Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Þegar þetta ,,eitthvað" er til staðar: Maybe I should have ...
2.3.2010 | 21:02
Ég var strax ákveðin í að sjá myndina ,,Maybe I should have". Brá ögn við þegar Hugrún vinkona mín sagðist vera að fara á hana um svipað leyti og ég drattaðist í Avatar, og af sömu ástæðu, ótta við að sýningum yrði hætt fljótlega. Búin að sjá báðar myndirnar. Hálft í hvoru var bara gott að fara ein á ,,Maybe I should have" því hún hafði þannig áhrif á mig að mér fannst ágætt að vera ein með sjálfri mér á eftir, hugsa og endurhugsa, en ekki að tala.
Myndin er að mörgu leyti lík því sem ég hafði heyrt, góð en ekki gallalaus. Ég fann eiginlega bara einn galla, mig langaði að fá myndskot sem vísaði til titils myndarinnar, mér finnst þessi setning í rauninni svo mögnuð og margslungin, og hræðilega einlæg.
Reyndar hafði ég líka lesið um þessa mynd að lokaatriðið færi yfir öll mörk í væmni og/eða þjóðrembu, en það vefst ekkert fyrir mér, ég elska væmni og elska Ísland án þess að skammast mín vitundarögn. En ég fann hvorugt í lokaatriðinu, þvert á móti auðmýkt og náttúruást á landinu, en líklega er það síðarnefnda þjóðremba í sumra augu. Hver verður að dæma fyrir sig. Það var eitthvað svo yndislega absúrd við þetta lokaatriði og ég held að það hafi verið meðvitað.
Fyndin, nei, ágeng já. Takk fyrir mig.
Af hverju er ég svona tortryggin og hrædd um að einhverjir muni taka pólitíska eiginhagsmuni fram yfir þjóðarhagsmuni í þeim línudansi sem framundan er í samningaviðræðum um Icesave? Nú verður þessu máli að fara að lykta á ásættanlegan hátt og allir VERÐA að snúa bökum saman, ekki skora pólitískar keilur. Ég er svo sem enn við sama heygarðshornið að treysta mínu fólki, vinstri grænum, til að vera ekki í eiginhagsmunaleik og alls ekki að afla sér pólitískra vinsælda, enda leynir það sér ekki að þótt innan flokksins míns hafi verið talsverður ágreiningur um leiðir, þá er ekki verið að skara eld að eigin köku.
Svo virðist sem nokkur samstaða sé að komast áum að leiða þetta mál til þolanlegra lykta. Þetta mál heltekið alla umræðu og því miður tafið umbætur í samfélaginu, sem þola ekki frekari bið, fyrir suma er þetta reyndar allt of seint.
Þeim mun sárar svíður mér að horfa nú fram á tímasóun, svívirðilegan fjáraustur og orkusóun í ESB-aðildarviðræður sem enginn vill. En eins og kerlingin sagði: Það skal í ykkur helvítin ykkar!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:48 | Slóð | Facebook
Ögmundur, Álftanes og útrásarvíkingarnir ... og svo hún Guðfríður Lilja
11.2.2010 | 00:39
Mikið er það gott að finna að þingmenn VG í kjördæminu okkar Álftnesinganna skoða okkar mál í skynsamlegu samhengi. Þetta hef ég heyrt með beinum hætti hjá Guðfríði Lilju og er henni mjög þakklát fyrir það og í dag einnig með óbeinum hætti er Ögmundur dró upp nöturlega mynd í útvarpsviðtali síðdegis. Þar lagði hann eftirfarandi staðreyndir á borðið sem ég lýsi með eigin orðum: Meðan verið er að djöflast í litlu sveitarfélagi sem sagt er skulda sjö milljarða, sem liklegar eru þó aðeins fjórir, þá er mulið undir útrásarvíkinga sem skulda hundruð milljarða, og ekkert virðist eiga að gera eða vera hægt að gera.
Jasvei!
Hér er tengill á viðtalið í síðdegisútvarpinu þar sem Ögmundur notar auðvitað eigið orðaval:
Eftirsjá
1.2.2010 | 16:13
Stjórnmál og samfélag | Breytt 2.2.2010 kl. 23:44 | Slóð | Facebook
Vil bara vekja athygli á þessari frétt
25.1.2010 | 00:05
Óttast að evran hrynji | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þegar mikið er að gerast er gaman að gleðjast yfir litlu
24.1.2010 | 16:49
Ástandið í þjóðfélaginu og sveitarfélaginu mínu, jafnvel í heiminum, er frekar alvarlegt, á köflum svolítið niðurdrepandi. Og einhvern veginn er maður orðinn svolítið hokinn af ábyrgð yfir því að gera það rétta á réttum tíma og réttum forsendum. Þess vegna eru svona ábyrgðarlausir sunnudagar eins og dagurinn í dag notalegir. Engar raunverulegar skyldur, ef maður hleður þeim ekki á sig sjálfur, hvaða sköpunarsögu sem maður trúir, eða ekki, þá er ákveðin glóra í að fyrirskipa alla vega einn hvíldardag í viku. Og þess vegna er bara allt í lagi að leysa ekki öll þau vandamál sem illa gengur að bjarga alla hina dagana, hafa svona einn ,,stikkfrí" dag. Hitt hverfur ekkert.
Flokksráðsfundur VG og veruleikinn
17.1.2010 | 02:08
Félagar í Vinstri grænum höndla veruleikann vel. Veruleikinn er ekki alltaf auðveldur og ég ætla ekki að tíunda það sem ég vildi hafa öðru vísi, nema auðvitað að ég vildi óska að VG hefði ekki verið pínt til þess að standa að aðildarumsókn að ESB. Það eru ekki alltaf sömu raddirnar sem eru háværastar í VG og það er lýðræðinu hollt að mínu mati. Ég hef aldrei verið í pólitík til þess að hafa það náðugt eða afla mér vinsælda og mér finnst sama máli gegna um aðra í VG, þeir þurfa að leita í aðra flokka sem eru að leita sér að já-systrum og -bræðrum og eflaust er það misjafnt hvernig til tekst það.
Þótt fundurinn á Akureyri um helgina hafi síður en svo verið sá auðveldasti - það gefur auga leið að svo gat ekki orðið - þá er ég engu að síður mjög sátt við fundinn.
Annar veruleiki er að sitja í kaffi með gamalli vinkonu og njóta þess hittast, eins og ég gerði eftir fundinn. Þegar önnur býr fyrir norðan og hin fyrir sunnan þá þarf að nýta síkar stundir vel. Við erum á ólíkum aldri, höfum þekkst næstum þrjátíu ár og verið stórvinkonur í meira en tuttugu. Aldur og búseta skiptir ekki meginmáli. Við höfum alltaf náð vel saman og þó lengra líði á milli samverustundanna nú en áður þá er það var þannig með góðar vinkonur að þar er einhver þráður sem aldrei slitnar. Ég held ég sé óvenju heppin með vinkonur!
Veturinn verður fljótur að líða -
9.1.2010 | 01:39
Það hefur aldrei verið launungarmál að í Icesave-málinu höfum við getað valið á milli nokkurra afleitra kosta. Á komandi vikum komumst við ef til vill að því hver þeirra er verstur en vonandi þó frekar hver er illskástur. Ég hef ávallt verið mikil fylgiskona þjóðaratkvæðagreiðslna og finnst tímabært að gera stjórnarskrárbreytingar sem raunverulega setja þeim valkosti skynsamlegan ramma. Í þessu máli var ég seint og um síðir helst orðin á því að málið yrði ekki til lykta leitt nema þjóðin fengi að segja sína skoðun og þá gjarnan með öðrum hætti en mótmælum. Var þess fullviss að málið myndi ekki falla á þingi og eyddi því ekki orku í að velta þeim möguleika fyrir mér. Ég er jafn svarinn andstæðingur óréttlætisins sem við erum beitt í Icesave-málinu eftir sem áður. En af því ég var höllust undir þjóðaratkvæðagreiðslu varð ég hissa þegar ég fékk, eins og fleiri landsmenn, nett sjokk þegar draumar og óskir svo margra urðu að veruleika á mánudaginn og ljóst var (á þeirri stundu alla vega) að efnt skyldi til þjóðaratkvæðagreiðslu. Eftir umræðuna síðan sé ég reyndar (þó í hálfkæringi sé) að skynsamlegast hefði verið að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort efna skyldi til þjóðaratkvæðagreiðslu. Kannanir í síðustu viku segja okkur að eftir veruleikasjokkið á mánudag harðneitar meirihluti þjóðarinnar að vilja nokkuð fá að greiða atkvæði. Held að slík könnun hefði litið öðru vísi út vikuna á undan og þessi afstaða á eftir að sveiflast.
Ég hef lengi óttast að það sé rétt að við komust ekki lengra í samningum í haust en við gerðum. Hörð viðbrögð utan úr heimi sýna og sanna við hvað er að etja. En jafnframt eru okkar óbilgjörnustu mótmælendur úti í Evrópu að fá kjörið tækifæri til að auglýsa afstöðu sína og á góðum degi gæti það komið í bakið á þeim og unnið með okkur. Afhjúpað óréttlætið. En ég er ekki viss um eitt eða neitt.
Svo sannarlega vona ég að eitthvað gott komi út úr því umróti sem nú er. Ef það gerist er það ekki vegna þess að slíkur árangur hefði endilega náðst á haustdögum, það tel ég reyndar hæpið. En þessi sjokkmeðferð mun annað hvort auka á vandann eða skapa okkur svigrúm.
Ég er undrandi á umræðu um að milliríkjasamningar eigi ekki erindi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Vara við slíkum málflutningi. Hvað með ESB? Á að vera einhver hentistefna eftir því hvaða niðurstöðum menn búast við úr könnunum? Þar beini ég ekkert síður orðum mínum til stjórnarandstöðu en sumra stjórnarliða.
Varðandi skatta og álögur gegnir mögulega öðru máli. Þess vegna er svo brýnt að setja þjóðaratkvæðagreiðslum vandaðan og vel rökstuddan ramma, sem er ekki heftandi en hins vegar skynsamlegur. Kalifornía er meðal þeirra fylkja/ríkja þar sem ,,þjóðar"atkvæðagreiðslur eru haldnar um skatta. Ástandið þar er ekki gott, ekki ætla ég að kenna þessum atkvæðagreiðslum um það, en þær spila án efa inn í. Háskólarnir í Kaliforníu eru mjög aðþrengdir af þessum sökum, sumir taka svo djúpt í árinni að segja að þeir séu hrundir.
En veturinn verður víst örugglega fljótur að líða ...
(skrifaði víst að forsetinn hefði tekið sína ákvörðun á mánudaginn en það var á þriðjudaginn, rifjaðist upp fyrir mér þegar ég sá að enn var ekki kominn nema 9. dagur ársins).
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:36 | Slóð | Facebook
,, ... og aldrei það kemur til baka" - Árið sem við erum að kveðja var ár búsáhaldabyltingarinnar - ekki Icesave!
31.12.2009 | 03:05
Mér finnst alltaf svolítið tregablandið við áramótin, að hlusta á að árið sé liðið í aldanna skaut ,, ... og aldrei það kemur til baka. Nú gengin er sérhver þess gleði og þraut, það gjörvallt er liðið á gleymskunnar braut, en minning þess víst mun þó vaka." Var þetta ekki einhvern veginn svona? Alla vega er þetta stafað ofan í okkur ... það er farið! Nú veit ég í sjálfu sér ekki hvort það eru meiri tímamót í 31. desember en t.d. 12. september eða 30. mars, en þessi tímasetning var valin og við sitjum uppi með hana í okkar árlega uppgjöri. Um þessi áramót og hin seinustu hef ég staðið mig að því að kveðja árin með vissum létti og horfa fram á við með smá fiðringi (ekki endilega jákvæðum) í maganum. Samt hefur margt yndislegt og skemmtilegt gerst á þessum tveimur mjög skrýtnu árum. Og ég er vissulega stolt af því að tilheyra þjóð búsáhaldabyltingarinnar þetta árið. Icesave fór eins og ég bjóst við - um það hef ég ekki annað að segja en það sem ég sagði með neðangreindri mynd, sem ég hef áður birt hér á síðunni. Tek það fram að ég hef ekki bætt öðru en Írlandi inn á myndina og það stendur ekki til að breyta henni meira. Írlandi var bætt inn vegna kvartana Íra og Írlandsvina.
En gleðilegt ár og takk fyrir öll gömlu góðu!
Ég er Álftnesingur og Íslendingur - og það er gott
17.12.2009 | 00:13
Það er indælt að vera Álftnesingur, þrátt fyrir það sem á dynur. Alveg eins og mér finnst það gott að vera Íslendingur, þótt stormasamt sé í kringum okkur.
Í hnotskurn er stærsti vandinn okkar á Álftanesinu góða að hér búa stórar og barnmargar fjölskyldur í grennd við stærsta atvinnusvæði landsins. Hér er mikil þörf fyrir þjónustu og miklu stærri hópur í grunnskóla hlutfallslega en annars staðar. Á móti koma sáralitlar tekjur af atvinnurekstri, því stutt er að sækja fjölbreytta vinnu í nágrannasveitarfélögin, aðallega í Reykjavík. Bæjarstjórn, alla vega sú sem fór frá í sumar, barðist fyrir að fá tekið tillit til þessarar sérkennilegu stöðu t.d. með því að fá Jöfnunarsjóð nýttan eins og andi laganna segir til um, til að jafna stöðu sveitarfélaga. En af því staða okkar er einstök hefur verið seinlegt að sækja það mál, þrátt fyrir að almennt hafi menn skilning á þessari sérstöðu.
Það hefur oft gustað um Álftanesið, það þekki ég frá því ég skrifaði Álftaness sögu fyrir næstum fjórtán árum. Hrunið núna er ekkert í líkingu við það sem varð þegar íbúum Álftaness fækkaði úr um 600 niður í 210 á aðeins þrjátíu árum frá 1880 til 1910. Þá, eins og nú, snerist mannlíf á Álftanesi um að lifa í sátt við náttúruna og umhverfið. Afleiðingar af ofveiði og yfirgangi enskra togara á smábátamiðum Álftnesinga úti fyrir nesinu voru þessar. En jafnvægi komst á á nýjan leik. Fyrir 200 árum stóð vagga sjálfstæðisbaráttunnar á Álftanesi, þegar Fjölnismenn gengu í Bessastaðaskóla og skólapiltar unnu á sumrum á bæjunum hér á nesinu.
Söguríka nesið okkar hefur alltaf boðið upp á gott mannlíf og mikla vitund um þörfina fyrir að lifa í sátt við náttúruna, enda er náttúrun hér í kring ósnortnari en víðast hvar annars staðar á höfuðborgarsvæðinu. Það eru ómetanleg verðmæti, og það er engin tilviljun að hér vill fólk ala börnin sín upp. Vonandi að skilningur ríki um að það sé bara indælt og eðlilegt og raddir jöfnuðar og samkenndar finnist í þessari orrahríð.
Myndirnar eru frá 17. júní hér á Álftanesi og öllum börnunum og unglingunum sem njóta þess að vera Álftnesingar (m.a. hljómsveitin Acid). Ennfremur vetrarmynd úr götunni minni og loks ein mynd frá fyrri tíð. Hún er eftir Benedikt Gröndal, sem skrifaði svo skemmtilega um mannlífið á Álftanesi í bókinni sinni: Dægradvöl, og Álftnesingar hafa skírt menningar- og listafélagið sitt sama nafni. Húsið er Eyvindarstaðir, æskuheimili Benedikts, og stóð á svipuðum slóðum og gatan mín, Blátún, er nú, en þar sem sú gata er nú voru rófnagarðar Eyvindarstaða, þess húss sem byggt var líklega um 1910 og stendur enn við Heimatún.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:32 | Slóð | Facebook