Færsluflokkur: Menning og listir

Lífið er fleira en forval: Óli að mála frá 12-24 á Café Kultura

Sit hér á Café Kultura (þannig er það skrifað uppi á vegg, en á dyrunum stendur Cultura). Óli er að halda upp á afmælið sitt með því að mála 12 myndir a 12 tímum á Café Kultura á móti Þjóðleikhúsinu við Hverfisgötu. Hann er byrjaður á fyrsta málverkinu eins og sjá má hér að neðan. Gestir geta komið og heilsað uppá hann hérna fram til miðnættis. 

cimg4382_807063.jpg

cimg4379.jpg

cimg4381.jpg


Stolt af því að vera frá landinu þar sem búsáhaldabyltingin var gerð

Mér finnst þetta svo fallegt orð: Búsáhaldabylting. Kannski ég endurveki fegurðarsamkeppni íslenskra orða, seinast sigraði orðið ljósmóðir og það voru einmitt ljósmæður sem náðu fram (að ég held) bestu og réttlátustu kjarabótum síðasta árs. Kannski fylgir lukka sumum orðum - svo framarlega sem merkingin á bak við þau er góð, eins og í þessum tveimur orðum.

Listir, myndlist, ástríða, snobb og þekking

Það er margslungið að fást við myndlist. Eins og ég er óþreytt að nefna ,,lenti" ég einu sinni sem oftar (viljandi kannski) í myndlistarástríðukasti nú í haust og ekkert lát á því. Jafnframt sækja á mig, eins og alltaf þegar ég lendi í myndlistarkasti, ótrúlega áleitar spurningar um eðli listar og listiðkunar. Hópurinn sem ég er í er alveg einstaklega skemmtilegur og þetta umhverfi er hvetjandi og skemmtilegt og ég hef eins og endranær lært alveg óskaplega mikið af því að fylgjast með myndlist og aðferðum annarra. Hópar eru misgefandi, þessi er mjög fínn og ég er alltaf þakklát fyrir að komast í tæri við góðan, kraftmikinn og skapandi hóp sem tekur myndlist grafalvarlega (eins og ég, sorrí, þetta er bara ástríða).

Stundum dettur maður í að skoða myndlist annarra, hellir sér út í listasögupælingar, skoðun, heimspekilegar vangaveltur og ýmislegt annað.  

Þegar ég lauk stúdentsprófi hellti ég mér út í fullt nám í myndlist og var í því í næstum tvo vetur, bestu vinkonur mínar þar voru báðar mjög hæfileikaríkar myndlistarkonur, en geysilega ólíkar. Jóhanna Kristín Yngvadóttir lést um aldur fram, feikilega flottur málari, myrk og dramatísk, orð eru reyndar vandmeðfarin í stuttaralegri umfjöllun um list. Hin, Svala Sigurleifsdóttir, hefur unnið að sinni list jafnt og þétt með brauðstritinu og ég vildi svo sannarlega að hún væri enn meira áberandi í íslensku listalífi en hún er nú, en það getur alltaf breyst. 

En ég var ósátt við snobbið í kringum listaheiminn þá og nú og ýmsar klisssjur og ,,sannleika" sem hefta menn í ósveigjanlega afstöðu gagnvart list og listaumfjöllun. Listaheimurinn á áttunda áratugnum var einhvern veginn allt annað en það sem togaði mig. En ég gat ekki stungið af og hef aldrei getað, ekkert sem ég hef fengist við um ævina hefur tekið jafn mikinn tíma, orku og pælingar, ekki enn, og það er auðvitað bara yndislegt.

Hugsandi eftir daginn, umfjöllun um verk okkar nemendanna í allan dag. Ég var reyndar mjög sátt við þá umfjöllun sem ég fékk. Það besta er að ég hlusta og geri svo bara það sem ég sjálf vil, er í þannig hópi. Var hvött til þess að halda áfram með módelmyndirnar mínar, já, já, það getur svo sem verið ágætt, en ég hef nú reyndar aðrar hugmyndir og mun eflaust láta eftir mér, enda í frjálsri myndlist. Þannig að ég held bara mínu striki og nýt þess að láta myndlistina taka sífellt meiri tíma í lífinu. En það sem var mest gefandi var að skoða verk samnemenda minna, ég var hreinlega að springa af þörf fyrir að tjá mig um verk þeirra og tók auðvitað þátt í umræðunum, en reyndi (af meðfæddri kurteisi ;-) að halda mínum þætti innlegginu innan velsæmismarka, svona tímalega séð. Langaði að segja miklu meira (og reyndar allt fallegt). Inni á milli voru alls konar umræður og meira að segja óvæntur mini-fyrirlestur og svo textaskýringar við nokkrar myndir, sem voru áhugaverðar. En ég finn líka að myndlist og myndlistarumfjöllun svo mikið hjartans mál að það hefur bæði kosti og galla, mjög hugsandi yfir einu máli sem upp kom í umræðunni. 


Að eiga skemmtilegar ólesnar bækur - þá er ýmislegt í lagi

Nú á ég tvær æsispennandi ólesnar bækur, sem ég hlakka ekkert smá til þess að lesa. Hanna mín reyndar búin að næla sér í aðra, en hún er sæmilega snögg að lesa spennusögur, það er sagan hans Árna Þórarinssonar, sem gerist víst á Ísafirði núna, hin hljómar ekki síður vel: Karlar sem hata konur (og ég sem  hélt að það væri sjálfshjálparbók, dö!). Það er alveg ótrúlega jólalegt að liggja í rúminu með góðri samvisku og lesa góða bók.


Nokkrar jólabækur - vertíðin lofar góðu - og bera konan með spottann!

Byrjuð að lesa jólabækurnar, á milli þess sem ég les Robert B. Parker krimmana sem alltaf liggja við rúmstokkinn (þær hafa þann kost að vera skrifaðar í knöppum ,,Íslendingasagnastíl" og stuttir kaflar mátulegir fyrir svefninn, á ferðalögum og jafnvel á umferðaljósum - djók) og gríp í ljóðabækur, sem eiga sér sama samastað. Ein þeirra verðskuldar reyndar umræðu, Blótgælur, sem ég var lengi búin að ætla mér að kaupa. Afgreiðslufólkið í Máli og menningu hafði ágætar skoðanir á þeirri bók, hrifin (afsakið, ég bara get ekki sett ,,hrifið" (-fólkið) hér inn þegar ég sé stelpu og strák í afgreiðslunni fyrir mér, enda segi ég alltaf ,,hún" um kvenkyns forseta, ráðherra og aðra -seta og -herra). Annað þeirra var sem sagt hrifið af öllum ljóðunum og hitt af sumum þeirra. Ég er í hópi þeirra sem er hrifin af allflestum ljóðunum og hef lúmskt gaman af paródíunum sem þar á milli leynast.

En þetta er jólabók síðasta árs. Nú ætla ég að hafa skoðanir á þessum sem ég er búin að lesa, var reyndar búin að ræða aðeins um Myrká Arnaldar, en langar að bæta því við að ég er sérstaklega spennt að sjá næstu bók hans, mér finnst Arnaldi takast betur að líta í aðrar áttir en áður í þessari bók en í öðrum þar sem hann hefur yfirgefið Erlend. Vona samt að Erlendur komi ,,hress og kátur" (ekki alveg hans stíll auðvitað) í næstu bók, en ég þori engan veginn að treysta því.

Dimmar rósir, eftir Ólaf Gunnarsson. Skrambi góð bók. Ég fór að lesa hana á bandvitlausum forsendum, var komin með smá löngun til þess að detta inn í sixties stemmningu, einkum þar sem titillinn vísar til eins flottasta íslenskra lagsins frá þeim tíma, mig minnir með Töturum. Jú, vissulega er það andrúmsloft á svæðinu með skáldaleyfi sem hefur greinilega pirrað einhverja - ekki mig þótt ég hafi verið í Austurbæjarbíói á Kinks-tónleikum. Það sem heillaði mig við bókina er samt eitthvað allt annað og ekki endilega það sem ég ef fundið í fyrri verkum Ólafs, sem ég hef lesið (á enn góðar bækur ólesnar og hlakka til). Andrúmsloftið er þessi margslungna tenging fólksins innbyrðis, sem mér finnst sterkasti þátturinn í bókinni og skilar sér fullkomlega. Til eru kvikmyndir, að vísu mun lakari, sem spila á þessar tengingar á svipaðan hátt, bókin tengist þeim í raun betur að mínu mati en þær skáldsögur sem spinna svipaðan vef, og það finnst mér kostur.

Viðtalsbók/ævisaga sem fjallar um ævi Margrétar Pálu Ólafsdóttur, Ég skal vera Grýla, eftir Þórunni Hrefnu Sigurjónsdóttur (minnir mig). Ég fer yfirleitt á hundavaði yfir ævisögur, fletti upp á markverðum atburðum eða spennandi frásögnum og les þetta efni meira eins og sagnfræðingur í heimildaleit, enda farið í gegnum svona hundrað slíkar í þeim tilgangi. En þessi er sér á parti. Auðvitað fyrst og fremst vegna þess að Magga Pála er einstök. Ég var svo ljónheppin að fá tækifæri til að taka viðtal við hana snemma á þessu ári og það var draumahlutskipti, nú orðið er blaðamennska mín nánast eingöngu lúxushobbý hjá mér, tækifæri til að tala við áhugaverðar konur. Þess vegna hlaut ég að lesa þessa bók með gagnrýnum augum, en útkoman var mjög jákvæð. Eftir smá skann fram og til baka, eins og ég les svona bækur, byrjaði ég á byrjuninni og las bókina í tveimur mislöngum lotum og gat eiginlega ekki lagt hana frá mér í seinni - lengri - lotunni. Mér finnst Margrét Pála stökkva ljóslifandi út úr bókinni af miklum lífskrafti, hugrekki og samt svo margslungin, eins og hún sannarlega er. Þessi bók gladdi mig ósegjanlega.

Nú er ég byrjuð á Auðninni hennar Yrsu og lofar góðu, þótt ég sé svolítið á móti því að kvelja mig á að lesa um eitthvað kalt eða kuldalegt. En þetta get ég auðvitað ekki sagt eftir að hafa nánast drukknað í Smillas fornemmelse for sne ... eins og sú ágæta bók Peters Hoeg hét, svona sirkabát.

Byrja óvenju snemma á jólabókunum í ár, venjulega hef ég verið í prófum eða verkefnaskilum, en ekki núna, setti verkefnaskil viljandi eftir áramót og sé ekki eftir því. Þannig að ég hlakka til að lesa þær allar sem ég man ekki nákvæmlega hvað heita, Segðu mömmu að mér líði vel, Sjöunda soninn og allar hinar sem ég ætla svo sannarlega að lesa ... Þetta með að muna ekki nákvæmlega hvað bækur heita getur stundum endað með skemmtilegum afbökunum (óviljandi) en engin jafnast þó á við það þegar Þórarinn á Skriðuklaustri var í miðri ræðu og mundi ekki alveg málsháttinn sem hann ætlaði að vitna til þannig að hann sagði ,,æ, þið munið ... bera konan með spottann!" Og auðvitað mundu allir: Neyðin kennir naktri konu að spinna.

Já, þetta ætlar að verða góð vertíð.


Í algleymi myndlistarinnar - jaðrar við jólastemmningu

Smá tóm til að sinna myndlistinni núna, eftir frekar ásetta síðustu viku. Er í endurvinnslunni á fullu ennþá, það er að búa til alveg ný myndverk byggð á eldgömlum módelmyndum sem ég á í fórum mínum í stöflum, þrátt fyrir mikla grisjun að undanförnu. Rakst á eina gamla og góða sem er frá því aaaaCIMG4159að Ingólfi Erni Arnarssyni, sem eitt sinn kenndi mér módelteikningu í Myndlistaskólanum í Reykjavík datt í hug að láta okkur mála vængi á módelin sem við vorum að teikna og/eða mála. CIMG4201Þegar ég var að vinna upp úr þessari datt mér í hug að það væri sennilega öruggara stækka vængina, ekki svo að skilja að hún (engillinn) gæti flogið á þessu, en enn síður á gömlu vængjunum. Eftir hrikaleg mistök í gær í bakgrunninum, framhaldsvinnslu heima í tölvunni, þá er ég orðin nokkuð sátt við blessaðan engilinn og fékk svo smá útrás í viðbót með spaðann í hendi, áhald sem ég á enn eftir að finna út hvort ég á að vinna með að ráði í framtíðinni eður ei. Sé eins og allaf smálegt sem ég ætla að lappa uppá á morgun eða eftir áramót, eftir því hvenær ég finn mér næst tíma til þess að skjótast og mála smávegis.

Það er alltaf svolítið fjör að vinna frjálst, það er að segja ekki eftir fyrirmyndum, eins og gömlu CIMG4202myndunum mínum, en að sama skapi er ekki eins auðvelt að átta sig á því hvenær maður er að hitta í markog hvenær ekki. Stundum er það tíminn sem sker úr um það, stundum veit maður það strax. Með þessa hér, þá er ég ekki viss, ekki enn.


Skrýtið andrúmsloft ... mætt á mótmæli, einkennileg talning á mótmælendum, spekingar spældir yfir styrkingu krónunnar, uggur í andlitum við jólainnkaupin og listamannabæirnir Álftanes og Akureyri

Mér finnst andrúmsloftið í bænum í dag skrýtið. Var frekar að hugsa um að vinna upp smá vinnutap að undanförnu, enn fullt eftir að deginum til þess að gera það. Sem sagt að sleppa mótmælunum. En það var eiginlega ekki hægt. Svo ég mætti nú um síðir og sé reyndar alls ekki eftir því. Þó ekki væri nema vegna þess að þá veit ég af eigin raun að talning lögreglunnar á mótmælendum: Rúmlega þúsund, er argasta bull og vitleysa og ég veit ekki hvaða tilgangi það þjónar að bera svona dellu á borð. Ekki nema þetta rúmlega sé svona þúsund og tvö-þrjú þúsund ... við sem vorum þarna vitum alla vega betur.

Enn sem fyrr mótmælir fólk á margs konar forsendum og tekur undir með ræðumönnum á mismunandi stöðum. Hörður boðar hertar aðgerðir, ekki veit ég hvað mun felast í þeim, mun bara fylgjast með á færi og taka þátt í því sem samviska mín heimtar. Eins og að trítla á Austurvöll að undanförnu.

Viðbrögð margra við styrkingu krónunnar eru ákveðin vonbrigði. Við vitum það ósköp vel að hluti skýringarinnar er sá að komið hefur verið á höftum og hömlum, tímabundið, að því er sagt er, hve stór hluti skýringarinnar veit enginn. Kerfi sem vissulega á eftir að sníða ýmsa vankanta af, og ég held að það muni verða gert. Enginn af öllum þeim spekingum sem þenja sig núna hafði þó spáð þessum stóra uppkipp. Þar sem margar breytur spila saman getur ýmislegt gerst. Ég held að kapp sumra við að kasta krónunni (fyrir sumar er það liður í að koma okkur í ESB hvað sem það kostar) vegi þyngra en ánægja yfir því að þeir sem hrun krónunnar hefur bitnað sárast á eygi nú von. Enda eru það bara vesælir námsmenn erlendis, smásöluverslunin og skuldarar (einstaklingar og fyrirtæki) í erlendri mynt. Styrking krónunnar getur skilið milli feigs og ófeigs í þessum hópum og eflaust fleirum. Sveiattan! að geta ekki fagnað þessum bata. Við eigum að taka umræðuna um breytingu á gjaldmiðli, sem vel getur verið hyggilegt að huga að, undir öðrum kringumstæðum en þessum.

Það stakk mig illa þegar ég sinnti þremur erindum (nú er það bara harkan sex, farið á nákvæmlega þá staði sem ætlunin er og ekkert múður!) í Smáralind á heimleiðinni, hversu þungt er yfir fólki. Uggur í svip, áhyggjur, engin jólagleði. Áhyggjur vegna atvinnumála er að finna mjög víða nú og ég vona sannarlega að við ákveðum að finna leiðir sem stemma stigu við frekari uppsögnum en að fara Evrópusambandsleiðina og koma ,,öllu í lag" með því að auka atvinnuleysið.

AmmaKata3Eitt af erindunum í Smáralind var að kaupa geisladisk sem var að koma út, ég hefði sennilega ekki tekið eftir honum ef ég hefði ekki rekið augun í mynd af ömmu Kötu á umslaginu (upp á grín má reyndar nefna það að hún er líka amma hennar Katrínar Oddsdóttur sem sló í gegn með mótmælaræðu um daginn - og gerði allt vitlaust meðal sumra samnemenda sinna í HR). Fór þá að huga að innihaldinu og þar sem ég er ákafur aðdáandi nútímatónlistar var engin spurning að mig langaði að eignast þennan grip sem þið sjáið hér með pistlinum. Bý svo vel að nokkur af yngri tónskáldum þjóðarinnar búa hér á Álftanesi, í listamannabænum Álftanesi, og við fáum oft að njóta tónsmíða þeirra hér innan sveitar. Ég var reyndar að vona að á þessu diski fyndi ég Stjórnarskrána hennar Karólínu Eiríks því það var einmitt Hymnódía, sem flutti það verk á Akureyri, ásamt valdri sveit einsöngvara, sem ég held að sé eini flutningur þess. Það hefði verið toppurinn! Mig langar svo mikið að heyra það og vel við hæfi á þessum undarlegu tímum! En samt líst mér vel á úrvalið á þessu diski, þekki til verka flestra höfundanna og þessi diskur bætist í litla, skemmtilega safnið mitt, sem ég var að átta mig á að ég á nú orðið af nútímatónlist. Ekki margir sem nenna að hlusta á þetta með mér, en það gerir ekkert til, sumt er bara betra að hlusta á einn síns liðs. Á reyndar einn góðan vin í Finnlandi sem deilir þessu áhugamáli með mér svo ég hef eitthvað nýtt til þess að kynna fyrir honum næst þegar hann lítur við.


Spaðadrottningin mín og tagllaus óvart-hestur

Finn allt of fáar stundir í vikunni til þess að fara og mála uppi í Myndlistarskólanum í Kópavogi, en samt, þótt ég eigi kannski bara eina og hálfa stund lausa er það miklu skárra en ekki neitt. Verst að ákveðinn tími fer í penslaþvott. Margt má læra af því að vinna með öðrum og skólasystkini mín eru CIMG4136góður félagsskapur. Ég hef aldrei nokkurn tíma unnið með spaða, þótt ég hafi málað með olíu af og til í 23 ár, held ég að það séu orðin. En alla vega, í dag átti ég reyndar óvenju langan tíma aflögu og skrapp í skólann að vinna í nokkrar klukkustundir. Keypti mér einn spaða á leiðinni, enda listabúðir allt um kring. Og núna er ég búin að mála tvær myndir með spaða, ekkert sjálfgefið að þær séu útskrifaðar (til dæmis sé ég amk. eina vinnu sem ég mun leiðrétta í módelinu), en svona réðst ég á strigann í dag í óvenju góðu stuði, og ég ætla að leyfa mér að skíra módelmyndina fyrstu spaðadrottinguna mína. Svo gerði ég eins og venjulega, CIMG4137hreinsaði úr penslunum (spaðanum) á annan striga jafnóðum, stundum verða þær myndir betri, og ætlaði nú að sleppa því alveg að vera fígúratív, en ég sé ekki betur en þetta sé tagllaus hestur að prjóna. En ég svo sem veit það ekki, ég bara gerði myndina. Núna er ég alveg forfallin í því að mála frekar litlar myndir eftir gömlum, risastórum módelmyndum sem ég á í fórum mínum í stöflum, þótt ég hafi hent fullt af myndum um leið og ég fór í gegnum þær um daginn (yfirleitt olía á pappír). Þessi endurvinnsla er auðvitað mjög við hæfi í kreppunni og ég þarf eiginlega að sýna ykkur bloggvinum mínum undanfara spaðadrottingarinnar minnar, önnur er nýleg olía á striga, pínulítil, og hin er risastór olía á pappír. Og lýkur þá sögunni af spaðadrottningunni.

CIMG4104CIMG4085


Góðir Göggutónleikar

Tónleikarnir sem ég var að koma af, til minningar um Göggu Lund, voru flottir. Dagskráin byrjaði kl. 18:00 á minningarbrotum um Göggu, vinir og vandamenn og brot úr flottri heimildamynd Ponzi hituðu vel upp fyrir tónleikadagskrána. Tónelikarnir sjálfir, þar sem flutt voru fjölmorg þjóðlög sem Gagga og Rauter, undirleikari hennar, höfðu á dagskrá sinni. Búin að hlakka lengi til tónleikanna og þeir voru þess virði, engin spurning að fínt var að miða tímasetningu heimkomunnar við þennan atburð.

Engel Gagga Lund - minningartónleikar í Óperunni í kvöld

Í kvöld verða í óperunni minningartónleikar um Göggu Lund söngkonu sem meðal annars hefur raddþjálfað marga íslenska leikara og söngvara, Björk þeirra á meðal, ef mig misminnir ekki. Gagga hafði alltaf mikla trú á Björk og fleiri Íslendingum sem hafa gert það gott. Tímasetti heimkomu mína gagngert til þess að missa ekki af þessum viðburði, annars hefði ég kannski freistast til að vera í Bandaríkjunum framyfir kosningar (4. nóvember). Þetta verður áreiðanlega skemmtileg dagskrá. Susse frænka, systurdóttir Göggu og fleira gott fólk hefur staðið í ströngu við undirbúninginn. Meira um þetta á vef óperunnar: www.opera.is og svo er hægt að kaupa miða á midi.is - það er eitthvað laust enn.

Gagga frænka mín var merkileg kona. Hún eyddi bernskunni hér á landi og fluttist hingað aftur árið 1960, ég kynntist henni ekki fyrr en um 1966 þegar pabbi var fluttur í bæinn eftir að hafa búið á Seyðisfirði, en þau Gagga voru systrabörn. Man fyrst eftir henni í fermingarveislunni minni, en kannski hitti ég hana enn fyrr, í skírn Elísabetar systur, ári fyrr. En alla vega, hún virkaði strax sterkt á mig frá fyrsta degi og ég er fegin að hún eyddi seinustu áratugunum hér heima á Íslandi, sem var talsvert ,,heima" fyrir hana, heimskonuna, sem ekki var af íslenskum ættum. Frændsemi okkar var gegnum Danmörku, mamma hennar og danska amma mín voru systur og ég man ekki betur en afi hafi kynnst ömmu vegna vinskapar Siggu systur hans og þessa danska frændfólks okkar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband