Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
Stórfjölskylda æskunnar
18.2.2023 | 18:43
Oft grínast ég með það að ég sé einkabarn í móðurætt, sem satt er og rétt, og að ég hafi ekki kynnst stórfjölskyldu fyrr en ég giftist inn í eina slíka og um svipað leyti mynduðum við systkinin fjögur í föðurætt órjúfanlegan stórfjölskylduhóp. En þetta með að ég hafi ekki átt stjórfjölskyldu í æsku er bæði rétt og rangt. Rétt að því leyti að ég var eina barn mömmu og naut forréttinda einkabarnsins, eins og efni leyfðu en líka rangt að því leyti til að ég er alin upp í miklum fjölskyldufansi, það sé ég best þegar ég lít til baka.
Til að byrja með var það aðallega móðuramma mín og unglingurinn Día móðursystir mín og svo föðurfjölskyldan með Betu frænku í broddi fylkingar og krakkaskarann hennar og dætur Henna frænda, sem ég tengdist mest. Við krakkarnir vorum öll á svipuðum aldri. Ef foreldrar fóru til útlanda þá tók fjölskyldan krakkann, mig, að sér. Veiga afasystir í móðurætt og svo Svala fóstursystir mömmu og hennar fjölskylda.
Þegar við fluttum á Álftanesið bjarta, þá var ég tólf ára, eignaðist ég fljótlega fóstursystkini úr fjölskyldunni, því það var vinsælt hjá krökkunum á mínum aldri og ögn yngri, að fá að fara út á Álftanes yfir helgar eða um lengri tíma á sumrin. Alltaf voru mamma og Ólafur fóstri minn tilbúin að taka á móti fósturbörnunum sínum, strákunum hennar Dúddýjar frænku og eldri börnum Magga frænda og stelpunum hennar Ellu frænku. Þegar ég var komin í menntó snerist þetta við, ég hálfpartinn flutti inn á Dúddý frænku, sem bjó í hagstæðri fjarlægð frá skólanum og var ótrúlega margar helgar hjá henni alla mína menntaskólatíð. Á daginn kíkti ég til Betu frænku því þar var litla systir mín. Strákarnir hennar Dúddýar, sem þegar voru heimavanir heima á Álftanesi, tóku mig strax inn í fjölskylduna, en mamma var tíður gestur á efri hæðinni hjá Ingu ömmu þeirra, sem var föðursystir hennar og vinkona.
Þetta rifjast upp fyrir mér þessa dagana, eftir fráfall eins af frændunum mínum, Dúddýjarsonum, ég var ekki bara að missa frænda heldur eiginlega líka fósturbróður eins og þegar bræður hans féllu frá, en einn þeirra var jafnaldri minn og leikfélagi í frumbernsku. Það var einhvern tíma í covid að við hittumst seinast þrjú saman á Kjarvalsstöðum, þá var hann fluttur til Spánar og bróðir hans á Selfoss, en við öll í bænum og áttum yndislegan dag saman að spjalla um allt það sem tengdi okkur fyrr og nú. Sambandið hefur aldrei slitnað og sömu sögu má segja um flesta jafnaldra mína úr stórfjölskyldunni sem ég þakka bara fyrir að hafa alist upp í.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:37 | Slóð | Facebook
Long Time No Blog (afsakið sletturnar)
30.7.2011 | 00:49
Langt síðan ég hef bloggað og verð víst að viðurkenna að ég var farin að sakna þess svolítið. Á tímabili var þetta svo eðlilegur þáttur í tilverunni, en nú hefur Facebook fyllt í það skarð. Merkilegt að velta þessum félagssamskiptum á netinu fyrir sér, en það ætla ég að gera seinna.
Hef nefnilega átt annríkt við milliliðalaus mannleg samskipti, sem sagt við það að umgangast ættingja og vini síðan í vor og enn meira af því fram undan. Frændfólk, vinir og fjölskylda frá Bandaríkjunum, Englandi, Nýja Sjálandi og Ástralíu hafa komið hér við svo eitthvað sé nefnt, stóra systir nánast á leiðinni í flugi til landsins og seinna koma gestir frá Finnlandi í smá skreppitúr. Við mæðgurnar á faraldsfæti, fyrst við tvær eldri í rúma viku í Englandi og nú er sú yngsta í Svíþjóð.
Sem sagt lítill tími fyrir fjar(sam)skipti ... eins og þau eru nú samt indæl. Meira að segja sniglapóstur hefur verið að færa mér meiri fréttir en tölvupósturinn, ætli þetta sé afturhvarf til fortíðar, að sagnfræðingurinn sé að bera tölvunarfræðinginn ofurliði.
En frændur mínir hér að neðan koma ekki til landsins í ár, svo þá var bara að senda þeim peysur.
Jólastemmningin á leiðinni
15.12.2010 | 17:13
Jólastemmningin er innan seilingar, á því leikur enginn vafi. Þótt fjárlög séu óafgreidd og villi- og heimiliskettir til umræðu í tilefni af afgreiðslu þeirra (veit ekki hvernig Simba heimilisketti er innanbrjósts í þeirri umræðu) þá eru jólin að koma eins og þau gera ár hvert. Mér finnst vont að við skulum ekki vera búin að útrýma biðröðum við hjálparstofnanir en það þýðir ekki að vanþakka það frábæra starf sem þar er unnið meðan við gerum ekki betur sem samfélag. Vonandi getur jólastemmningin á endanum borist til allra, mér finnst hún vera á leiðinni fyrr en oft áður.
Á nesinu okkar
5.11.2010 | 14:39
Á Álftanesi er mannlíf meira í ætt við sveit en borg. Það hefur sína kosti og galla. Heiftin í héraðsmálum hefur því miður ekki farið framhjá mörgum, en þegar aldnir Álftnesingar falla frá má treysta því að saman safnist samferðafólk á öllum aldri í Bessastaðakirkju og fylgi þeim seinasta spölinn. Á þessum fallega vetrardegi er því einmitt svo háttað og ég tel mig heppna að búa í þessari litlu byggð, þar sem samkenndin er oftar meiri en sundrungin, þrátt fyrir allt.
Óskapáskar
6.4.2010 | 17:26
Þó maður komi ekki öllu í verk sem til stendur, til dæmis ekki að skreppa upp í bústað, þá voru þessir páskar alveg innilega notalegir. Enduðu með trompi í dag þegar fullt af vinum og ættingjum komu í heimsókn, suma höfum við ekki séð allt of lengi. Litlu tvíburarnir hennar Guðrúnar frænku, Emil og Elín eru að spretta ótrúlega hratt og Katrín Ólöf bróðurdóttir mín orðin þvílík skvísa. Stína mágkona búin að fá afmælisgjöfina sína, það var líka gaman. Ari og Óli bökuðu vöfflur ofan í allan mannskapinn en hér vorum við 14 þegar flest var. Óskapáskar, sem sagt.
Innilega gleðileg jól
25.12.2009 | 23:50
Þessi jól hafa verið, eins og jólum er tamt, alveg innilega gleðileg hjá fjölskyldunni í Blátúni. Fyrsta stóra jólaboðið á morgun, ,,aðeins" 27 væntanlegir, oft miklu fleiri. Það er tengdafjölskyldan mín sem heldur það að vanda. Mæður okkar Ara voru báðar í mat hjá okkur í dag og í gærkvöldi var mamma hér eins og venjulega á aðfangadagskvöld. Notlegar stundir og fullt af frábærum bókum sem hægt er að lesa fram á rauða nótt með fínni samvisku. Jólin eru falleg hátíð.
Gleðileg jól!
Góðir gestir og vinafundir
3.2.2009 | 15:50
Nóg að gera bæði í vinnu og selskapslífinu þessa dagana. Í kvöld koma Siggi og Cilla, sem búa í Svíþjóð, í smá snarl með dæturnar þrjár, Ebbu, Maiu og Astrid.
Ari með Sigga og Cillu heima hjá þeim í sænska skerjagarðinum sumarið 2007. Síðan hafa tvær dætur bæst í hópinn ;-)
Snjórinn er vissulega fallegur, en ekki harmaði ég það neitt að fá nokkra sumardaga inn í tilveruna núna, um þetta leyti ársins höfum við Ari oft farið til Kanarí, en skynsemi og ómótstæðilegur sparnaðarvilji stendur í vegi fyrir því um sinn alla vega.
Á morgun eftir vinnu ætlum við Guðný vinkona mín að hittast og um kvöldið hitti ég gömlu vinkonurnar frá Betware. Þetta er auðvitað bara frábært líf.
Ætli þessi stefnumóti við vinina færi ekki sumarið inn í tilveruna um sinn.
Vinir og fjölskylda | Breytt 9.2.2009 kl. 03:14 | Slóð | Facebook
Í minningu Margrétar Oddsdóttur
15.1.2009 | 20:35
Á þrettándann sátum við saman, ég og Heiða vinkona mín, og ræddum það hvað við söknuðum oft Jóns Ásgeirs Sigurðssonar, kærs vinar okkar, ssem lést langt fyrir aldur fram. Ég spurði hana hvort hún hefði einhverjar fregnir af líðan Möggu Odds, ekkju Jóns, sem hefur glímt við krabbamein um nokkurra missera skeið. Heiða vissi af því að hún væri í stöðugri sjúkdómsmeðferð, en hvoruga okkar óraði fyrir því að þremur dögum síðar yrði hún látin. Það er mikill missir af Margréti Oddsdóttur - það vita allir sem áttu því láni að fagna að kynnast henni.
Aðeins hálft annað ár er síðan við kvöddum Jón Ásgeir, lífsförunaut Margrétar. Þá var það hún sem átti hlýlegt orð handa okkur sem stóðum ráðvillt eftir og vissum ekki hvaðan á okkur stóð veðrið. Hún var svo sterk og róleg eins og jafnan, flottasti skurðlæknirinn á læknaþinginu á Ísafirði (heimabæ Möggu) en það fékk ég tækifæri til að sækja þegar ég var að vinna fyrir Læknablaðið og fékk þá tilfinningu fyrir þeirri virðingu sem hún naut meðal kollega sinna. Hún var konan sem var að koma af næturvakt í New Haven þegar 20-30 Íslendingar mættu í ,,brunch" fyrir eftirminnilega haustlitaferð. Jón hvíslaði því að mér eða hún hefði tekið á móti einu eða tveimur fórnalömbum morðárása þá um nóttina. Hún var sallaróleg að sjá, áreiðanlega þreytt en síður en svo buguð. Hún var stoltið hans Jóns þá sem endranær og þótt sorgin sé sár núna get ég ekki annað en óskað börnunum þeirra til hamingju með þessa einstöku foreldra.
Það er alltaf erfitt að sætta sig við það þegar fólk er hrifsað burt í blóma lífsins og erfiðast þegar börnin fá ekki einu sinni að vaxa úr grasi áður en þau missa foreldra sína. Það er aldrei auðvelt að kveðja þá sem hverfa á braut, hvort sem í hlut á aldraður heiðursmaður sem ég kvaddi með sveitungum mínum um daginn, eða kona á besta aldri, sem á svo mörgu ólokið bæði í lífi og starfi.
Árið hófst með ættingjum og vinum
2.1.2009 | 00:43
Ökklabrotinn eiginmaður kominn heim
29.12.2008 | 16:44
Gærdagurinn var eiginlega aðallega á slysó því eftir meira en 30 ára slysalausa hestamennsku tókst honum Ara mínum að slasa sig uppúr hádegi í gær og brotna illa á ökkla. Hann fór í aðgerð í gærkvöldi og var negldur í bak og fyrir og hent út af spítalanum í dag. Kominn heim og skyldugur til þess að vera stilltur í nokkra daga alla vega. Ósköp gott að fá hann heim, annars var frekar mikið fjör hjá okkur um miðnæturskeið í gærkvöldi á spítalanum, þegar Trausti vinur okkar bættist í heimsókn, en hann er öryggisvörður niðri við dyr og var á vakt þegar hann frétti af Ara. Pólverjinn í næsta rúmi náði samt að sofna, frekar illa kvalinn af sígarettuskorti (en snjallt að eiga nikótínplástra á spítalanum) og svo var hann líka þjáður eftir eitthvert slys. Alla vega þá tókst aðgerðin á Ara vel etir því sem næst verður komist og allir á spítalanum ósköp notalegir, sem er gott þegar svona lagað kemur uppá.