Fallegasti staður sem þú hefur komið á

Þegar ég var um tvítugt tókst mér einhvern tíma að lauma mér inn í hóp með systur vinar míns og vinkonum hennar á leið til spákonu í Hafnarfirði. Það væri ekki í frásögur færandi nema vegna þess að hún lýsti í smáatriðum stað erlendis sem hún sagði að ég myndi fljótlega koma á og yrði fallegasti staður sem ég hefði komið á. Ég ætti að senda henni póstkort þaðan. Á þessum árum var maður ekki að fara í ferðalög sí og æ, reyndar fór ég í tvígang sama árið um þetta leyti til útlanda (og það sagði spákonan mér líka) þar sem foreldrar mínir voru í námsleyfi erlendis um þessar mundir. Þegar ég heimsótti þau í Mið-Frakklandi þá átti ég eina ósk og hún var sú að skoða hellamálverkin í Dordogne-dal, sem þá mátti enn skoða með berum augum, sum hver. Þangað var haldið en þegar við vorum rétt að leggja af stað sagði vinnufélagi fóstra míns að við ,,yrðum" að skoða Chateau de Val á leiðinni. Við höfðum aldrei heyrt staðinn nefndan, en þegar við ókum fram á skiltið þangað, ákváðum við að tékka. Leiðin lá um óhrjálegan veg meðfram einhverju framkvæmdasvæði og okkur fannst þetta nú ekki merkilegt umhverfi. En allt í einu opnaðist útsýnið sem sést á meðfylgjandi póstkorti, sem ég hef ekki sent enn, þar sem ég mundi hvorki nafn né heimilisfang á spákonunni góðu. Þannig að ef hún les þetta og þekkir, þá vildi ég gjarnan koma því til skila.

chateauduval.jpg


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband