Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Jæja, Ómar!

Þetta er framboðið hans Ómars, finn það betur nú en nokkru sinni fyrr. Margrét væri ekki með nema vegna þess að hún varð undir í innanflokksátökum í Frjálslynda flokksins. Aðrir vega léttar. Eins manns framboð hafa ekki orðið langlíf, hvort sem þau eru kennd við Albert eða Vilmund, nema einhverjir steli þeim, eins og gerðist með framboðið hans Sverris Hermannssonar. Samt sem áður óska ég nýja framboðinu alls góðs en þarf samt að koma á framfæri nokkrum brotum sem vonandi rata aldrei á síðuna mína: Þetta sagði ég þér!

Ég fagna framboðinu af því það er grænt og þrátt fyrir að það sé hægri. Hins vegar er ég ekki viss um fyrir hvað það mun standa í ýmsum málum og það verður merkilegt að giska á það hver stefnan verður í öðrum málum en umhverfis-, nýsköpunar- og kvótamálum. Best hefði auðvitað verið að Margrét hefði unnið sigur í Frjálslynda flokknum því þá sætum við ekki uppi með flokk sem virðist stefna hraðbyri til aðskilnaðarstefnu og óréttlætis í innflytjendamálum. Ég set stór spurningarmerki við það að Jakob Frímann sé innanborðs, vegna þess að þá er Jón Baldvin væntanlega innan seilingar og afstaða hans gagnvart inngöngu í ESB er mér mjög lítið að skapi. Nema hann hafi kúvent þar eins og í ýmsum fleiri málum? Hrædd um ekki, en útiloka ekki kraftaverk. Margrét ítrekar að hún sé á móti aðild að ESB vegna sjávarútvegsins, en Ómar er ekki eins skýr í svörum, sem er auðvitað mjög miður. Vitnar í Þorstein Pálsson sem er brostinn í blekkingarleik um ESB og sjávarútvegsmál.

Fyndið að sjá viðtal við Ómar og Margréti og sjá hana gjóta augum til hans, eins og hún væri að passa upp á að hann talaði ekki af sér. Og allt í einu áttaði  ég mig á einu, Ómar er vanur að spila sóló og það með miklum brag, hvað verður um hann þegar hann þarf að passa sig að tala í takt við alla hina? Eitt sinn eyddi ég heilum vinnudegi með Ómari og skrifaði um það ævintýrið: Dagur í lífi Ómars Ragnarssonar. Það var mikil keyrsla. Hann er afskaplega kraftmikill maður en mikill sólóisti. Ábyggilega eini fréttamaðurinn sem hefur sprungið á limminu í ,,hlutleysinu" á meðan hann var í starfi, sem var reyndar mjög virðingarvert. Tvennt getur gerst, honum verður kippt niður í hægra-miðjumoð eða hann mun styggja einhverja samherja sína.

Ég óska þeim alls góðs og vona að það finnist nógu margir miðju og hægri umhverfissinnar til að færa þeim áhrif í pólitík - en ég er svolítið kvíðin að sjá stefnuskrána í öðrum málum.

 


Gott framtak og smá lexía

Gott framtak að blanda X-factor inn í þetta átak. Einkum finnst mér það ákveðið mótvægi við því sem ég hef heyrt að menn kenni kynþáttafordómum um að Alan datt snemma út, en hann var að mínu mati einn þriggja toppatriðanna, eins og fram hefur komið hér í blogginu mínu áður. Þar er ekki við X-factor fólki að sakast, því það voru atkvæði þjóðarinnar sem réðu því að hann lenti í öðru af botnsætunum. Hvað sem því líður, þau eru öll verulega snjöll og hæfileikarík og núna að leggja góðu máli lið. Það er engin spurning að Ísland ætti að hafa alla burði til að blómstra með margbreytilegt samfélag, en það þýðir ekki að það gerist af sjálfu sér, alls ekki.
mbl.is Fjölmenningarspjall á Alþjóðadegi gegn kynþáttamisrétti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dottin í tölvurnar

Nú er ég alveg dottin í tölvupælingar, var nefnilega að átta mig á því að það er kominn tími á þessa tvo lappa sem ég á, sem báðir eru meira en fimm ára gamlir. Tilviljun ræður því að ég á tvær laptop tölvur á sama aldri, aðra fékk ég gefins og hin hefur fengið að eldast hjá mér. Báðar enn nothæfar en önnur hefur verið tilraunadýr hjá mér og ekki síður Óla syni mínum, þar sem hver kynslóðin á fætur annarri af Linux stýrikerfum hafa komið  við. Mjög skemmtilegur tími. Hin er dæmigerð með Windows 2000 en er komin með alls konar galla, sem er hægt að lifa með en ekki meira. En núna er kominn tími á uppfærslu. Ég hef verið að skoða leynt og ljós í rúmt ár hvaða tölva hentaði mér best, og komst að þeirri niðurstöðu að mig vantaði eina bleika! Og það verður væntanlega ofan á. Var lengi skotin í pínulítilli Fujitsu og fékk hana um daginn sem vinnutölvuna mína. Hún var auðvitað alveg draumur í ferðinni til Englands um daginn, en mitt eintak alla vega er með allt of viðkvæmt geisladrif. Þannig að á leiðinni heim frá Cambridge gat ekki spilað neitt nema Borat eða flugslysakvikmynd (Flight 93) á leiðinni heim. Borat þarf ég greinilega að skoða með fjölskyldunni, þannig að flugslysamyndin fór inn, ég kunni reyndar varla við það að vera að spila svoleiðis í flugvél, en myndin er spennandi.

Annars hefur tölvusagan mín verið mjög skrautleg. Fór að vinna á tölvu ca. 1983 og eignaðist fyrstu PC tölvuna 1985 og síðan fyrstu ,,fartölvuna" 11 kg. hlunk, 1989. Síðan hafa allnokkrar komið við í fjölskyldunni en almennt er tölvukostur okkar frekar gamall alla jafna, enda frekar nýtin fjölskylda. Þegar gamla mín var 2-3 ára hrundi til dæmis skjárinn og í stað þess að kaupa nýja lét ég bara gera við hana. Hún átti annan eins lifitíma eftir, en er núna orðin ansi hæglát enda aldin heiðurskelling samanborið við margar aðrar. En nú er kominn tími á að skipta svo kannski verður sú næsta bleik og spræk, alltaf veik fyrir bleiku.


Vonandi er þetta smitandi ;-)

Mér líst rosalega vel á þetta, vonandi smitast þetta til fleiri borga, einföld en mjög mögnuð aðferð til að auka aðgengi allra að netinu. Svo sakar ekki fyrir sólarlandafara að þetta er næsta borg við Torremolinos og fleiri góða bæi á Costa del Sol, þannig að þeir sem skreppa þangað vita þá af því, þetta er bara hin indælasta borg, eða var það alla vega þegar ég var að þvælast þar fyrir dálítið löngu.
mbl.is Malaga fyrsta borgin með þráðlaust net
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þráðlaust líf

Fyndið að horfa á fjölskylduna í kvöld, eiginmaðurinn er að fylgjast með bæjarstjórnarfundi (á Álftanesi) í sinni tölvu milli þess sem gemsinn grípur athyglina, ég er að lesa fréttirnar og blogga í bland auk þess að kíkja á Shark og spjalla við dótturina í Ungverjalandi gegnum MSN. Sonurinn er að forrita og/eða vinna í verkefni, reyndar hvort tveggja í bland, en feðgarnir ná að gefa Shark auga í leiðinni. Umgerðin eru örlítið lúnir sófar og stólar og gömlu lapparnir okkar en í þessum þráðlausa heimi þarf engar ofurtölvur. Þráðlausa netið þekkir engin landamæri og já, við tölum líka saman!  W00t

Virðing fyrir veðrinu í hraðanum í tilverunni

Veðrið hefur verið æði brösótt að undanförnu, ekki síst í dag, og það hefur varla farið framhjá nokkrum. Hvort sem veðrið þessa dagana er beint eða óbeint afleiðing gróðurhúsaáhrifa þá þarf alla vega að taka það alvarlega. En hvaða svigrúm hefur venjulegt fólk til að virða veðrið? Skuldbindingar vegna vinnu og annarra skyldna verða stundum til þess að fólk leggur út í færð og veður sem í rauninni ætti ekki að þurfa. Oft eru það einhverjar gerviþarfir sem ráða því, en stundum er það hreinlega þrýstingur vegna samfélagsins sem etur fólki að óþörfu af stað á ákveðnum tíma leið sem kannski er greiðfær fjórum stundum fyrr eða fjórum stundum síðar.

Vissulega hefur margt áunnist á undanförnum árum, meiri sveigjanleiki víða, bæði varðandi vinnutíma, fjölskylduskyldur og möguleika á að vinna heima. Einnig hefur mörgum ofboðið hraðinn og upp úr kenningum um ,,Slow food" hefur sprottið annað sem kalla mætti ,,Hægláta borg" (Slow city). Akureyri hefur hafið þátttöku í þessari hreyfingu, til hamingju með það Akureyringar. Vona að vitundarvakning sé að verða og þetta muni ef til vlll vekja umræðu um hvort það sé alltaf nauðsynlegt að æða af stað á móti veðri, vindum og skynsemi.

Ég held að virðing fyrir náttúrunni og náttúruöflunum sé Íslendingum í blóð borin, en hins vegar vantar svolítið uppá að við séum nógu auðmjúk gagnvart veðurguðunum, þótt ég efist ekki um að í landi grjótfoks, snjóflóða og fárviðra beri fólk, innst inni alla vega, óttablandna virðingu fyrir veðrinu. Ætli það sé ekki stríðni eða ögrun sem ræður því að ætt er út í öll veður og fólk talið frekar huglaust sé það ekki tilbúið að takast á við allt sem veðrið býður upp á. En samt blundar, held ég, þversagnarkennt reyndar, vissan um að veðrið sé kraftur sem við eigum að taka mark á. Minni bara á þá skemmtilegu staðreynd að Íslendingar báðu veðurguðina að redda góðu veðri á 1000 ára kristintökuafmæli landsins. Biskupnum var ekki skemmt, en flestum fannst þetta bara hið besta mál og ég man ekki betur en þeir hafi tekið þessu vel (veðurguðirnir).


Írak - og hvað svo?

Bush er að fjölga í herliðinu í Írak, sífellt fleiri Bandaríkjamenn eru annarrar skoðunar, heimsbyggðin fylgist með og sumir leiðtogar eru komnir með slitsár af því að reyna að þvo heldur sínar af ábyrgðinni á því sem er að gerast í Írak. Andstaðan gegn Íraksstríðinu vex og vex og ég vona að við förum bráðum að sjá fyrir endann á þessari martröð sem byrjaði fyrir fjórum árum. Að setja svona mikið vald í hendur svo fárra manna gegn andstöðu sem jafnvel nær til meirihluta þeirra þjóða sem þeir eiga að vera fulltrúar fyrir hlýtur að vera rangt. Er ekki kominn tími til að hugsa stjórnmál og völd upp á nýtt og finna betri leið en þá sem hefur leitt okkur út í þessa óásættanlegu stöðu?

 


Ærandi þögn Ómars og Margrétar

Hvað er að frétta af Hægri grænum, Íslandsflokkinum eða hvað til stendur að kalla þennan mögulega flokk í fæðingu? Er það virkilega bara ég sem bíð spennt eftir tíðindum og tékka blogg Ómars og Margrétar reglubundið. Ef þið vitið eitthvað meira en ég, vinsamlegast látið vita.

Á Samfylkingin kannski að ganga í Vinstri græn?

Egill var að flytja ,,leiðara" Silfursins og varpaði því fram að draumur Samfylkingarinnar um stóran flokk á vinstri vængnum myndi sennilega ekki rætast nema Samfylkingin gengi í Vinstri græn. Af hverju hoppaði ég ekki hæð mína upp af gleði? Líklega af því ég tel mig ekki eiga heima í flokki með Evrópusambandssinnum, stóriðjusinnum og fólki sem ég veit ekki hvaða skoðanir hefur í fjölmörgum málum. Hins vegar er hægt að starfa saman á skýrt afmörkuðum forsendum og því betur skilgreindar og niðurnegldar forsendur, þeim mun meiri von til að hægt verði að mynda góða ríkisstjórn. Ekki líst mér neitt sérlega vel á að einhver F-flokkur verði þriðja hjólið undir vagninum, hins vegar má eflaust lifa við að Íslandsflokkur Ómars yrði með, ef hann einhvern tíma verður barn í brók. Fleiri möguleikar eru í stjórarsamstarfi og mér leist bara harla vel á þá hugmynd að sjá Steingrím með stjórnarmyndunarumboðið í höndunum. Held þó að Ólafur Ragnar vildi frekar reyna að koma því yfir í hendur Samfylkingarinnar, en það gæti orðið erfitt að réttlæta það, ef það er fyrirstaða fyrir ÓRG, sem ég hreinlega veit ekki.


Afmæli Loftorku og aðrar myndir úr tilverunni

Afmæli Loftorku, Reykjavík, að baki, 45 árum fagnað og á morgun, laugardag, verður haldið upp á afmælið hjá Loftorku, Borgarnesi. Meðalaldur verktakafyrirtækja er ekki ýkja hár, en Loftorka hefur siglt í gegnum allan ólgusjó sveiflna á verktakamarkaði til þessa. Margir starfsmennirnir hafa verið um áratuga skeið hjá fyrirtækinu. Tengdaforeldrar mínir, Siggi og Sæa, hafa helgað líf sitt þessu fyrirtæki, lengst af var Sigurður í eldlínunni en þegar hann féll frá fyrir nokkrum árum tók Sæunn við stjórnartaumunum. Margir úr fjölskyldunni hafa unnið alla sína starfsævi hjá Loftorku, aðrir skemur og stundum held ég að ég sé sú eina sem ekki hef gert það, en í staðiinn hafði ég athvarf þar á meðan á ritun sögu Sandgerðis stóð, og það var mjög notalegur tími. Þannig að ég get sagt eins og fleiri að það sé fínt að vinna hjá Loftorku.

Fjölmenni mætti í afmælið

Byrjuð að setja inn á bloggið myndir frá afmælinu í dag og stefni að því að setja fleiri myndir inn, en á morgun er það sem sagt Borgarnes sem kallar. Ennfremur skellti ég talsverðum skammti af Kanarí-myndum í myndasafnið, enda held ég að ég hafi verið búin að lofa því einhvern tíma, ef ekki þá hef ég bara efnt ógefið loforð.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband