Færsluflokkur: Ferðalög
Í vor lá leið mín, einu sinni sem oftar, til Nýju Mexíkó í Bandaríkjunum. Í þetta skipti var búið að nefna það við mig að ef til vill lægi leiðin til bæjar sem heitir Truth or Consequences og heitir í höfuðið á sjónvarpsþáttum. Þessi skítblanki bær, sem áður hét Hot Springs, seldi sem sagt gamla nafnið og tók upp þetta nýja fyrir peninga. Fyrsta vísbendingin um ljótan andarunga.
Leiðin frá háskólabænum Portales til T or C, eins og bærinn er jafnan kallaður, lá um fallega fyrirmyndarbæinn Ruidoso, sem er víst stytting á Rio Ruidoso (merkir háværa á á spönsku). Hann er umvafinn fallegum fjallahring, í mikilli uppbyggingu, þeirri þriðju hröðustu í Nýju Mexíkó, og þar er flest fallegt og snyrtilegt. Það er alveg hægt að súpa hveljur yfir fegurðinni í umhverfinu. Listmunir og útivistarbúnaður eru áberandi í verslunum staðarins. Hótelin eru mörg og þægileg, enda er staðurinn hátt í fjöllum, í rúmlega 2000 metra hæð yfir sjó, og vinsæll áfangastaæður sumar jafnt sem vetur.
Á veturna er þar skíðaparadís og á sumrin vinsæll áfangastaður fyrir fólk sem er ekki alveg að ,,fíla fjörutíu stiga hitann niðri á hásléttunni sem Nýja Mexíkó liggur að miklu leyti á. Auðvitað féll ég í stafi yfir fegurð bæjarins og góðum aðbúnaði á hótelinu. En ég var ekki nógu dugleg að taka myndir þar, enda um tiltölulega stutt stopp að ræða svo ég gríp til alla vega einnar lánsmyndar.
Svo tók við all-langur akstur suður og vestur á bóginn til T or C. Hluti leiðarinnar liggur meðfram smásprænunni Rio Grande, sem kannski breytist í beljandi fljótið sem nafnið vísar til ef vel rignir.
Loks er komið í bæinn Truth or Consequences og ferðafélagar mínir geta ekki leynt blendnum tilfinningum sínum. Bærinn er rytjulegur og hálf berangurslegur, um bæinn ráfa aflóga hippar sem greinilega eru komnir yfir seinasta söludag. Nýjaldarlegar skranbúðir meðfram aðalgötunni í stað útlífs- og listmunaverslananna í Ruidoso. Hótelið er skrýtið en hlýtur að teljast umhverfisvænt, þar sem gamlar dósir og flöskur eru notaðar í veggi og þaktar leir. Alls staðar er boðið upp á heita potta, enda er bærinn þekktur fyrir heitar lindir með liþíum ívafi. Alla vega líður manni vel eftir að hafa farið í heitan pott fyrir utan hótelið. Bærinn er skrýtinn og skemmtilegur, um það síðarnefnda eru reynar skiptar skoðanir. Leyfi lesendum að dæma um það.
Í jaðri bæjarins er einkaklúbbur sem stingur verulega í stúf við hippalegt yfirbragð bæjarins. Hér er fólk með kúrekahatta og rosalega hvítt á hörund. Húsnæðið er stór skemma, þar inni er hávær tónlist og vafasamur tónlistarflutningur, mikið af misgóðu karókí og svo bresta menn í fugladansinn og jenka og alls konar einkennilega hegðun. Pool-borð og bar taka helsta plássið og klukkan níu að kvöldi standa menn upp og biðja bæn til heiðurs elgnum sem klúbburinn heitir í höfuðið á. Ef aðkomufólk heldur að þeir séu að grínast er fræðilegur möguleiki á að svo sé, en líklegra að þeim sé fúlasta alvara.
Íbúar beggja bæjanna eru innan við tíu þúsund, en í úthverfum Ruidoso býr annar eins fjöldi nú þegar. Innan við 5% fólk í Ruidoso lifir á tekjum neðan fátækramarka en næstum 20% íbúa í T or C. Yfir 80% íbúanna í T or C eru af spænskum uppruna en aðeins tæplega 20% í Ruidoso. Á báðum stöðum eru góðir golfvellir, eftir því sem ég kemst næst, margir í Ruidoso en nokkrir í grennd við T or C.
Á ég að breyta þessu í ferðablogg?
4.7.2012 | 10:47
Ferðalangur í eigin landi og eitt hollráð
14.6.2011 | 17:42
Einn af kostunum við að fá erlenda gesti í heimsókn er að þá gefst tækifæri/afsökun til að gerast túristi í eigin landi. Skammt hefur verið milli heimsókna erlendra ættingja, bæði systurdóttur og fjölskyldu hennar frá Bandaríkjunum og frænda (af öðrum og þriðja) frá Nýja-Sjálandi og blessað fólkið var dregið víða og alltaf hrepptum við þetta yndislega skyggni, þótt hitastigið væri mismunandi. Landið er fallegt og í gegnum augu þeirra sem lítið hafa séð af því jafnvel nýtt og óvænt. Eyjafjallajökull úr suðri, sá sem ég er vönust að skoða úr vestri, er ótrúlega heillandi í fallegu veðri, einkum þegar hann er ekki gjósandi. Þingvellir eru enn meira spennandi nú en fyrr þegar ný hola hefur myndast niður í jörðina efst í Almannagjánni, holan tilefni ótal pælinga. Stokkseyrarfjaran í sól og hægviðri er einstök og eyjarnar á Breiðafirði séðar frá klettinum við Stykkishólmshöfn eru raunverulega óteljandi ef skyggnið er gott, eins og það var á laugardaginn.
Ein ráðlegging: Ef ferðalangar koma með stuttu millibili er ágætt að hafa samráð við aðra ættingja og fara á mismunandi staði í hverri heimsókn fyrir sig, leyfa öðrum að sýna endurtekið efni. Sunnlenska bókakaffið hentar kannski betur fyrir stjórnmálafræðiprófessor í Ástralíu en tónlistarmann frá Nýju-Mexíkó og bananapítsan í Hafnarstræti er frekar við hæfi yngra fólks en eldri kennara.
Gegnum augu annarra og okkar góða Gay!
7.8.2010 | 00:26
Óviðkomandi innskot í alvarlega umræðu dagsins - úr loftinu
30.10.2008 | 03:27
Ekki veit ég hvers vegna flugþjónar eru frakkari en flugfreyjurnar sem ég hef fyrirhitt, en í fyrra hittum við Elísabet systir einn óborganlegan sem fann aðferð við að drepa á dreif frekar bröttu flugtaki frá Albuquerque. Þegar vélin var að klífa kastaði hann hnetupokum niður ,,brekkuna" sem myndaðist á ganginum milli sætanna svo þeir flugu niðureftir og hrópaði: ,,Here comes the peanuts!" Annan hitt ég um daginn sem reyndi að sannfæra okkur um að flugmaðurinn hefði fengið leyfi til þess að
,,stytta sér leið" milli New York og Boston, sem líklega hefur verið rétt, því flugið tók ekki nema 35 mínútur en átti að vera lengra. Loks var það einn alveg óborganlegur sem var að lýsa hinu ægifagra útsýni yfir ljósin á Manhattan á fimmtudagskvöldið síðastliðið, en gallinn var sá að aðeins þeir sem voru vinstra megin í flugvélinni gátu notið dýrðarinnar. ,,For those of you on the right side of the aircraft," sagði hann, ,,you are just screwed!". - Huggandi, ekki satt? Tek það fram að ég sat vinstra megin við glugga. Kannski þess vegna sem mér fannst þetta fyndið.
Veruleikakast
24.10.2008 | 22:38
Fallegir haustdagar í Washingtonfylki, vestast í vesturheiminum
22.10.2008 | 05:47
Í dag fór Elfa með mig til La Conner, bæjarins sem hún bjó í í tíu ár, en áður vorum við aðallega búnar að vera hér í Conway norðan við Seattle. Haustið hér um slóðir er einstaklega fallegt og gaman að koma á heimaslóðir Elfu seinustu 13 árin, sem sagt hér og í La Conner. Myndirnar af Elfu og landslaginu ættu að tala sínu máli.
Erfitt að kveðja Ninu og Anne en hitti Elfu fljotlega
19.10.2008 | 16:57
Komin til Fort Collins, Colorado
18.10.2008 | 05:45
Höfum það alveg frábært hjá Sóley systurdóttur minni og fjölskyldu. Anne, hin systurdóttirin í Ameríku, keyrði okkur hingað eins og hetja, langur akstur og á sunnudag fara þær í einum áfanga til baka. Smá skot úr eldhúsinu hennar Sóleyjar.
Á heimleið í kreppuna eftir níu daga krókaleiðum
16.10.2008 | 19:25
Skrýtið að vera að pakka eftir yndislega vist hér hjá Nínu systur. Veit ekki hvað ég verð mikið nálægt neti á næstunni, þótt það sé internettenging hjá Sóley frænku minni í Fort Collins og eflaust hjá Elfu vinkonu minni líka í Conway, þá verð ég kannski bara svo upptekin við annað að ég fer lítið á netið. En við sjáum til, fréttafíkillinn hættir kannski ekki alveg að skipta sér að. Í kvöld (þegar komin verður nótt hjá ykkur) leggjum við Nína systir og Anne systurdóttir mín nefnilega af stað í barnaafmæli nyrst í Colorado. Við keyrum þangað og gistum á leiðinni, ef til vill í Las Vegas í New Mexico. Verðum væntanlega komnar um hádegisbilið til Fort Collins, þar sem Owen frændi minn heldur upp á fjögurra ára afmælið sitt, en hann átti afmæli á þriðjudag. Þarna verð ég fram á sunnudag, afmælið sjálft á laugardag á mini-golfvelli, sem mér líst mjög vel á. Veðurspáin er góð (Íslendingurinn auðvitað búinn að tékka á það, auk þess sem faðir barnsins er líka veðurfrík og kunni því ágætlega við sig þegar hann kom til Íslands í hitteðfyrra eða jafnvel lengra síðan, tíminn líður hratt). Owen er sem sagt sonur Sóleyjar systurdóttur minnar, sem ég missti af í sumar þegar hún kom til Íslands, en öll fjölskyldan kom einu eða tveimur árum fyrr til Íslands og skemmti sér bara vel. Eldri bróðir Owens heitir Aiden og er byrjaður í skóla. Hann er reyndar núna í Arizona með pabba sínum, þar sem bæði Nína systir og Sóley bjuggu áður og Anne reyndar líka. Á sunnudaginn skrepp ég til Seattle en í Conway, norðan við borgina, býr Elfa Gísla, vinkona mín, og hefur byggt upp The Conway Muse, sem er fjöllistarfyrirtæki, sem ég hlakka til að skoða. Nældi mér í eina mynd þaðan af netinu, en set eflaust fleiri inn eftir ferðina þangað. Ég er sú síðasta okkar vinkvennanna fjögurra að heimsækja Elfu, en það hefur lengi staðið til svo ég stóðst ekki mátið að borga 60 dollurum meira fyrir ferðina og koma við hjá Elfu í 3-4 daga, fyrst það stóð vel á hjá henni líka. Þegar hún var heima í sumar þá nefndi ég við hana svona í gríni hvort ég ætti að kíkja við hjá henni þegar ég skryppi til Nínu systur í haust og hún hvatti mig óspart svo nú er það komið inn í skipulagið. Svo flýg ég um Boston heim og verð komin eftir rúma viku. En hér er Conway Muse, og meira um
það seinna. Eflaust muna margir eftir Elfu, en hún var ein af frumkvöðlunum hjá Stöð 2, lék Beggu frænku fyrir börnin og allmörg hlutverk á sviði og í leikhópum áður en hún fluttist til Kanada og síðar suður fyrir landamærin til Washington fylkis.
Hér er svo mynd af okkur vinkonunum fjórum frá því í afmælinu hennar Gurríar í sumar. Elfa er lengst til vinstri.