Á leið frá stjórnmálabloggi til ferðabloggs - golf á ódýrasta vellinum í Montreal

Hér er játning: Ég eyddi kosningakvöldinu við Niagara Falls! Eins þrælpólitísk og ég er nú, þá hvarflaði ekki að mér að breyta löngu tilbúinni ferðaáætlun til fundar við son minn og kærustuna hans í Kanada, þótt ég yrði að yfirgefa kosningabaráttuna með öllu yndislega fólkinu í Regnboganum (við sjáum ekki eftir neinu) fjórum dögum fyrir kosningar.

Og nú er ég komin til baka. Fyrir utan yndislega tíma með fjölskyldunni, sem eiga minnst erindi í opinbert blogg, þá var þessi 11 daga ferð til Kanada uppspretta ótal ævintýra, bæði á troðnum ferðaslóðum (Niagara, CN Tower og uppvaxtarstaður Leonards Cohen koma sterk inn) sem og í daglegu lífi sem innihélt strætó- og neðanjarðarbrautarferðir, Dim Sum sunnudagsmáltíð með stórri kínverskri fjölskyldu og mitt heittelskaða golf, sem allt of lítið hefur verið sinnt að undanförnu, ýmist vegna annríkis eða veðráttu.

Google frændi er alltaf góður. Ég leitaði að golfvelli sem væri opinn gestum í Montreal og fann fínan völl sem ég síðar frétti að væri sá ódýrasti í bænum. Meadowbrook heitir hann. Flestar sumarflatirnar voru komnar í notkun, en ekki allar. Þar spilaði ég ein þar til á 12 holu þegar þau Cora, Anthony og þriðji maðurinn sem yfirgaf okkur á 15 holu, kölluðu í mig. Með þeim spilaði ég seinustu sex. Veðrið var himneskt, eins og alla dagana, og leikurinn batnaði nokkuð hjá mér við aðhaldið af því að hafa meðspilara. Refur skaust yfir þvera brautina á 13 holu og Anthony var ósegjanlega glaður. Fjandans groundhog-kvikindið var næstum búið að gera hann útlægan í fyrra, sagði hann mér. Þau sáum við hjá flestum bönkerum, en það fór ekkert á milli mála að refi þekki ég á færi, hef séð þá nógu marga í Borgarfirðinum og skottið fallega leynir sér aldrei. Cora, sem fluttist frá Filippseyjum til Kanada fyrir 42 árum, á börn á aldur við mín og tvö yngri, skutlaði mér til baka í neðanjarðarbrautina vildi endilega taka mig í skoðunartúr í leiðinni og sýndi mér meðal annars Monkland, sem er fjarri ,,mínu" hverfi í Montreal en nokkuð nærri golfvellinum. Þau Anthony, sem ekki eru hjón, Cora er gift gyðingi og býr í sætri götu með miklum görðum (sem hún sýndi mér) spurðu hvort ég kæmi ekki aftur á morgun?

2013-05-02_17_21_17.jpg

Ferðin með leigubíl frá neðanjarðarstöðinni Vendome til Meadowbrook var líka skemmtileg, því um leið og ég dáðist að sixties lögunum í útvarpi bílstjórans brast hann á með sögur úr sínu lífi. Hann er eflaust á aldur við mig eða ögn eldri, kom frá Bandaríkjunum, barðist í Viet-Namog hefur aldrei sagt neinum frá því, ekki einu sinni syni sínum, sem nú er uppkominn. Ekki sáttur við að hafa drepið fólk. Hann spilar í sixtís hljómsveit í Montreal um flestar helgar en keyrir leigubíl á milli. Eitt sinn var hann í 10 tíma flugi og leiddist. Hann tók upp gítarinn, stillti sér upp fremst í ganginum og fór að spila og syngja. Söng frekar lengi og gaf svo peningana sem fólk var farið að gefa honum, í hendur flugstjórans og bað um að þeir færu til góðgerðarmála. Flugstjórinn var frekar hress með tiltækið allt en hafði aldrei ,,lent" í svona flugfarþega áður og hafði þó flogið mjög langan feril.

Sögur sem fólk segir þeim sem þeir eiga ekki von á að hitta aftur eru auðvitað mjög mismunandi persónulegar og skemmtilegar, en yfirleitt einlægar og sætar. Skosku og Norðurensku karlarnir í neðanjarðarbrautinni til Heathrow, þegar ég var að fara að sækja dóttur mína úr flugi til London, búðareigandinn okkar góði í Hurghada, Bretinn sem ég spilaði við í haust í Alicante, sem hafði misst dóttur sína í bílslysi í hitteðfyrra, bjó í fjöllunum og átti íslenska nágranna, allt er þetta fólk sem var gaman að tala við. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband