Færsluflokkur: Bloggar
Bein SILFUR-útsending fyrir okkur í pestinni
27.8.2008 | 16:34
Spennandi haust (?)
27.8.2008 | 01:12
Ég held að haustið framundan eigi eftir að vera spennandi. Fyrstar skal nefna forsetakosningarnar í Bandaríkjunum, sem að vísu virðast ætla að verða óþarflega spennandi. Gjarnan vildi ég að við hefðum betri tryggingu fyrir batnandi tíð, það er lok repúblikana-tímabilsins, en í staðinn fáum við spennu. Ennfremur eru mörg álitaefni varðandi þróun borgarmála og erfitt að henda reiður á hvernig til dæmis varðveislu húsa verður háttað undir þessum nýja meirihluta, aðeins skýrara (og verra) er þó að svo virðist sem Birtuvirkjun sé ekki alveg úr myndinni. Annað sem er ákaflega spennandi er þetta hálfkreppuskeið sem nú er skollið á, bæði alþjóðlegt og innlent. Mér finnst almennt á fólki að það ,,nenni" ekki kreppu og langi að rífa sjálft sig og samfélagið upp úr þessu ástandi, en því miður dettur mörgum ekki annað í hug en það sem upphaflega olli hluta af kreppunni, það er meiri þensla.
Hef eflaust nefnt það hér áður á blogginu, sem ég heyrði reyndar á enskri tungu fyrst, það er að setningin: May you live in interesting time, væri í rauninni kínversk bölbæn. Hvað til er í því veit ég ekki, hef ekki einu sinni googlað þetta, því það er hugsunin sem mér finnst allrar athygli verð, hvenær verða viðburðir svo markverðir að þeir geti varla verið góðir? Ja, alla vega er viðburður morgundagsins, móttaka handboltalandsliðsins, sem pestin mun kannski hindra mig í að taka þátt í, jákvæður viðburður og býsna stór.
Síðsumarpestin, veðrið og lýsi eftir þriðju ljóðlínunni, takk!
25.8.2008 | 20:35
Mér heyrist á vinum og ættingjum að önnur hver manneskja sem með þessa hálfvolgu haustpest, sem ég leyfi mér að kalla síðsumarpest, vegna þess að ég er ekki aldeilis tilbúin í haustið strax. Veðrið er hins vegar aðeins að daðra við hlýtt haust, en það er fullkomlega ótímabært. Mér finnst eiginlega að þessi blessuð pest, sem stoppar mig svo sem ekki af í mörgu, þótt ég hafi guggnað á einu afmæli á laugardaginn, sé eins og vísan góða um veðrið sem mér finnst alltaf skemmtileg (vísan, ekki veðrið). En nú sé ég reyndar að ég er búin að gleyma þriðju ljóðlínunni en treysti á ykkur bloggsamherjar að bjarga mér um hana og fylla inn í punktalínurnar:
Veðrið er hvorki vont né gott
ekki kalt og ekki heitt
.... (né heldur) ....
það er svo sem ekki neitt.
Smá viðbót, Sæa, tengdamamma mín hringdi inn hvernig hana minnir að vísan sé:
Veðrið er hvorki vont né gott
ekki kalt og ekki heitt
það er hvorki þurrt né vott,
það er svo sem ekki neitt.
Mér líst ágætlega á þessa tillögu og býð alla vega ekki betur í bili.
Í athugasemdakerfinu kom smá bragarbót á upprunalegu línurnar sem ég setti fram en með þriðju línunni eins og Sæa lagði til. Þessi breyting er ágætlega rökstudd og er frá Hlyni. Hér er sú útgáfa og nánari útlistun í athugasemdakerfinu:
Veðrið er hvorki vont né gott,
varla kalt og ekki heitt.
Það er hvorki þurrt né vott,
það er svo sem ekki neitt.
Skipt um hraða
22.8.2008 | 02:07
Dagur á 100 km hraða (nei ekki Dagur Eggertsson heldur dagurinn í gær)
21.8.2008 | 10:34
Freudisk mistök
18.8.2008 | 19:43
Beit það í mig þegar kvöldaði að gögn sem mig bráðvantaði væru uppi í bústað. Ekki um annað að gera en að skjótast þangað, þótt ég sé skyldum hlaðin heima við eins og sakir standa. Þessi gögn eru auðvitað alls ekki hér, en ég er hér, skrýtið ;-)
Óvænt tilviljun ræður því lika að það sem ég ætlaði að gera í kvöld frestast um einn dag eða svo, vegna ástæðna sem ég stjórna ekki. Þannig að ég ætla að vakna hér í fyrramálið, hress og kát, ná mér í smá sól ef hún skín (spáin bendir til þess) og bruna svo í bæinn og halda áfram að sinna því sem ég er búin að taka að mér í nokkra daga og heldur mér (svona mestanpart) í bænum, þótt Álftanesið okkar sé nú ekki alveg í bænum og yndislegt bæði sumar og vetur. Eina sem vantar þar er lynglyktin og sumarhitinn sem stundum verður í innsveitum og sjaldan annars staðar. Timburlyktin í bústaðnum er líka sérstök, ég þarf kansnki bara að eyða meiri tíma uppi á lofti heima, þar bregður henni fyrir, þótt það sé ekki eins greinilegt og hér.
Um það bil um leið og ég fer héðan fer Hanna með sína vini hingað uppeftir til tveggja daga sælu, ég náði þó alla vega að hafa pottinn tilbúinn fyrir þau í leiðinni. Og þetta sem ég fann ekki heima er þá alla vega þar, ég er sennilega að leita að rangri möppu utan um gögnin, en aðallega held ég þó að bústaðurinn hafi verið farinn að toga ansi fast í mig, eftir heilla þriggja daga fjarveru.
Himnesk (og nett hallærisleg) Mamma mia, lyklaborðið langþráða, Clapton í réttri röð og HVAÐ ER EIGINLEGA AÐ GERAST Í ÞESSUM LEIK?????
18.8.2008 | 02:07
Einstaka sinnum bít ég það í mig að vilja sjá myndir í bíói, en ekki í tölvunni eða á DVD. Mamma mia er ein af þeim. Loksins í kvöld var ég í bænum og gaf mér tíma til þess að fara og þetta var bara fjör. Þetta er sem sagt alveg eins frábær mynd og ég átti von á, Abba var reyndar aldrei mín tónlist, en heldur ekki tónlist sem mér fannst leiðinleg, síður en svo. Man þegar Waterloo sigraði Eurovision og var alveg himinlifandi yfir því, eitt besta ef ekki besta sigurlag þeirrar keppni. Og á eftir komu margir skemmtilegir, svolítið vélrænir, en flottir smellir. Og alltaf gaman. Leikararnir alveg æði, mér fannst unga leikkonan (Amanda Seyfried) sem lék hina verðandi brúði vera bráðskemmtileg. Svo voru þarna auðvitað þvílíkir þungavigarleikarar að það þarf ekkert að hafa fleiri orð um það mál. Meryl Streep og kallarnir flottu (sem voru hreint himneskir í loka-söngatriðinu). Auðvitað er þessi mynd til þess fallin að bera saman sætu, miðaldra kallana og Colin Firth og Pierce Brosnan eru auðvitað frægir hjartaknúsarar (reyndar er gaman að sjá hina hliðina á þeim síðarnefnda í Mrs. Doubtfire, en það er önnur saga). En ég hef alltaf haft ,,soft spot" fyrir Stellan Skarsgaard, sem seint verður talinn til ofursjarmöra, hann á mörg grípandi hlutverk að baki og nær manni lúmskt, meira að segja í erfiðu rullunni sinni í Brimbroti (Breaking the Waves). Mér finnst alltaf nett hallærislegt þegar nútímafólk brestur í söng í miðri setningu í kvikmyndum, en þetta var bara sætt hallærislegt. Verra þegar ég fór að sjá hina ofurlistrænu Regnhlífar í Cherbourg um árið, í Austurbæjarbíói, og bensínsölugæinn söng meira að segja: Hvað viltu marga lítra?
Að öðru, litlir sigrar eru alltaf svolítið skemmtilegir. Ég rakst á alveg óborganlega sniðugt lyklaborð, bleikt eins og tölvan mín, og upprúllanlegt. Þetta fann ég sem sagt í búðarglugga í London í lok maí, en því miður, það var ekki til!. Komdu á mánudag, sagði fanturinn í búðinni og ég var mjög sár, var ekkert að hanga í London (sem ég þó elska) fram á mánudag. Reyndi að kaupa sýningareintakið en hann var alveg hjartalaus þessi. Ég er búin að finna ýktari útgáfu af þessu lyklaborði, og það á tæpan fimmtánhundruð kall í Rúmfatalagernum (of all places), pakkað í plastbox, og ég snarsnerist á hæl eftir að vera búin að borga borðdúkinn og skærin, sem fór í búðina til að kaupa. Og trommaði út með íslenskt lyklaborð, aðeins bleikara en þetta í glugganum á Tottenham Court Rd. en það er bara betra. Og svo get ég rúllað því upp eins og fötunum mínum ef ég er á leið í ferðalag, sem er bara fjör! Og það virkar meira að segja.
Kom við í Hagkaupum og keypti í matinn og nánast datt um Clapton ævisöguna á leiðinni út, stakk henni í körfuna líka. Er byrjuð á henni og ánægð með það hvað hann skrifar mikið um tónlistina í lífinu, eftir blaðafregnum að dæma átti þetta að vera óvægin sukksaga og þess vegna var ég harðákveðin í að ég ætlaði ekki að vera búin að lesa hana áður en ég færi á tónleikana í Egilshöll. En það hefði alveg verið óhætt að lesa fyrstu kaflana alla vega, þessa sem ég er búin með.
Kíkti sallaróleg á íþróttir í Mogganum til að sjá stöðuna í leiknum, hún var 27:29 og ekki fyrir okkur!!!! ... en sem sagt, þeir (strákarnir okkar) mörðu jafntefli á seinustu sekúndum. Hjúkk og æ. Langar ekki að horfa og/eða hlusta, þessi moggatextalýsing er svona nokkurn veginn það sem maður þolir.
Þetta er samt enn meira smekkur Gurríar, þannig að það fær bara líka að fljóta með
12.8.2008 | 10:38
Þjófar í paradís, þrjár kindur staðnar að verki!
9.8.2008 | 20:06
Viðkvæmum er ráðlagt að lesa þetta ekki, þarna er ákveðið ofbeldi á ferðinni, ekki þegar ég rak kindurnar burtu, heldur át þeirra á blásaklausum trjánum sem ég hef gróðursett fyrir aftan bústaðinn okkar. Sem betur fór björguðust flest laufin: