Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Efni í græna ríkisstjórn - skýr skilaboð eftir fyrstu könnunina með Íslandshreyfinguna innanborðs

Ef fyrsta skoðanakönnunin er rétt, um fylgi flokkanna eftir að Íslandshreyfingin var kynnt, eru það stórtíðindi. Tiðindin eru þau að græni liturinn hefur bætt við sig enn fleiri prósentum, Íslandshreyfingin er að mestu leyti viðbót við ævintýralegt fylgi VG. Spár um að fylgið kæmi að mestu frá VG virðast ekki ganga eftir, saxað er í raðir Sjálfstæðismanna og Frjálslyndra, sem ekki hafa vakið trúverðugleika í tilraunum sínum til að sýna græna slikju. Það að Samfylkingin sé aðeins að rétta úr kútnum merkir einfaldlega að hægt er að hafa hana sem þriðja hjól undir græna vagninn. Varla mun vafi leika á að mikil ásókn mun verða í félagsskap grænu flokkanna tveggja, VG og Íslandshreyfingarinnar, sem virðast ætla að verða ótvíræðir sigurvegarar kosninganna gangi þessar spár eftir. Erfitt verður fyrir forseta Íslands að gera annað en sinna þessu græna kalli þjóðarinnar.

Græna sveiflan er þekkt stærð, en við megum ekki missa sjónar á því sem einnig þarf að vera skýrt við stofnun næstu ríkisstjórnar:

Nýsköpun og hugvit í stað stóriðjustefnu. Mjög skýrar áherslur hjá VG og Íslandshreyfingin sama sinnis. Áreiðanlega hægt að fá fleiri til að taka undir í þeim efnum.

Hafna Evrópusambandinu. Ótvíræð stefna þjóðarinnar og VG þarf að taka forystu til að hlustað verði á þjóðina.

Skýr kvenfrelsisstefna. Ekki vafi í mínum huga að þetta er hinn máttarstólpi hinnar miklu fylgisaukningar VG. Þarna þarf VG að leiða og ég efast ekki um að hljómgrunnur er meðal annarra flokka sem aðeins þarf að örva lítillega.

Aukinn jöfnuður í samfélaginu. Réttlætiskennd þjóðarinnar er misboðið. VG hefur alltaf verið leiðandi í kröfunni um aukinn jöfnuð og nú munu aðrir án efa vera tilbúnir að taka undir.


Það er líka óstundvísi að mæta of snemma

Gurrí eðalbloggari minnti mig á eitt enn varðandi stundvísi sem mér hefur alltaf þótt vanmetið. Það er óstundvísi þeirra sem mæta of snemma í viðburði og veislur. Hver man ekki eftir fólkinu sem mætti með börnin sín tveimur tímum of snemma í barnaafmæli og skildi þau eftir. Ekki samt eins óþægilegt eins og frænkurnar sem mættu ,,stundvíslega" háfltíma of snemma í fermingarveislurnar og ætluðust til fullrar þjónustu, þrátt fyrir óstundvísina. Krakkana mátti þó alla vega setja inn í herbergi og loka af með leikföngum, kökum og leikfélögum. Eina krúttlega dæmi sem ég man eftir um óstundvísi af þessu tagi var þegar ég kom að indælli konu sem ég var með í nefnd sitjandi þolinmóð á tröppunum á fundarstað, þegar ég mætti korteri FYRIR fundartíma til að skella yfir kaffi. Hún var á strætó, og frekar en að mæta fimm mínútum of seint lagði hún það á sig að mæta 25 mínútum of snemma.

Samkvæmislíf helgarinnar - óvirk hestakona og tímaskyn tveggja ætta

Fermingavertíðin er hafin og hófst með miklu brag í tengdafjölskyldunni minni, sem er reyndar ekki bara fjölskylda heildur heill ættbálkur. Á hverju ári eru haldin nokkur fjölskyldumót og meðalþátttaka aldrei undir 70 manns, oft nær 100. Fall er fararheill, við mættum stundvíslega, klukkutíma of seint. Smá misskilningur í gangi, í þetta sinni meðal innfæddra í ættbálknum, ég átti sem sagt ekki sök á þessum misskilningi að þessu sinni. En þar sem ég veit að ligg ávallt undir grun, þá fékk minn ástkæri að útskýra seinkunina óvenju ítarlega. Stundvísi hefur aldrei verið minn helsti kostur, þótt ég geti, með miklum sjálfsaga, haldið mig á mínútunni ef ég er í erindum vinnunnar eða að fara í jarðarfarir. Og svo giftist ég manni með sama þol fyrir tímasetningum þannig að við ættum sennilega að biðja börnin afsökunar á gölluðum genum. Velkist einhver í vafa um að svona geti legið í genum þá vil ég benda á að tvö hálfsystkini mín eru alin upp í systkinahópum allsendis óskyldum okkur, og skildu aldrei af hverju þau voru svona miklu frjálslegri í mætingu en hin systkini þeirra. Þegar við fjögur systkinin í okkar ætt loksins náðum saman og fórum að bera saman bækur okkar, þá kom ýmislegt merkilegt í ljós, m.a. ótrúlega lík rithönd þriggja systkinanna og óstundvísi annarra þriggja ... sú okkar sem á svissneska móður er stundvís. En þetta ætlar að verða skemmtileg fermingarvertíð.

Svo er auðvitað  sveitin mín, Álftanesið, með öllu sínu fjölbreytta félagslífi. Við sláum mörgum afskekktari bæjum úti á landi við í félagsstarfi innan sveitar. Með eigin ungmennafélag, kvenfélag, Lions, Rauða kross deild, Fugla- og náttúruverndarfélag, skáta, hestamannafélagið Sóta, Dægradvöl (menningarfélag), eldri borgara félag, kór og þannig mætti lengi telja, - eitt sinn var hér meira að segja eigið hundaræktarfélag. Í gær var það hestamannafélagið sem var með Góugleði, sem alltaf er mikil gleði. Í pínulitla félagsheimiliu var etið vel, drukkið, spilað á gítar og sungið undir forystu fyrrverandi bæjarstjóra og Jörundar Dalamanns (vissuð þið að Eurovisionlagið (Ég les í lófa þínum) er frábært sing-a-long lag?) Og loks var dansað eins og gólfrými leyfði. Þetta eru einstakar skemmtanir og hesthúsin eru á miðju nesinu (ennþá) þannig að allir gátu gengið heim sem ekki voru svo heppnir, eins og við, að eiga son sem sótti okkur.

Ég telst til óvirkra hestamanna. Þeir gera allt sem aðrir hestamenn gera, nema fara á hestbak. Ég drekk sem sagt kaffi, get drukkið brennivín og etið hákarl, tekið í nefið, ég heyja, rek saman hesta, kembi, fer í hestaferðir og var á tímabili liðtæk í hestaættum. En fer helst ekki á bak síðan ég hryggbraut mig um árið. Átti yndisleg unglingsár á hestbaki, en þau eru liðin. 


A,B,C og D fólk, svefnvenjur Íslendinga og ein lygasaga frá London

Skemmtilegar umræður í ýmsum bloggum um A og B fólk (kannski út af frétt frá Danaveldi í hádegisútvarpinu). Alla vega þá er fólk farið að skilgreina sig sem A, B og D fólk (pólitískur fnykur af stafavalinu) en ég hef í mörg ár skilgreint mig sem C-manneskju. Skrifaði reyndar einu sinni sögu í Vikuna undir dulnefni um stofnun baráttusamtaka morgunsvæfra. Þarf að finna hana einhvern tíma. Kannski fékk ég fyrstu blaðamannavinnuna mína á Vikunni út á þá sögu, veit það ekki, sagan segir reyndar að ég hafi fengið þá vinnu út af sannsögli, ég játaði nefnilega þegar ég sótti um vinnuna að ég væri sjálfmenntuð á ritvél. Helgi Pé, sem þá ritstýrði Vikunni, kom labbandi fram í ritstjórn og sagði: Hér er ein sem er með öll próf í lagi og hefur líka húmor!

En þessi sannsögla manneskja, sem ég reyndar er, enda þýðir ekki annað fyrir fólk sem sést á langar leiðir ef það reynir að ljúga, á sér reyndar eina aðra játningu. Þegar ég bjó 18 ára gömul um hríð í Englandi, þá var ég orðin langþreytt á spurningum um eskimóa, snjóhús og eilífan vetur. Ætlaði að kveða þetta niður í eitt skipti fyrir öll og fór að segja Bretunum nógu yfirdrifnar furðusögur af Íslandi: Þar byggju allir í snjóhúsum, ég byggi t.d. á 8. hæð í igloo-blokk þar sem lyftan gengi bara upp í móti en við renndum okkur alltaf eftir ísrennibraut niður. Á veturna væri samfélaginu lokað, lágmarksþjónusta í gangi, svo sem smá hiti og viðhald nauðsynlegustu tækja og mannvirkja, en allir legðust í dvala, af því það væri mönnum eðlilegt við þessar aðstæður, þegar allt væri dimmt. Svo sparaði þetta svo mikið í ljósum og annarri orku og væri svo umhverfisvænt (þurfti auðvitað að umorða það áður en það orð var fundið upp). Ég komst á þvílíkt flug. Þóttist sanna þetta með því að benda á að nafnið mitt Björnsson, væri algengt á Íslandi, og vísaði til lífsstíls bjarna, sem sagt vetrarsvefns. Og eflaust hef ég sagt fleira, sumrin eru auðvitað vinnutíminn í svona samfélagi og allt það, þið getið bara bætt við sjálf. Af nógu að taka.

Mér finnst reyndar eftir á að hyggja að þetta sé að hluta til bara ekkert svo vitlaust, það er að segja að taka meira mið af því hvernig umhverfið býr okkur lífsskilyrði. Í heitum löndum er t.d. enn tekin siesta á heitasta tíma (að vísu á undanhaldi) og sagt: Only mad dogs and Englishmen go out in the mid-day sun (og Íslendingar). Mér finnst t.d. alltaf svolítið gleymast að hádegi í Reykjavík er um kl. 13:30 þannig að þegar verið er að senda krakkana í skóla klukkan 8 á morgnana þá er klukkan í rauninni 6:30. Og kem ég þá aftur að morgunsvæfa fólkinu ....


Þarfagreining síma og stórkornóttar myndir

Vinnufélagar mínir hlógu þegar ég var að þarfagreina næsta símann sem ég ætlaði að kaupa, mig vantaði síma með meiri hljómgæðum og aðdráttarlinsu. Þeir gerðu enga athugasemd við kostina sem ég valdi fyrir símann, en hins vegar fannst þeim fyndið að ég skyldi þarfagreina símann. Tek fram að ég vinn hjá hugbúnaðarfyrirtæki.

Svo fékk ég mér nýjan síma, með aðdráttarlinsu og skárri hljómgæðum, sem er gott fyrir manneskju sem hlustaði á Magna gegnum símann syngja uppáhaldslagið mitt til margra ára, Creep. En þetta með aðdráttarlinsuna er blendin gleði, myndirnar verða ansi stórkornóttar í nýju símamyndavélinni, þrátt fyrir það er þetta mikill nytjahlutur og ég tek líklega fleiri myndir á símann en á myndavélina okkar fjölskyldunnar. Mig dreymir vissulega um tæknin verði enn skemmtilegri - svona í anda Ubiquitous computing, ef einhver veit hvað það fyrirbæri er - en á móti kemur að mér er á móti skapi að eyða einhverri formúu í græjur og þess vegna á ég bara grófkornaðan síma. Tilefni þessa pistils er að nú er ég búin að setja inn í nokkrar myndir frá Cambridge ferðinni fyrir nokkrum dögum.

 


Ótrúlegur endasprettur, ekki í X-factor heldur Gettu betur

Vil ekki binda mig of mikið við sjónvarpið, nóg að vera föst í 24 og næstum í Prison Break. Þess vegna fylgist ég helst ekki með spurningakeppnum í sjónvarpi, bara í útvarpi. Veit samt að MR vann í gær, gamli skólinn minn, en endasprettur MH og MK í kvöld var með ólíkindum og ekki hægt annað en fagna með MK. Lofa ekki að horfa á úrslitin, en gæti hent. Og svo sjáum við bráðum hvort atkvæðin mín hafa bjargað Guðbjörgu eða ekki Cool

Áfram Guðbjörg!

Heyrði orðróm um að Guðbjörg sé í fallhættu í X-factor, ég get ekki hugsað mér að hún detti út, þannig að áfram Guðbjörg! Hæfileikarík með dúndurrödd. Hin sem eftir eru eiga líka allt gott skilið, en hún er ótrúleg. Mun ekkert tryllast þótt hún vinni ekki, en mér finnst vera reynt að koma henni burt, bæði af hálfu dómara og með einhverju dissi, og er hreint ekkert sátt við það.

Spennan magnast og línur skýrast með óskýrum áherslum

Það ar alveg með ólíkindum hvað pólitíkin er spennandi núna. Nýtt framboð er gersamlega óskrifað blað, með allt þetta þekkta fólk innanborðs, þá er það í rauninni alveg ótrúleg niðurstaða, en rétt. Mjög misgrænt fólk sem komið er til liðs við Ómar. Mér finnast línurnar vera að ,,skýrast", þær eru óskýrar og verða það sennilega áfram.

Svo þessi yndislega skoðanakönnun að vakna við í morgun, styrkur VG er svo margvíslegur, ekki bara á sviði umhverfisverndar heldur ekki síður feminískur flokkur og flokkur róttæks réttlætis, sem stundum er kennt við vinstri.


Gróf upp gamla plötu með Scaffold

Bítillinn Paul McCartney á bróður sem heitir MikeMcGear (sá breytti nafninu af því hann var orðinn leiður á að bera sama nafn og bróðirinn). Mike er fínt ljóðskáld og var þar að auki í skálkahljómsveitinni Scaffold. Flott hljómsveit, ekki spurning, Thak U very much og Lily the Pink þekktustu lögin. Einu sinni átti ég þessa fínu plötu með Scaffold, sem er bæði með ljóðum og alls konar lögum, sú hét Fresh Liver. Gaf vini mínum, sem langaði rosalega í hana, eintakið mitt og sé svo sem ekkert eftir því. En af og til hefur mig aftur langað í gripinn en hann var illa uppseldur þegar ég loks fór að hafa fjárráð til ferðalaga og fjárfestinga á borð við græjur. Tónlistarveitur á netinu hafa ekki getað reddað mér þessari gersemi fram til þessa, en í dag fann ég plötuna á netinu og pantaði. Þótt hún sé óþarflega dýr þá hlakka ég mikið til að fá hana í hendur. Það sem meira er, ef þetta virkar rétt, þá sýnist mér að ég sé búin að finna náunga sem tekur að sér að finna alls konar fágætar plötur, þannig að kannski maður eigi eftir að tékka líka á Bonzo Dog og Napoleon XIV við tækifæri, alla vega þeim síðar nefnda. Seinast þegar ég vissi var Róbert Trausti Árnason fv. forsetaritari eini maðurinn sem átti eintak af stóru plötunni hans Napoleons og það eintak hlýtur að vera orðið æði slitið. 

Til hamingju Borgarnes!

Borgarnes er einn fallegasti bær á landinu og fagnar nú 140 ára verslunarafmæli. Til hamingju! Gaman að það skuli vera á döfinni að byggja upp í Brákarey, því hún er mikil perla, en með ljótu umhverfi eins og sakir standa. Í nokkur ár áttum við Ari Sjávarborg sem sumarhús ásamt fjölskyldu hans yndislegt hús í Englendingavík, Sjávarborg, gamla húsið sem amma hans og afi áttu í langan tíma áður. Fallegt hús á fallegum stað og með yndislegu útsýni yfir Brákarey. Það gladdi mig mikið þegar farið var að byggja upp gömlu húsin í kringum það og enn meira núna þegar eyjan verður enn fallegri, ef lýsingin sem ég heyrði í síðdegisútvarpinu er raunsönn. Núna erum við búin að flytja sumaraðsetrið ofar í Borgarfjörðinni en ennþá er gaman að rúnta um Nesið á gamlar slóðir með góðum minningum. Og svo eigum við svo frábæra ættingja þar líka. 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband