Leiðarvísir um sjónvarpsáhorf

Þegar við komum heim af fyrsta (og eina, held ég) jólahlaðborðinu okkar í kvöld, þá var um tvennt að ræða: Horfa á Gurrí mala mótherjana í Útsvari á netinu (eftir að hafa kíkt á netið OG fengið lýsingu hjá syninum OG fullvissað mig um að hún hefði unnið) - eða bíða eftir endursýningunni á morgun. Áttaði mig allt í einu að það var ekkert fútt í að setja á sig headphone og setjast með lappann í fangið og horfa ein. Stundum er sjónvarpsgláp félagsleg athöfn, stundum upplýsingaöflun, stundum dægrastytting einstaklings, stundum dægrastytting fleiri og stundum hópefli. Og jafnvel blanda af fleiru en einu. Þannig að ég hef útbúið leiðarvísi um sjónvarpsáhorf:

1. Ef bara vantar upplýsingar, til dæmis úr fréttum er í lagi að horfa ein á fréttir, upptökur af fréttum á netinu eða, það sem best er, hlusta á sjónvarpsfréttir og gera eitthvað nytsamlegt í leiðinni.

2. Ef þú vilt drepa tímann og nennir ekkert að hafa samskipti við aðra þá er bara að horfa ein, þögul eða á upptökur af eldri þáttum.

3. Ef eitthvað rosalega skemmtilegt hefur verið sýnt í sjónvarpi, til dæmis Ho. ho, ho, skaltu draga alla sem þú treystir til að hafa sama húmor og þú, að tölvunni þinni og sýna herlegheitin með viðeigandi athugasemdum eins og: Fylgstu nú vel með (Barði dissar alla) eða bíddu, heyrðu þetta: (Erpur reynir að dissa Barða) eða:Sjáðððððu núna! (Gilzenegger ber einbeittur á hljómborð með einum putta, hljómborðssóló dauðans).

4. Ef eitthvað rosalega spennandi er að gerast í rauntíma, eins og til dæmis Álftanes eða Akranes að keppa í Útsvari, þá á að safna saman fólki sem kann að fagna og kveljast (engjast) og horfa á í rauntíma. Athugasemdir, klapp, öskur, læti, hlaupa út grátandi, þora ekki að hlusta á svarið og þykjast skreppa á klósettið, allt er þetta hluti af fjörinu, en hentugt að láta fögnuð sinn eða sálarangist í ljós á þann hátt að enginn missi af neinu mikilvægu.  

5. Ef horfa á á einhverja tímamótamynd (algengt er að einn hafi séð hana og VITI að hún er snilld) þá er gott að nokkrir vel valdir sitji saman, dauðþegjandi, haldi niðri í sér andanum þegar magnaðar senur koma. Sú sem hefur séð myndina gýtur kannski augum á hina, samt helst þannig að ekki sjáist, til að athuga hvort fólkið er þess verðugt að horfa á.

6. Ef horfa skal á léttvægt efni, þá er best að vera í góðum hóp, kjafta smá, kommentera óspart á það sem kann að virðast ómerkilegt en getur orðið skemmtilegt eða spennandi, eins og: Hefurðu tekið eftir kæknum sem X er með (í uppáhaldsþættinum) eða: Núna munu þau ábyggilega hætta við að hætta saman.

7. Ef horft er á rómantíska gamanmynd saman er best að koma sér vel fyrir uppi í sófa og bara njóta, kjafta kannski smá, en aðallega njóta.

8. Ef myndin sem þú vilt horfa á er grunuð um að vera frábær, með geggjaðri tónlist, spennu, drama, kappakstri, snilldarleik: Farðu í bíó! 

 

Viðbætur og ábendingar vel þegnar en leiðréttingar eru illa séðar.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband