Talað við þrælkurteisan og hjálpsaman þjónustufulltrúa eftir 2ja mínútna bið

Lenti í svolitlu undarlegu í fyrradag. Svo vildi til degi fyrr að hræðilegt vefviðmót erlends flugfélags, sem var það eina sem hentaði mér að nota til að koma mér á vatnslitavinnustofu og heilsa upp á son minn í leiðinni, hafði orðið til þess að ég glataði gersamlega bókunarnúmerinu. Án þess var ég heillum horfin. Um tíma hélt ég að færslan fyrir flugferðina hefði ekki farið í gegn, en innan sólarhrings kom í ljós að hún var komin á kortayfirlitið mitt. En enginn kom staðfestingarpósturinn, og ég sem yfirleitt tek skjáskot af keyptum flugbókunum hafði einmitt í þetta skiptið sleppt því. Nú kaupi ég yfirleitt ekki dýrar flugferðir og fjárhagsskaðinn hefði verið bætanlegur, en mér er alveg bölvanlega við að láta fara illa með mig og sérlega viðkvæm fyrir því ef lélegar hugbúnaðar(prófanir) valda. Svo ég gerði það sem ég helst aldrei geri, hringdi í flugfélagið sem um ræðir. Var auðvitað vel birg af lesefni, gott ef ekki vatnslitablokk líka, og bjó mig undir vetursetu við símann, einkum eftir að ég hafði uppgötvað nýjasta trikkið hjá einu flugfélagið (að vísu slapp ég þá með 100 mínútna bið) en þar byrjaði ég númer 46 í röðinni og vann mig svo upp goggunarröðina þar til ég var orðin ,,næst" og eyddi síðan meira en hálftíma í að vera ýmist ,,næst" nr. 2 í röðinni eða þaðan af fjær þjónustufulltrúanum.

En þennan dag gerðust undur og stórmerki. Í fyrsta lagi (eftir að hafa spilað píanókonsert á lyklaborðið á símanum) var mér sagt að ég væri næst í röðinni og í öðru lagi VAR ég næst í röðinni og það eftir varla meira en tveggja mínútna bið. Þrælkurteis þjónustufulltrúi kynnti sig og ég sagði honum erindi mitt. Við höfum varla spjallað meira en korter allt í allt. Tilgreindi nafn, áfangastað og pantaðan flugdag, hann var snöggur að finna þetta til. Eina samskiptavandamál okkar var eins og einhver Agöthu Cristie saga: N eða M. Það var ekki fyrr en ég sagði honum hreint út að það væri ekkert M (Metro) í nafninu mínu né netfanginu að samskipti okkar urðu fullkomlega góð. Hann lofaði tölvupósti og varð líka við beiðni minni um að gefa mér upp bókunarnúmerið gegnum síma, sem reyndist síðan rétt, þegar bókunarupplýsingarnar fóru að streyma í tölvupósthólfið mitt. 

Það er engin furða að konu sé mál að blogga.

n-or-m


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband