Færsluflokkur: Bloggar
Helgin afturundan
13.7.2008 | 21:29
Myndir frá sólríkum degi og sumarlegu útskriftarpartíi
5.7.2008 | 23:13
Hélt loksins smá útskriftarpartí fyrir allt liðið sem hefur verið að ganga í gegnum þetta nám með mér að undanförnu, og líka bara til að ná saman fjölskyldu og vinum meðan Hanna og Nína eru báðar samtímis á landinu. Alla vega þá var afslappað og notalegt hjá okkur hér í dag og ég treysti því að allir hinir hafi átt jafn notalega stund og ég. Miklu fleiri myndir komnar á Facebook, fyrir ykkur sem eruð þar.
Bjössi, Anna, Nína og Ari
Elísabet
Kjartan og Sveinn Rúnar bregða á leik
Nína, Elísabet og mamma
Elísabet, Nína, Unnur, mamma og Sæunn tengdamamma
Frændur að leik, Baldur og Skarphéðinn
Við Sæunn súperbloggari (ekki komin á Moggabloggið)
Mamma og Óli
Stína, Hanna og Gurrí
Jú, Borgarfjörðurinn beið mín bjartur og fagur
4.7.2008 | 20:04
Skrapp úr Borgarfirðinum um miðjan dag á þriðjudag en kom hingað aftur upp úr hádegi í dag, áður en þunga umferðin brast á, Ari var seinna á ferð og fékk smá skammt af ferðaumferðinni. Hlýr og góður dagur, gestaboð hér í sveitinni á morgun (í tilefni útskriftarinna, sumarsins og bara til að njóta þess að vera til).
Fann rosalega fallegan bekk á góðu verði í Húsasmiðjunni og hlakka til þegar við gefum okkur tíma til að setja hann saman. Hann kom í flötum pakka og verðið eftir því, alveg frábært, held að hann muni passa vel hér í þessu umhverfi. Annars verða smíðaðar tröppur hér í fyrramálið en Ari er reyndar í útreiðatúr í augnablikinu. Best að fara að smyrja smá bakkelsi fyrir morgundaginn.
Hélt að svona menn væru ekki framleiddir lengur ... Neytandi neitar að sitja undir fordómum afgreiðslumanns
3.7.2008 | 02:03
Var næstum búin að gleyma að henda þessari (sönnu) sögu inn og kannski hafa einhverjir fleiri fengið svona afgreiðslu:
Ætlaði að taka bensín á Olís-stöðinni í Ánanaustum í dag. Ók að þjónustudælu og sá þegar ég var komin þangað að ég hafði keyrt of langt (þarna var sem sagt bara eitt stæði við dæluna en ekki tvö eins og víðast hvar) svo ég spurði manninn sem kom að afgreiða mig hvort ég ætti ekki að færa bílinn til baka. Það umlaði eitthvað í honum og svo sagði hann stundarhátt og ofurfúll: - Þetta er svona alltaf hjá ykkur konunum!
Hmmmm, ég starði á manninn og sagði svo bara: - Ég er farin, við skulum bara sleppa þessu, - og fór. Ég var svo steinhissa að hitta svona eintak um hábjartan dag og venjulega tautar maður bara eitthvað og lætur svona kjaftæði yfir sig ganga. En ég er greinilega að verða alveg ótrúlega meðvitaður neytandi og neita að sitja undir fordómum vansæls og/eða illa upplagðs eða upp alins afgreiðslufólks (þessi var reyndar á þeim aldri að hann er eflaust búinn að gleyma uppeldi sínu). Í sjálfu sér ætti ég að hætta að versla við fyrirtæki sem hefur svona fólk í þjónustu sinni, en ljúflingarnir hjá Olís í Garðabæ eiga það engan veginn skilið og reyndar endaði ég með því að fá tankinn fylltan þar og mætti eins og venjulega engu nema ljúfmennsku. Á nokkrar uppáhaldsbensínstöðvar, reyndar hjá fleiri en einu olíufélagi.
Þetta er í annað skipti (og meira að segja á sama árinu) sem ég ákveð að láta ekki hvað sem er yfir mig ganga - þótt ég sé bara einn lítill neytandi þá getur vel verið að einhverjir fleiri neytendur finni fyrir sama viðmóti og færi viðskipti sín annað.
Spurning hvort þessi maður myndi segja við viðskiptavin sem kæmi á bíl, til dæmis mertkun X-D: - Þetta er svona alltaf hjá ykkur Sjálfstæðismönnunum!
Hvort er nú betra að horfa á vegginn eða Skarðsheiðina?
28.6.2008 | 01:53
Held að flestir geti ímyndað sér svarið við þessari spurningu. En ástæðan fyrir því að ég spyr er sú að ég er búin að vera á hálfgerðu flakki með skrifborðið mitt hér uppi í sumarbústað. Lengi vel var það inni í minna svefnherberginu, sem var ekkert mjög skynsamlegt fyrirkomulag, þar sem ýmsir sofa þar sætum svefni. Þá fann ég því ágætan stað inni í stofu, en gallinn er sá að þar horfði ég beint á vegginn og var með þetta frábæra útsýni í bak og á hlið, sem ég horfi lítið með. Nú er ég búin að finna alveg frábært fyrirkomulag og svona held ég að þetta verði, hefur líka þann kost að ég get dúkað skrifborðið og notað það við gestakomur, sem satt að segja eru allmargar hér í þessum yndislega sumarbústað. Og núna horfi ég á Skarðsheiðina út um gluggann, hlusta á fuglasönginn og næturvakt Guðna Más í útvarpinu (fuglarnir ögn háværari en blúsaði gamalrokkarinn sem er að reyna að syngja).
Hér verður nefnilega annað heimili mitt alla vega í sumar og frábær vinnustaður fyrir free lance sagnfræðing, tölvunarfræðing og blaðamann. Annars
Einmitt mjög hamingjusamur fæðingardagur
4.6.2008 | 22:23
Robbie frændi á Nýja Sjálandi (ömmur okkar eru systur) sendi mér himneska afmæliskveðju á Facebook: Hamingjusamur fæðingardagur! Og það er einmitt það sem afmælið mitt í dag var, mjög hamingjusamur fæðingardagur. Við Hanna röltum út í skóg neðan við háskólann eftir matinn á Palma. Mjög yndislegur skógur með froskahjali. Kysstum engan enda enginn á höttunum eftir prinsi.
Afmælisbarnið á Palma
Hanna á skógargöngu
... og froskarnir voru hver öðrum fjörugri
Tvær hliðar á lífinu í Borgarfirði
12.5.2008 | 13:42
Fegurðin allt um kring hér í Borgarfirðinum er síbreytileg. Til austurs er fimm jökla sýn (ef maður telur hið jökulhettulausa Ok með) og þótt smá skýjahula sé yfir sendi ég nýjasta skotið úr vélinni í austurátt, alltaf jafn fallegt, móarnir eru blautir eftir rigningar vorsins, klettaborgirnar hér eru háar sem lágar og alltaf síbreytilegar og í fjarska bæði fjöll og syðstu jöklarnir. Sá nyrsti og tignarlegasti, Eiríksjökull, er í Hvítasunnufríi.
En ef ég horfi beint til vesturs úr sætinu mínu er auðvitað ekki annað að sjá en verkefni dagsins. Handan við vegginn er fallegi kletturinn okkar við gljúfrið, sem ég hef stundum sett inn myndir af. Læt þetta duga í bili.
Netvæðing Gljúfraborgar - bloggað úr bústaðnum
11.5.2008 | 21:56
Blogg dagsins
25.4.2008 | 14:53
Blogg dagsins veit ekki alveg hvað það ætlar að verða þegar það verður stórt. Það verður kannski aldrei stórt, því þótt stundum teygist úr litlum bloggum sem byrja sakleysislega, þá er þetta ekki eitt þeirra. Nóg að gerast í samfélaginu, hef meira að segja séð stöku sjónvarpsskot, sorglegu atburðina við Rauðavatn oftast á undanförnum dögum, enda sjóvarpsgláp komið yfir á netið að mestu í bili. En það er búið að blogga það mál í tætlur, bendi enn á linkinn á blogg Birgittu Jónsdóttur sem meðal annars vísar á YouTube skot em ekki er sómi af. Að undanförnu hef ég verið að reyna að blogga frá mér (með mis-merkilegum árangri) það sem mest hvílir á okkur fjölskyldunni þessa dagana, alvarleg veikindi í nánasta vinahópnum okkar, en það er bara ekki alltaf hægt. Svo kannski er ég komin að þeim punkti að tímabundið blogghlé er óhjákvæmilegt.
Yfirleitt kemur það sér illa ef netið dettur út, sem gerist auðvitað aðeins um helgar, eða svo finnst mér alla vega. En í dag var ég netlaus í allmarga klukkutíma og svo heppilega vildi til að ekkert sem ég vissi um hvíldi á mér, var búin að senda sjálfri mér nýjasta textann sem ég var að skrifa (vinnan mín og það sem eftir er af námi byggjast á að skrifa) í tölvupósti og engar nýjar viðbætur eftir það, auk þess em USB lyklar eru alltaf til, því tölvan var á sínum stað. Þannig að ég átti bara nokkrar góðar stundir án netsins, en held ég hafi verið ein heimilismeðlima sem þetta ástand háði ekki að marki.
Nokkrum sinnum hef ég fjallað hér á blogginu um þessi aðfanga- og úrvinnslutímabil sem koma í öllum verkefnum og reyndar í tilverunni eins og hún leggur sig. Aðfangatímabilin krefast oft vinnu á dagvinnutíma og mikilla samskipta en afraksturinn er ekki eins sýnilegur. Úrvinnslutímabilið er yfirleitt skemmtilegra, þá er uppskeran að sýna sig. Og núna er ég á fullu í úrvinnslu á öllu því efni sem ég hef verið að sanka að mér að undanförnu. Klikkaði reyndar smá tíma á einu grundvallaratriði, mér finnst alltaf best að skrifa á nóttunni. Í þetta sinn var ég búin að vera svo lengi að vinna (sjálfstætt) á dagvinnutíma að ég hélt að ég gæti alveg eins skrifað á daginn. Og rembdist, og rembdist, þar ég ég loks gafst upp og fór að skrifa á nóttunni, eftir góðan morgunsvefn, afgreiðslu á praktískum málum svo sem símtölum og tölvupósti milli þrjú og fimm síðdegis, fínan síðdegisblund og smá sjónvarpsgláp áður en ég hófst handa. Frá því ég hætti að streitast á móti þessu vinnulagi sem hentar mér svona ljómandi vel, þá hafa skriftirnar gengið vel. Stundum kíki ég líka á tölvupóstinn áður en ég fer að sofa undir morgun, en ég vinn svo sem ekki alltaf fram á morgun. Reyni að sofa þegar ég er þreytt og vaka þegar ég er í vinnustuði, og þetta er bara svo ljómandi gott.
Hef alltaf verið afskaplega trúuð á að góður svefn geri vinnuna auðvelda (og svo er oft svo skemmtilegt að sofa, einkum ef draumarnir eru spennandi), en hins vegar geta góðar vökulotur verið mjög gagnlegar líka. Oftast hafa þær verið í sambandi við vinnulotur þegar ég er að ljúka verkefni, á meðan ég sinnti grafík að einhverju gagni var varla hægt að hefjast handa upp á minna en 20 stundir í senn og svo vann ég í nokkur ár með mjög skemmtilegu liði (hjá Betware) sem átti það til að vaka saman fram á morgun og skemmta sér í góðra vina hópi, það má heldur ekki vanmeta slíkt. Stöku sinnum tek ég líka svoleiðis tarnir með vinum, fjölskyldu og/eða ættingjum og það er gott ef allir eru í aðstöðu til að greiða svefnskuldirnar sem safnast upp. Ég er ekkert undrandi á þeim rannsóknum sem ég hef verið að lesa seinustu misserin um að hægt sé að greiða svefnskuldir eftir á eða jafnvel að safna upp svefninnistæðu. Grínaðist lengi með það ef ég fékk mikla svefnþörf að nú væri eitthvað að fara að gerast og ég í fyrirbyggjandi svefnuppsöfnun. Meira að segja einhver læknir hjá Ophru var víst að segja um daginn að hún svæfi hiklaust í 15 stundir ef henni fyndist hún þurfa á því að halda. Einmitt það sem ég leyfði mér á laugardaginn, endurnærð og nú er líka gott að halda áfram að vinna, eitthvað fram á morgun.
Eitt enn, þegar ég er í 9-5 vinnu (sem oft hefur gerst, jafnvel árum saman) á nánast ekkert af þessu við. Og ég er líka sannfærð um að fólk er misjafnt að þessu leyti, A-fólk, B-fólk og svo fólk eins og ég sem er ábyggilega C. Fyrir suma er reglulegur svefn áreiðanlega í öllu tilfellum réttur. Sumir verða hreinlega niðurdregnir á óreglubundnum svefni, en þá held ég reyndar að ekki eigi við það sem ég get (oftast) leyft mér, að vera í aðstöðu til að sofa þegar viðkomandi er þreyttur og vaka þegar vinnustuðið er gott. Það eru ákveðin forréttindi að vinna hjá sjálfum sér, en harðari húsbónda (húsmóður) er erfitt að finna, undir það veit ég að margir geta tekið.