Færsluflokkur: Menning og listir

Kinks - 14. september

Kinks hefur alltaf verið ein af mínum uppáhaldshljómsveitum og endurómað í mörgum af bestu hljómsveitum seinustu ára, nægir að nefna White Stripes, sem er ein af þeim skemmtilegri. Las það í Mogganum í dag að í dag væru 44 ár (!) síðan hljómleikar þeirra í Austurbæjarbíói voru haldnir - þannig að ég var sem sagt nýorðin þrettán ára þegar ég fór á þessa hljómleika. Sumarið 1965 var um margt mjög skemmtilegt, ég var nefnilega nýflutt ,,út á land" og komin á fullt í handbolta með Ungmennafélaginu á staðnum auk þess sem við fórum vikulega á á föstudagskvöldum á hvaða farartækjum sem gáfust, vörubílspöllum, köggum og heyflutningskerrum, í sundlaugina í nærliggjandi bæ, sem var fimm kílómetra leið.

Nærliggjandi bærinn var Hafnarfjörður og sveitin mín var Álftanes og er enn. Börnin mín, sem nú eru komin á fertugsaldur, upplifðu heyskap hér í sveitinni en nú er ýmislegt breytt.

11. september á sína veraldarskírskotun, 12. september lika, hér á Íslandi alla vega, 13. september er mér persónulega minnisstæður (1985) og núna er 14. september kominn í safnið líka.

Kinks standa alltaf fyrir sínu. Ekki er ég viss um að þeir hafi flutt þetta lag hér að neðan á tónleikunum í Austurbæjarbíói, það kom alla vega ekki út á plötu fyrr en tíu vikum seinna, og þá var sagt að þetta væri afrakstur Íslandsferðarinnar. Ekki talið eitt af þeirra bestu lögum, en ja, það er alltaf ákveðin stemmning yfir því.

 

 


Helgin á sýningunni minni var góð og tek hana nniður fyrir næstu helgi - verð við milli 17 og 19 fimmtudag

Þá er sýningin mín í Íþróttamiðstöðunni Lágafelli að enda. Það var gaman að sýna þar og seinasta helgi var notaleg þegar gestir og gangandi litu við. Því miður náðist ekki að prenta út auglýsingu fyrir íbúa Mosfellsbæjar en vonandi hefur það tekist núna, því ég ætla að vera við á morgun, fimmtudag, milli kl. 17 og 19, svona rétt í bláendann á sýningunni.

CIMG4325


Mikið rosalega er ég komin heim ... !

Það fer ekkert á milli mála að ég er komin heim til Íslands. Reyndar alveg með ólíkindum að ekki séu fleiri en 11 dagar síðan ég kom. Eflaust stutt í að ég stingi af upp í bústað aftur, átti þar góða og vinnusama helgi um síðustu helgi og held reyndar alveg dampi í vinnumálum þótt ég sé að vasast í öllu því nauðsynlegasta sem ég þarf. Hver ætli skammturinn fyrir 11 daga törn og smá uppsöfnuð verkefni sé annars - fyrir utan vinnuna:

  • Eitt áríðandi afmæli á Akranesi
  • Ein sýningaropnun
  • Fjórir fundir
  • Eitt viðtal tekið og skrifað
  • Ein grein skrifuð
  • Ein ræða undirbúin
  • ... og fleira

Indæl opnun á óheppilegum tíma

Sýningin mín í Íþróttamiðstöðunni í Lágafelli var hengd upp 4. ágúst en ákveðið hafði verið að hafa smá formlega ,,opnun" þegar ég væri komin heim frá Bandaríkjunum. Þegar tímasetningin var ákveðin, m.a. með hliðsjón af fyrri opnunum, var auðvitað ekki vitað að þetta myndi skarast við samstöðufundinn í dag. Hef smá móral af því að hafa haft fundinn af mömmu, en það var samt mjög gaman að hún skyldi vera tímanlega á opnuninni og hitta gesti og gangandi. Einhverjir gestanna höfðu látið vita að þeir myndu mæta seint og koma af fundinum. Þannig að þetta var mjög indæl opnun, gestirnir dreifust mjög mátulega á tímann sem ætlaður var fyrir hana og upphengingin hefur tekist alveg rosalega vel hjá fjölskyldunni minni. Reyndar frétti ég það að Óli hefði verið aðalmaðurinn og farið eftir skjali sem hann var með í símanum og svo komu Hanna og Ari með hjálparhönd þegar á leið og ég var síðan í tölvupóstsambandi og skoðaði afraksturinn á myndum úr símanum hans Óla í henni Ameríku. 

cimg4440.jpgSýningin verður út mánuðinn á mjög rýmilegum opnunartíma, sem sagt frá morgni til kvölds, þegar íþróttamiðstöðin er opin. Veit að slatti af fólki ætlar að skoða hana á öðrum tíma en í dag og einhverjir höfðu þegar komið, þótt ég hafi lítið auglýst hana, en að vísu hefur máttur Vikunnar, sem sagði frá henni í síðustu Viku, greinilega verið álitlegur. Sem sagt, endilega kíkið þið við og skoðið sýninguna. Er að hugsa um að láta vita hvenær ég verð á svæðinu, og þá væntanlega hér á blogginu og Facebook. Sting kannski fleiri myndum hér inn seinna.

 

 


Búið að opna sýninguna mína í Mosó

Hvað er til ráða ef þarf að hengja upp heila myndlistarsýningu og maður er fastur úti í heimi? Þá er að leita á náðir fjölskyldunnar. Ég á góða fjölskyldu sem er búin að hegja upp heila myndlistarsýningu fyrir mig í Íþróttamiðstöðinni Lágafelli í Mosfellsbæ í samráði við hana Kristbjörgu, sem sér um sýningarhald þar. Ég reyndi auðvitað að raða saman myndum áður en ég fór hingað til Bandaríkjanna þar sem ég er við störf um þessar mundir, en það er aldrei alveg hægt að sá svona fyrir nema á staðnum. Þannig að ég tel að þau hafi unnið þrekvirki og sýnist á myndum af staðnum að vel hafi tekist til. Svo þegar ég kem heim í næstu viku efni ég til opnunar.

04082009(002)   HreyfingHam

 

 


Jónsmessugleði í Garðabæ - tek þátt í útisýningu

Það er ábyrgðarhluti að vera kominn á fullt í myndlistinni eftir aðeins of langt hlé. Nú er erfitt að halda aftur af sér, þó það sé ekki hægt að gera allt. Missti af þátttöku í gjörningi í tengslum við kvennahlaupið, vegna eigin sýningar, en nú verð ég sannarlega með í Jónsmessugleði í Garðabæ í kvöld. Hvet alla að nota góða veðrið og líta við hjá okkur, þetta er á ströndinni við Sjálandshverfið, á yndislega fallegum stað.

Hér er er aðeins meira um dagskrána:

JÓNSMESSUGLEÐI Í GARÐABÆ 24. JÚNÍ – GEFUM, GLEÐJUM, NJÓTUM.


Nú á Jónsmessunni miðvikudaginn 24. júní frá kl. 20:00 – 24:00 munu myndlistarmenn úr Garðabæ halda útimyndlistarsýningu við Strandstíginn í Sjálandinu.

Um tuttugu myndlistarmenn taka þátt og munu með því leggja sitt að mörkum til að skapa eftirminnilega kvöldstund þar sem gestir og gangandi geta komið saman með það í huga að gefa, gleðja og njóta.


Tónlistarfólk, kórar bæjarins, skátafélagið Vífill og fleiri aðilar hafa lagt sitt af mörkum til að gera þetta kvöld sem eftirminnilegast. Myndlistarmennirnir eiga þann draum að þetta verði upphafið að árvissri Jónsmessunæturgleði í okkar ágæta bæ.
 

 


Úlfaldar allra landa sameinist og farið gegnum nálaraugað! Ríki maðurinn fer þangað ekki. Það var sannarlega kominn tími til að halda myndlistarsýningu ...

ulfaldar_866812.jpgÞað var sannarlega kominn tími til þess að halda myndlistarsýningu. Mér er gjarnt að vinna með þemu, stundum árum saman, þannig hafa kettir og úlfaldar verið á sveimi í myndheiminum sem ég er að skapa. Sjaldan þó eins og núna. Hellamálverk af köttum og úlfaldar, ásamt smámyndum og módelstúdíum eru viðfangsefni sýningarinnar. Í framhaldi hef ég svo dottið niður í alls konar pælingar um úlfalda, sem NB urðu mjög spennandi í mínu lífi, þegar ég upplifði að fara á bak slíkri skepnu í Marokkó þegar ég var bara sex ára gömul. Mér finnst hins vegar mjög margt varðandi úlfalda spennandi, þolgæðið auðvitað eiginleiki sem ég vildi gjarnan hafa enn meira af (er með slatta) og svo eru formin í skepnunni bara ótrúleg. Og eins og árar þá finnst mér einboðið að við eigum eftir að horfa á fullt af úlföldum skokka eins og ekkert sé gegnum nálaraugu. En það er nú önnur saga.

Fyrri degi sýningarinnar er lokið en á morgun, sunnudag, verður sýningin áfram opin milli klukkan 13 og 18 í húsi Loftorku, Miðhrauni 10, Garðabæ, á móti Marel.

Í dag var rennerí nokkuð jafnt og þétt, nema hvað ég veit núna að það er of snemmt að hefja sýningar klukkan 13 á daginn, hélt ég væri svona tillitssöm við þá sem væru að fara annað, en fyrsta korterið eða tuttugu mínúturnar voru dauður tími, eftir það bara frábært ... áfram er opið á morgun og allir velkomnir, að sjálfsögðu! 


Sýning um helgina - Hellar og eyðimerkur 2009

Sennilega eru hellar og eyðimerkur ekkert ofarlega í hugmynd fólks en ég ætla nú samt að hafa það sem þema sýningar sem ég verð með um helgina hjá Loftorku í Garðabæ, - nánar tiltekið í Miðhrauni 10. Öllum er velkomið að líta við og hér að neðan, undir myndinni, er leiðarlýsing.

aacimg4403.jpg

 

 

 

 

Sýninguna kalla ég Hella og eyðimerkur 2009

leidarlysing_866216.jpg

 

 


Myndlist meðan beðið er

Set inn nokkrar myndir frá liðnum vetri meðan ég bíð eftir að hafa tíma til að blogga af einhverju viti (hvenær sem það nú verður). Kannski er ég búin að birta einhverjar þeirra áður. Málaði sjálfsagt um 40-50 í vetur auk þess að taka smá grafíkrispu. Stefni að því að halda einhvers konar sýningu, vinnustofusýningu eða annað, fljótlega. Læt vita þegar nær dregur.

cimg4367.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

cimg4366.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

cimg4465.jpg


Loksins smá tími fyrir myndlist

Verið frekar geggjað að gera að undanförnu en í dag gat ég ekki staðist mátið og leyfði mér að taka frá 3-4 tíma í dag fyrir myndlistina, hliðarsjálfið mitt. Leyfi bara myndunum að tala, ég hef verið svolítið upptekin af áhrifum hellamálverka (sem ég hef verið svo lánsöm að skoða í Frakklandi, meðan enn var opin í einhverja hella). Engin endurgerð á slíku heldur bara pælingar út frá þeim tilkomumiklu myndum.

CIMG4404

 

 

 

 

CIMG4421

CIMG4370 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband