Færsluflokkur: Tónlist

Eftir lestur ævisögu Clapton

Eftir lestur á sjálfsævisögu Clapton er margt sem fer um hugann. Búin að heyra ýmislegt um bókina og einkum hversu óvæginn hann sé við sjálfan sig og dragi ekki fallega mynd upp af sjálfum sér. Það sem mér finnst standa uppúr eru lýsingar hans á áhrifavöldum og tónlistarpælingum, einkum á yngri árum (þrátt fyrir sukkið er tónlistin þá ennþá númer eitt). Tímabilin sem hann gekk í gegnum, Mynd004sem gítarleikari í ýmsum hljómsveitum, stemmningin, afstaða hans til ýmissa tónlistarmanna og tilurð einstakra laga, þetta eru silfurmolarnir í frásögninni (silfur er aðal málmurinn í dag ;-). Og mismunandi þol, ánægja, snobb, virðingu og annað sem ræður afstöðu hans til tónlistar hverju sinni er mjög skemmtileg pæling sem skilar sér vel í bókinni.

Hitt sem mér finnst magnað er bataferlið hjá honum og að það skuli yfir höfuð hafa tekist að rífa hann upp úr móðunni sem hann var að hverfa inn í. Ég segi ,,það skuli hafa tekist" en ekki að honum hafi tekist það upp á eigum spýtur, þrátt fyrir að ég viti að ef hann hefði ekki tekið meðvitaða ákvörðun um að vilja snúa við blaðinu hefði þetta auðvitað ekki tekist. En hann skilar því líka vel hversu mikla hjálp hann þurfti og fékk. Á köflum finnst mér of mikið um upptalningar án efnis, en þetta eykur reyndar heimildagildi bókarinnar, sem ég held að hljóti að vera ótvírætt.

Þá er það sukkið, jú, lýsingarnar eru óvægnar og nöturlegar, en bæta kannski ekki svo miklu við það sem fjölmiðlar hafa verið ólatir að segja okkur. Reyndar fannst mér svolítið merkilegt hvernig hann lýsir einangruninni og að því virðist hrútleiðinlegu lífi heróínfíkilsins, sem hann var. Á hinn bóginn virtist hann skemmta sér mun betur sem fyllibytta, en með ömurlegum afleiðingum.

Las einhvers staðar að þýðingin væri stirð og þar sem ég las bókina í þýðingu og hef ákveðnar skoðanir á svoleiðis löguðu, þá verð ég að bera blak af þýðandanum, hún er auðlæsileg en svolítið flöt. Þó ég hafi ekki borið hana saman við frumtextann, þá hallast ég að því að þessi flatneskja (upptalningarnar sem ég nefndi) sé á ábyrgð frumtexta. Þetta er ekkert bókmenntaverk. Hnaut um örfáar leiðinilegar enskuskotnar setningar sem ég skrifa á hraða þýðanda. Þar stakk mig helst orðalag eins og ,,hans gítar" (eða hvaða hlutur það var nú) þar sem íslenskan ætlast til þess að skrifað sé ,,gítarinn hans". En þetta er sparðatíningur, bókin er auðlesin.

Clapton galopnar ekki inn á sig í þessari sögu, þrátt fyrir óvægnu hreinskilnina, nema þegar kemur að tónlistinni og afstöðu til hennar. Og það finnst mér kostur. Fjölskyldan hans er flókin, en það gerist nú á fleiri bæjum, hann skýrir ýmislegt í lífi sínu með þeim grunni sem hann byggir á, en það vekur engan ofboðslegan áhuga minn. Hins vegar finnst mér gaman að heyra um ,,menningarlega árekstrar" eins og mismunandi húmor Breta og Ameríkana. Þar datt ég gersamlega inn í frásögnina, þótt hún væri knöpp.

En sem sagt, góð bók fyrir Clapton aðdáendur og blúsáhugafólk.


Clapton svipmyndir úr símanum mínum - og lagalistinn frá í gær

Clapton tónleikarnir enn og aftur. Og ég var sem sagt með símann á lofti eins og fleiri, tók ekki sjansinn Mynd004á að  taka með mér myndavél, enda hefði það spillt tónleikunum ef allir hefðu verið með myndavélar á lofti með flassi út um allt, þannig að þetta var bara fínt, Mynd011nokkrir símar á lofti og svo fagmenn að taka aðalmyndirnar. En þetta er sem sagt úr símanum mínum, svipmyndir sem segja allt um stemmninguna, finnst mér. Og svo fann ég blogg þar sem mojo er búinn að taka saman lagalista gærkvölds og gefa einkunnir sem ég er sammála að mestu. Wonderful tonight fær kannski ekki fullt hús (skoðið athugasemdina) og ég verð að viðurkenna að eins og ég elska það lag, þá var miklu meira stuð í mörgum öðrum lögun, en þetta var allt frábært samt. Hér er lagalistinn á bloggi mojo. Mynd003


