Færsluflokkur: Bloggar
Janúardagar
16.1.2009 | 16:16
Hversdagslífið hefst aftur á morgun - og það er bara ágætt
4.1.2009 | 22:55
Hækkandi sól, jól, og bráðum koma áramót, en undirliggjandi hótun um að árið 2009 verði það versta. Listi yfir góðu árin og vondu árin, mátulega óvísindalegur.
23.12.2008 | 01:29
Eins og ég elska skammdegið, að því tilskyldu að færðin sé fólki bjóðandi, þá finnst mér alltaf svolítill áfangi í því fólginn að sólin taki að hækka á lofti. Sérstaklega þegar ég er stödd á þeim stað í lífinu að ég fari til vinnu á sama tíma á morgni, þá er svo mikill munur á seinustu dögunum fyrir jól og fyrstu dögum næsta árs.
Ég veit ekki hvort ég er beinlínis komin í jólaskap, en lífið er komið í allt aðrar skorður en venjulega, eins og oftast fyrir jól, og venjulega endar sú törn á því að jólaskapið hellist yfir mig eins og ég veit ekki hvað!
Margir hafa haft á orði að þeir verði þeirri stund fegnastir þegar þetta furðulega ár verður um garð gengið. Veit ekki alveg hvða mér finnst um það, en það pirrar mig svolítið hvað það er greinilega verið að reyna að búa mann undir frekari kjaraskerðingu og gjaldtöku með því að minna á að árið 2009 verði verra, en svo segja sumir að þetta fari nú að skána. Það á sannarlega eftir að fara ofan í saumana á ýmissi ákvarðanatöku á næstunni, ekkert síður en að rannsaka þau afglöp og hugsanleg afbrot sem framin hafa verið.
Þótt ég viti að talnaspeki byggi á öðrum útreikningum hef ég oft skoðað í huganum hvernig árin hafa verið, persónulega, á áratugar fresti. Og samkvæmt því eru árin sem enda á 8 ekki alveg þau bestu, stundum heldur vond, þótt á því hafi verið undantekningar. Árið þegar tímabili lýkur, stundum með meiri trega en á öðrum tímum.
- 1958: Foreldrar mínir skildu.
- 1968: Pabbi dó.
- 1978: Hef ekkert upp á það ár að klaga en var smábarnamamma og ólétt meira en hálft árið - tímabil klárast og ég lauk BA-prófi á árinu.
- 1988: Free-lance vinnan mín í harðri baráttu við félagsmálin og fjárhagurinn leið fyrir það
- 1998: Aftur free-lance og á milli verkefna, óvenju rýrt ár fjárhagslega.
- 2008: Andlát Ása vinar okkar. Mikill dráttur á að verkefni sem ég átti að fara að vinna í færi af stað, með tilheyrandi óvissu og óþægingum - tímabil klárast (eins og 1978) og ég klára M.Sc. prófið mitt í tölvunarfræði.
Árin sem enda á 9 hafa hins vegar verið með betri árum í lífi mínu og ég treysti því að svo verði einnig núna. Oft ár nýs upphafs.
- 1959: Eyddi hálfu árinu með mömmu og ömmu á Spáni, heimsókn frá tilvonandi fóstra mínum þangað var líka góð. Byrjaði í barnaskóla, sem var bara gaman.
- 1969: Byrjaði að eyða sumrum í sveitinni minni, Sámsstöðum í Fljótshlíð, en þaðan á ég alveg yndislegar minningar.
- 1979: Strákurinn minn fæddist og ég átti góða tíma með krökkunum, tókst að skrifa stutta skáldsögu sem ég las í útvarp ári síðar. Var með útvarpsþætti um bókmennir allan veturinn, missti ekki úr þátt þrátt fyrir barnsfæðingu.
- 1989: Hélt út í það ævintýri að verða þingkona fyrir Kvennalistann og fór (fyrr á árinu) í hnattferð með mömmu að heimsækja Möggu frænku á Nýja-Sjálandi.
- 1999: Var að vinna fyrir Sandgerðisbæ og skrifaði í kjölfarið sögu Miðneshrepps og Sandgerðisbæjar frá 1907, sem kemur vonandi út (loksins) á næsta ári. Fórum til Las Vegas um veturinn og það varð fyrsta skrefið í átt að nýjum siðum, sumarfríum á veturna, snilldarfyrirkomulag.
- 2009: Vona að þetta verði skemmtilegt ár ...
Hvernig er þetta hjá ykkur? Eigið þið ykkar uppáhalds-ár? Eða eruð þið dottin í jólastressið og lesið ekki blogg.
Hógvær og heillandi kona
23.12.2008 | 00:35
Votta fjölskyldu Halldóru samúð mína. Halldóra var ekki kona sem tranaði sér fram en ég held að hún hafi notið virðingar allra sem höfðu samskipti við hana og eflaust langt út fyrir þær raðir. Tel það heiður að hafa verið sveitungi hennar um stund.
Alþingi minntist Halldóru Eldjárn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dýrin í lífi okkar - mestmegnis um ketti
20.12.2008 | 01:43
Veit ekki hvort það er nánd jólanna eða eitthvað annað, en mér verður hugsað til dýranna í lífinu þessa dagana. Simbi liggur á rauðum púða við hlið mér og er eina dýrið sem eftir er hér heima. Indælis köttur, mjög street-smart, alinn upp annars staðar í fjölskyldunni, en kom til okkar sem sumardvalarköttur og var fyrst í stað tekið frekar illa af hinum tveimur sem voru heimilisfastir hjá okkur þá stundina. Annað sumarið hans hér rættist úr því og síðan hefur hann búið hér hjá okkur og er bara sæmilega sáttur með okkur, held ég. Hann tekur blíðuköst af og til en er frekar sjálfstæður inn á milli.
Ein kattafjölskylda hefur fylgt okkur öðrum fremur, amman, Kría, var sumardvalarköttur hjá okkur fyrir meira en tuttugu árum, við fengum kettling undan henni, hinn stórkostlega Bjart (sem yfirleitt var kallaður ,,Bjartur og fagur") og var einn blíðasti köttur sem um getur. Hann eignaðist dóttur, með læðu úr sömu kattafjölskyldu, Fjólu hinni fögru, sem Gurrí stórbloggari átti. Dóttirin, Mjallhvít, var sem sagt alin upp hjá einstæðum föður og var mikill villingur en gullfalleg, loðin og hvít eins og Kría, amman. Mjallhvít var sönn prinsessa, mjög vönd að virðingu sinni og heillaði alla fressketti í nágrenninu en hafnaði þeim öllum. Bjartur varð fyrir bíl ungur að árum en átti von á kettlingum í nágrenninu og við fengum einn þeirra, Grámann hinn grálynda, sem er hreinlega skemmtilegsti köttur sem ég hef nokkurn tíma kynnst. Grámann kom til okkar mjög ungur og meðal ævintýra hans var að stelast inn í ísskáp og sofa í konfektkassanum. Hann var vitlaus í kex og kartöflur. Mjallhvít hálfsystir hans tók honum ekki vel í fyrstu, þannig að það kom í hlut hundsins okkar, hans Tinna, að ala hann upp og fórst honum það svo vel (fyndið að sjá smá gráan hnoðra í fanginu á þessu frekar stóra hundi) að seinna meir, þegar Tinni var orðinn gamall og hrumur, drattaðist Grámann með honum út þegar Tinni var settur út í band, stundi að vísu og kvartaði undan þessari skyldu sinni, en hann fór með hundinum út í band alveg ótrúlega oft, merkileg tryggð, og svo er sagt að kettir séu ekki trygglyndir!Grámann og Mjallhvít náðu bæði háum aldri á kattamælikvarða, hún var 15 ára þegar hún lenti í slysi og hann var 13 er hann lét sig hverfa, en tveimur árum fyrr skilaði hann sér eftir 10 daga útivist, svo við vorum ekki mjög stressuð þegar hann hvarf.
Tinni, eini hundurinn okkar hér í Blátúni, varð 14 ára og það var hann, miklu frekar en kettirnir, sem eyddi upp alla vega níu lífum, áður en hann varð allur. Þegar hann elti hestamennina (Ara minn og aðra) yfir Kjöl, fór hann fjórum sinnum yfir þegar þeir fóru einu sinni. Hinn hundurinn í ferðinni var reiddur mestalla leiðina en Tinni karlinn hljóp hress á undan, kom svo til baka, hljóp svona hálfan kílómetra til baka og náði svo hestamönnunum aftur. Eitt sinn var sundriðið yfir Markarfljót og þá vildi Tinni auðvitað ekki vera minni en hestarnir en fljótið bar hann langt niður eftir og allir mjög fegnir þegar hann fannst. Hann hefur dottið niður í stíflu, fallið fram af klettinum, en að lokum var það aðeins há elli og hrumleiki sem bar hann að ofurliði.
Alltaf erfitt að kveðja dýrin sín, en ég er alin upp með gullfiskum, páfagauk, hundum og köttum. Jú, við reyndum líka að vera með skjaldbökur, þær eiga að vera langlífar, ekki mikill félagsskapur af þeim á veturna, því þá voru þær í kassa uppi á háalofti og sváfu (sem sagt í dvala). En þetta voru flottar skjaldbökur, hétu Litla og Stóra, og sú stóra var bara skemmtileg. Svo fengum við þá sem við kölluðum Minnstu og hún var víst veik og smitaði hinar. Þannig fór það, ekki nóg að geta orðið 100 ára, það þarf líka að verða það.
Svo hefur Ari átt æði mikið af hestum en þeim hef ég ekki kynnst að ráði þótt mér finnist þeir fallegir. Eitt af seinustu skiptunum sem ég fór á hestbak fældist hesturinn og fleygði mér af baki og braut í mér hryggjarlið svo ég missti áhugann.
Þarf endilega að setja inn fleiri dýramyndir við tækifæri, en það útheimtir skönnun, sem ég gef mér ekki tíma fyrir nákvæmlega núna.
Einhver sagði að það væru fimmtán dagar til jóla, skynja það ekki!
10.12.2008 | 01:06
Gospel söngur, afmæli Ingu Birnu og ekki gleyma 1. des. hátíð Heimssýnar í Salnum klukkan 17
1.12.2008 | 01:18
Ljúft og gott kvöld í faðmi vina. Inga Birna dóttir vina okkar Ása og Önnu er orðin sextán ára og hélt uppá afmælið með því að syngja með gospelkórnum sínum, sem kenndur er við sjálfan Vídalín í Vídalínskirkju í Garðabæ. Flottir tónleikar - ekki síst verk eftir Maríu Magnúsdóttur kórstjóra, frá Dysjum heyrist mér (ætli hún sé dóttir Magga Björns, eða átti Guðmann á Dysjum son sem heitir Magnús, gæti mjög vel verið) en Inga Birna ... fínn kór sem hún er í! Og á eftir var boðið til afmælisveislu í Brekkuskógunum og kræsingarnar voru þvílíkar að ég neyddist til að setja diskinn minn í vaskinn eftir tvær ferðir að borðinu, og valdi þó nóg af hollustu með hnallþórunum. Sólu kippir alvarlega í kynið og þeim öðrum sem bera ábyrgð á veislunni!
Svo bendi ég á næstu bloggfærslu á undan og minni á 1. des fundinn í Salnum í Kópgavogi klukkan 17, á vegum Heimssýnar, frekari upplýsingar hér að undan.
Játning: Til er sitt af hverju sem er mikilvægara en að fá (allar) fréttirnar strax
18.11.2008 | 05:18
Eins og fleiri Íslendingar er ég hrikalegur fréttafíkill. Forfallin reyndar. En þegar ég frétti það í dag að Guðni Ágústsson hefði sagt af sér þá gerði ég ekki annað tveggja:
- Dreif mig út í bíl að hlusta á útvarpið (af því þvíumlíkt var ekki til staðar hjá okkur í Myndlistaskólanum í Kópavogi, þar sem ég mála eins oft og ég get) eða
- Æddi heim í tölvu eða annan fréttamiðil.
Nei, ég hélt bara hreinlega áfram að mála.
Veit svo sem ekki hvað hefði gerst ef ég hefði verið búin að frétta af ákvörðun Guðna þegar ég kom úr viðtalinu sem ég var að taka vegna Álftaness sögu áður en ég brá mér í vinnugallann uppi í skóla, hvort ég hefði drifið mig upp í skóla að vinna í myndlistinni eður ei. Það var svo sem ekki eins og ég væri að skrópa í tíma, heldur höfum við sem erum í frjálsri málun vinnuaðstöðu í skólanum fjögur síðdegi í viku og fáum svo kennara til okkar tvisvar í mánuði. Auðvitað ræddum við pólitíkina, en lögðum ekki frá okkur penslana, nei síður en svo, kannski unnuð við af auknu kappi ef eitthvað var. Þetta er lítill og yndislegur heimur sem ég er komin inn í eftir að hafa vanrækt myndlistina í nokkur ár á meðan ég var að ljúka tölvunarfræðináminu.
Ég hef alltaf átt góða að þegar ég hef leitað athvarfs í myndlistarskólum landsins, sem ég geri reglubundið. Aldrei hægt að læra of mikið og þetta hentar mér vel, hitta kennara tvisvar í mánuði (fínan kennara) og vinna vel á milli. Fer reyndar eftir vinnuálagi hversu miklum tíma ég get varið í myndlistinni, en ég hef aldrei litið á mína myndlist sem dund, hobbý eða áhugamál (en myndlist annarra er reyndar ákaft áhugamál mitt). Nei, myndlist er eitthvað sem verður að leggja mikla rækt við, þetta er sífelld æfing, þekkingarleit, líka leit að einhverju sem hvorki flokkast undir æfingu né þekkingu. Þegar ég var lítil var ég það sem kallað var: ,,Flink að teikna", og jú, það var svo sem rétt. En ég lít hreinlega á það sem (oftast ljúfa) skyldu að hlúa að þeim myndlistarhæfileikum sem ég lagði upp með, þróaði, teygði á og togaði í ýmsar áttir, og jafnframt er ég drifin áfram af einhverjum krafti sem ekki er hægt að útskýra en ég veit að margir skilja nákvæmlega hvað ég á við. Mér finnst ég reyndar fara óvenju hægt af stað núna, kannski af því ég hef sniðið mér óvenju þröngan ramma til að vinna innan við (enn sem komið er - og þetta er reyndar ekki líkingamál, en nenni ekki að skýra það).
Mér er hreint ekki sama um afsögn Guðna. Hann hefur lengst af verið nokkuð staðfastur gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu og margt í hans áherslum finnst mér hreint og beint og fellur vel við þá jarðtengingu sem hann hefur, þótt aldrei hafi ég kosið Framsókn, eins og segir í spakmælinu. Sárgrætilegt ef Evrópusambandsöflin hafa hrakið hann af vettvangi. Það er líka sjónarsviptir af Guðna af þingi.
Og auðvitað er myndlistin ekki það eina í lífinu sem er mikilvægara en að fylgjast með fréttunum. Fjölskyldan mín góða og nánustu vinirnir skipta svo miklu meira máli en jafnvel þær efnahags- og stjórnmálahamfarafréttir sem ég límist stundum við.
Myndirnar sem fylgja eru sýnishorn af þeirri braut sem ég er að feta, hægum skrefum, þessa dagana. Módelmyndin er fullgerð (nema ég ákveði annað ;-) en hinar síður en svo (bollarnir virðast til dæmis absúrd, en þetta er bara byrjun á ákveðinni pælingu) - og ættu svo sem ekki að fara í umferð - en svona er þetta bara, núna.
Frábær Fjörudagur á Álftanesi
31.8.2008 | 17:17
Hvar er Dorrit?
27.8.2008 | 20:56
Missti ég af einhverju eða hvar er Dorrit í dag? Einhver hlýtur að vita það. Og ég vænti þess að á því sé skýring sem aðrir en ég þekkja ef hún hefur verið jafn fjarverandi í dag og mér hefur sýnst. Þessi spurning mín er ekki gildishlaðin, hef ekkert verið að skipta mér af umræðunni um hvort hún hafi verið nógu ,,forsetafrúarleg" eða ekki. Það er vel ljóst að hver einasti forseti og þeir makar, sem að hafa komið, hafa verið í því hlutverki að móta þetta frekar unga þjóðhöfðingjahlutverk landsins, rétt eins og gerist í öðrum löndum sem eru með stjórnskipun sem sækir ekki rætur langt aftur í aldir. Og þannig á það að vera, þjóðin kýs og þjóðhöfðinginn hverju sinni mótar hlutverkið ásamt maka sínum. Sé ég bara svona illa eða var Dorrit fjarri góðu gamni í dag?
Og enn og aftur, innilega til hamingju, strákarnir okkar!