Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Jafnrétti - kvenfrelsi - mannréttindi
1.3.2009 | 01:19
Var á skemmtilegum fundi í morgun þar sem VG fólk er að fjalla um jafnréttismál, enda flokkur sem kennir sig við kvenfrelsi og þar sem konur hafa verið í framlínu frá fyrstu tíð, og það vægast sagt frábærar konur, allar saman.
Það sem kemur út úr umræðu þessa hóps er enn í mótun en ég get lofað því að enginn mun verða fyrir vonbrigðum, það er hins vegar ekki rétt að einhver ein(n) úr hópnum fari að þjófstarta þeirri umræðu, þetta er hópstarf.
En þessi fundur og viðtal sem ég tók um daginn þar sem jafnréttismál bar mikið á góma rifjaði hins vegar upp hvers vegna ég fór út í pólitík á sínum tíma.
Fyrstu pólitísku afskiptin voru eflaust þegar í gaggó á málfundum, þar sem stelpurnar voru ekki mikið að hafa sig í frammi enda árið líklega 1966 eða svo, en þar æddi ég samt upp og fór að rífast við bekkjarbróður minn, Eggert Þorleifsson, um jafnréttismál auðvitað. Síðan hef ég eiginlega aldrei hætt að tala um þessi mál.
Auðvitað er ég ánægð með að talsvert hefur þokast síðan þá. En það er samt með ólíkindum að enn skuli ekki vera búið að ná launajafnrétti og sigrast á ofbeldi gegn konum, ég held að þorri fólks geri sér grein fyrir að við getum ekki sætt okkur við svoleiðis órétt.
Réttlætiskennd margra er misboðið nú eftir efnahagshrunið. Fólk sem ekki fann sér farveg í gróðærinu er núna komið til starfa að móta nýtt samfélag. Hvernig væri að skapa nú samfélag jafnréttis kvenna og karla, frelsis til að lifa mannsæmandi lífi og velja sér menntun og lífsstefnu og njóta þeirra mannréttinda að þurfa ekki að búa við ógn eða ofbeldi. Það hlýtur að vera hægt að virkja réttlætiskenndina sem nú ræður umræðunni og laga þessi mein. Ég er sannfærð um að með Vinstri græn við stjórnvölinn eftir kosningar verður sú leið greiðari en nokkru sinni fyrr.
Þetta þarf að verða að lögum sem fyrst - fylgjumst grannt með hvort og hverjir verða á móti
27.2.2009 | 13:40
Tekið á skattaparadísum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:41 | Slóð | Facebook
Forvalsbæklingur VG í Reykjavík kominn á vefinn
26.2.2009 | 22:55
Forvalsbæklingur VG í Reykjavík er kominn á vefinn. Þar er kynning á öllum 32 frambjóðendum VG í Reykjavík (þar af innan við þriðjungur konur). Þar er einnig kynning á forvalsreglum og fyrirkomulagi. Eins og ég hef þegar nefnt þá stefni ég á toppinn í þessum frábæra félagsskap. Það er hægt að skrá sig í VG í Reykjavík alla næstu viku fram á föstudag. Allir geta skráð sig í Reykjavíkurfélagið ef þeir vilja, án tillits til búsetu, en þeir geta auðvitað ekki kosið nema í einu kjördæmi.
Bæklingurinn er á þessari slóð og hægt að skoða hann sem .pdf skjal: http://www.vg.is/frettir/eldri-frettir/nr/3924
Nýr seðlabankastjóri á morgun, hægir á verðbólgu, gengið að styrkjast og næsta vaxtaákvörðun vonandi í rétta átt
26.2.2009 | 21:05
Sú lamandi tilfinning sem flestir fundu fyrir þegar á vikunum fyrir jól, að ekkert væri verið að gera til að koma efnahagsmálum aftur á réttan kjöl var án efa einnig ein helsta undirrót búsáhaldabyltingarinnar sem varð þegar þing kom saman eftir áramót. Þá var illur grunur staðfestur, fátt hafði verið gert, ef eitthvað þá var það ekki upplýst og ekkert stóð til að gera annað en ræða brennivín og tóbak á alþingi eftir jólaleyfið.
Loksins þegar ný ríkisstjórn tók við, eftir smá upphlaup Framsóknar, voru ermar brettar upp, ákvarðanir teknar og nú erum við að byrja að sjá bjartsýnina koma til baka. Bjartsýni sem svo sárlega hefur vantað. Reyndar þykir bjartsýni virðulegri undir dulnefninu ,,jákvæðar væntingar" en niðurstaðan er sú sama, hjólin fara að snúast á nýjan leik, lamað kerfi hins opinbera og einkageirans fer að þora að setja verk af stað og búa til vinnu handa fólki. Stofnanir þora að fara að taka á vandanum sem hlaðist hefur upp í aðgerðarleysismókinu.
Það eru til lausnir á jafnvel erfiðustu málum, en þær finnast ekki meðan setið er með hendur í skauti og beðið eftir kraftaverki eða kollsteypu.
Verðtryggingin
24.2.2009 | 22:55
Gangi þeim vel að koma póstinum okkar upp aftur
24.2.2009 | 12:18
Gmail þjónustan liggur niðri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hverjir eru sérfræðingarnir? Þessir með torskildu titlana eða þeir sem eru með hugmyndirnar og reynsluna?
24.2.2009 | 00:08
Ég hef aldrei talað við manneskju sem vinnur í heilbrigðiskerfinu sem ekki hefur lumað á einu eða fleirum sparnaðarráðum. Og núverandi heilbrigðisráðherra, Ögmundur Jónasson, á án efa eftir að leita í þann sjóð til að finna sparnaðarleiðir - þess vegna er svo mikilvægt að hann fái að halda áfram í þessu mikilvæga ráðuneyti, sem hann er í en heldur varla nema VG bæti við sig fulltrúum í öllum kjördæmum. Ögmundur vill nefnilega ekki vinna 1. sætið í suðvesturkjördæmi eins og seinast, heldur annað sætið og fá Guðfríði Lilju í fyrsta sætið, sem er flott. Til að þetta geti orðið er einfalt að grípa til ákveðinna aðgerða - skrá sig í Vinstri græn, taka þátt í forvali vinstri grænna og skila VG þeim 20-35 prósentum atkvæða sem stemmning virðist fyrir! Góð útkoma í næstu kosningum skilar Vinstri grænum í sterka stöðu eftir kosningar í stjórnarmyndun.
Það er plagsiður að forðast eins og heitan eldinn að spyrja þá sem vit hafa á málunum ráða. Flatur niðurskurður, heilög prósentutala yfir línuna er vissulega ,,einföld" aðferð til sparnaðar og útheimtir nákvæmlega enga hugsun. Að tala við fólkið sem stendur í strögglinu að ná endum saman er hins vegar tímafrekt en skilar hins vegar miklu réttlátari niðurstöðu. Þeim tíma og því fé er hins vegar vel varið. Flatur sparnaður sem yfirmönnum er gert að ná fram ,,í hvelli" eins og oftast er gert er bara della, della sem við horfum aftur og aftur uppá. Ekki meir af því, takk!!!! En allar litlu sparnaðarhugmyndirnar sem fólkið með reynslu á sjúkrahúsum og heilsugæslustöðum luma á, þær myndu enda með að spara milljarða, ef fram næðu að ganga.
Allir tala um nýsköpun eins og eitthvert innihaldslaust töfraorð, enn eina hókus-pókuslausnina. Ég er orðin frekar pirruð á innantómum allsherjarlausnum. Í hugbúnaðargerðhefur verið mikið um nýsköpun, ný atvinnutækifæri og það sem mest er um vert, þarna eru ennþá miklir vannýttir möguleikar. Þar sem ég vann í þessum bransa í næstum sjö ár og fylgdist grannt með því sem þar var að gerast þá langar mig að segja frá því sem hægt er að gera. Ágæt kona, Sigrún Guðjónsdóttir, gerði meistaraprófsritgerð sem snertir þetta og ég mæli með því að þeir sem áhuga hafa trítli upp í Þjóðarbókhlöðu og blaði gegnum ritgerðina. Árið 2005 gerðu Samtök upplýsingatæknifyrirtækja (SUT) stjórnvöldum tilboð. Það snerist um að gera upplýsingatækni að þriðju meginstoðinni í verðmætasköpun. Konkret tillögur, beint úr greininni, en dauflegar undirtektir stjórnvalda, því miður. Þessar tillögur eru til, þessar tillögur eru í fullu gildi. Almennileg stjórnvöld eru nýtekin við og það verður að gefa þeir meira en þessa 80 daga til að byggja upp nýtt og raunsærra atvinnulíf. Svo ég stikli aðeins á nokkru því sem þarf að bæta og SUT hafa bent á, þá erum við að keppa við þjóðir sem veitt hafa miklu fé (skynsamlega) í þennan málaflokk, en íslensk stjórnvöld hafa daufheyrst við ábendingum um úrbætur. Þetta voru ítarlega útfærðar hugmyndir og má nefna meðal þeirra eftirfarandi:
- Endurgreiðslu þróunarkostnaðar í stað skattlagningar á greinina.
- Gengisstöðugleika (hann myndi koma fleirum til góða en þessari grein, eins og við vitum svo biturlega núna).
- Leggja meiri áherslu á fjölbreytta menntun í hugbúnaðar- og tölvunarfræðum
Í staðinn buðu SUT ekkert smávegis (þó þetta hafi verið árið 2005 þá er fátt af forsendunum sem mælir gegn því að tilboðið sé snjallt) og þótt aðeins helmingur gengi eftir væri það býsna stórt skref. Fáránlegt af því að vita að talað skuli hafa verið að allt of miklu leyti fyrir daufum eyrum - þótt á einhverjar hugmyndir hafi verið hlustað er meginniðurstaðan sú að þessu ,,tilboði SUT" eins og það var kallað - hefur enn ekki verið tekið.
- Að tífalda gjaldeyristekjur í upplýsingatækni frá 4 milljónum í 40 milljarða
- Að fjölga starfsmönnum um 3000 og þar af 2000 ný störf
- Að auka hlutfall staðlaðs hugbúnaðar sem þróaður væri af íslenskum fyrirtækjum
- Að stórauka hýsingu á Íslandi fyrir erlend fyrirtæki
Ef við lítum lengra inn í framtíðina og reynum að sjá fyrir þróun tölvuumhverfis þá erum við komin inn á fræðasvið sem var efni í minni meistaraprófsritgerð - þar var ekki hægt að styðjast við reynslu en hins vegar eru frjóar og freskar hugmyndir um þróun mála á kreiki og þær þurfum við að þekkja. Hér og nú eru hugmyndir SUT þær sem þarf að bregðast við. Síðan tökum við næstu skref og byggjum upp alvöru nýsköpun, ef við berum gæfu til að leita að hugmyndum og þora að framkvæma þær. Til þess þurfum við stjórnvöld sem þora, vilja og geta!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:11 | Slóð | Facebook
Málefnaleg Evrópusambandsumræða á Café Rót í dag - og áframhalds má vænta hjá mörgum góðum bloggurum
22.2.2009 | 22:52
Fundur Heimssýnar á Café Rót í dag var fróðlegur og gott dæmi um þá málefnalegu umræðu sem oft hefur skort í Evrópusambandsumræðunni. Fundaröð Heimssýnar hefur verið haldið úti í því skyni að skapa umræðugrundvöll sem sárlega vantar.
Egill Jóhannsson frummælandi er einn þeirra manna sem ekki hefur gert upp hug sinn varðandi aðild Íslands að ESB og tók það fram í upphafi fundar. Hann hefur hins vegar á bloggi sínu (www.egill.blog.is) spurt áleitinna spurninga varðandi þá umræðu sem upp gaus í haust í kjölfar efnahagshrunsins þegar sumir töldu að nú ætti að nota tækifærið og drífa Ísland, umræðu- og gagnrýnilaust inn í ESB og taka upp evru hið snarasta til að ,,redda öllu" (allir sem til málsins þekkja vita að við uppfyllum ekki þau skilyrði sem eru fyrir upptöku evru innan ESB svo það út af fyrir sig var marklaus umræða).
Umræðan í dag var svo yfirgripsmikil að ég ætla mér ekki þá dul að endursegja fundinn, eins og mig hefði langað. Þess í stað vísa ég til góðs efnis á blogginu, bæði þess sem Egill hefur skrifað og aðrir sem þátt tóku í umræðunni í dag. Þar ber fyrstan að nefna Gunnar Albert Rögnvaldsson sem búsettur hefur verið í Danmörku og bloggar undir yfirskriftinn: Tilveran í ESB. Hans blogg er að finna á þessari slóð: http://tilveran-i-esb.blog.is/ - á blogginu hans er einnig að finna ýmis gögn um veru Danmerkur í ESB og fleira sem eiginkona hans, Sigrún Guttormsdóttir Þormar hagfræðingur ræddi um við okkur fundargesti eftir fundinn, en þá hélt áfram líflegt spjall meðal fundagesta. Loks má nefna að enn einn fundargestur og þungavigtarmaður í Heimssýn, Bjarni Harðason, bloggar oft um ESB á bloggi sínu, www. barnihardar.blog.is þó ég sé nú ekki sammála þeim vangaveltum sem bærast í huga hans nákvæmlega í dag um Evrópusambandsmálin og VG. Miklu bjartsýnni en hann á að VG haldi við þá stefnu sem fylgt hefur verið í ESB málum fram til þessa.
ESB-umræðan er í nokkrum dvala núna en hins vegar getur hún blossað upp hvernær sem er og umræðan er enn skammt á veg komin á Íslandi. Egill Jóhannsson lýsti þeirri skoðun sinni á fundinum í dag að líklega ættum við Íslendingar 10-15 ára verk fyrir höndum til að sinna þessari umræðu af einhverju gagni.
En núna eru það lausnir í efnahagsmálum sem eru mér efst í huga, það er mál sem brennur á öllum þessa dagana og sem betur fer er umræðan frjórri en svo að einblína bara á einhverjar hókus-pókus aðferðir, hvort sem eru ESB-innganga eða aðrar. Í næstu bloggum er röðin komin að þeirri umræðu.
Hvað ef við hefðum haft evru: Egill í Brimborg á fundi á Café Rót á sunnudag kl. 14
21.2.2009 | 19:12
Sunnudagsfundir Heimssýnar, sem eru til að efla umræðu um ESB, hafa verið haldnir nánast óslitið það sem af er ári, flestir á Café Rót, en einn, geysistór fundur var einnig í fundarsal Þjóðminjasafnsins snemma á árinu. Á morgun verður það Egill í Brimborg sem spjallar við fundargesti, en fundirnir á Café Rót eru óformlegir spjallfundir og umræður stundum mjög fjörugar. Hér er meira um fundinn, en yfirlit og efni fyrri funda er einnig að finna á síðu Heimssýnar: www.heimssyn.is og www. heimssyn.blog.is - athugið að við erum búin að færa okkur niður í salinn í kjallaranum!
Sunnudagsfundur: Hvað ef við hefðum haft evru?
Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, boðar til almenns fundar nk. sunnudag 22. febrúar á Kaffi Rót Austurstræti 17, 101 Reykjavík, kl. 14:00. Frummælandi á fundinum verður Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar.
Viðfangsefni fundarins verður einkum að svara eftirfarandi spurningum:
- Væru Íslendingar betur settir í dag ef lögeyrir landsins hefði verið evra á undanförnum árum en ekki íslenska krónan?
- Hefði íslenska fjármálakerfið ekki hrunið ef við hefðum haft evru?
- Hvernig datt Íslendingum í hug að byggja upp stærsta fjármálakerfi heims miðað við höfðatölu og fara síðan að koma sér upp gjaldmiðli sem gæti hugsanlega stutt við slíka uppbyggingu?
- Á Ísland að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru?
Aðgangur ókeypis og allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.
Heimssýn hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:13 | Slóð | Facebook
Lýðræðishalli Evrópusambandsins vegur þungt í andstöðu minni við inngöngu Íslands í ESB
21.2.2009 | 18:11
Margar og mismunandi ástæður eru fyrir afstöðu fólks til aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Sú ástæða sem vegur hvað þyngst í afstöðu minni er ákvarðanatakan innan Evrópusambandsins en jafnvel hörðustu fylgjendur aðildar Íslands að ESB mæla henni ekki bót og ekkert bendir til þess að breytinga sé að vænta til hins betra. Þvert á móti.
Flestar tilskipanir Evrópusambandsins sem sjálfkrafa öðlast lagagildi innan ESB eru samdar og undirbúnar af embættismönnum sem enginn hefur kjörið til að fara með svo mikið vald. Mikið skortir á gagnsæi í ákvarðanatöku og auðvelt fyrir kjörna fulltrúa, bæði þá sem beint eru kjörnir til Evrópusambandsþingsins og ráðherra hvers ríkis, sem taka þátt í störfum ráðherraráðsins, að skýla sér á bak við aðra þegar óvinsælar og íþyngjandi ákvarðanir eru teknar.
- Þingið hefur löngum haft lítil völd þótt reynt hafi verið að auka þau. Þátttaka í kosningum til þings Evrópusambandsins í aðildarlöndunum er lítil og fjöldi þingmanna smáríkja þar að auki mjög lítill. Ef til aðildar kæmi fengi Ísland úthlutað 6 sætum af 751 á Evrópuþinginu, innan við 1%, sem sagt öráhrif í valdalitlu þingi.
- Svo virðist sem íbúar flestra ESB-landanna líti ekki á ESB-þingmennina sem sína málsvara, enda er kosningaþátttaka til ESB-þingsins miklu minni en í kosningum til þjóðþinga landanna. Almenna reglan er að því nær sem valdið er (sveitarstjórnir, fylki, lén og þess háttar) þeim mun meiri kosningaþátttaka, víðast hvar er ágætis kosningaþáttaka til þjóðþinga en minnst er hún til ESB-þingsins, í flestum ríkjum ESB undir 50%.
- Ég vil gjarnan gera orð Steingríms J. Sigfússonar í grein á vef VG fyrir seinustu kosningar (http://www.vg.is/kosningar/nr/3449) að mínum: ,, ... kosningaþátttakan til Evrópuþingsins er komin vel undir helming kosningabærra manna, sums staðar í rétt rúmlega 20%, og hefur minnkað við hverjar kosningar frá þeim allra fyrstu árið 1979. Slík kosningaþátttaka segir meira en mörg orð um gjána milli almennings og ráðamanna innan Evrópusambandsins."
- Ráðherrar í ráðherraráðinu þurfa ekki og mega oft alls ekki upplýsa hvernig ákvarðanir eru teknar. Þeir geta því hæglega tekið ákvörðun sem umdeild er í þeirra heimalandi og látið sem þeir hafi ekki stutt hana, ef þeir það kjósa.
- Framkvæmdastjórnin, sem að flestum er talin valdamest, hefur enga beina tengingu við íbúa ríkja ESB og þarf ekki að standa neinum kjósendum reikningsskil fyrir gerðum sínum og ákvörðunum.
- Enn síður þurfa embættismennirnir sem undirbúa tillögur og móta stefnu ESB að horfast í augu við þann almenning sem þarf að sitja og standa samkvæmt þessu tilskipunum sem varða smæstu atriði daglegs lífs.
Krafa fólks að undanförnu hefur verið aukin þátttaka í mótun eigin lífs, ekki margfalt minni möguleikar til að hafa áhrif eins og yrðu innan ESB.
Því hefur verið haldið, ranglega, að fólki að innganga í ESB myndi á einhvern ,,hókus-pókus" hátt leysa flest okkar núverandi vandamál. Ef vandamálið er að við erum ekki með evru (sem er reyndar mjög vafasamt) þá er rétt að minna enn einu sinni á að við erum svo fjarri því að uppfylla Maastricht-skilyrðin til að taka upp evru innan ESB að mörg ár mun taka að uppfylla þau. Og er þá ekki að sinni farið út í að ræða það mál hvort evru-upptaka henti íslensku efnahagskerfi, jafnvel í sinni skástu mynd, sem er mjög ólíkt efnahagskerfi evru-landanna. Skýrsla Evrópunefndarinnar, sem fæst ókeypis í forsætisráðuneytinu, og er hægt að nálgast á þessari slóð: http://www.forsaetisraduneyti.is/utgefid-efni/nr/2558 kemur að nokkru leyti inn á þau mál, en ljóst er að gjaldmiðilsumræðan er rétt að fara af stað.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:13 | Slóð | Facebook