Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur og enginn fundur ;-) - forval hjá VG í suðvestrinu um næstu helgi - þá get ég loksins kosið sjálf - og stóru fréttirnar í íslenskum stjórnmálum í dag

Skrýtið, kominn sunnudagur og enginn fundur. Sóttum listaverk Óla (blaut) á Kaffi Cultura áðan í hífandi roki en allt tókst það nú samt, nema eitt verkið (af 12) fékk smá skell og verður ögn lífrænna en hin. Fékk hringingu, einn lítill og sætur fundur á morgun og svo ætla ég bara að taka lengri dag í verkefnum á morgun en tími hefur gefist til að undanförnu vegna funda. Stutt í næsta fjör, um næstu helgi get ég sjálf kosið í forvali VG - af því ég gat jú ekki kosið sjálfa mig í gær þá er gaman að geta kosið fríðan lista fyrir suðvestrið í VG. Þarnæstu helgi verður landsfundur VG og mér finnst miklu varða að vel verði staðið að ESB-stefnu okkar ágætu hreyfingar. Annars blanda ég mér aðallega í jafnréttis- og kvenfrelsismál hreyfingarinnar enda er það minn grunnur í pólitík.

Stóru fréttirnar í íslenskri pólitík í dag tengjast Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Ég vona það heitt og innilega að ákvörðun hennar sé byggð á því að hún vilji hlífa sér og safna kröftum en ekki að henni hafi versnað. Mun fylgjast grannt með. En stór er þessi frétt óneitanlega. 

 


Sátt og sæl: Stefnir í þrususterka lista VG í Reykjavík - er ekki í efstu sætunum og alveg hress með það - en endaleg röðun á morgun

Þátttaka í forvali VG í Reykjavík hefur eingöngu verið ánægjuleg lífsreynsla. Þótt úrslit liggi ekki fyrir fyrr en á morgun, þegar utankjörstaðar- og vafaatkvæði hafa verið talin, þá er ljóst að listarnir í Reykjavík eru gott sambland af endurnýjun og traustsyfirlýsingum við okkar frábæru þingmenn og ráðherra. Það er sterkur kvennasvipur á listunum. Sjálf renndi ég mjög blint í sjóinn með hvaða fylgi ég ætti inni og fannst ég skulda þeim sem mest hafa hvatt mig áfram að láta á það reyna. Flest bendir til að mjótt sé á munum milli allmargra þeirra sem koma á eftir þeim sem tóku afgerandi forystu í efstu sætunum. Þau hafa hvert um sig hefur unnið góða sigra.

Katrín Jakobsdóttir er geysivel að því komin að hafa fengið afgerandi kosningu sem varla breystist úr þessu á toppnum því hún hefur tekið af mikilli röggsemi á sínum málaflokki á örstuttum tíma í ráðuneyti sínu. Og það er ekki minna virði að hennar fylgi endurspeglar mjög þessi 41% ungs fólks sem vill kjósa VG samkvæmt könnunum. Ég sagði um daginn í blogginu mínu: Kata rokkar! og ég endurtek það nú. Það fer ekkert á milli mála.

Mér finnst líka vænt um að sjá fólk sem var áberandi í búsáhaldabyltingunni og borgarafundunum skora hátt. Það fer ekkert á milli mála hverjir eiga hljómgrunn hjá VG. 

 


Forval VG: Játningar lélegasta kosningasmala í heimi

Eins og lesendum bloggsins er ljóst er ég á fullu í forvali VG sem fram fer á morgun (munið að skrá ykkur fyrir miðnætti í Reykjavíkurfélag VG!!). Gaf kost á mér ekki síst vegna hvatningar úr ótrúlega mörgum áttum. Ég hélt að ég væri bara ágætlega dugleg að taka þátt í öllu sem tilheyrir þessu forvali, fæ boð á ótal fundi og mæti á alla sem ég get - reyndar mér til óblandinnar ánægju. Stofnaði Facebook-grúppu og reyni að sinna henni og svo held ég áfram að blogga, þessa dagana mest um forvalstengd mál - en það skal viðurkennt að heimsóknir á bloggið mitt tóku stórt stökk uppávið um daginn þegar ég var líklega fyrst til þess að blogga um að gmail póstforritið væri dottið út.

Nema hvað! Var að frétta það hjá mjög velviljuðum samherjum mínum í VG að ég er sem sagt alveg ömurlegur kosningasmali, hvorki í stórum félögum, kórum, hópíþróttaliðum - nei, ég er í tennis, og skvassi, þar hala ég í mesta lagi inn einn mótspilara í hvoru, sem ég hef ekki haft sambandi við. Og í þokkabót er ég ekki búin að skrá fjölskyldu mína, sem er allstór, í Reykjavíkurfélagið - af því við erum flest búsett utan Reykjavíkur. Mamma krafðist þess að vísu að fá að kjósa mig og vonandi hefur það allt tekist vel. Nokkrir ættingjar og vinir mínir hafa haft samband og ég er hræddust um að ég hafi klúðrað því hvernig ég liðsinni þeim í að styðja mig. Ég hef ekki haldið opið hús eða kosningafundi, heldur bara mætt hjá öðrum.

Að fyrra bragði hef ég hringt í eina manneskju hingað til beinlínis til þess að benda henni á að kjósa mig. Og það reyndar tvisvar, vegna þess að leiðbeiningarnar sem ég gaf henni í fyrra sinnið voru ef til vill ekki fullnægjandi. Við eigum sameiginlegt áhugamál sem hún vill endilega styðja og þar með mig, og ég vissi að ég varð að láta hana vita. Mér skilst að sumir hringi meira. Lofaði reyndar á endanum einum samherja mínum að hringja nokkur símtöl í kvöld. Verð eiginlega að gera það.

En samt, ef það skyldi fara á milli mála, þá ER mér rammasta alvara. Ég býð mig fram í 1.-3. sæti í forvali Vinstri grænna í Reykjavík, sem fram fer á morgun. Frestur til þess að skrá sig í Reykjavíkurfélagið rennur út á miðnætti í kvöld. Skráning í vg@vg.is

 


mbl.is Framboðsmál á fullu um helgina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fróðlegir og skemmtilegir fundir að undanförnu - skemmtilegur fylgifiskur forvals VG í Reykjavík

Eftir að hafa verið í félags- og pólitísku bindindi að miklu leyti í allmörg ár til að ljúka námi og hasla mér völl á nýjum starfsvettvangi er ótrúlega spennandi að taka þátt í forvali VG þessa dagana og vera boðið á ótrúlega marga fróðlega og skemmtilega fundi.Smá yfirferð yfir seinustu daga:

  • Var að koma af fundi með eldri félögum í VG, þrumugóður fundur og mjög fjölsóttur.
  • Í gærkvöldi var ég á fundi um húsnæðismál í ljósi ástandsins í samfélaginu, þar sem vextir og verðtrygging, myntkörfulán og verðsveiflur voru til umræðu, en þó fyrst og fremst hvernig tryggja mætti öryggi fjölskyldnanna í landinu sem verða að fá að eiga heimilið sitt í friði. 
  • Á þriðjudaginn fór ég á opið hús meðframbjóðanda í Friðarhúsinu (sem ég á víst hlutabréf í eins og margir fleiri, það er friðarhúsinu en ekki meðframbjóðandanum). Umræðan barst víða og var verulega áhugaverð, ekki síst sú sýn sem margir hafa á virkilega nýtt samfélag.
  • Daginn áður var ég á fundi um ESB-mál.
  • Á sunnudaginn var flottur kynningarfundur vegna forvalsins.
  • Á laugardagsmorgun kom jafnréttishópur VG saman, sá fundur er að undirbúa framlag hópsins til landsfundar VG sem verður eftir tvær vikur.
  • Í seinustu viku man ég líka eftir mjög spennandi fundi þar sem meðal annars var fjallað um kjarnorkuslysið um daginn í hafinu fyrir sunnan okkur og þá umhverfisvá sem að getur steðjað - fór líka á annan ESB-spjallfund.

Þetta er bara brot af því besta!

Á morgun er ég svo að fara í 19 ára afmæli Stígamóta, ég trúi því varla að það séu 19 ár síðan þessi merkilega barátta hófst, barátta sem hreinlega hefur breytt öllu samfélaginu, svipt leyndarhulut af því sem aldrei mátti ræða og stutt það fólk sem orðið hefur fyrir kynferðisofbeldi, sem eru í samfélagi kynbundins ofbeldis mestanpart konur. Þó má ekki má gleyma því að karlar geta líka verið fórnarlömb og sumir þeirra hafa hafa sem betur fer ákveðið leita til Stígamóta eftir aðstoð.

 

 

 


Hvað varstu að gera á þingi í sex ár, Anna?

Ég held að ég sé örugglega eina manneskjan, sem er að koma aftur í pólitík eftir langt (14 ára) hlé, af þeim sem taka þátt í forvali VG í Reykjavík á laugardaginn. Það er því sanngjarnt að ég láti vita af því hvað ég var að gera á þingi í sex ár. Hér að neðan er listi yfir þau þingmál sem ég var fyrsti flutningsmaður að, frumvörp, þingsályktunartillögur, fyrirspurnir (formlegar) og skýrslubeiðnir. Ég hef séð svona lista þar sem öll mál sem viðkomandi hefur flutt og jafnvel talað í eru listuð og það er önnur leið, en sá listi væri endalaus svo ég takmarkaði þetta við þau mál sem ég hafði framsögu um og flest þeirra samdi ég sjálf, oft með hjálp hópa úr Kvennalistanum eða starfsfólks þingsins, eftir eðli mála. Einstaka mál endurflutti ég eftir að flutningskona var hætt á þingi. Nokkur mál valdi ég að flytja oftar en einu sinni, það voru yfirleitt áherslumálin. Ef þið viljið vita meira um málin þá er best að smella á hlekkinn ofan við listann. 

Listi yfir þingmál  sem ég var fyrsti flutningsmaður að 1988-1995

1994-1995

50. atvinnuleysistryggingar (bótaréttur við endurmenntun)
51. aðgangur almennings að þingskjölum og umræðum á
Alþingi (setja allt á netið - var ekki þá)
116. reglur LÍN um nám foreldra fatlaðra barna
144. framkvæmd jafnréttisáætlunar
228. séríslenskir bókstafir í Inmarsat C
fjarskiptakerfinu
247. fjöleignarhús
250. réttarstaða fólks í vígðri og óvígðri sambúð

1993-1994

76. húsnæðisstofnun ríkisins (endurmat vaxta)
66. átak gegn einelti
77. stytting vinnutíma
130. málefni Blindrabókasafns
133. sameining barnaverndarnefnda
134. barnaverndarnefndir í fámennum sveitarfélögum
135. fagleg ráðgjöf fyrir barnaverndarnefndir
136. starfsmenn félagsmálaráðuneytisins í
barnaverndarmálum
224. meðferð Rannsóknarlögreglu ríkisins á málum er varða
kynferðisbrot
225. meðferð ríkissaksóknara á málum er varða
kynferðisbrot til dómsmrh.
236. ofbeldi í myndmiðlum
264. ráðgjöf um sambúðarslit, hjónaskilnað og forsjá
barna
265. sameiginleg forsjá
358. heilbrigðisþjónusta (trúnaðarmenn sjúklinga)
359. ráðning sjúkraþjálfara við heilsugæslustöðvar
424. námsefni í fíknivörnum
425. forvarnir gegn bjórdrykkju
523. framlög til áfengis- og fíkniefnameðferðar
524. framlög til áfengis- og fíkniefnavarna
525. framlög til forvarna í áfengis- og fíkniefnamálum
560. stjórn fiskveiða (samráðsnefnd um tillögur um
veiðiheimildir)
575. atvinnuleysistryggingar (bótaréttur við
endurmenntun)
576. aðgangur almennings að þingskjölum og umræðum á

Alþingi

1992-1993

72. sveigjanlegur vinnutími
171. áfengis- og vímuefnameðferð
172. áfengis- og vímuefnameðferð
346. sálræn heilsugæsla utan höfuðborgarsvæðisins t
385. leiðbeiningar og ráðgjöf við barnaverndarnefndir
386. börn í áhættuhópum til félmrh.
422. heilbrigðisþjónusta (trúnaðarmenn sjúklinga)
424. samvinna barnaverndaryfirvalda og annarra stofnana
426. tilsjónarmenn og stuðningsfjölskyldur
463. vinna ungmenna á vínveitingastöðum
558. stytting vinnutíma

1991-1992

114. lánsviðskipti
137. opinber réttaraðstoð
143. atvinnumál á Suðurnesjum
237. lögfræðiráðgjöf í hjúskaparmálum
380. afleiðingar sumarlokunar sjúkrahúsa
382. skýrsla Sameinuðu þjóðanna um stöðu kvenna í
heiminum
427. sveigjanlegur vinnutími
504. greiðslur til stuðningsfjölskyldna
512. skýrsla Sameinuðu þjóðanna um stöðu kvenna í
heiminum 1970--1990

1990-1991

9. átak gegn einelti
89. fræðsla um réttindi og skyldur á vinnumarkaði
95. vernd barna og unglinga
96. vernd kvenna vegna barneigna
124. neyðaráætlun vegna olíuleka
176. lánsviðskipti
300. ráðning sjúkraþjálfara í öll fræðsluumdæmi
318. meðferð opinberra mála (yfirheyrslur yfir börnum)
336. meðferð Rannsóknarlögreglu ríkisins á málum er varða
kynferðisafbrot gagnvart börnum
337. meðferð ríkissaksóknara á málum er varða
kynferðisafbrot gagnvart börnum
342. atvinnumál á Suðurnesjum
372. viðbrögð Íslendinga gegn styrjöldinni við Persaflóa

1989-1990

63. réttindi og skyldur á vinnumarkaði
66. greiðslur til framfærenda fatlaðra
67. greiðslur fyrir umönnun fatlaðra barna í heimahúsum
302. húsnæði fyrir aðstandendur sjúklinga
377. stimpilgjöld (yfirlýsing sambúðarfólks um
eignaskráningu)
413. ráðning sjúkraþjálfara í öll fræðsluumdæmi
468. meðferð opinberra mála (yfirheyrslur yfir börnum)
501. heilbrigðisþjónusta (trúnaðarmaður sjúklinga)
538. viðhald á íslenskum flugvélum

1988 (varamaður í 2 vikur)

379. réttindi og skyldur á vinnumarkaði 

Það er erfitt að velja mál úr, en samt held ég að mál sem varða:

  • kvenfrelsi
  • baráttu gegn kynferðisafbrotum
  • aðbúnað fatlaðra
  • forvarnir
  • vinnumarkað
  • álögur á fólk í banka- og húsnæðiskerfi (þær voru líka vandamál þá)
  • friðarmál

hafi verið mér efst í huga. Sum mál voru aðallega afgreidd í óundirbúnum fyrirspurnum (sem eru ekki á listanum), utandagskrárumæðum og umræðum um skýrslur ýmissa ráðherra. Þar á meðal eru til dæmis nánast öll utanríkismál, friðarmál og EES/ESB meðal annars. Ég sat í eftirfarandi þingnefndum, ýmist í tvö eða fjögur ár:

  • utanríkismálanefnd
  • sjávarútvegsnefnd
  • allsherjarnefnd (dómsmál og stjórnarskrármál m.a.)
  • heilbrigðisnefnd
  • félagsmálanefnd. 
Held að þetta svari kannski spurningunni um það fyrir hvað ég stend, því það er alltaf ágætis leið að dæma fólk af orðum sínum og verkum.

Alvöru lausnir og hókus-pókus lausnir

Í þessari efnahagskreppu sem dynur nú yfir hafa margir orðið fyrir áföllum og enn fleiri kvíða því sem fram-undan er. Það er eðlilegt. En það eru til lausnir. Bæði alvörulausnir og ónothæfar hókus-pókus lausnir.

Fyrst eftir hrunið dundu á okkur alls konar hókus-pókus lausnir. Sú vitlausasta allra var að þetta myndi líða hjá, að markaðurinn myndi jafna sig. Að þetta yrði betra á morgun því markaðurinn sæi um sína. Við vitum öll hvers konar della það var.

Í kjölfarið komu draumar um einfaldar lausnir. Helst einhverja eina aðgerð, sem myndi bjarga öllu. Við vitum auðvitað öll innst inni að þannig lausnir eru ekki til. Þess vegna er svo furðulegt að einhverjir skuli enn trúa á slíkar lausnir. Vík aðeins nánar að því á eftir. En fyrst langar mig að tala um alvöru lausnir.

Það sem þarf að gera til þess að koma samfélaginu á réttan kjöl er í raun einfalt:

  • Spara útgjöld
  • Auka tekjur
  • og gæta þess að enginn þurfi að líða skort

Við erum rík þjóð þrátt fyrir að útrásarvíkingarnar hafi skuldsett okkur í topp og kannski langt umfram það. Þess vegna eigum við ekki að þola það að nokkur í landinu líði skort, eigi ekki fyrir mat og hafi ekki öruggt húsaskjól eða peninga fyrir orkureikningunum.

Það er hægt að spara útgjöld á ýmsa vegu. Því miður þekkjum við mörg dæmi um heimskulegan sparnað. Eins og til dæmis að halda að það sé hægt að ná fram sparnaði með flötum niðurskurði. Þá er þeim refsað mest sem áður hafa sparað. Í sumum málaflokkum er ekki hægt að spara í öðrum er hreinlega hættulegt að spara. En góðu fréttirnar eru að víða hefur verið bruðlað. Þar á að spara. Það er líka skynsamlegt að spyrja þá sem þekkja til. Þrátt fyrir hrikalegan niðurskurð í heilbrigðiskerfinu er hver einasti heilbrigðisstarfsmaður sem ég þekki tilbúinn að benda á einhverjar leiðir til sparnaðar. En þeir hafa bara ekki verið spurðir - eða alla vega ekki á réttum tíma eða af réttum aðilum. Því ég heyri sömu hugmyndirnar ár eftir ár. Flest er þetta smátt og eflaust fyrirhafnarmikið að hrinda því öllu í framkvæmd. En margt smátt gerir eitt stórt.

Sömu sögu má segja í nánast öllum greinum.

Enn meiri sparnaði má ná fram með því að spara óþörf útgjöld svo sem heræfingar annarra þjóða á okkar landi, í okkar lofthelgi og landhelgi. Ég tek líka heils hugar undir með þeim sem vilja leggja niður Varnarmálastofnun og ef til vill mun sú hugmynd njóta náðar þar sem þá myndi sparast talsvert mikill peningur á einu bretti.


Það eru til lausnir

Hvað er hægt að gera í pínulitlu samfélagi þar sem allt bankakerfið hrynur á einum skrýtnum haustdegi?

Það eru til lausnir!

Þórarinn Lárusson tilraunastjóri á Skriðuklaustri var eitt sinn að ræða það sama og ég ætla að fjalla um, en mundi ekki alveg rétta líkingamálið svo hann sagði - úr ræðustól: Æ, þið vitið, bera konan með spottann! Sem sagt: Neyðin kennir naktri konu að spinna.

Nýafstaðin búsáhaldabylting og viðbrögðin við bankahruninu sýna svo ekki verður um villst að íslenska þjóðin er hugmyndarík, fersk og tilbúin að framkvæma hugmyndir sínar - strax. Það er stjórnvalda að skapa sem flestum góð skilyrði til að framkvæma góðar hugmyndir. Núverandi ríkisstjórn, sem hefur aðeins 80 daga framkvæmdatíma, hefur sýnt áhuga og snerpu. En til þess að hún geti skapað fólki, með góðar hugmyndir, réttan farveg fyrir þær - þarf hún að fá að halda áfram eftir kosningar og helst undir forystu Vinstri grænna.


Andstaðan gegn ESB kemur ekki á óvart

Eftir að hræðsluáróður ESB-sinna í haust hætti að virka - áróður sem var uppi við aðstæður sem eiga ekki sína hliðstæðu - er aftur komið jafnvægi á umræðuna og meiri hluti þjóðarinnar lýsir andstöðu sinni gegn aðild að ESB - þriðju könnunina í röð. Jafnvel í Samfylkingunni, þar sem oftast er látið í veðri vaka að engin andstaða sé fyrir hendi, er nær fjórði hver kjósandi andvígur aðild að ESB. Umhugsunarvert.
mbl.is Meirihluti andvígur ESB-umsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verð með skoðun dagsins í Meinhorninu á Útvarpi Sögu kl. 12:40 á morgun, þriðjudag

Á morgun, þriðjudag, mátulega eftir hádegisfréttir á tveimur öðrum stöðvum (sem fréttafíklar hlusta auðvitað á líka), verð ég með ,,skoðun dagsins" í Meinhorninu á Útvarpi Sögu. Þetta er 20 mínútna pistill og hefst kl. 12:40. Hvet alla sem áhuga hafa til þess að kveikja á útvarpinu og hlusta, Útvarp Saga er eins og eflaust allir vita á tíðninni 99.4.

Forval sem mun skila góðri niðurstöðu - hver sem hún verður

Það yfirskyggir ýmislegt annað í tilverunni þessa dagana að taka þátt í forvali VG í Reykjavík. Í dag var kynningarfundur frambjóðenda, feikivel sóttur fundur og ég kom með mjög góða tilfinningu í sálinni eftir þennan fund. Stuttar kynningar og heilmikið spjall á eftir. Fullt af nýju fólki komið til liðs við okkur sem höfum verið vinstri græn frá upphafi, liðsstyrkur sem áreiðanlega mun skila sér á flottan framboðslista. Vissulega er ég að stefna á eitt af þremur efstu sætunum í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu og vona að ég fái brautargengi í það. En það er góð tilhugsun að vita að hvernig sem þessum 32 frambjóðendum yrði raðað á listann, þá fengjum við ekkert minna en dúndurlista úr úr því og í framhaldi af því vil ég sjá VG í ríkisstjórn áfram, helst sem leiðandi flokk!

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband