Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Elfa komin heim til Íslands

Elfa Gísla er komin heim til Íslands og verður að kynna bókina sína (okkar) á næstunni á vegum Sölku. Gaman að sjá hana hressa og káta og vonandi nýtist ferðin heim vel. Um næstu helgi verður útkomu bókarinnar fagnað. aa1.MedLallaMyndin með þessum pistli er komin aðeins til ára sinna og er í bókinni: Elfa Gísla og hinar sögurnar.

 


Flottur fundur Heimssýnar og óskaplega falleg tónlist Atla Heimis

Heimssýn hélt fullveldisfagnað í dag í Salnum í Kópavogi. Mjög góður fundur og ekki spillti að frumflutningur Gunnarshólma eftir Atla Heimi Sveinsson heppnaðist einstaklega vel. Fífilbrekkuhópurinn er einstaklega glæsilega skipaður og Atli Heimir er tónskáld sem ég hreinlega dái og er þó sannarlega góðu vön sem Álftnesingur þar sem mörg af okkar bestu tónskáldum búa. Veit ekki hvort allir átta sig á öllum þeim lögum sem Atli Heimir hefur samið og eru orðin almenningseign vegna ljúfleika - Snert hörpu mína sennilega eitt af þeim þekktari. Það er eitt fallegasta lag í heimi. En ég er reyndar líka afskaplega hrifin af annarri tónlist Atla Heimis líka, þeirri sem kannski útheimtir aðeins annars konar hlustun. Svona þegar ég er ein heima set ég stundum í spilarann ,,nútímatónlist" ekki síst Atla Heimi og Karólínu, því ég nýt þess betur að hlusta á tónlist þegar hún fyllir allt rýmið í kring um mig (heyrnartól eru ekki alltaf í uppáhaldi) og er allt of löt að fara á tónleika - helst hérna heima á Álftanesi að ég dríf mig einstaka sinnum. 

Að undanförnu hefur verið alveg ótrúlega margt að gerast á vegum Heimssýnar, en það sem ég fann svo vel í dag var hvað mismunandi viðburðir á vegum Heimssýnar laða að sér margbreytilega hópa. Hlýnaði um hjartarætur að sjá baráttufélaga sem ég sé sjaldan ella og er svolítið kát yfir því að sjá hverjir standa í þessari baráttu um fullveldið sem Guðmundur Hálfdánarsonvar að upplýsa okkur um að Íslendingar hafi alla tíð verið dauðhræddir um að missa. Þar sem ég missti af fundinum með honum í hádeginu í dag vegna annars fundar og heyrði bara útvarpsviðtal þekki ég ekki allar hans röksemdir enn en grunar að við séum ekki sammála um allt, en þetta tiltekna atriði get ég tekið undir.

Þar til ég set inn efni sem tilheyrir erindinu skelli ég þessu lánsefni af YouTube inn:

 


Fullveldishátíð Heimssýnar 1. desember - frumflutningur á verki Atla Heimis

Á morgun, 1. desember, verður fullveldishátíð Heimssýnar í Salnum í Kópavogi. Ræðumenn eru Ásbjörn Einar Daðason, Ragnheiður Elín Árnadóttir og Guðni Ágústsson. Tónlistarflutningur verður í höndum Fífilbrekkuhópsins en hópurinn frumflytur meðal annars verk Atla Heimis Sveinssonar sem byggt er á Gunnarshólma. Atli Heimir kemur á þann hátt óvænt inn í þennan fund, en hann er ekki þekktur sem andstæðingur ESB-aðildar Íslands, þvert á móti, en tónlistin klífur alla múra þannig að þessi ágæti fyrrum kennari minn úr Menntaskóla hafi þökk fyrir. Það er tengslum hans við Ragnar Arnalds og Styrmi Gunnarsson að þakka að verkið er frumflutt á fullveldishátíð Heimssýnar.

 

 

 


Tímamót í sögu Heimssýnar

heimssyn-merki.pngÁ liðnum degi voru tímamót í sjö ára sögu Heimssýnar á aðalfundi samtakanna. Samtökin eru liðlega sjö ára og aldrei stærri. Ragnar Arnalds, sem hefur verið formaður frá stofnun Heimssýnar, sagði af sér formennsku en situr áfram í stjórn og við tók Ásmundur Einar Daðason en varaformaður var kjörin Heiðrún Lind Marteinsdóttir.

Að undanförnu hafa verið stofnuð Heimssýnarfélög á 11 stöðum á landinu og fleiri félög eru í undirbúningi. Þá er Heimssýn bæði virk hér á blogginu þar sem Heimssýnarbloggið lifir góðu lífi og með vefsíðuna heimssyn.is.

Nýjasta og sprækasta viðbótin er Facebook-síða Heimssýnar www.facebook.com/heimssyn en þaðan bárust fréttir af fundinum jafnóðum og þær urðu.

Svo eru auðvitað fjölmargir öflugir bloggarar að blogga um ESB-málin og nokkrir þeirra gengu til liðs við stjórn Heimssýnar á aðalfundinum, má þar nefna Vilborgu Hansen bloggvin minn og Harald Hansson, sem hefur verið sérlega öflugur að undanförnu í umfjöllun sinni. 

 


Haust í huga

Haustið er fallegur árstími en stundum sækir að manni hrollur. Þetta haust er hrollurinn óvenju áleitinn. Hótanir og spörk eru það sem við fáum frá meintum vinaþjóðum - nema auðvitað Færeyingjum og Pólverjar virðast einbeittari í því að styðja okkur en margar aðrar þjóðir, þótt þeir þurfi eflaust að lúta ægivaldi ESB. Stjórnmálaumræðan í sjónvarpinu núna er ekkert of málefnaleg og þótt vandinn sé mikill virðist ábyrgðartilfinning stjórnarandstöðunnar almennt ekki hafa vaknað og stjórnarliðar, sem ég vissulega styð, eru vel meðvitaðir um að fjárlögin sem nú hafa verið lögð fram eru vondar fréttir fyrir marga. Þó held ég að flestir Íslendingar vilji snúa af braut þess skattkerfis sem helst hefur hyglað og hlíft þeim sem mestar tekjurnar hafa og sé reiðubúin að sjá hærri fjármagnstekjuskatt með frítekjumarki, hátekjuskatt og stighækkandi skatta. Þegar tekjuskattur var lækkaður og tekið upp eitt skattstig var mikið talað um að skattkerfið væri orðið svo ,,einfalt og stílhreint". Það sem gleymdist var að það var ,,einfalt, stílhreint og óréttlátt".

CIMG5323


Óþægilega viðburðaríkir dagar

Mitt í upprifjun á hruninu í fyrra eru miklir viðburðir sem varða okkur flest að eiga sér stað. Niðurskurðarfjárlög að koma fram seinna í dag, Icesave-langavitleysan ef til vill enn á ný framundan og Ögmundur nýbúinn að segja af sér. Ég óska Álfheiði Ingadóttur velfarnaðar í því mikilvæga hlutverki sem hún hefur nú tekið að sér.

Á morgun munu Írar í annað sinn vera kvaddir að kjörborðinu til að reyna að neyða þá til að samþykkja Lissabon sáttmálann. Þótt ein jákvæð könnun hafi komið fram, um að Írar munir ótrauðir aftur fella þessa dulbúnu stjórnarskrá ESB, þá eru aðrar kannanir sem sýna að líklega muni þeir nú samþykkja Lissabon-sáttmálann.

Aðildarviðræður við ESB voru samþykktar í sumar illu heilli. Eftir rúma viku mun ég taka þátt í ráðstefnu í Noregi um hvort ESB sé að gera velferðina að markaðsvöru. Sannarlega brýn umræða.

Næstkomandi laugardag hefst fundaröð um ESB-umræðu innan Vinstri grænna. Grasrótarhópur hefur undirbúið fundina og á fyrsta fundinum, laugardaginn 3. október kl. 13 í Kragakaffi, Hamraborg 1-3 í Kópavogi mun Páll H. Hannesson félagsfræðingur og alþjóðafulltrúi BSRB fjalla um ,,Markað eða samfélag? - Baráttuna fyrir almannaþjónustunni". Páll tekur fyrir almannaþjónustuna og ESB, m.a. tilskipanir eins og þjónustutilskipunina og tilskipun um veitingu heilbrigðisþjónustu yfir landamæri. Þetta eru mál sem varða miklu í ESB-umræðunni og hafa ekki fengið þá almennu umfjöllun sem ástæða væri til. Nánar auglýst á vef VG vg.is


Hæfasti heilbrigðisráðherrann hættir - Icesave-fórnir

Ég er ekki ein um þá skoðun að leitun sé að hæfari heilbrigðisráðherra en Ögmundi Jónassyni. Þótt einstaka ýlustrái segi annað þá hef ég það eftir fjölmörgum í stofnunum sem heyra undir heilbrigðisráðuneytið að hann hafi komið og innleitt ný vinnubrögð, samráð og samkennd með þeim sem hann vinnur fyrir. Sett sig ákaflega vel inn í málin og ekki unnt sér hvíldar þrátt fyrir að vera þátttakandi í ríkisstjórn við ómanneskjulega erfiðar aðstæður og í eldlínu í einu eldfimasta máli lýðveldissögunnar, Icesave.

Það er illt að sjá á eftir manni sem honum úr þessu mikilvæga ráðuneyti, eiginlega alveg óþolandi. Hins vegar bauð yfirlýsing forsætisráðherraum helgina upp á að svona gæti farið, þótt ég hafi ekki séð þessa atburðarás fyrir. Sumir vilja reyndar meina að það hafi forsætisráðherra ekki gert heldur.

Ögmundur er klókur stjórnmálamaður og einn þeirra fáu sem hefur ekki tapað hugsjónum sínum í öllum klókindunum. Fulltrúar VG á þingi og í ríkisstjórn eru sem betur fer hugsjónafólk og fleiri klókir en Ögmundur, en á engan hallað þó ég telji hann meðal þeirra klókustu. Okkur Ögmundur hefur aðeins greint á í einu máli, það er hver sé æskilegust leið til að halda Íslandi utan ESB. Við erum hins vegar sammála um einu ásættanlegu niðurstöðuna, Ísland verði áfram utan ESB.

ESB-þjóðirnar England og Holland hafa tekið okkur í kennslustund um kúgun þeirra rótgrónu nýlenduherra sem ráða ferðinni innan ESB. Icesave-samningarnir eru tækið núna og ekki það eina sem unnt er að beita gagnvart lítilli þjóð í vanda.


Írland verður látið kjósa um Lissabon-sáttmála ESB aftur og aftur og aftur, þó NEI þýði NEI - Elvis segir Nei!

Það þarf ekki að hafa mörg orð um þetta myndband sem slóvenskur kunningi minn og Facebook-vinur setti á Facebook:

 


Áfram Ísland - ekkert ESB

Heimssýn hefur haldið uppi merki gegn aðild Íslands að ESB af talsverðum krafti að undanförnu. Bendi á heimsíðuna: www.heimssyn.is og bloggsíðuna: http://www.heimssyn.blog.is/blog/heimssyn/

Fróðleg lesing og tenglar á ágætis upplýsingar um ESB.


Framtíðin sem byrjar í dag

Ég hef alltaf tekið stjórnmál alvarlega. Hef, held ég, húmor fyrir flestu öðru, en pólitík er að mínu mati ekkert grín. Vitna stundum í orð Svavars Gests skemmtiþáttastjórnanda, Lionsmanns og trommara (sárasaklauss af Icesave) sem sagði þegar hann var spurður hvort hann ætlaði ekki í pólitík, hvort það vantaði ekki húmorista á þing. Hann svaraði: Nei, það vantar menn sem taka pólitík alvarlega.

Þetta segi ég ekki af því mig dauðlangi aftur á þing. Þegar ég kvaddi alþingi eftir sex ára góða veru þar, var það til að snúa mér að öðru, sem ég gerði svo sannarlega. Búin að skrifa nokkrar bækur, klára master númer 2 (í tölvunarfræði) og ýmislegt fleira síðan þá. En eftir búsáhaldabyltinguna í vetur, hrunið og vegna fyrirsjáanlegrar ESB-umræðu og jafnvel aðildarumsóknar, sem nú er orðin að veruleika, neyddist ég til að snúa til baka og er því orðin varaþingkona enn á ný - í fúlustu alvöru, þótt skyldur mínar verði varla miklar á þessu kjörtímabili, margir til kallaðir. 

Brátt er liðið ár síðan allt breyttist á ytra borðinu. Breytingarnar urðu miklu fyrr, með nýfrjálshyggjunni og einkavinavæðingunni. Ég er fegin að VG er við völd, ekki af því VG ráði ferðinni í öllum málum, þá værum við ekki búin að sækja um aðild að ESB, heldur vegna þess að ég sé ekki annan betri kost í að móta framtíðina, sem því miður er ennþá að byrja, í dag. Allt of mikill tími hefur farið í óþarfa. ESB bull. Icesave-samninga og samningsbætur. Því verður ekki breytt. Það eina sem við getum breytt er framtíðin. Þrátt fyrir skuldbindingar eigum við mikið inni hjá framtíðinni. En til þess þarf að fara að einbeita sér að uppbyggingu og að fara í harkalegan niðurskurð á bulli og sækja þann pening sem útrásarvíkingar og vitleysingar stálu af okkur. Ég veit það kvíða margir vetrinum. Meira að segja Pollýönnu-mengaða æska mín megnar ekki að láta mig raula fyrir munni mér: Don't worry, be happy! Fjárlagafrumvarpið sem lagt verður fram í haust verður áreiðanlega enn einn skellurinn. Mér finnst reyndar að það eigi að fara að taka þjóðina á sálarfræðinni og leggja fjárlagafrumvarpið fram á björtum vordögum, og elska ég þó skammdegið eins og fleiri Íslendingar sem eru með skerta skammdegisþunglyndishneigð, skv. rannsóknum Jóhanns Axelssonar. 

Framtíðin byrjar á hverjum degi og ég held að það sé kominn tími til að notfæra sér það lag sem nú er til þess að stokka alveg upp á nýtt og skapa nýtt og réttlátara samfélag, áður en allt fellur í sama farið og bölsýni og brokkgengt minni fær okkur til að gera sömu mistökin aftur.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband