Blogg og ritmál

Þetta er smá manifesto (stefnumarkandi texti frá mér - hér varðandi blogg): Blogg er ekki ritmál, heldur ritað talmál. Það er alla vega minn skilningur. Þess vegna blogga ég eins og ég tala. Stundum finnst mér textinn minn óttalega þvælulegur, stundum heiðskýr, rétt eins og ég tala stundum af innlifun og öryggi, en fikra mig stundum í gegnum setningarnar. Ef blogg væri eitthvað annað í mínum huga en skrifað rabb, þá myndi ég ekki nenna að blogga.

Fyrir manneskju sem alla tíð hefur borið mikla virðingu fyrir rituðu máli þá þurfti þrotlausa ögun og hugarfarsbreytingu til að tileinka sér þetta viðhorf. Mikla sjálfsstjórn til að ráðast ekki á allan textann og endurskrifa nánast frá grunni, stytta, snyrta, lagfæra, hugleiða inntakið og orðaröðina, skipta út óviðeigandi orðum, bara allt! Mikil þjálfun í glósum hjálpaði, msn agaði mig í spontant tjáningu með puttunum en enn stend ég mig í að breyta, leiðrétta aðeins og hnika til, þess vegna stendur svo oft ,,Breytt s.d. (sama dag)"  fyrir neðan textann minn ;-) en þetta er allt að koma.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Hvað segir þú um breytingar 5 mín. eftir skrifaða færslu?  En mikið ári er þetta mikill "eye-opener" þessi skýring á hvað blogg er fyrir þér og það er auðvitað svo augljóst þegar þú segir það.  Hef átt í verulegum átökum við sjálfa mig vegna sömu vandamála og þú en held að ég sé orðin sátt við stílinn minn í bili.  En þetta er svo skemmtileg hugarleikfimi að skipta um ham og "sollis". Takk!

Jenný Anna Baldursdóttir, 28.6.2007 kl. 01:03

2 identicon

Ég á enn langt í land að ná þessu (íslenskukennarinn í mér til margra áraer oft til stórvandræða) - en mjakast - mér finnst alveg eins og þér að blogg sé spjall ekki skrif - en ég er þrjósk og þetta hlýtur að rjátlast af manni (konu) á endanum

Anna Ólafsdóttir (anno) 28.6.2007 kl. 01:29

3 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Mitt ,,manifesto" þarf auðvitað ekkert að gilda fyrir alla aðra, ég les meitlað ritmál og miklu augljósara talmál en mitt eigið (jafnvel með nokkrum stafsetningarvillum) með jafn mikilli ánægju því það er innihaldið sem skiptir mig máli. Hins vegar myndi ég ekki blogga sjálf nema á þessum forsendum að leyfa orðunum að renna undan puttunum og helst að hafa fáar innsláttarvillur. Ef einhver getur notað skilgreininguna mína sem ramma fyrir sig, þá þykir mér auðvitað vænt um það, en það er sko ekki tilmæli til eins eða neinnar. Og svo breyti ég ennþá og snyrti smá, jafnvel með 5 mínútna millibili, ég játa það fúslega, en skiptunum fer fækkandi.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 28.6.2007 kl. 02:12

4 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Æjá, fyndið hverju ég þurfti að breyta eftir 5 mínútur, það var nefnilega þannig að ég skrifaði fyrst ,,Síðast breytt" vistaði og sá svo að það átti að standa ,,Breytt s.d. (sama dag)" svo ég breytti því auðvitað

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 28.6.2007 kl. 02:16

5 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Og eitt sem ég var að fatta, þótt ég segi (réttilega) að ég lesi ritmál og ýkt talmál með villum af jafn mikilli ánægju, efnisins vegna, þá er það samt kannski ekki tilviljun að mér finnst þægilegt að lesa til dæmis bloggið ykkar, Jenný og Anna, þjálft og rennur vel og annað gott dæmi er Gurrí vinkona.

Það hentar örugglega ekki sama stíllinn fyrir alla og svo breytist málfarið meira að segja eftir tilefnum. Þegar ég er að kenna (svona einn til tvo tíma á ári), þvælast með gönguhópa, svona 1-5 sinnum á ári reyni ég að tala frekar skýrt og hnitmiðað en svo er svo þægilegt að geta bara bullað, slett og ruglað með vinum sínum. Man hvað það var mikið frelsi eftir 4 ár í MR með eðalíslensku og þéringar að vopni að komast í Myndlista- og handíðaskólann og þó aðallega í Háskóla íslands og geta allt í einu slett og sullað í málinu. Ekki nóg með að maður gæti slett alls konar erlendum orðum heldur mátti líka tala í skipulagslausri orðaröð. Þvílík frelsun, ég var smá stund að finna minn gullna meðalveg og hann hefur verið hlykkjóttur og farið um hæðir og lægðir. 

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 28.6.2007 kl. 02:29

6 Smámynd: krossgata

Góður punktur.  "Ritað talmál". 

Eins og netsamskipti geta verið skemmtileg og gaman að lesa sumt, þá hefur það (ritaða talmálið) hamlanir.  Það er erfitt að lesa hljómfall og áherslur og er þá farið að notast við broskalla (broskarla er líklega réttara að skrifa), jafnvel koma fyrirmæli um hvernig skuli lesa tilteknar setningar eða orð.  (Lesist: svona eða hinsegin).  Þetta er allt að verða risastórt leikrit.  

Hafðu bestu þakkir fyrir, oft á tíðum, skemmtileg skrif.

krossgata, 28.6.2007 kl. 09:47

7 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Eitt mikilvægasta við blogg er tengingar... blogg er stiklutexti og þannig ekki línuleg frásögn eins og hefðbundið ritmál. Talmál er reyndar líka oft ólínulegt.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 28.6.2007 kl. 12:29

8 Smámynd: Jakob Smári Magnússon

Þetta eru hressandi umræður um bloggið. Ég á það til að týna mér í orðavali og orðaröð og þarf gjarnan að breyta færslunum mínum eftir á. En það eru þá reyndar aðallega stafsetningar- eða innsláttarvillur sem ég laga. Þær þoli ég svo illa. Ég hef meira að segja lent í því að vilja laga kommentin mín á bloggsíðum annara en það er auðvitað ekki hægt. Ég þjáist sennilega af fullkomnunarárattu.

Jakob Smári Magnússon, 28.6.2007 kl. 15:56

9 Smámynd: Jakob Smári Magnússon

Ansans .. ég skrifaði "fullkomnunarárattu" í stað "fullkomnunaráráttu". Vantaði heila kommu.

Jakob Smári Magnússon, 28.6.2007 kl. 15:59

10 Smámynd: Ólafur Björn Ólafsson

Það er gaman að lesa þessar pælingar um bloggið.

Ég er hins vegar einn af þeim sem hefur tileinkað sér það að skrifa ekki inn á síðuna hjá mér fyr en ég hef handskrifað fyrst það sem ég vil segja. Þetta er gert með það í huga að þurfa ekki að breyta eftir 5. mín.

Reyndar er það svo að þegar ég hef lokið við að handskrifa og byrja svo að skrifa á síðuna, þá breytist orðavalið æði oft. Það verður þó ekki til að ég breyti því sem ég hef vistað á síðuna.

Ólafur Björn Ólafsson, 28.6.2007 kl. 21:49

11 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Skemmtileg innslög í umræðuna, það er hægt að velta málinu fyrir sér endalaust og skilgreina í ræmur en bloggið mun þróast í sína eigin átt og áreiðanlega koma okkur á óvart.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 28.6.2007 kl. 21:57

12 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Sammála þér, þetta er ritað talmál. Góðar pælingar!

Guðríður Haraldsdóttir, 28.6.2007 kl. 21:59

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband