Færsluflokkur: Ferðalög
Af því enginn spyr
16.5.2018 | 17:55
Orðið ansi langt síðan ég hef verið oddviti pólitísks lista, þannig að enginn hefur lagt fyrir mig þessar ljómandi skemmtilegu spurningar, svo ég geri það bara sjálf:
Hver er fallegasti staðurinn á Íslandi?
Jökulsárlón á góðum degi án túrista.
Hvar á Íslandi myndir þú helst vilja búa? (Fyrir utan eigið sveitarfélag)
Reykjavík.
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?
Smjörsteiktur, ferskur aspas.
Hvaða mat ert þú best/ur að elda?
Flókinn eggjakökurétt sem byggðist upphaflega á smá misskilningi milli mín og matreiðslubókar Helgu Sigurðardóttur.
Uppáhalds guilty pleasure lag?
Öll Monkees lögin.
Hvað er það vandræðalegasta sem komið hefur fyrir þig, sem segja má frá?
Þegar ég var send á Hótel Sögu að dekka einhvern atburð, nýbyrjuð í blaðamennsku, lenti í vitlausu partíi án þess að átta mig á því strax. Endaði með því að dekka bæði rétta og ,,vitlausa viðburðinn, en sá vitlausi var alls ekkert fréttaefni.
Draumaferðalagið?
Hef einu sinni farið umhverfis jörðina, væri mjög vel til í að endurtaka það með allt öðrum viðkomustöðum að hluta og eitthvað af siglingum og lestarferðum inniföldum
Trúir þú á líf eftir dauðann?
Útiloka ekkert.
Besti hrekkurinn sem þú hefur gert eða lent í?
Þegar ég var 18 ára í Bretlandi og orðin leið á asnalegum spurningum um eskimóa og snjóhús. Endaði með því að segjast búa á áttundu hæði í snjóhúsablokk, með lyftu upp og rennibraut niður og bullið var reyndar lengra, en þetta dugar.
Hundar eða kettir?
Kettir.
Uppáhalds guilty pleasure bíómynd?
27 dresses (hér þurfti ég að gúggla hvort þeir væru 49 eða 29).
Hvaða leikari ætti að leika þig í bíómynd?
Meryl Streep, hún getur leikið alla.
Í hvaða Game of Thrones ætt værir þú og af hverju?
Bolholtsættin, það á eftir að skrifa hana inn í seríuna.
Hefur þú verið tekin/n af lögreglunni?
Já, snemma árs 1972 þegar ég stóð fyrir utan Dómkirkjuna að spjalla ásamt þáverandi kærasta og nokkrum öðrum Fylkingarfélögum. Við sáum ekki framhlið Alþingishússins, en heyrðum allt í einu brothljóð. Herranætur-hópur þaut í ofboði í burtu með Árna Johnsen og gítarinn hans í fararbroddi (ekki í MR þá). Frétti síðar hver braut rúðuna, Árni er saklaus. Hálftíma seinna (!) kom löggan, tróð okkur aftur í löggu-fólksbíl og keyrði með okkur á lögreglustöðina á horni Pósthússtrætis og Hafnarstrætis. Þar var okkur haldið í tæpan klukkutíma í leiðinlegum félagsskap á hörðum bekkjum, enginn talaði við okkur og okkur var síðan sleppt.
Uppáhalds tónlistarmaður?
Leonard Cohen.
Uppáhalds bókin?
Blótgælur, fyrsta ljóðabók Kristínar Svövu Tómasdóttur.
Uppáhalds föstudagsdrykkur?
Hér var ekkert svar, sem getur alveg staðist, en ætli ég segi ekki Sítrónu-smoothie frá Joe and the Juice. Hann rennur. Að vísu dottinn af matseðlinum, en hef samt fengið hann sérlagaðan.
Uppáhalds þynnkumatur?
Vatn, áður en ég fer að sofa, sofna ekki fyrr en ég finn að það er farið að virka.
Þegar þú ferð í fríið, sólarströnd eða menning?
Hvort tveggja.
Hefur þú pissað í sundlaug?
Nei.
Hvaða lag kemur þér í gírinn?
Itchycoo park
Er eitthvað smávægilegt sem farið hefur í taugarnar á þér í þínu sveitarfélagi sem þú vilt laga?
Veðrið í dag.
Á að banna flugelda?
Nei.
Hvaða landsliðsmaður í knattspyrnu værir þú og af hverju?
Gylfi Sigurðsson, af því mig langar það.
Ævintýri á gönguför - um listina að ganga lengra
17.8.2017 | 19:53
Held það sé óumdeilt að ganga er ein allra besta alhliða hreyfing sem hægt er að stunda. Mátulegt álag, hægt að ganga hver á sínum hraða (þeir sem þurfa göngufélaga ættu að huga að því), rösklega ef markmiðið er brennsla, hægt ef það hentar betur og allt þar á milli.
Mér hefur alltaf þótt frekar gaman að ganga, en það háir mér að vera svolítið praktísk. Af hverju að ganga ef það er fljótlegra, betra, hlýrra, svalara, hentugra og hvaðeina að aka sjálf eða nota almenningssamgöngur? Sumir fá sér hund til að ,,neyðast" til að fara út að ganga. Það trikk hentaði mér aldrei og Tinni okkar fékk sína hreyfingu sjaldnast í boði mínu. Hins vegar læt ég hæglega litla, hvíta golfkúlu plata mig í alls konar gönguferðir og mest hissa að ég dreif ekki fyrr í að taka upp þá iðju. En í tímahraki fyrri æviára var líklega markvissara að stunda skvass og tennis, eins og ég gerði í allmörg ár og skemmti mér konunglega. ,,Þú vilt bara leika þér," sagði ein ágæt kona við mig fyrir nokkrum árum. Alveg rétt.
Fallegar leiðir eða ekki
Blessaður snjallsíminn hefur heldur betur ýtt undir göngufíknina mína. Nú þarf ég ekki að vera stödd í erlendri borg til að finna hjá mér þörf fyrir að kanna umhverfið og taka myndir. Mér finnst að vísu enn skítt að stundum er fólk að hringja í myndavélina mína, en sem betur fer eru sífellt fleiri farnir að nota miklu heppilegri samskiptamáta, enda af nógu að taka. Eins og ég gat um í seinasta bloggi þá elska ég að ganga um nýjar og gamlar slóðir í fallegum og/eða áhugaverðum borgum, gjarnan í góðu veðri en stundum er það ekki skilyrði. Hamborgarárið mitt gekk ég auðvitað alltaf eitthvað á hverjum degi, hvernig sem viðraði, en eftir fyrsta mánuðinn þegar ég bjó í afleitlega óáhugaverðu hverfi, fann ég íbúð í gullfallegu hverfi, Winterhude, og eftir það var ég óstöðvandi að gera út þaðan, eða frá vinnustaðnum í Hafencity fyrstu vikurnar og eftir það frá miðborginni. Alltaf var eitthvað nýtt að sjá. Út frá vinnunni minni í Reykjavík er hægt að velja gullfallegar gönguleiðir (til austurs) eða frekar leiðinlegar (til vesturs, nema gengið sé alla leið í bæinn). Mér finnst best að fara í fallega göngutúra, en ýmsir eru alveg sáttir við að fara sama hringinn í vitlausa átt dag eftir dag. Misjafn smekkur og ekkert annað.
Álftanesið
Það tók mig sem sagt dálítinn tíma að færa þennan dásamlega Hamborgar-lífsstíl heim. En nú er ég farin að finna góðar gönguleiðir, ekki bara út frá vinnunni minni, heldur líka með því að gera út í nokkrum uppáhaldshverfum. Oft hef ég tekið göngurispur hér á Álftanesi, enda margt fallegt að sjá, þegar ég var unglingur gekk ég oft niður að sjó, einkum ef hugurinn var æðandi aðeins of hratt, og þá var bara kostur að rölta í roki og rigningu, en auðvitað vel klædd. Það var líka gott að eiga vini á Suðurnesinu, í tvær áttir, og alltaf gengum við á milli, svona 20 mínútur hvora leið ef ekkert glapti hugann. Væri ég á leið í Vesturbæ gekk ég bara rakleitt fram og til baka, en lægi leiðin í Gerðakot vorum við vinkonurnar að rölta fram og til baka að fylgja hver annarri heim lengi frameftir kvöldi. Og oft var Álftanesvegurinn allur genginn, ef ekki hentaði að bíða eftir strætó eða Ólafi fóstra mínum eftir skóla. Sjaldnar alla leið úr Reykjavík, en það kom þó fyrir.
Áhrif búsetu
Á miðbæjar- og menntaskólaárum var oft lang þægilegast að fara ferða sinna fótgangandi og svo kom fyrir að leiðin lá í Keflavíkurgöngu, en ég gerðist aldrei svo fræg að ganga hana alla. Lengst í einum spretti fór ég í Kúagerði, en þá var eitthvert skólaafmæli um kvöldið og tíminn gafst ekki í meira. En yfirleitt gekk ég úr Hafnarfirði eða Engidal og í bæinn og einhvern tíma, líklega oftar en einu sinni, með vagn eða kerru og krakkana með.
Eftir að ég flutti hingað aftur fyrir þrítugt, þá hafa skipst á göngutímabil og önnur minna virk. Á seinni árum hef ég sinnt gönguhópum í sjálfboðastarfi af og til og leitt hingað og þangað um nesið, finnst það alltaf gott. Nokkur ár gekk ég ein míns liðs kringum Bessastaðatjörn áður en varpið byrjaði, gjarnan á skírdag. Það voru alltaf fínir göngutúrar, og svo er ég eins og fleiri Álftnesingar stundum í smágönguferðum, en ef þannig viðrar þá er stundum meira spennandi að fara á golfvöllinn.
Úti í náttúrunni með lofthræðslu í farangrinum
Frá því ég hætti að vera virk í skátunum á unglingsárum hef ég lítið gengið um óbyggðar slóðir. Mér finnst íslenska náttúran vissulega falleg, en nálgast hana helst á bíl og geng svo styttri vegalengdir í áfangastað. Þegar ég var á Úlfljótsvatni þriðja sumarið mitt, 12 ára gömul, þá fékk ég vissulega vænan skammt. Við fórum vikulega í fjallgöngu á Búrfell í Grímsnesi og fyrir 2. stigs prófið þurftum við að ganga 35 km meðal annars eftir einstigi á gljúfurbarmi. Ég er hrikalega lofthrædd og varð eiginlega nokkuð frábitin svona ferðum upp frá því. Ég hætti líka að fara til Seyðisfjarðar á sumrin um svipað leyti þegar pabbi og konan hans fluttu í bæinn. Þar fannst mér reyndar margar gönguleiðir skemmtilegar kringum bæinn, einkum upp í Botnatjörn.
Platan keypt fyrir strætópeninginn
Þegar ég er í fríi finnst mér fátt skemmtilegra en að vera stödd í erlendri borg í góðu veðri og ganga út um allt. Fyrir utan gömlu borgirnar ,,mínar" London og Hamborg, þá finnst mér sérlega gaman að ganga um í Montreal, Oslo, Seattle og New York. Nokkrar gönguminningar standa þó upp úr héðan og þaðan. ,,Fjallganga" upp stiga í haustlitaferð í New Haven, rölt um Georgetown í Washington milli bókabúða með gamla vinnufélaga mínum, Jóni Ásgeiri Sigurðssyni dagspart fyrir allt of löngu, en það voru fyrstu kynni mín af bókakaffihúsum. Gönguferð úr gamla hverfinu mínu í London, írska hverfinu Kilburn, þegar ég ákvað að eyða síðasta peningnum sem ég var með á mér í plötu sem ég hafði lengi leitað að (Robert Palmer Johnny and Mary), en það þýddi að ég þurfti að rölta þennan klukkutíma gang aftur í bæinn. Gönguferð á fund við Ingibjörgu í Auckland á Nýja Sjálandi, en hún bjó í fallegu hverfi með blúnduhúsum um eins og hálfs klukkutíma fjarlægð frá hverfinu hennar Möggu frænku. Þar sem strætóverkfall var í borginni þá gekk ég báðar leiðir og ekki endilega þá stystu hvora leið. Og annar bókabúða-/kaffihúsarúntur með Nínu systur í London, þegar við uppgötvuðum að vinir og ættingjar voru ekkert mjög áfjáðir í að þvælast með okkur í bókabúðir og áttum það sameiginlegt, það var eiginlega þriggja daga göngutúr.
Ganga til skemmtunar eða skyldu
Í tíu vetur vöndum við Ari komur okkar til Kanarí á veturnar, og þar var mikið gengið, því hvorugt okkar var mikið fyrir að liggja í sólinni. Alls konar gönguferðir og yfirleitt stefnulaust, strætó stundum í liði með okkur og gert út frá ýmsum áfangastöðum. Stundum gengum við ströndina milli bæjarhluta, framhjá svokallaðri grátittlingaströnd, en það var ekki uppáhaldsleiðin okkar. Held það hafi farið svolítið í taugarnar á okkur þegar við komumst að því að það var keppikefli (og þegnskylda) margra Kanarífara að það ,,yrði" að fara þessa leið á hverjum degi, ef ekki tvisvar á dag. Ágætis gönguleið, en ekki á hverjum degi.
Gönguminningarnar mínar eru óteljandi og kannski bæti ég fleirum í bloggsarpinn síðar.
Síki, mannlíf og gömul hús
12.8.2017 | 01:38
Í þessari viku kom ég í fyrsta sinn til Írlands, í snöggri ferð til Dublin. Það er að vísu alveg stórundarlegt, hef bara ekki átt erindi þangað. Þegar menntaskólaárgangurinn minn fór í fyrsta sinn í fimmta bekkjarferð til útlanda var það til Írlands. Í þá ferð fór ég ekki, bæði vegna blankheita og líka vegna þess að ég hafði dvalið í Englandi í hálft ár árið á undan. Á þeim árum útilokaði svoleiðis lagað nánast að rápa meira næsta ár. Nú er ég komin á þann aldur að geta leyft mér að minnka vinnu, eða alla vega að gera hana sveigjanlegri en áður, og stökkva jafnvel á virkum dögum á nothæf tilboð út í bláinn og næstum án erindis. Þess vegna var ég allt í einu komin til Dublin. Á heimleiðinni heyrði ég í kring um mig ávæning af því hvað aðrir Íslendingar höfðu verið að gera á Írlandi og áttaði mig allt í einu á því að ég er ekkert að sækjast eftir því sama og margir aðrir í svona ferðum, sem er auðvitað besta mál. Fer ekki á víkingasöfn, krár, í bjór- eða viskíverksmiðjur, á leiksýningar (það geri ég reyndar í London) né söfn og gallerí, nema ég viti af einhverju sérstöku sem ég ,,verð" að sjá. Og mér finnst ekkert gaman að fara í búðir, er venjulega fljót að afgreiða það sem ég ætla að kaupa (guð blessi Google frænda) í þeim búðum sem selja það sem mig vantar/langar í og get fengið handa mér eða öðrum.
Allt frá því ég fór ein til Kaupmannahafnar 1967, þá fimmtán ára, bjó í London 1970, rápaði um Evrópu, mest austanverða, 1974 og fram til þessa dags þá gerist nokkurn veginn það sama þegar ég kem til nýrrar eða kunnuglegrar borgar. Ég rölti af stað, hoppa upp í strætó, finn falleg hverfi (alltaf kostur að sjá falleg hús og flest gömul) og bara geng um, skoða mannlífið, best finnst mér að finna vatn og þá gjarnan síki. Þar er oft skemmtilegasta umhverfið og mest að gerast. Datt auðvitað í lukkupottinn Hamborgarárið mitt, 2015, sem var alls ekki heilt ár, en þar er Alster-vatn og ótal síki auk hafnarsvæðisins og fallegum slóðum meðfram Elbe. Nokkrar myndir úr nýjustu ferðinni minni svona í lokin.
Kirkjan á horninu
17.7.2017 | 19:56
Kirkjan á horninu vakti þegar í stað áhuga minn. Við vorum stödd í Richmond Hill, útborg Toronto, um vikutíma um daginn og beygðum til hægri af Yonge stræti einmitt við þessa kirkju, önnur kennileiti, svo sem Starbucks, voru einhvern veginn ekki eins mikilfengleg. En það vafðist fyrir mér hvaða kirkja þetta væri eiginlega, giskaði á rússnesku rétttrúnaðarkirkjuna, en samt ekki af neinni gífurlegri sannfæringu, og leitaði svo á náðir Google frænda, einu sinni sem oftar, og fann út að þetta var koptísk kirkja Maríu og Jósefs. Það fannst mér reyndar nokkuð spennandi. Í Richmond Hill er urmull af guðshúsum þeirra sem trúa á alls konar guði, sumar háreistar og afskekktar, aðrar í iðandi mannlífi aðalgötunnar, eins og þessi Koptakirkja. Vissulega vissi ég dálítið um koptísku áður en ég kynntist þessari kirkju á horninu, annað var ekki hægt þar sem ég er gamall nemandi Ólafs Hanssonar. Og svo þegar þeir sættu seinustu ofsókunum sínum eftir seinustu róstur í Egyptalandi, þá hrökk eitthvert ryk af þeirri þekkingu. En svo þegar við vinkonurnar, báðar gamlir nemendur Ólafs, vorum að spjalla saman í síma áðan, þá fórum við að ræða kristna trúarhópa í Miðausturlöndum og núna veit ég meira að segja meira en það sem Ólafur kenndi okkur um allmarga þeirra, og hvernig þeir standa nú í kjölfar átaka síðustu ára, ekki síst í Sýrlandi. Allt í einu er auðveldara að aðgreina Marónítana í Líbanon, vita meira um bakgrunn Kaldea og ýmislegt fleira, og þó er ég bara rétt að byrja að grufla í þessu öll saman. Og allt er það kirkjunni á horninu að þakka.
Kanada 150 ára
10.7.2017 | 21:56
Svo skemmtilega vildi til að ég var stödd í Kanada í verulega skemmtilegum erindagjörðum þegar Kanadabúar héldu upp á 150 ára afmæli Kanada. Í Toronto var mikið um dýrðir þótt aðalhátíðarhöldin væru í Ottawa, þangað mætti Kalli prins, staðgengill ,,þjóðhöfðingja Kanada" spígsporaði með landstjóranum, sem sjaldan er miðpunktur athyglinnar, og hló á röngum stað með Kamillu sinni.
Toronto er stór borg en víða mátti sjá að hátíð stóð yfir, fánar og fallegar áletranir, meira að segja Walmart var með Kanada taupoka til sölu. Sums staðar voru líka blómaskreytingar en furðulegasti fögnuðurinn var í kringum risastóru, mjög svo umdeildu, gulu, uppblásnu gúmmíöndina sem sat við hafnarbakkann á Torontovatni, mitt á milli báta, skipa og ferja og flugvéla, því miðborgarflugvöllur borgarinnar er rétt utan við höfnina og við gestir hins risaháa CN-tower horfa langt niður á vélar í flugtaki og lendingu.
Að kvöldi 1. júlí voru hátíðir víða um borgina, flugeldum skotið upp og einmitt þann dag voru enn meiri hátíðarhöld í fjölskyldunni minni, og líka skotið upp flugeldum. Daginn eftir var svolítill 18. júní bragur á bænum, eitthvað af umbúðum undan alls konar góðgæti á flugi um bryggjurnar en hreinsunardeildirnar á fullu.
Allt í einu fannst mér vanta einhverjar staðreyndir um Kanada í tilefni af afmælinu, svo ég set nokkrar inn sem mér finnst gaman að sjá, sumar þekkti ég vel, aðrar minna eða jafnvel ekki.
- Kanada er sem sagt næst stærsta land í heimi að flatarmáli á eftir Rússlandi og einkunnarorðin frá strönd til strandar eiga vel við.
- Þær þrjá stórborgir í Kanada sem ég hef komið til eru mjög ólíkar, svo ekki sé meira sagt, Montreal, heimaborg Leonard Cohen í Quebec, þar sem frönskumælandi Kanadafólk er í meirihluta. Hann bjó þó í enskumælandi hverfi og ólst upp í skemmtilegri götu. Vancouver er vesturstrandarborg þar sem nær þriðjungur íbúa er af asískum uppruna. Toronto er í mikilli uppbyggingu og þar er húsnæðisverð að rjúka upp úr öllu valdi, áberandi velsæld og mikil viðskipti.
- Svo sá ég að í Kanada eru fleiri vötn en í öðrum löndum samanlagt (já, kæra Finnland) og það er sjálfsagt rétt.
- Veit að veturnir eru býsna kaldir nema rétt á ströndunum austan og vestantil.
- Og þarna er auðvitað flottasta útsýnið yfir Niagra fossana.
- Og þarna er lengsta gata í heimi, 2000 km löng, mjög falleg þar sem hún fer gegnum útborgina Richmond Hill, miðbæinn þar. Þetta er Yonge Street. Hún nær frá Ontario vatni og til landamæranna við Minnesota USA.
- Kanada er næstum jafn strjálbýlt og Ísland og Ástralía (sem eru álíka með 3 sálir á ferkílómetra) með 4 per ferkílómetra.
Og svo á ég eftir að koma til Manitoba og skoða mig um í Íslendingabyggðum, einhvern tíma. Fyrirtækið sem ég vinn hjá er með starfsstöð í Ottawa, spurning hvort það leiðir mig þangað einhvern tíma, ef það verður, þá gef ég skýrslu, var næstum komin þangað í vor en endaði í Lundi :-)
Hálfgerð heimþrá til Hamborgar
14.2.2016 | 14:15
Eins og fram hefur komið á blogginu mínu, þá var ég við vinnu í Hamborg í átta mánuði á seinasta ári. Þar sem fjölskyldan mín var áfram heima, þá var um tímabundna ráðstöfun að ræða og þegar spennandi verkefni og starf heima fyrir kallaði kom ég aftur heim á haustdögum. En hvers vegna þá að fá heimþrá til Hamborgar? Það er fyrst og fremst lífsstíllinn þar sem ég sakna, raunverulega góðar almenningssamgöngur, mikill fjöldi góða verslana og veitingahúsa þar sem verðlag er ágætt, veðráttan býður upp á mikla útivist allt árið og borgin er einstaklega góð fyrir lengri og skemmri gönguferðir. Aldrei hálka og kurteisleg umferð.
Alltaf eitthvað nýtt eða gamalt að sjá, borgin er gullfalleg með síkjum og brúm. Stundum er úlpuveður og stundum stuttbuxnaveður, og síðast en ekki síst þá eru borgarbúar velviljaðir og vænir. Kaffihúsin (einkum Balzac og Elbgold) eru hvert öðru betri, enda eru Þjóðverjar mikil kaffiþjóð, og svo má alltaf finna skemmtilega tónleika eða annað við að vera, allan sólarhringinn ef sá gállinn er á manni. Aukabónus fyrir mig var vinnustaðurinn með 44 þjóðernum og þar sem við vorum velflest útlendingar, þá héldum við vel hópinn og áttum saman góðar stundir.
Allt breytist og ég er komin heim og hlakka til lengri golfdaga en gáfust á þýska sumrinu, að geta skellt golfsettinu í skottið á bílnum eftir kvöldmat og spilað og spilað. En þangað til gæti ég alveg þegið að eiga minn hamborgska lífsstíl af og til, hoppa upp í lest, strætó eða skálma af stað og skoða eitthvað gamalt eða nýtt og tylla mér svo á næsta Balzac á eftir.
Heillandi hafnarborgir (mis)langt inni í landi
28.11.2015 | 22:13
Eflaust er það tilviljun, en nokkrar af þeim borgum sem hafa heillað mig mest eru hafnarborgir sem ekki eru úti við strönd. Þær eru vissulega mislangt inni í landi. Það var þó ekki fyrr en ég kom til Sevilla á Spáni fyrr í vetur, að ég áttaði mig á því hvað margar af uppáhaldsborgunum mínum eiga sameiginlegt. Sevilla er 80 km inni í landi en með skipgengri á og því skilgreind sem mikilvæg hafnarborg, ekki bara á tíma landafundanna, heldur einnig síðar á tímum. Áður en ég kynntist Hamborg jafn vel og ég gerði þegar ég bjó þar lungann úr þessu ári, hélt ég alltaf að hún lægi að sjó, en nú hef ég áttað mig á því að það er áin Saxelfur sem hefur skapað henni þá stöðu sem hún hefur, sem langstærsta höfn Þýsklands. Sannkölluð Hafnarborg. Málin fara að flækjast þegar Montreal, heimaborg sonar míns í tvö ár, langt inni í landi, er skoðuð, en hún er sögð næststærsta höfn Kanada. Mín heittelskaða London er einnig næststærsta höfn á Englandi, en var einu sinni umsvifamesta höfn í heimi, og einnig hún stendur við á en ekki sjó, hina góðkunnu Thames.
Allar þessar borgir eru í miklu uppáhaldi hjá mér og best að fylgja þessu eftir með myndum frá þeim öllum, af þeim ber Hamborg óneitanlega mestan hafnarborgarbraginn og gaman að týna sér í fegurðinni á hafnarsvæðinu.
Að eltast við lög ...
16.7.2015 | 20:41
Engar lagaflækjur hér, bara fækjustigið sem eitt sinn fylgdi því að eltast við uppáhaldslögin. Tónlistarfíklar eins og ég hafa oft þurft að hafa fyrir því að finna réttu plöturnar, listamennina, lögin. Seinasti peningurinn farið í plötu í staðinn fyrir strætófar, vinylplötur lifað af ýmsa flutninga og óendanlegur tími farið í að ,,taka upp" á gamla skrapatólið, mónósegulbandið mitt. Það voru ekki allir tilbúnir að lána dýrmætar plötur út af heimilunum, og ef fjallið kemur ekki til Múhameðs kemur Múhameð til fjallsins með meðalstóra segulbandstækið sitt, á strætó náttúrulega. Og sumt fannst ekki fyrr en eftir furðulegar tilraunir, HMV og Virgin á Oxford Street höfðu á að skipa merkilega glöggum giskurum. Hvernig er til dæmis að finna barnapíulagið hennar Bjarkar (Short Term Affair, með Tony Ferrino, mæli með stúdíóútgáfunni) og vita ekkert nema smálegt úr textanum. Hvernig á manni að detta í hug að þetta lag leynist á plötu með enskum söngskemmtikrafti sem er ekki beint á vinsældarlistunum þegar hér er komið sögu?
En nú er allt sem orðið nýtt, ærnar, kýr og smalinn, og Lotte Lenya, sem syngur lög mannsins síns, Kurt Weil, við ljóð Berthold Brecht, best af öllum. Á unglingsárum gróf ég upp plötur með henni á ameríska bókasafninu (of all places), seinna eignaðist ég safnið á vinylplötum, einhvers staðar á ég slíkan spilara en þarf að redda mér magnara, eða ekki. Þetta er allt að finna á YouTube. Og í kvöld hef ég bara notið þess að grafa upp allt sem mig langar að heyra og meira til. Meira að segja Napoleon XIV er kominn mestallur á YouTube, svo nú er hægt að hlusta á Photogenic Schitzophrenic you.
Vel að merkja, ég á eftir að finna ,,réttu" útgáfuna af ungverskri rapsódíu nr. 2 eftir Lizst, held það sé Stanley Black sem stjórnar.
Útúrdúrar og ferðirnar sem voru misvel farnar (auk hamlandi hagsýni)
14.7.2015 | 18:08
Vinkona mín elskar París. Engu að síður endaði hún með því að búa í tíu ár í London, sem er aftur á móti uppáhaldsborgin mín til langs tíma.
Frá ung-táningsárum var ég alltaf á leiðinni til London, að skoða Carnaby Street, Chelsea og Bítlana. Það var áður en ég snerist til Stones-trúar. Viskuna mína fékk ég mest úr gömlum Vikum þar sem blaðamennirnir vissu nákvæmlega hvað heillaði þrettán ára unglinga á þeim tímum, þessa sem mættu á Kinks og Hermans Hermits í Austurbæjarbíói.
En leiðin til London var ekki greiðfær á þessum tímum. Fermingarferðin mín lá til Skotlands og þar fékk ég öll flottu bítlafötin mín, sem ég hafði engan veginn efni á að kaupa mér þegar ég bjó fjórum árum síðar í London og annars staðar í Englandi um hálfs árs skeið. Sumarkaupið þegar ég var fimmtán ára átti að fara í Lundúnaferð, en af því ég var ung og blönk, en furðu hagsýn, þá fann ég út að ferð með Gullfossi til Edinborgar og Kaupmannahafnar, með sex daga stoppi þar, var miklu hagstæðari. Þar átti ég ótrúlega skemmtilegan tíma með Sirrý úr Keflavík, sem var dóttir eins úr áhöfninni. Við stunduðum La Carusel og dönsuðum fram á morgun við speisaða tónlist Summer of Love. Á daginn fórum við í Tívolí, enda bara 15 ára.
Ég var alltaf á leiðinni til London. Sumarið sem ég var sextán var ég í fjóra mánuði í Osló og vann í Studentbyen. Það var vegna þess að Guðný vinkona mín bjó þar. Yndislegt sumar, ég næstum flutti inn á listasafn borgarinnar og kynnist Rondo, sem var mikill og góður skemmtistaður á merkilegum söguslóðum borgarinnar. Og þar dansaði ég við þyngra rokk fram á rauðan morgun, enda orðin sextán. En ég var auðvitað á leiðinni til London.
Svo þegar ég var átján ára komst ég loks til London. Fyrstu kynnin af borginni voru meðan ég bjó og vann enn á ströndinni, í Bognor Regis, en fór með Matta vini mínum á Pink Floyd tónleika í Hyde Park. Alls var ég í hálft ár í Englandi í þetta skiptið og stundaði ýmis störf í London, aldrei átti ég erindi eða fjárráð fyrir Carnaby Street eða Chelsea en kynntist Kilburn og Bloomsbury þess í stað, Keypti mér kjól á Portobello Road daginn áður en ég fór heim, flottan, síðan, brúnan hippakjól sem ég notaði í mörg ár og hef ekki enn tímt að henda.
Það var ekki fyrr en á fertugsaldri að ég kom í fyrsta sinn til London án þess að vera skítblönk, en svosem ekkert rík heldur. Fór þá í fyrsta sinn í Harrods, en hafði löngu, löngu áður meðal annars haft þann starfa að velta fokdýrum marsípanávöxtum upp úr duftlit og sykri og stinga laufblöðum í þá, áður en þeir voru seldir á uppsprengdu verði í Harrods. Enn hagsýn, fór út með halva-box úr matvörudeildinni, annað ekki. Og vinkonan sem er enn á leið til Parísar var dugleg að skjóta yfir mig skjólshúsi.
Þegar ég ákvað fyrir fimmtán árum að mennta mig ögn alþjóðlegar en í sagnfræði og datt í tölvunarfræðina, þá blundaði alltaf í mér að þetta væri alþjóðlega hagnýt menntun, og kannski myndi ég einhvern tíma taka að mér verkefni eða vinnu um einhverra mánaða skeið í London auðvitað. Og vissulega hafa tækifærin verið þar, líka, bara ekki réttu tækifærin. Rétt fyrir jólin 2013 hafnaði ég starfi í Hammersmith í London. Ástæðan: Ekki nógu vel borgað miðað við hvað það kostaði að búa í London. Og um daginn varð ég að segja nei við 6 mánaða samningi í Vestur-London af sömu ástæðu. Það er svo skrambi dýrt að lifa í London, verð bara að viðurkenna það.
En ég hef dansað fram á rauðan morgun með tölvunördum bæði í Kaupmannahöfn á ástralska barnum þar sem Friends lagið hljómaði svo oft og á Mandaley í Hamborg við teknótónlist. Svo alþjóðlega menntunin býður upp á ýmis ævintýri. En ég hef aldrei dansað fram á rauðan morgun í London.
Og svo líður mér bara ljómandi vel í Hamborg, þar sem ég hef verið í hartnær sjö mánuði. Og kannski er bara kominn tími til að koma sér aftur heim, sérhver ferð heim togar mig meira í þá áttina. Get alltaf haldið áfram að skoða þau verkefni sem bjóðast í London, en mig grunar að ég verði komin á eftirlaun þegar ég fer aftur þangað til einhvers konar dvalar, enda er ekkert svo voðalega langt í þau.
Og einmitt af því ég er orðin þetta gömul þá rifjast upp fyrir mér að kannski voru skandinavísku og þýsku áhrifin á unglingsárunum meiri en ég hélt. Ég átti fleiri leikaramyndir með hinni þýsku Conny Frobess en Birgittu Bardott (nokkra tugi af hvorri) sá allar Conny og Péturs myndirnar í Tónabíói, var áskrifandi af Bravo, þýska bítlablaðinu og Vi Unge, því danska. Hlustaði á Sven Ingvars meðan ég var nógu ung til að þora og gott ef ég man ekki enn Vi gratulerer, norsku útgáfuna af Cliff-laginu Congratulations.
Lestin brunar (eða ekki)
9.5.2015 | 08:48
Fyrirsögnin býður uppá misskilning, þetta hefur alls ekki verið viðburðaríkur ferðadagur. Strætó niður á aðalbrautarstöð og aftur til baka reyndar lokið fyrir klukkan níu í morgun og dagurinn enn ungur. Þetta var fyrirsjáanleg fýluferð, aðeins þriðjungur langferðalesta gengur meðan á næstum vikulöngu verkfalli lestarstjóra stendur. En það leiddi hugann að því hvernig maður velur ferðamáta. Lestir hafa alltaf verið uppáhaldið mitt og flestar lestarferðirnar mínar frekar þægilegar, þótt finna megin skrautlegar undantekningar. Hvað er það eiginlega við lestarferðir sem heillar mann? Mér finnst gott að geta hoppað uppí lest, sætin oftast þægileg, allt sem til þarf á löngum ferðum, hægt að rétta úr sér og ganga um, farangur innan seilingar, veitingar og snyrtingar yfirleitt nothæfar og svo finnst mér hreyfing lestanna og þytur bara svolítið heillandi, ennþá, eftir allmargar ferðir um ævina.
En það eru ekki allar lestarferðir dans á rósum. Smávægilegar tafir geta endað með því að allar áætlanir fara úr skorðum, því skiptingar eru oft ansi knappar. Vegna yfirstandandi lestaverkfalls datt mér í hug hvernig bresku járnbrautastarfsmennirnir höfðu það rétt fyrir jólin 1973, þegar ég var á leið til að halda jól með foreldrum mínum í Congresbury rétt hjá Bristol í Englandi. Nýsloppin til Englands eftir að flugfreyjuverkfall á Íslandi hafði verið leyst um þrjú leytið. Átti sem betur fór ekki bókað í lest frá Reading (einhvern veginn komst ég þangað) fyrr en um níu leytið um kvöldið. Og steig upp í lestina í rétta átt á réttum tíma. En hún brunaði framhjá áfangastaðnum, Yatton, og ég varð eftir á næstu stoppustöð í Weston-Super-Mare. Þar fékk ég skýringuna: Þetta var sko ekki níu-lestin sem ég hafði stigið um borð í, heldur þrjú lestin frá því fyrr um daginn, ,,aðeins" of sein. Járnbrautastarfsmenn voru nefnilega í aðgerðum sem heita ,,working to rule" og fylgdu öllum leiðbeiningum út í ystu æsar og tóku sinn tíma í það. Svona mikinn tíma tekur að fara eftir öllum reglum.
Mér var eitt sinn vísað úr lest um miðja nótt í Tarta-fjöllum sem nú eru í Slóvakíu hluta fyrrum Tékkóslóvakíu. Hafði verið tekin í misgripum fyrir austur-evrópubúa og nálgaðist landamæri sem voru ekki ætluð vesturlandabúum. Allt endaði það vel eins og annað, fyrir mig alla vega. Fyrr í sömu langferð um Evrópu var hins vegar annað atvik sem ekki endaði eins vel, þótt ég hafi sloppið. Þá varð ég að fara út, einnig um miðja nótt, ásamt öðrum lestafarþegum, vegna slyss sem hafði orðið á lestinni úr gagnstæðri átt, en þetta var eitt af stærstu lestarslysum Evrópu, Zagreb í Króatíu haustið 1974. Fyrir tíma farsíma var það erfitt fyrir fjölskylduna að vita ekki nóg um málið strax, en það vissi ég ekki þegar ég stóð ásamt fleira fólki, ekkert okkar vissi vel hversu alvarlegar aðstæðurnar voru, en við vissum að það hafði orðið slys. Þetta var á meðan Austurlandahraðlestin var enn gömul og niðurnídd, fór alla leið til Asíu (Íraks) um Júgó, og kryddlyktin var alls ráðandi. Okkur var sagt að húkka okkur far með lestum sem fóru hjá og það tókst, en svo mikil voru þrengslin alla leið þar til sumir fóru af lestinni til að taka aðra í átt til Sarajevo, að ég og ástralskt par þurftum að skiptast á við að standa á öðrum fæti. Það var gólfpláss fyrir fimm fætur í senn hjá bakpokunum okkar. Eftir á að hyggja hljómar þetta fáránlega.
Einhvern tíma þarf ég að bæta við köflum um ,,Pros and Cons of Hitchhiking" en af þeim ferðamáta hef ég eingöngu reynslu frá Íslandi og Englandi, að vísu nokkuð litríka líka. Merkilegasta ferðin annað hvort þegar við vinkonurnar sváfum í hlöðu í Englandi eftir baráttu við að fá far á fáförnum vegi og síðan brenninetlur eða þá þröngi bíllinn sem endaði (dó) á Sogaveginum, eftir að gírstönginni hafði verið kastað út um gluggann og skrúfjárn tekið við í gírskiptingunum á Suðurlandsveginum. Sem betur fór gerðist það árið áður en ég varð bílhrædd.
Flugferðir eru líka á listanum, þótt fólk kvarti og kveini yfir þrengslum í vélum og biðtíma á flugvöllum, þá er sá ferðamáti alveg ótrúlega þægilegur og oft ódýrari en mínar ástkæru lestaferðir um sama veg. Útsýnið í björtu veðri að degi sem nóttu er oft alveg ótrúlega skemmtilegt. Káti flugþjónninn sem lýsti ferðinni frá Albuquerque til Chicago eins og íþróttakappleik og sá sem tók við af honum til New York og sagði: For those of you on the left hand side there is a beautiful view over Manhattan, for those of you on the right hand side: You are just screwed! Útsýnisflug, reyndar bara venjulegt áætlunarflug, yfir fræga lestalínu frá Tælandi til Singapúr, hvalaskoðunarflug í London í janúar 2006. Við fengum auka lágflug yfir London að kvöldi til þegar hvalurinn hafði synt upp Thames. Lágflugið var ekki af góðsemi einni saman, heldur þurfti að kíkja undir vélina hvort hjólin væru komin niður, sem þau voru, en ljós sögðu annað.