Færsluflokkur: Ferðalög

Við höfum öll okkar ástæður fyrir því að vilja standa utan ESB

Ég er alþjóðasinni og hlynnt góðum samskiptum þjóða á meðal. Nú er ég tímabundið flutt til ESB-lands, Þýskalands, til að starfa þar. Vinnufélagar mínir eru alls staðar að úr heiminum, frá Kirgistan og Ástralíu, Perú og Síberíu, Singapore og Argentíu. Þeir sem koma frá löndum utan ESB þurfa eilíflega að standa í stappi við ,,kerfið" sem vill eiginlega ekki sjá fólk sem kemur frá löndum utan ESB. Mér finnst hálf vandræðalegt að tilheyra forréttindaklúbbnum sem hyglar fólki frá ,,sínum" löndum og lýtur að miklu leyti lögmálum sem sköpuð eru af stórfyrirtækjum og sterkustu hagsmunaaðilum sem hafa afl til að tala máli sínu í hinu miðstýrða ESB-veldi skrifræðisins í Brussel. Þetta eru mínar ástæður, ekki þær einu, en vega þungt. Mamma, sem var á Þingvöllum 17. júní 1944 í hellirigningu, vill alls ekki sjá að við töpum sjálfstæði okkar aftur, Henrik frændi minn i Danmörku var að nálgast tírætt þegar hann sagði við mig að hann vildi eiginlega ekki deyja fyrr en Danmörk væri komin út úr ESB, en hins vegar nennti hann ekki heldur að lifa sumarið, af því það þurfti nefnilega að gera við þakið á húsinu hans. Og hér eru enn fleiri ástæður, sumar þær sömu og ég hef þegar viðrað, en líka svo margar aðrar.

Mér finnst reyndar merkilegt að hér í Hamborg sé ég aldrei fána ESB blakta, bara fána Hamborgar, Þýskalands og ef ég skrepp í golf til Glindi þá er það fáni Slésvíkur-Holstein og einhver annar héraðsfáni í Buxtehude og Stade. Mér finnst þetta notalegt, mér finnst alltaf sætt þegar fólk tengist nærumhverfi sínu vel. ,,Think globally, act locally" er sagt í öðru samhengi, en á alltaf við. Man að það stakk mig svolítið í fríi í Portúgal að sjá jafnvel minnstu girðingarstubba merkta ESB í bak og fyrir eins og verið væri að segja: Þessi girðing er í boði ESB ... 


Hamborg, ,,hérumbil" og alveg

Skrýtið með sumar borgir, sem maður hefur oft ,,hérumbil" komið til. Þar til vinnan bar mig hingað í borgina hafði ég nokkuð oft ,,hérumbil" komið þangað. Og óneitanlega skildi borgin eftir sig ýmsar góða rminningar, þótt ég geti varla sagt að ég hafi leitt hugann að henni, - fyrr en nú. Bloggaði aðeins um jólamarkaðina þar, þegar ég kom við í borginni rúman sólarhring í nóvemberlok, erindið þá var aðeins eitt viðtal og að skilaði mér hingað til ögn lengri tíma en venjulega. 

Þegar ég var 22 ára átti ég erindi til Frakklands, þar sem foreldrar mínir voru þá búsettir. Ákvað að fljúga um Köben því ég vissi að þar var hægt að fá góðan stúdentapassa (hvíta passann) sem veitti hressilegan afslátt af lestarferðum í Austur-Evrópu. Eitthvert flugfélag Guðna í Sunnu var þá með flug til Kaupmannahafnar, en þegar til átti að taka var lent í Hamborg í báðum leiðum og farið með liðið í rútu til Köben. Sem var svosem allt í lagi fyrir mig, en daginn eftir fór ég svo gegnum Hamborg á leið til Frakklands, en hvíta passanum ríkari. Rútuferðin var mjög minnisstæð því það var komið kvöld og sumir íslensku rútuferðalanganna létu svo illa að rútubílstjórinn hótaði að láta þá út úr rútunni einhvers staðar í dimmu, dönsku skóglendi. Séra Árelíus Níelsson tók að sér að róa liðið með því að ganga á milli og bjóða haltu-kjafti brjóstsykur. 

Næst áttum við hjónin erindi til Hamborgar um haust, þegar mamma hafði unnið bökunarkeppni með fallegri piparkökuskál (skál úr piparkökum) og ákvað að gefa okkur miðana sem hún vann til Hamborgar, líklega af því við höfðum þá ekki farið úr landi í fimm ár (kemur ekki fyrir aftur!). Við tókum bílaleigubíl á Hamborgarflugvelli og ókum strax út á Lüneburgarheiði og svipuðumst eftir ,,Zimmer frei" skilti (það var internet þess tíma). Hittum á gamlan gaur með tvo hunda sem við gistum hjá. Spurðum hann daginn eftir hvert við ættum að fara til að komast til Miðjarðarhafsins, en okkur þyrsti í sól. Jamm, sagði sá gamli. Keyrið út að næstu vegamótum og ef þið ætlið til Spánar beygið þið til hægri, en ef þið ætlið til Ítalíu þá til vinstri. Við vorum með ótakmarkaðan akstur í 2 vikur og bílaleigan græddi ekki á okkur, við enduðum í næstum viku í gömlu Júgóslavíu í litlu þorpi með fullt af sól og útsýni yfir eyjarnar á Adríahafi, með viðkomu í Feneyjum (fleiri brýr í Hamborg en Feneyjum) og Rínardal. Í bakaleiðinni stoppuðum við við Alster-vatn og rétt skruppum út úr bílnum.

Svona 7 árum síðar vorum við aftur á ferð á Kielarviku og ætluðum svo að vera í 11 daga í viðbót í Norður-Evrópu og hófum þá för í Hamborg um kl. 11 um morgun. En þá brá svo við að veðrið var kalt og leiðinlegt, lestarferðir dýrar, svo við brugðum okkur á ferðaskrifstofu (og enn er þetta fyrir almennilega notkun á interneti). Minn ágæti eiginmaður sannfærði þýska ferðasalann um að hann myndi ekki selja öðrum ferð suður á bóginn upp á þau býti að fara af stað næstu 2-3 klukkutímana. Hann endaði á því að setja saman 11 daga pakka til Majorka og við fórum í loftið um hálf fjögur um daginn, meðan á fluginu stóð var fundin handa okkur ágæt gisting í bænum Cala Ratjada (svona ca. þannig skrifað) með hálfu fæði. Samferðarfólkið á Kielarvikunni, sem við hittum fyrir tilviljun í rútunni einhvern tíma á milli tvö og þrjú var aðeins undrandi á svipinn þegar við upplýstum breyttar fyrirætlanir. 

skurður2

Þetta eru aðeins nokkar minningar af hérumbil ferðum til Hamborgar, en nú er ég farin að kynnast þessari ágætu borg miklu betur, enda bækistöð mín vegna vinnu nú um stundir. Þetta er gullfalleg borg og aðeins Suður-Evrópubúarnir og Suður-Ameríkanarnir sem vinna með mér eru óhressir með veðurfarið. Ég og Austur-Evrópubúarnir, ekki síst fólk úr ýmsum löndum sem áður voru Sovét, Kirgistan, Kazakstan og ýmsum öðrum snjóþungum slóðum, kvörtum ekki. Áhugaverð borg og kannski ferðablogga ég eitthvað meira um hana seinna á þessum vettvangi. 


Jólamarkaðir í Hamborg

Skipulögð ferðamennska er margs konar, leikhús- og menningarferðir, sólarferðir, sukkferðir (örugglega til annað fínna nafni fyrir þær) og verslunarferðir. Af og til hef ég séð auglýstar aðventuferðir á jólamarkaði í Þýskalandi. Ekki verið spennt, ég meina það, hverjum getur dottið í hug að fara í ferð sérstaklega til að skoða útimarkað í kulda, og það til að skoða/kaupa hreinasta óþarfa eins og alls konar jóladót? Ég ætla mér alls ekki að fara að taka mér orð Hallgríms Péturssonar í munn: Þetta sem helst nú varast vann/varð þó að koma yfir hann.

20141128_183407.jpg

En … ég fór sem sagt á fjóra jólamarkaði í Hamborg um daginn. Átti allt annað erindi til borgarinnar, svo það sé á hreinu. Fékk þessa fallegu bón að kaupa eina, fallega, handmálaða jólakúlu. Hver getur neitað slíkri bón? Og fyrra kvöldið mitt í borginni fór ég á fyrsta markaðinn. Engin kúla þar, en ótal básar. Svo var öllu lokað.

20141128_183400.jpg

Seinna kvöldið var ég komin fyrr á vettvang. Ögn fleiri básar opnir þá, en engin kúla, ekki af réttri gerð. Ég vissi nákvæmlega að hverju ég var að leita. Næsti markaður var innan seilingar, Google-frændi með í ráðum og ég vissi alveg hvar ég átti að leita. Það var ekki fyrr en á þriðja markaðnum, ráðhúsmarkaðnum, að þær blöstu við: Fallegar, handmálaðar kúlur í öllum stærðum og gerðum. Og komust meira að segja óbrotnar heim.

20141128_180052.jpg

Þá fyrst tók ég eftir að flestir á markaðnum voru alls ekki að leita að handmálaðri jólakúlu. Þarna voru flokkar fólks að fá sér jólaglögg og ristaðar möndlur og alls konar þýskar krásir eftir vinnu á föstudegi. Ekkert ósvipað pöbb í London á góðu síðviku-síðdegi. Vinnustaðahópar og vinahópar mest áberandi. Allir dúðaðir og hífaðir. Ekki farnir að bresta í söng þegar ég færði mig á fjórða og síðasta markaðinn, við Alster vatn. Engar handmálaðar kúlur þar heldur. Bara til að spara öðrum sporin.

2014-11-27_20_43_53.jpg

Fór með jólalyktina í nösunum heim á hótel og þó ég hafi enn engan skilning á jólamarkaðsferðamennsku, þá var þessi óvissuferð í aðra menningarheima mjög skemmtileg. Hver veit nema ég endi í Hafnarfirði?


Skáldlega óskáldleg staðarnöfn

Það getur oft verið forvitnilegt að fá fólk í heimsókn erlendis frá. Kunningi systurdóttur minnar, Murdoch, kom til okkar fyrir nokkrum árum og það var ótrúlega gaman að hafa hann í húsi. Við þurftum svosem lítið að hafa fyrir honum, hann bjargaði sér mest sjálfur, en skruppum þó með hann um nágrannabyggðirnar og í stuttan túr á Snæfellsnes, sem alltaf er gaman að upplifa gegnum augu annarra. Hann spurði mikið um staðanöfn og sennilega hefur það runnið upp fyrir okkur um svipað leyti og honum hversu hversdagsleg og hrein og bein mörg þessara nafna eru, lýsa því sem fyrir ber (eða bar) og ekki mikið fleiru. Hafnarfjörður, Álftanes, Reykjavík, Akrafjall, Skarðsheiði, Hafnarfjall, Langjökull, Mýrar, Staðarstaður, Búðir, Snæfellsfjökull, Rif ... og nöfnin voru auðvitað óteljandi og undrun hans sífellt meiri. 

 


Lágmarkskröfur í gistingu og andaglas með IRA

Var að bóka hótel eina nótt í London, sem er ekki í frásögur færandi. Endaði með því að velja hið augljósa: Góða staðsetningu, skikkanlegt herbergi með baði (lítið) og frítt internet. Annað þarf ekki. En mér finnst næstum jafn gaman að skoða gistimöguleika eins og ferðamöguleika og sá vel staðsett hótel í London á furðu góðu verði. Það reyndist þá vera Kex-hostel stíllinn, kojuherbergi en allt mjög hipp og kúl. Fann að ég var komin yfir það stig, nema í neyð auðvitað. Ég var reyndar orðin harðfullorðin, virðuleg tveggja barna móðir þegar ég gisti einhverju sinni á gamla Hótel Búðum með alveg rosalega mörgum Kvennalistakonum. Man að einhverjar sváfu á stigapalli, ekki ég, nei ég fékk fínt svefnpláss á dýnu, en þurfti reyndar að vera með helminginn af dýnunni (og 40% af mér, sem betur fer ekki hávaxin) UNDIR RÚMI hjá annarri Kvennalistakonu. En við sváfum og það var bara gott.

En af þessu rifjaðist upp fyrir mér þegar ég var að vinna í London átján ára gömul með frábært einkaherbergi i Bloomsbury sem fylgdi vinnunni, þar til Esthera Vechery vinkona mín var rekin (júgóslavnesk/ungversk og með kjaft!). Ég greip tækifærið og sagði upp henni til samlætis (og af því mér leiddist vinnan ósegjanlega). Við tóku ýmis störf og ég flutti aftur í herbergið mitt í Kilburn, sem ég deildi ýmist ekki með neinum eða allt að sex til sjö öðrum. Það var svona kojugisting. Eitt kvöldið fylltist gistiheimilið og að okkur fastagestunum var hvíslað að þetta væru IRA-menn. Þetta var áður en IRA varð illa þokkað í London vegna sprengjutilræða (vinkona mín lenti í sprengju í Old Bailey þremur árum síðar, þá nýútskrifaður lögfræðingur), en auðvitað dularfullt og hættulegt samt. Eitt kvöldið var ég ásamt annarri íslenskri vinkonu minni heima á Priory Park Rd 101 og þá datt einhverjum í hug að fara í andaglas (!). Með IRA-mönnunum! Nema við höfum verið svona 6-7 alls og auðvitað þurfti andinn sem kom í glasið að tala DÖNSKU! Tek það fram að ég er saklaus og ég varð ekki vör við að vinkona mín ýtti glasinu neitt heldur.

Þannig að val á gisti- og dvalarstöðum getur leitt til alls konar ævintýra, - eða ekki. 


Hafsteinn kvaddur

Stundum er maður svo lánsamur að kynnast stórfjölskyldum vina sinna. Foreldrar þeirra Ása og Önnu, okkar góðu vina, hafa líka orðið sérstakir vinir okkar hér í Blátúninu. Núna þegar Hafsteinn faðir Önnu hefur kvatt og verður vísast fagnað á góðum stað, þar sem dóttir hans og tengdasonur eru, þá langar mig bara að rifja upp skemmtilega vísu (í gömlu blogg, smellið á tengilinn) sem hann gaukaði að okkur fyrir nokkrum árum á Kanarí, en þá bloggaði ég um hann í þessari færslu og reyndar einhverjum af þeim næstu líka, reyndi meira að segja að senda honum vísur á móti, en mikið lifandis ósköp var hann nú betra skáld en ég. Þakkir og saknaðarkveðjur til indæls manns: http://annabjo.blog.is/blog/annabjo/entry/130098/

 


Suðurnesin eru sérstök

Í dag skrapp ég til Keflavíkur í yndislegu veðri. Af því ég var ein á ferð leyfði ég huganum að reika og hann þáði það með þökkum. Mér hefur alltaf fundist heillandi að koma á Suðurnesin og þegar ég var sex ára á leið til Spánar með saltfisksskipi, ásamt mömmu og ömmu, til hálfs árs dvalar, fannst mér eiginlega alveg jafn merkilegt að fara í fyrsta sinn til Keflavíkur.

duus.jpg

Seinna var Keflavík bítla- og tískubærinn og sumar vinkonur mínar lögðu á sig rútuferð til Keflavíkur til að kaupa sér flottustu skóna á landinu, sem ekki fengust í Reykjavík. Tveimur árum seinna var ég komin á ball í Stapanum fimmtán ára með töffarakrökkunum af Álftanesi.

En sjarminn við Suðurnesin eru ekki bara góðar minningar frá fyrri tímnum heldur ekki síður seinni tíma ævintýri, sem sum ná reyndar lengra aftur til fortíðar en sixtís-minningarnar. Ferðir með bátum milli hafna og út á sjó með slysavarnarbát eða hvalaskoðunarskipi, því Suðurnesin eru auðvitað svo nátengd sjónum. Uppgötvaði gömlu húsin í Keflavík í fylgd Rakelar heitinnar Benjamíns. Nokkurra ára viðvera í Sandgerði þegar ég sá um útgáfu á handriti fyrra bindis sögu sveitarfélagsins og skrifaði sjálf seinna bindið (sem bíður enn útgáfu, enda skrifum formlega lokið á hrundaginn sjálfan). Þá spjallaði ég við fjölda fólks af þessum slóðum og kynntist nýrri hlið á þessu fallega svæði og fegurð Hvalsneskirkju. Við bröltum meðal annars á Básenda með Heimi Stígssyni, þeim mæta ljósmyndara. Mér verður líka oft hugsað til Sigurðar tengdaföður míns sem fór á sjóinn frá Stafneshverfi aðeins 14 ára gamall og harðduglegra frænkna minna sem ólust upp í litlu koti rétt hjá Hvalsneskirkjunni fallegu við aðbúnað sem erfitt er að tengja nútímanum. 

Við röltum líka Ögmundarhraun með Birni Þorsteinssyni og Birni Th. oftar en einu sinni, sagnfræðinemarnir í HÍ, og þá rifjaðist upp þegar Guðmundur teiknikennari var aðfara með okkur krakkana í Hagaskóla í alls konar hrauna- og hellaferðir ögn norðar á Reykjanesskaga. 

Ætli Suðurnesin státi ekki líka ein af því að bjóða upp á golfholu (á þar sem hægt er að slá frá Evrópu og yfir til Ameríku (ef áttaskynið ruglar mig ekki) en flekamót heimsálfanna eru einstakt náttúrufyrirbrigði. Leiðin frá Grindavík til Hafna er ein sú skemmtilegasta sem hægt er að fara, hvort sem er á leið af golfvelli eða bara í sunnudagsbíltúr.

1184776_10201882079552082_2036410076_n.jpg

Og þeir sem koma til Íslands og sjá bara Bláa lónið ná meira að segja að skoða ótrúlega skemmtilegan anga af íslenskri ferðaþjónustu. 


Eigi skal gráta Björn bónda heldur skreppa á bíó!

Einhverra hluta vegna hef ég heillast meira af þessum útúrsnúningi á orðum Ólafar ríku en upprunalegu orðunum sem verið er að snúa út úr. Kannski vegna blóðugrar sögu í kringum fyrri ummælin. Eða bara af því mér finnst absúrdismi skemmtilegur. Svo ég segi bara eins og ein ágæt skólasystir mín sagði forðum: Eigi skal gráta Björn bónda heldur skreppa á bíó.

Ótrúlegar sögur af ,,uppsagnamarkaðinum"

Ekki get ég nú sagt að ég hafi haft tíma til að átta mig á breyttri stöðu minni í tilverunni (sjá fyrra blogg). Það mun koma í ljós nógu fljótt hvaða áhrif hún hefur. Bloggið mitt frá kvöldi uppsagnarinnar hefur hrundið af stað atburðarás sem ég sá ekki fyrir. Góðar óskir og hvatningarorð frá vinum mínum, nánum sem ókunnum á Facebook og víðar komu mér ekki á óvart, nema kannski að það voru ívið meiri viðbrögð en ég átti von á. Hins vegar kom það mér verulega á óvart hvað ég hef heyrt í mörgum sem hafa ótrúlegar sögur að segja af eigin reynslu af uppsögnum. Bæði hvernig þær snerta fólk persónulega og fjárhagslega og hvernig atburðarásin kringum þær hafa verið. Þetta hefur borist mér eftir ýmsum leiðum, persónulega, á samfélagsmiðlum og í samskiptum við það fólk sem ég hef hitt á þessum rúmu tveimur sólarhringum sem bloggið mitt hefur verið í loftinu. Meira að segja fólk sem stendur mér tiltölulega nærri hefur sagt mér ýmislegt markvert sem ég hef ekki áður heyrt. Mig óraði ekki fyrir því að svona mikil þöggun væri í gangi á þessu sviði. Mig langar vissulega að deila svo mörgu af því sem ég hef heyrt, en í bili er ég varla til skiptanna og gæti það því ekki þótt ég fegin vildi. Og ekkert myndi ég hvort sem er segja án samráðs við viðkomandi. En nú þarf ég að fara að einbeita mér að því að vinna uppsagnarfrestinn, finna mér nýtt starf og/eða verkefni og rækta sambandið við fólkið mitt í vinnunni og heima. Og halda sálarró.

Ég var dálítið efins um að þetta blogg mitt ætti erindi út í samfélagið. Ég efast ekki lengur. Samt hef ég enn ekki heyrt frá neinum sem sagt var upp á RUV þótt ég þekki þar margt gott fólk. Það sem þar gerist hefur ekki farið framhjá nokkrum þeim sem fylgist með fjölmiðlum. En það er greinilega margt að gerast annars staðar á ,,uppsagnamarkaðinum“, svo margt að ég er enn að undrast.


ÞAÐ VORU VÍÐAR HÓPUPPSAGNIR EN Á RÍKISÚTVARPINU Í DAG

Jæja, ég þurfti að verða 61 árs til að lenda loksins í þeirri lífsreynslu að vera sagt upp. Þetta var hópuppsögn, ein af mörgum sem aldrei fá fókus, og ég var í hópi margra góðra vinnufélaga. Ég var líka í lúxusstarfi. Fá fyrirtæki hér á Íslandi leyfa sér þann lúxus að hafa sérstakan tæknihöfund í fullu starfi.  Víðast hvar þurfa aðrir starfsmenn að sinna því hlutverki í hjáverkum. Ég hef sjálf gert það hjá öðrum fyrirtækjum. Það er vaninn og lúxus er það sem fyrst er skorið. Það tók talsverðan tíma að sannfæra þáverandi æðsta stjórnanda míns ágæta fyrirtækis um að tímabært væri að ráða tölvufræðimenntaðan tæknihöfund í fullt starf, þegar ég réðst til starfa þar fyrir fjórum árum. Starfið fæddist með mér og í dag dó það með mér, í bili alla vega. Þannig að ég get sagt: Ég skil þetta allt saman ósköp vel.

Kemur mér samt á óvart hvað þetta er erfitt, þótt ég geri mér vissulega grein fyrir öllum tækifærunum sem nú munu (vonandi) opnast. Tækifærin fyrir góða tæknihöfunda ættu að vera óþrjótandi, það er bara að finna þau. Heimurinn allur í rauninni sá markaður sem ég þarf að skoða á næstu vikum, á meðan ég vinn uppsagnarfrestinn minn. En í dag er þetta bara áfall.

Í sjálfu sér er ég alveg sátt við margt varðandi þessa uppsögn, þótt ég hefði svo sannarlega viljað vera áfram í þessu starfi og hjá þessu fyrirtæki. Fólkið sem ,,lenti í því“ að segja mér upp var líklega það besta sem ég hefði getað fengið á þessari erfiðu stundu. Þótt ég væri bæði dofin og héldi að ég væri hress þegar þetta dundi yfir, þá er það mikils virði, eftir á að hyggja, að það voru einmitt þau tvö sem voru þarna með mér. Ég er alveg viss um að það er ekki öllum gefið að taka þetta hlutverk að sér. Þau vita það best sjálf að þau stóðu sig vel gagnvart mér.

Það að fyrirtæki þurfi að skera niður kostnað er svo sannarlega ekkert nýtt. Launakostnaður vegur yfirleitt þungt og uppsagnir því nauðsynlegar í bland við aðrar aðgerðir eins og í þessu tilfelli.

Ég hef aldrei verið hrædd við að fara út í óvissuna og jafnvel óhikað sagt upp starfi án þess að vera búin að tryggja mér annað. Verið órög við að vinna í lausamennsku ef ég fengið skemmtileg verkefni og þessar tilraunir hafa leitt mig í ýmsar áttir og yfirleitt til enn betri tilveru á endanum. Treysti því að svo verði nú, en fyrirhafnarlaust verður það sjálfsagt ekki.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband