi fréttir frá Ungverjalandi, þar sem lagahöfundur og tveir hljómsveitarmeðlimir eru búsettir ásamt fjölda annarra íslenskra námsmanna: Hárið er dökkrautt! Þannig að enn er von. Þegar ég féll fyrir rauða makkanum mannsins míns fyrir meira en 32 árum þá sagði tengdamamma mín tilvonandi: Það verður svona músarbrúnt eins og á mér! Og viti menn, eftir svona 25 ár var hárið orðið ansi dökkt, en það var líka mild aðlögun. Megi Eiríkur mæta reifur með rauðan makka og frábært lag og sýna að Íslendingar rokka. Við þurfum ekkert endilega að vinna (þótt lag og flytjendur eigi það sannarlega skilið), en það er alltaf gaman að rokka.

Mér finnst líka virkilega gaman að lesa og hlusta á hugleiðingar um víkinginn Eirík sem margir virðast sjá fyrir sér, þar sem ég trúi því (vonandi með sem minnstri sjálfblekkingu) að víkingarnir sem fundu Ísland hafi flestir verið huggulegir og þokkalega friðsamir dugnaðarforkar, konur og karlar, þá líst mér bara vel á það. Og þeir voru að koma FRÁ Noregi, smá hint til Eiríks.


Rauða hárið hans Eiríks

Aðeins yfir í afþreyinguna, þótt af nógu sé að taka af alvarlegri viðfangsefnum. Eurovision nálgast, í fyrra var ég í hópi þeirra sem fannst Silvía Nótt skemmtilegt framlag, þótt ég sé ekki aðdáandi tónlistarinnar hennar. Núna er framlagið hins vegar meira í anda fágaðs þungarokks og þar með meira fyrir minn smekk (mætti vera hrárra en þetta er fínt!). Sá eitthvert ramakvein hér á blogginu um að Eiríkur Hauksson væri ekki lengur með rauðan makka í Eurovision laginu. Óvenju spennt í þetta sinn, ekki síst af því að einn af ágætum vinum dóttur minnar í Ungverjalandi er höfundur og einnig af því nú fær Eiríkur að vera almennilegur þungarokkari. Ég vona að það sé bara myndvinnslan sem hefur svift Eirík rauða makkanum. Þótt ég hafi séð enn flottari rauða makka en Eiríkur státar af, þá er þetta auðvitað ekkert nema flott vörumerki. Hef aldrei tekið Eurovision alvarlega, en ég held svei mér þá að mér sé ekki alveg sama í þetta sinn.

Nauðsynlegt að læra af mistökum - viðtalið við Ásu Hjálmarsdóttir er lexía

Nýjar hliðar á Breiðavíkurmálinu enn að skjóta upp kollinum. Grein Ásu Hjálmarsdóttur í Morgunblaðinu um daginn hreyfði við mörgum og mér finnst vel til fundið hjá Mogganum að fylgja henni eftir með viðtali við hana. Í sama blaði er líka frásögn af ráðstefnu sem verður 15. mars um fátækt á Íslandi, en Harpa Njálsdóttir hefur öðrum fremur rannsakað þá staðreynd að enn má finna fátækt í allsnægtarsamfélaginu okkar. Eitt af því sem Ásu svíður sárast og fram kemur í hennar grein og viðtali er að hafa verið látin gjalda fátæktar, á meðan synir betur stæðra bæjarbúa fengu allt aðra meðferð. Ekki hægt annað en fyllast hljóðlátri reiði út af því hvernig samfélagið brást við þá og reyna að læra af mistökunum. Ef það getur verið að enn séu fordómar í gangi vegna fjárhagsstöðu fólks, þá þarf að uppræta þá, enn mikilvægara er að uppræta fátækt. Við hljótum að vera nógu rík þjóð til að geta séð vel um alla.

Raunar þarf ég ekki að segja ef, enn eru til fordómar, mis vel duldir. Ég veit um tilvik þar sem annað foreldri var talið síður hæft til að hafa barnið sitt en hitt, sökum fátæktar, þrátt fyrir að um harðduglega manneskju væri að ræða. Í stað þess að tryggja stuðning var horft til óréttlætanlegra aðstæðna. Við vitum líka af því að fjárhagsstaða aldraðra og öryrkja er ekki alltaf til að hrópa húrra fyrir. Kannski er ekki verið að taka börn af öryrkjum eða ömmu og öfum (sem stundum annast barnabörnin) en það er alla vega verið að bíta hausinn af skömminni með því að láta eitt óréttlæti (fátækt) réttlæta annað óréttlæti. Þannig að enn eru dæmi í nútímanum sem ættu ekki að sjást. 


Álverið í Straumsvík hefur ekki aðeins áhrif í Hafnarfirði

Kompás fjallaði um álverið í Straumsvík áðan, mér fannst umfjöllunin ágæt og staðfesti enn andstöðu mína við álverið (á gömlum merg), þrátt fyrir góða frammistöðu Rannveigar Rist við að verja málstað sem ég er mjög ósátt við. Sem betur fer var þöggunarákvæði ekki komið í samninga álversmanna þegar einn vinur minn var að vinna þar og komst á snoðir um ótæpilega áburðarnotkun í grenndinni, til að fela þá staðreynd að ekkert kvikt spratt án þessara aðgerða. Kannski hefur eitthvað skánað, hmmm, ekkert sérlega viss um það. Varð ósköp glöð um daginn þegar ég sá um daginn að Stebbi bróðursonur minn er farinn að berjast gegn álverinu, flott hjá honum. En við Álftnesingar ættum eiginlega að fá að kjósa líka um stækkunina, hef heyrt það sjónarmið hjá mörgum sveitungum mínum.

Hit the road Jacques

Það fyrsta sem mér datt í hug þegar Jacques Chirac er loks að hætta. Í upphafi forsetaferils hans var þetta sungið (danskir mótmælasöngvarar) gegn kjarnorkuvopnatilraunum Frakka í Suður-Kyrrahafi 1995. Þessar tilraunir höfðu þá verið í gangi í nokkur ár og þegar ég átti leið um Tahiti 1989 var mér reyndar bannað að fara inn í landið nema ég lofaði að skrifa ekki um tilraunirnar. Ég var bara venjulegur ferðalangur en gaf upp starfsheiti mitt, blaðamaður, og það kallaði á þessi viðbrögð. Sem sannur Íslendingur, friðarsinni og fulltrúi kaldastríðskynslóðarinnar var mér ekki ljúft að gefa þetta loforð, og ekki minnkaði samviskubitið þegar ég hitti af tilviljun Ástrala á ferjunni til nágrannaeyjarinnar Morea, sem var með bók í fórum sínum þar sem drepið var á þessar ömurlegu tilraunir. Ég sagði honum frá loforðinu sem mér hafði verið gert að gefa og pirringi yfir að vera sett í þessa stöðu og á endanum reif hann þessar síður út úr bókinni og gaf mér. Ég hélt heit mitt, alltaf verið frekar fyrir að standa við orð mín, og skrifaði ekkert, en hins vegar fjallaði ég um málið í útvarpsþætti sem ég var með um ferðina. Engin tímamótaumfjöllun en hins vegar fannst mér það beinlínis skylda mín að koma þessu á framfæri prívat og persónulega, þótt ekkert hafi skort á vandaða umfjöllun um málið í íslenskum fjölmiðlum.

Og nú er Jacques að hætta, hitting the road, fjölmargir aðrir gripið þessa setningu á lofti vegna annarra tilefna, í viðskiptalífinu og íþróttum jafnvel. Þannig að þó þessi setning er ekki tengd bara Jacques Chirac lengur, þá langar mig enn að eignast eintak af gamla, danska mótmælasöngnum.


mbl.is Chirac segist ekki gefa kost á sér áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skipulagstillögur á Álftanesi og Álftanespólitíkin

Einna mest spennandi kosningaúrslitin síðastliðið vor voru hér á Álftanesi. Búið var að negla niður miðbæjarskipulag sem gerði ekki mikla lukku og ljóst að ekki var ætlunin að hlusta neitt frekar á íbúana. Meirihlutinn féll og nýr meirihluti efndi fyrirheit sín um að efna til arkitektasamkeppni um miðbæjarskipulagið. Það sem einkum var ábótavant við skipulagið sem var hafnað voru múrarnir sem byggingarnar áttu að mynda, óleyst umferðarmál og svo var ekki þetta yfirbragð lágreistrar byggðar á því skipulagi eins og í nýju tillögunum. Þær eru allar mjög frambærilegar og gaman að sjá hversu margir tóku þátt og lögðu fram áhugaverðar tillögur. Mér finnst margt gott í 1. verðlaunatillögunni og ekkert sem ég get ekki sætt mig við, búandi hérna rétt steinsnar frá þessum fyrirhugaða miðbæ. Það er gaman að sjá hvað menningar- og náttúrsetrinu okkar er ætlaður stór sess í öllum tillögunum. Hvet alla sem áhuga hafa að skoða tillögurnar á www.alftanes.is

Óður til þreytunnar

Orðin aðeins lúin núna og íhuga að sofa mikið, það er fara snemma að sofa og vakna eins seint og ég kemst upp með. Það er kostur þess að vera þreyttur, þá tekur maður kannski skynsamlegar ákvarðanir, eins og þær að hvílast. Þegar margt spennandi er að gerast í tilverunni hættir mér nefnilega til að vaka og lengi og vakna of snemma = sofa of lítið. Af og til átta ég mig á því að það hefur tekið allt að þrjá daga að reita saman í þennan lögbundna átta tíma svefn sem er víst svo heilagur. Að vísu á Margrét Thatcher að hafa komist af með fimm stunda svefn á nóttu, en ég þyrði ekki að taka áhættuna, sá hvernig það fór með hana, hún breyttist í járnfrú. Whistling

Þannig að nú skal sofið, talsverðar skyldur um helgina, bæði vinnutengdar og persónulegar, og ef ég ætla að ná þeim og svefni þá er ekki hægt að hanga hérna bloggandi fram á nótt.  

Sem betur fer eru vísindamenn við svefnrannsóknir búnir að staðfesta það sem ég hef alltaf vitað að það er bæði hægt að safna svefnforða (kalla það fyrirbyggjandi svefn) og eins að bæta upp svefn(leysis)syndir. Alltaf mjög gaman þegar einhver vísindi staðfesta það sem maður hefur lengi vitað. ,,Sova kan man gjöra når man blir gammal!" sagði Helen vinkona mín við mig einhverju sinni um fjögur leytið að morgni þar sem við sátum í góðra vina hópi í gamla hverfinu í Varsjá. Við vorum á langri og strangri ráðstefnu og sváfum ekki mikið þá helgina. Og viti menn, það tókst að vinna þann svefn upp á örskotsstundu eftir að heim var komið. Svavar Gestsson sagði eitt sinn klukkan fimm að morgni rétt fyrir jól í mikilli umræðulotu í þinginu: ,,Ég er nú orðinn svolítið leiður á þessari níu til fimm vinnu!" en búið var að setja á nefndarfundi klukkan níu næsta morgun. Og auðvitað var hægt að vinna þann svefn upp líka, en kannski fóru jólin í það ;-)

Alla vega, ætli það sé ekki best að fara að sofa.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband