Færsluflokkur: Bloggar
Í gegnum bloggið er draumsýn um lítilvægi staðar og stundar að rætast. Ég skal skýra þetta aðeins. Mér hefur alltaf þótt það spennandi við netið og möguleika þess að geta haft samskipti við fólk án teljandi fyrirhafnar óháð búsetu og án þess að vera njörvaður við að samskiptin eigi sér endilega stað á sama tíma.
Í tölvunarfræðinni lærðum við ýmislegt skemmtilegt um þetta, meðal annars að sundurgreina samskipti eftir því hvort þau væru ,,óháð stað, háð tíma" (msn og irkið t.d.) ,,óháð stað, óháð tíma" (tölvupóstur) og svo framvegis. Varð aldrei mjög virk á irkinu, nota tölvupóst auðvitað gríðarlega í vinnu og einkalífi, msn, fjarfundatækni og alls konar dót.
En það er í rauninni á blogginu sem ég finn mestan muninn. Er kannski farin að kynnast einhverjum ágætum bloggara, ýmist með því að vera í samskiptum eða bara með því að lesa bloggið hennar/hans reglubundið þegar allt í einu kemur í ljós að hún er stödd á Hellu (eða vinnur þar alla vega) og hann er að moka sig út úr snjóhúsinu sínu í Vestmannaeyjum einmitt núna í morgun. Og svo eru það samskiptin við ættingja og vini nær og fjær, Erna í Ameríkunni og Ólöf í Borgarfirðinum, eru bara innan seilingar.
Akureyringarnir eru reyndar flestir vel skilgreindir frá upphafi, það hefur aldrei farið á milli mála hvar nafna mín (í bloggfríinu sínu) býr, eða Ingólfur, Hlynur og þau öll, né heldur að Gurrí býr uppi á Skaga og sækir vinnu í bænum og jafnvel undirrituð sem Álftnesingur er nokkuð augljós. Steina í Danmörku, jú það hefur líka verið nokkuð ljóst, alla vega þegar veðráttan berst í tal (til hamingju með þennan góða vetur í vetur, Steina).
Þegar sms-ið náði þessari gríðarlegu útbreiðslu sem raun bar vitni kom það flestum í opna skjöldu. En einfaldleikinn og frelsið sem sms bjóða uppá skýrðu það. Bloggheimar eru annars eðlis, ég var búin að blogga í eitt eða tvö ár og hafði reyndar byrjað fyrr, áður en ég datt inn í samfélagið hér á Moggablogginu. Þróunin hér hefur verið að nokkru önnur en ég hélt, en ég er með, fáa skugga ber á þessi samskipti og mikið af notalegum viðburðum, stórum og smáum, segja mér að þetta séu bara ósköp fínir heimar. Og svo er þetta svo fljótlegt, einfalt og skuldbindingalaust allt saman!
Áfram Gurrí!
11.1.2008 | 19:15
Enginn ætlar að hætta að borða lakkrís um áramótin ... :-]
7.1.2008 | 01:09
Kosturinn við að vera með eigið blogg (einn af mörgum) er sá að það er hægt að setja eins mikið af misgáfulegum skoðanakönnunum inn. Ég ætla bara að vekja athygli á þeirri um áramótaheitin, sem enn er við lýði, og einkum finnst mér athyglisvert að enginn ætlar að hætta að borða lakkrís um áramótin, en margir (flestir) að hætta að vera svona góðir.
Þetta með lakkrísinn flaut reyndar með af sögulegum ástæðum. Þegar mér var sagt, fyrir rúmlega ári, að nú yrði ég að hætta að borða lakkrís, þá varð ég að svara því til að það gæti ég ekki gert. Læknirinn minn varð svolítið skrýtinn á svipinn, svo ég flýtti mér að bæta því við að ég borðaði ekki lakkrís og því gæti ég ekki hætt. Þetta eru reyndar sams konar hártoganir og í Lísu í Undralandi, þeirri sem ég las þegar ég var lítil, sem var spurði í geggjaða teboðinu hvort hún vildi meira te, en hún sagðist ekki geta fengið meira te af því hún hefði ekki fengið neitt enn.
En alla vega, takið þátt ef þið viljið í áramótaheita-könnuninni, ég skipti henni eflaust fljótlega út. Jólapakka, -stress, -ekki-breyta-neinu- könnunin var vinsælli hvort sem er.
Vantar nokkra klukkutíma í sólarhringinn?
2.7.2007 | 00:57
Man eftir því að góður félagi minn úr blaðamennsku skrifaði eitt sinn um það að raunverulegur sólarhringur fólks væri 25 stundir en ekki 24. Gæti skýrt hvers vegna hugur og skrokkur hlýðir ekki alltaf opinberu klukkunni.
En alla vega, hef alltaf verið skotin í eftirfarandi dæmisögu: Maður nokkur kom til spekings eins og kvartaði undan því að hann hefði aldrei tíma. Fáðu þér kú, sagði spekingurinn. Karl gerði það en ekki virkaði það. Fór aftur til sama spekings (hversu skynsamlegt sem það var) og fékk þá að vita að hann ætti að fá sér geit. Síðan koll af kolli þar til karl átti heljar bústofn. Þá kom hann örmagna til spekingsins (það hefur ábyggilega bara verið einn slíkur á svæðinu) og sagði að þetta virkaði bara ekki. Nema spekingurinn sagði honum að losa sig við öll dýrin og þá ætti hann allan heimsins tíma.
Þannig að núna, þegar ég eyði alldrjúgum tíma af og til í að blogga sjálf og skoða blogg annarra og kommentera, þá veit ég það alltaf innst inni að ég er bara að safna mér tíma, sem ég get innleyst hvenær sem er, þegar á þarf að halda. Gott að safna svona varasjóði ;-)
Blogg og ritmál
28.6.2007 | 00:52
Þetta er smá manifesto (stefnumarkandi texti frá mér - hér varðandi blogg): Blogg er ekki ritmál, heldur ritað talmál. Það er alla vega minn skilningur. Þess vegna blogga ég eins og ég tala. Stundum finnst mér textinn minn óttalega þvælulegur, stundum heiðskýr, rétt eins og ég tala stundum af innlifun og öryggi, en fikra mig stundum í gegnum setningarnar. Ef blogg væri eitthvað annað í mínum huga en skrifað rabb, þá myndi ég ekki nenna að blogga.
Fyrir manneskju sem alla tíð hefur borið mikla virðingu fyrir rituðu máli þá þurfti þrotlausa ögun og hugarfarsbreytingu til að tileinka sér þetta viðhorf. Mikla sjálfsstjórn til að ráðast ekki á allan textann og endurskrifa nánast frá grunni, stytta, snyrta, lagfæra, hugleiða inntakið og orðaröðina, skipta út óviðeigandi orðum, bara allt! Mikil þjálfun í glósum hjálpaði, msn agaði mig í spontant tjáningu með puttunum en enn stend ég mig í að breyta, leiðrétta aðeins og hnika til, þess vegna stendur svo oft ,,Breytt s.d. (sama dag)" fyrir neðan textann minn ;-) en þetta er allt að koma.
Þarf að hugsa stjórnmálin og samfélagið upp á nýtt?
3.2.2007 | 03:10