Færsluflokkur: Ferðalög
Enn vestari haustlitir
17.10.2013 | 22:37
Þar sem íslenskar ár geta verið vestari og vestri eftir hentugleikum (eða alla vega austari og eystri) þá ætla ég að leyfa mér að kalla Kyrrahafsströnd Bandaríkjanna vestari ...
Haustlitirnir í Montreal í Kanada voru tilefni seinasta pistils en í þessum koma nokkrar svipmyndir frá Seattle frá því fyrr í vikunni:
Haustlitir
5.10.2013 | 04:08
Mér er það enn minnisstætt þegar ég var stödd í vegabréfaskoðun í Singapore og fékk þessa góðu spurningu: ,,Iceland? Do you have seasons there?" Já, við höfum sannarlega árstíðir á Íslandi, að minnsta kosti fjórar, mjög mislangar og breytilegt eftir árum.
Einu sinni hélt ég að haustlitir væru svona hálfpartinn séríslenskt fyrirbrigði. Þá hafði ég verið hálft ár á Spáni en önnur útlönd þekkti ég minna, þótt ég hefði reyndar vitjað þeirra að hausti, en einhvern veginn voru haustlitirnir í Köben ekki minnisstæðir, þótt ég kynntist þeim seinna af góðu einu.
Haustlitirnir hér í Montreal eru alveg magnaðir eins og meðfylgjandi myndir sýna vonandi. Laufin tolla lengi á trjánum og í 20 stiga hita getur verið skrýtið að horfa á haustlitina í kringum sig. Sums staðar er eins og ekkert hafi haustað enn, trén á golfvellinum eru ótrúlega græn ennþá og eiginlega bara græn, þannig að ég þurfti að spyrja mig hvaðan þessi appelsínurauðu lauf sem appelsínugula kúlan mín týndist í, hefðu eiginlega komið. Kannski eru trén þar svona græn af því öll appelsínugulu laufin eru dottin af þeim. Hmmm, en það sér alla vega ekki högg á vatni.
Eitt sinn fór ég í haustlitaferð til New Haven í Connecticut í Bandaríkjunum. Hópur Íslendinga fór saman upp á fjall (reyndar klifum við stiga til að komast upp á fjallið, sem mér þótti skrýtið og þykir enn). Fjölbreytnin og litadýrðin voru ótrúleg. Það var einmitt um svipað leyti árs og nú er. Man ekki alveg tímasetninguna á annarri góðri (og óvæntri) haustlitaferð, en það var þegar ég þurfti snögglega að fara til Noregs um haust og þannig stóð á að eina farið sem í boði var var með millilendingu í Stokkhólmi í báðum leiðum. Ekki beint í leiðinni. Ég átti ekki eftir að sjá eftir því, aðra eins litasinfóníu var erfitt að hugsa sér og hvort sem það var tilviljun eða velvild flugstjórans með fulltingi einhverra flugumferðastjóra, þá flugum við býsna lágt á milli þessara höfuðborga. Það var einkum í frameftirleiðinni sem litirnir nutu sín, sennilega verið eitthvað meira skýjafar á bakaleiðinni.
Engu að síður þá jafnast fátt við haustlitina á Þingvöllum og ég enda með einni mynd þaðan. Eftir á að hyggja er hún enn svolítið sumarleg, en þið virðið viljann fyrir verkið.
Leitin að fegursta orði íslenskrar tungu komin á háskólastig
24.9.2013 | 14:55
Fyrir nokkrum árum notaði ég þetta blogg til að leita að fegursta orði íslenskrar tungu (gamall draumur). Nú er þessi leit komin til kasta háskólastofnana og ég get ekki annað en glaðst innilega. Til að koma ekki með áróður á kjörstað mun ég ekkert upplýsa hvernig fór ...
![]() |
Leitað að fegursta orðinu í málinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kettirnir á Ísafirði
17.8.2013 | 21:47
Mér hefur alltaf líkað vel við Ísafjörð, en sennilega aldrei eins og undanfarna þrjá daga, þegar ég bæði naut þess að skoða bæinn og komst að raun um það að þar býr urmull katta. Þessi þrílita, fallega á tröppunum á Gamla gistihúsinu, sem hvessti á okkur augun, sá silalegi sem þurfti að reka annan yngri yfir götuna hvað eftir annað á meðan við sátum við gluggann á Húsinu og svo þessi undurfagri sem ég sá í Neðstakaupstað í morgun:
Suðureyri við Súgandafjörð í gær
17.8.2013 | 21:39
Einn af örfáum bæjum á Íslandi sem ég hafði ekki heimsótt, fyrr en í gær, er Suðureyri við Súgandafjörð. Við Nína systir hoppuðum upp í strætó við Pollinn á Ísafirði og fórum í gegnum göngin góðu og síðan út með löngum Súgandafirði þar til Suðureyri blasti við. Þar röltum við um, fengum okkur frábært kaffi á kaffihúsinu (með húmorískum uppeldisskilaboðum á vegg) og kíktum á handverk.
Besta útsýnið var auðvitað á hæstu götunni svo við röltum hana nánast út á enda.
Þótt liðið sé á sumar virðist enn nokkuð mikið um ferðalanga í bænum, bæði erlenda og súgfirska sem voru að pakka saman eftir ferðalög annars staðar um landið. Glaðlegt yfirbragð mætti okkur alls staðar en þarna fjölgar víst fólki nú og smábátaútgerðin blómstrar og fiskvinnslan virðist ganga út að nýta sem mest og best þann afla sem kemur að landi.
Þótt verið sé að gera fjölmörg hús upp með miklum myndarbrag var þó eitt hálfrifið sem vakti sérstaka athygli mína, ég safna nefnilega myndum af bleikum húsum, en þetta var bleikt að innan!
Veðurdagar (veðurlagsins blíða)
12.6.2013 | 23:51
Þar sem ég er með ósköpum gerð að muna alls konar mismikilvægar tímasetningar, þá man ég alls konar veður á ýmsum tímum. Man vel ég þegar komið var niður undir frostmark þegar ég skaust milli skemmtistaðanna í miðbænum í Reykjavík með stúdentshúfuna á hnakkanum að kvöldi dags 16. júní 1972. Og hitabylgjuna sem kom á móti mér þegar ég kom út úr flugvélinni á Egilsstöðum í ágústlok 1976. Sömuleiðis Jónsmessuhretið árið 1992 þegar ég hafði ætlað að fara Dragann til sækja hestamenn en endaði með því að þakka fyrir að komast hina leiðina í Borgarfjörðinn. Og ekki má gleyma septemberblíðunni 1993. Þá var ég búin að spila tennis úti við allt sumarið í sól en ekkert of miklum hita en komin til Ástralíu þegar þessi óvænta haustblíða skall á. Þannig að enn lít ég á þetta sumar sem óskrifað blað og segi eins og Bítlanir forðum: I'll follow the sun ... Það gerðum við reyndar eitt árið (1995) um verslunarmannahelgina og svona tókst sólinni að draga okkur á asnaeyrunum: Fimmtudagur: Borgarfjörður; föstudagur: Ljósavatnsskarð; laugardagur: Eiðar; sunnudagur: Skógar ... og svo var bara farið heim!
En svona er vor allt árið í minni heimabyggð, þessi mynd er tekin um miðjan vetur fyrir 2-3 árum.
Töfrandi dagar í Toronto
11.5.2013 | 17:41
Stórborgin Toronto í Kanada kom mér á óvart. Hún var í rauninni bara stoppustöð á leiðinni til Montreal og reyndar líka indælt tækifæri til að kynnast fjölskyldu Kay, kærustu sonar míns. Annað erindi átti ég nú ekki þangað. En kosturinn við að vera með staðkunnugum er að þá gerir maður ýmislegt sem annars hefði verið ógert. Sumt fyrirsjáanlegt, eins og að fara í CN Tower sem samkvæmt einhverjum skilgreiningum hefur verið eða ekki verið hæsta bygging heims/Vesturlanda á einhverjum tímabilum. Alla vega horfir maður niður á háa skýjakljúfa og á aðflug og lendingar millistórra flugvéla, sem er út af fyrir sig skemmtilegt. Og útsýnið er ómótstæðilegt. Mér skilst að það sjáist til Bandaríkjanna í góðu skyggni, en okkur dugði nærumhverfið.
Annað frekar fyrirsjáanlegt var ferð til Niagara Falls, en þar var það vatnsmagnið og dynurinn sem fylgdi því sem heillaði mig mest. Þá er hægt að skoða bæinn Nigagara-on-the-Lake líka, mjög krúttlegan bæ, og jafnvel að fara í skoðunarferð þar sem Icewine er framleitt.
En svo er það allt þetta sem mér var sýnt af staðkunnugum, gríska hverfið með urmul af veitingahúsum og líflegu mannlífi, Distillery hverfið, þar sem hönnunarbúðir og falleg kaffihús eru á hverju stráii og svo bara einfaldlega skemmtilegt mannlíf. Utan við borgina eru ótal iðjagrænir golfvellir, hef aldrei séð þá svona þétt. Og norðan við borgina, í Kleinburg Ontario, fór ég á eina flottustu myndlistarsýningu sem ég hef séð um ævina: Changing Hands: Art without Reservation. Contemporary Native Art from the Northeast and Southeast. Þar, í McMichael safninu, sem er listaverk út af fyrir sig, er þessi sýning nú en fer í ágúst-september til annars uppáhaldsstaðar okkar Nínu systur, Santa Fe í New Mexico. Þessi sýning er ómótstæðileg! Þarna er líka falleg sýning um The Group of Seven, sem er líka mjög fín, en hin sýningin, vá! Perlusaumur er ekki bara perlusaumur og eitt videoverk sló flestu öðru við sem ég hef séð. Lúmskt!
Og svo fór ég reyndar líka í stórt Mall enda með örstuttan innkaupalista, og þar heyrði ég íslensku í rúllustiganum, nema hvað.
Stigar utan á húsum
9.5.2013 | 03:21
Hér er játning: Ég eyddi kosningakvöldinu við Niagara Falls! Eins þrælpólitísk og ég er nú, þá hvarflaði ekki að mér að breyta löngu tilbúinni ferðaáætlun til fundar við son minn og kærustuna hans í Kanada, þótt ég yrði að yfirgefa kosningabaráttuna með öllu yndislega fólkinu í Regnboganum (við sjáum ekki eftir neinu) fjórum dögum fyrir kosningar.
Og nú er ég komin til baka. Fyrir utan yndislega tíma með fjölskyldunni, sem eiga minnst erindi í opinbert blogg, þá var þessi 11 daga ferð til Kanada uppspretta ótal ævintýra, bæði á troðnum ferðaslóðum (Niagara, CN Tower og uppvaxtarstaður Leonards Cohen koma sterk inn) sem og í daglegu lífi sem innihélt strætó- og neðanjarðarbrautarferðir, Dim Sum sunnudagsmáltíð með stórri kínverskri fjölskyldu og mitt heittelskaða golf, sem allt of lítið hefur verið sinnt að undanförnu, ýmist vegna annríkis eða veðráttu.
Google frændi er alltaf góður. Ég leitaði að golfvelli sem væri opinn gestum í Montreal og fann fínan völl sem ég síðar frétti að væri sá ódýrasti í bænum. Meadowbrook heitir hann. Flestar sumarflatirnar voru komnar í notkun, en ekki allar. Þar spilaði ég ein þar til á 12 holu þegar þau Cora, Anthony og þriðji maðurinn sem yfirgaf okkur á 15 holu, kölluðu í mig. Með þeim spilaði ég seinustu sex. Veðrið var himneskt, eins og alla dagana, og leikurinn batnaði nokkuð hjá mér við aðhaldið af því að hafa meðspilara. Refur skaust yfir þvera brautina á 13 holu og Anthony var ósegjanlega glaður. Fjandans groundhog-kvikindið var næstum búið að gera hann útlægan í fyrra, sagði hann mér. Þau sáum við hjá flestum bönkerum, en það fór ekkert á milli mála að refi þekki ég á færi, hef séð þá nógu marga í Borgarfirðinum og skottið fallega leynir sér aldrei. Cora, sem fluttist frá Filippseyjum til Kanada fyrir 42 árum, á börn á aldur við mín og tvö yngri, skutlaði mér til baka í neðanjarðarbrautina vildi endilega taka mig í skoðunartúr í leiðinni og sýndi mér meðal annars Monkland, sem er fjarri ,,mínu" hverfi í Montreal en nokkuð nærri golfvellinum. Þau Anthony, sem ekki eru hjón, Cora er gift gyðingi og býr í sætri götu með miklum görðum (sem hún sýndi mér) spurðu hvort ég kæmi ekki aftur á morgun?
Ferðin með leigubíl frá neðanjarðarstöðinni Vendome til Meadowbrook var líka skemmtileg, því um leið og ég dáðist að sixties lögunum í útvarpi bílstjórans brast hann á með sögur úr sínu lífi. Hann er eflaust á aldur við mig eða ögn eldri, kom frá Bandaríkjunum, barðist í Viet-Namog hefur aldrei sagt neinum frá því, ekki einu sinni syni sínum, sem nú er uppkominn. Ekki sáttur við að hafa drepið fólk. Hann spilar í sixtís hljómsveit í Montreal um flestar helgar en keyrir leigubíl á milli. Eitt sinn var hann í 10 tíma flugi og leiddist. Hann tók upp gítarinn, stillti sér upp fremst í ganginum og fór að spila og syngja. Söng frekar lengi og gaf svo peningana sem fólk var farið að gefa honum, í hendur flugstjórans og bað um að þeir færu til góðgerðarmála. Flugstjórinn var frekar hress með tiltækið allt en hafði aldrei ,,lent" í svona flugfarþega áður og hafði þó flogið mjög langan feril.
Sögur sem fólk segir þeim sem þeir eiga ekki von á að hitta aftur eru auðvitað mjög mismunandi persónulegar og skemmtilegar, en yfirleitt einlægar og sætar. Skosku og Norðurensku karlarnir í neðanjarðarbrautinni til Heathrow, þegar ég var að fara að sækja dóttur mína úr flugi til London, búðareigandinn okkar góði í Hurghada, Bretinn sem ég spilaði við í haust í Alicante, sem hafði misst dóttur sína í bílslysi í hitteðfyrra, bjó í fjöllunum og átti íslenska nágranna, allt er þetta fólk sem var gaman að tala við.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á
7.8.2012 | 23:43
Þegar ég var um tvítugt tókst mér einhvern tíma að lauma mér inn í hóp með systur vinar míns og vinkonum hennar á leið til spákonu í Hafnarfirði. Það væri ekki í frásögur færandi nema vegna þess að hún lýsti í smáatriðum stað erlendis sem hún sagði að ég myndi fljótlega koma á og yrði fallegasti staður sem ég hefði komið á. Ég ætti að senda henni póstkort þaðan. Á þessum árum var maður ekki að fara í ferðalög sí og æ, reyndar fór ég í tvígang sama árið um þetta leyti til útlanda (og það sagði spákonan mér líka) þar sem foreldrar mínir voru í námsleyfi erlendis um þessar mundir. Þegar ég heimsótti þau í Mið-Frakklandi þá átti ég eina ósk og hún var sú að skoða hellamálverkin í Dordogne-dal, sem þá mátti enn skoða með berum augum, sum hver. Þangað var haldið en þegar við vorum rétt að leggja af stað sagði vinnufélagi fóstra míns að við ,,yrðum" að skoða Chateau de Val á leiðinni. Við höfðum aldrei heyrt staðinn nefndan, en þegar við ókum fram á skiltið þangað, ákváðum við að tékka. Leiðin lá um óhrjálegan veg meðfram einhverju framkvæmdasvæði og okkur fannst þetta nú ekki merkilegt umhverfi. En allt í einu opnaðist útsýnið sem sést á meðfylgjandi póstkorti, sem ég hef ekki sent enn, þar sem ég mundi hvorki nafn né heimilisfang á spákonunni góðu. Þannig að ef hún les þetta og þekkir, þá vildi ég gjarnan koma því til skila.