Clapton - daginn eftir

Brjálað stuð á Clapton í gær. Það er fátt skemmtilegra en að fara á vel heppnaða tónleika, og þessir voru það svo sannarlega. Eitt lag sem Heiða taldi upp í útvarpinu að líklegt væri að hann spilaði sem ég saknaði virkilega, það var White Room. Veit ekki hvort hann tekur þetta lag nokkurn tíma nú orðið, en ef hann gerir það ekki, þá ætti hann að hugleiða það, því hljómsveitiin sem hann er með núna veldur þessu meistarastykki alveg ágætlega, það er ég sannfærð um. Minna mál með Laylu (þó að Norðmennirnir hafi fengið að hlusta á hann spila það ágæta lag) nýrri flutningur hans á því lagi er of hófstilltur fyrir minn smekk, ég vil ekki heyra hann flytja lagið miðaldra og afslappaður, heldur finnst mér útgáfan þar sem hann var ungur og örvæntingarfullur miklu betri. Annars voru þessir tónleikar brjálæðislega blúslegir og það var virkilega gott. Og þá er ég aftur komin upp í Borgarfjörðinn og ánægð með það, sé ekki eftir að hafa tekið þátt í þessum merkisviðburði, sem tónleikar Clapton eru óneitanlega. Þetta er listamaður sem aldrei hefur hætt og hrakar ekki neitt (þótt athygli hafi vakið að hann var með ,,starfsmann í þjálfun" sem tók slatta af góðum gítarsólóum).

Hvað var ég að hugsa? Uppfærsla á fréttum um Clapton og Borgarfjörð

Þegar ég var búin að taka endanlega ákvörðun um að það myndi alls, alls ekki henta mér á fara á Clapton, og setja hugrenningar þar um á bloggið mitt, svona svo ég tryði því sjálf, þá heyrði ég svolítið á Rás 2 (hjá Heiðu, sem er bara ágætis útvarpsmanneskja). Upptalningu á lögunum sem hann ætlar að spila. Og hugurinn fór á fullt, gott ef tárin voru ekki farin að laumast í hvarmana, ég hringdi nokkur símtöl í heimilismeðlimi (sem bera ekki eins sterkar tilfinningar til þessarar tónlistar og ég, eða viðurkenna það ekki) og niðurstaðan er sú: AUÐVITAÐ FER ÉG Á CLAPTON - þótt það henti mér alls ekki á þessum tíma, margt sem veldur, þá veit ég bara ekki hvað ég var að hugsa! En alla vega, við förum þrjú úr fjölskyldunni á þessa eðaltónleika, ég kem héðan úr sveitinni, það verður bara að hafa það, sumir leggja á sig lengri ferðir, og það er ekki helsta fyrirstaðan. En ekki orð um það meir!

 

Það hellirigndi þegar ég fór úr bænum, dró heldur úr úrkomunni þegar ég kom í Mosó, dropaði í Borgarnesi en hér í Gljúfraborg hafði ekki komið dropi úr lofti. Núna er úrkoman komin hingað og ég vona að litlu, sætu blágresisfræin mín kunni að meta það. Mamma varð að samferða mér í bæinn og fullyrti að henni þætti rigningin bara góð. Reyndi að vera eins fljót og ég gat að útrétta (nýr straumbreytir breytti gamla prentaranum mínum sem er kominn upp í sumarbústað í tryllitæki á nýjan leik, en þetta fæst ekki á hverju horni).


Tónleikarnir á eftir - sendi góða strauma úr náttúrunni

Umvafin fallegri náttúru í bak og fyrir, bæði heima og hér uppi í bústað, þannig að ég er ekki á leiðinni bæinn (umhverfismengandi ;-) á Náttúrutónleikana, en sjálfsagt hefði ég farið ef ég hefði verið í bænum. Veit að Óli minn ætlar og kannski Hanna, veit ekki með hana, þannig að fulltrúar fjölskyldunnar verða alla vega á staðnum. Þetta verða ábyggilega frábærir tónleikar!


Réttur David vann ameríska Idol-ið og Jason stal senunni

Eftir að Bob Dylan þáttur Scorsese var búinn datt ég inn í Idol-ið eins og til stóð. Var sem betur fer búin að byrgja mig upp af verðugum forgangsverkefnum sem ég var að sækja fyrr um kvöldið og vann í þeim, því hrikalega var þátturinn dreginn á langinn. En úrslitin eru ljós og mjótt á munum, en ég er sátt við að David Cook vann. Þess má svo geta að ómótstæðilegur flutningum Jasons á Buckley útgáfu Haleluja var eiginlega lagið sem stal senunni, það var einmitt rétt eftir að ég byrjaði að horfa/hlusta. Restin var eiginlega allt of teygður lopi, þrátt fyrir urmul af stórum nöfnum. Kannski mest gaman að sjá fræga leikara dansa ömurlega sem bakraddasöngvara. Farin að sofa, stífur dagur framundan á morgun.

Forgangsröðin verður að vera rétt: Bob Dylan heimilarmyndin er miklu áhugaverðari en nokkurt Idol

Æltaði að fara að horfa á American Idol í kvöld, eins og ég var búin að boða, en það verður bið á því, seinni hluti af frábærri heimildarmynd Scorsese um Bob Dylan, sá megnið af fyrri hlutanum líka. Must see. Idol má bíða.

Battle of the Davids - bein útsending: Klukkan ellefu í kvöld, þið sem getið vakað til klukkan eitt ;-)

Þá er það bein útsending um miðnæturskeið (eftir fund hjá mér, eða vinnutengda lotu, eftir því hvort hefur yfirhöndina). Þar sem svo heppilega vill til að tveir bestu söngvararnir eru eftir í American Idol, sem hefur nú ekki alltaf verið raunin, þá verður ábyggilega gaman að horfa í kvöld. Ég vona að þeir félagar syngi einhver skemmtileg lög. Besta frammistaða beggja hefur verið mjög áhugaverð, en á milli hefur komið smá meðalmennska.

Svo er auðvitað freak-show annað kvöld, Eurovisionkvöldið þegar örlög íslenska framlagsins ráðast. Held auðvitað með Íslandi, þótt mér finnist ekki hafa verið rétt valið í úrslit þetta sinnið, þá verður ekki af þeim söngvurum skafið að þau leggja sig öll fram og það skal svo sannarlega virt. Óska þeim alls góðs.

Jamm, það er reyndar eitt lag í keppninni sem komst áfram í gær, sem vert er að halda með, Finnlandi, hef heyrt það af og til í útvarpi og þetta er fantagott lag. Eiríkur Hauks myndi sóma sér vel með þessum strákum.


Tónleikar sumarsins ... valkvíði! Lýsi eftir skoðunum ...

Er staðráðin í að fara á einhverja þeirra fjöldamörgu góðu tónleika sem eru framundan. Margt sem kemur til greina en að sama skapi er ég ekki tilbúin að ákveða mig enn og margt sem veldur. Meint annríki, óvissa um hvenær ég ætla að vera á landinu og meðreiðarfólk. Búin að missa af Rufusi, sem kom vel til greina, en þegar ég heyrði tónleikana hans í útvarpinu um daginn þá áttaði ég mig reyndar á því að ég þoli ekki að heyra of stóran skammt af of líkum lögum í einu, og röddin hans er svo spes að minn skammtur er að hlusta á stök lög, og helst á Halelujah, oft!

Mig langaði ekki á Bob Dylan þegar hann kom seinast til Íslands, hann hafði ekki verið að gera neitt sérstaklega góða hluti þá árin á undan, og svo spilaði eflaust inní að ég var ekki á landinu (þau eru súr, segir refurinn). Skemmtilegustu tónleikar að fara á eru harðir keyrslutónleikar, Megadeath, White Stripes og Jethro Tull minnisstæðir (missti af Rammstein, það var glæpsamlegt, hélt ég hefði verið í Noregi, en svo minnir að það hafi verið hringt í mig af tónleikunum og mér sagt að mæta, rétt þegar ég var búin að lofa mömmu að gera eitthvað með henni um kvöldið, en kannski voru það aðrir tónleikar). En þetta með keyrslutónleika er ekki einhlítt, lágstemmd Patty Smith, Lou Reed og Cohen forðum afsanna það. Hmmm, millistigið: Travis voru æði! alltaf fílað þá betur en Coldplay og Elton var líka mega.

Þumalfingursreglan að sjá hljómsveitir helst á hátindi frægðar sinnar var einu sinni fín viðmiðun, en eftir að ég klúðraði endurkomu Deep Purple á þeim forsendum að ég hefði skemmt mér svo vel 1973 áttaði ég mig á því að þetta er bara bull.

Þannig að ef þið, ágætu lesendur, getið gefið góð ráð þá er ég opin fyrir þeim. Neita að fara á James Blunt, veik fyrir Whitesnake og finnst Eric Clapton spennandi kostur. Lausir miðar alls staðar.


Tvær lúðrasveitarmyndir

Netið okkar hefur verið leiðinlegt um helgina, og reyndar af og til að undanförnu, en ég ætla samt að henda inn tveimur lúðrasveitarmyndum frá því að frændur mínir voru að spila í gær. Reyni ekki að setja myndbrotið sem ég tók upp fyrr en þetta ástand skánar.

CIMG2211 Hér er Sveinn Rúnar frændi minn nákvæmlega fyrir miðju.

 

 

 

 

 

 

 

 

CIMG2216Og hér má sjá Kjartan á klarinettið rétt vinstra megin við miðju.

 

 

 

 

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband