Erindi til Amsterdam

Það má segja það sama um kynni mín af Amsterdam, þar til fyrir þremur árum, og kynni mín af Hamborg áður en ég fluttist þangað blómann úr árinu 2015, þar hafði ég alloft farið um en aldrei stoppað, fyrr en Óli sonur okkar Ara settist þar að snemma árs 2020. Síðan hef ég átt bæði mörg og góð erindi þangað og lært að meta þessa fallegu borg, ekki síst umhverfið í gamla miðbænum þar sem Óli okkar hefur búið nánast frá fyrstu vikum í borginni. Gatan hans er lítil, friðsæl en þó steinsnar frá iðandi mannlífi og skemmtilegum stöðum, söguríkjum og mannlífsauðugum. Út um svefnherbergisgluggann blasir við næsta síki og út um gólfsíðan stofuglubbann sem opna má í góðu veðri, sjást marga alda gömul hús eins og það sem hann býr í og þessi stórfíni, ítalski veitingastaður sem vissi ekki hvort hann væri opinn eða lokaður meðan covid-bylgjan reið yfir. Þarna er kvikmyndatökufólk stundum á ferli, því götumyndin er vel varðveitt og fýsileg til kvikmyndatöku. 

IMG-2002 (2)

Við höfum verið sæmilega dugleg að skoða list af ýmsu tagi, aðallega á söfnum, enda gnótt tækifæri til þess, siglt bæði í skipulegum ferðum og á eigin vegum á síkjunum og hafnarsvæðinu, þarna er til dæmis sail-inn pítsustaður, ekki ósvipuð sail-inn sjoppunni í Winterhude í Hamborg. Annað sem við höfum gert saman þegar ég hef lítið við í heimsókn, er að fara í einhver af ótal kvikmyndahúsum og því að þakka að stundum er ég búin að sjá kvikmyndir meðan þær eru enn á toppi vinsældanna, jafnvel stundum áður en þær koma heim til Íslands, sem ég hélt að væri liðin tíð. Líka fágætari myndir sem ekki eru á streymisveitum, og þessir leiðangrar hafa leitt okkur út um allt. Nýlega komin úr seinustu heimsókninni til Amsterdam og býst ekki við að fara þangað aftur fyrr en í júní þegar ég fer á vatnslitanámskeið (aftur hjá Alvaro Castagnet). Hef ekki verið mikið í útimálun í borginni enn, nema auðvitað á útikaffihúsum, þar sem ég tek gjarna upp blokkina mína og ferðasettið. 

IMG-2092

Áður en ég hætti (seinast) á eftirlaunum og fór að vinna venjulega vinnudaga rápaði ég út um alla borg meðan Óli var að vinna og fannst ég sífellt vera að finna nýjar og nýjar slóðir og gera nýjar uppgötvanir. Hlakka til að halda því áfram næst þegar ég fer á eftirlaun. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband