Spurt er: Hvað er Monk?
22.4.2008 | 16:01
Ég skulda dyggum lesendum bloggsins míns smá skýringu. Hef nefnilega vanrækt að svara spurningunni: Hvað er Monk? frá því ég hrósaði þessum sjónvarpsþáttum smávegis í seinasta bloggi. Nú skal úr því bætt. Monk er sjónvarpsþáttaröð, sem því miður er ekki í opinni dagskrá, heldur á Stöð 2. Ný sería nýbyrjuð á sunnudagskvöldum. Adrian Monk er sem sagt ráðgjafi lögreglunnar í San Fransisco en var áður lögga og langar annað veifið að komast í fast starf aftur hjá löggunni, þar sem hann var rísandi stjarna hér í eina tíð. Hann er hins vegar með alls konar fælni og áráttur, svo sem rosalega hreinlætisfíkn og röðunaráráttu. Samt sem áður: Enginn er eins klár að leysa furðulegustu lögreglumál. Það er mikill húmor í þessu þáttum.
Leikarinn sem leikur Monk er Tony Shalhoub (lengst til vinstri) og hann hefur fengið ýmis verðlaun, svo sem Golden Globe fyrir frammistöðuna í hlutverkinu, mjög verðskuldað. Uppáhaldsþátturinn minn til þessa er þegar Monk þurfti að ráða sig sem ,,butler" til ríkisbubba sem var yfir sig ástafanginn af aðstoðarkonu hans (lengst til hægri). Þar fór Monk á kostum sem hinn ofurnákvæmi butler sem kom auga á hverja einustu misfellu, millimetra halla á hníf, munnþurrku og hverju sem er. Annars eru flestir þættirnir verulega fyndnir þannig að endilega horfið eða mætið í heimsókn á sunnudags- eða mánudagskvöldi (endurtekið á Stöð 2 extra) hjá sönnum Monk-aðdáanda.
10 ástæður fyrir því að blogga um Monk
21.4.2008 | 00:00
1. Monk er frábær
2. Susan Silverman var i Monk þættinum í kvöld og HÚN er frábær
3. Monk er byrjaður aftur
4. Monk liggur svo vel við bloggi
5. Leikarinn sem leikur Monk (Tony) er nýbúinn að fá verðlaun, eða ef hann er ekki nýbúinn að fá verðlaun, þá ætti hann að vera nýbúinn að fá verðlaun
6. Margir vita hvað verið er að tala um, og þeir sem ekki gera það láta sér ábyggilega á sama standa
7. Kynningarstefið er svo grípandi
8. Gurrí fílar Monk líka
9. Mig langar að venja fleiri á að horfa á Monk, sem sagt þröngva sjónvarpssmekk mínum upp á aðra
10. Þrátt fyrir allt þetta mikilvæga sem er að gerast í tilverunni einmitt núna, þá er bara svo miklu auðveldara að blogga um Monk
Afskaplega ó-óvænt úrslit í bandinu hans Bubba
19.4.2008 | 01:20
Hafi einhver úrslit nokkru sinni verið fyrirsjáanleg þá voru það úrslitin í Bandinu hans Bubba. Þótt mér finnist Arnar miklu skemmtilegri rokkari þá er Eyþór mjög flottur og hæfileikaríkur og ALLIR vissu að hann myndi vinna. Og hvað gerðist? Hann vann!
Þetta hefur verið ágætis skemmtun í vetur og aðallega vegna þess að hæfileikafólk hefur fundið sér ágætan, nýjan, farveg. Björn Jörundur og Villi naglbítur mátulega klikkaðir í hlutverkin sín og margir gestadómaranna bara mjög fínir líka. Bubbi verið furðu lítið áberandi í þessu, skrýtið að sjá hann vera að máta hlutverk ,,grand old man" en hann ræður þessu. Alla vega hefur þessi ágæta sérviska hans að fá allt sungið á íslensku (fín sérviska sem sagt) valdið því að meira að segja hörðustu Queen textar hafa verið íslenskaðir.
Bílaþvottur fyrir byrjendur
18.4.2008 | 17:40
Þegar ég eignaðist frekar nýjan, svartan bíl þá fann ég, kannski í fyrsta sinn á ævinni, hjá mér þörf til að þvo hann svolítið, ekki oft, ekki mikið, en meira en oftast áður. Þetta er samt meira en að segja það. Gamli rauði var að vísu í þjónustusamningi hjá mér á tímabili, en hvort tveggja er að hann er bæði hávaxnari en ég og kústurinn samanlagt (eða þannig) og svo eltist hann smátt og smátt. Var einu sinni settur í Löður, en þoldi ekki atganginn og miðstöðin varð aldrei söm eftir það, né heldur tókst að loka bensínlokinu fyrr en tveimur dögum seinna. Í sumar, meðan veðrið var hlýrra og skárra, þá var þetta lítið mál með svarta Volvo-inn, en svo var farið að vera með moldroksframkvæmdir við Álftanesveginn og frekar fúlt að aka á nýþvegnum bíl gegnum fíngert moldrokið.
Nú, svo kom vetur, ekkert gaman að þvo bíla við svoleiðis aðstæður. Ég er enn ekki orðin hagavön annars staðar en á þvottaplönum, en hef rennt hýru auga til einhverra bílaþvottastöðva þar sem maður mætir og fær sápu og svoleiðis með því að borga í einhvern stöðumæli. Íhuga það.
En alla vega, ég kom við á bílaþvottaplani í dag áður en ég verslaði í matinn. Við erum óvenjumörg í mat í kvöld, þannig að ég þurfti að sleppa mjög síðboðuðu kvennaboði í fjölskyldunni, það er ekki hægt að vera alls staðar. Ætlaði ,,rétt að skola af bílnum" í leiðinni eins og ég segi oft svo hæversklega. Það merkir yfirleitt að ég sé ekki grábrúnu blettina sem verða eftir fyrr en bíllinn er orðinn nokkuð þurr. Það merkir líka að ég skola mjög lauslega af dekkjunum. Sennilega hef ég þó gert það betur núna en oft áður, því ég varð skelfingu lostin þegar ég áttaði mig á því að það snarrauk gufa frá framdekkjunum, bremsudiskar, mun vera eðlilegt (ég ætla rétt að vona að svo sé)!
Nema hvað, ævintýrin voru á næsta leiti, fyrst þurfti ég að renna upp úlpunni og setja á mig hettuna, þar sem maðurinn á næsta bás gekk mjög hart fram í sínum bílaþvotti. Annars mjög krúttlegt hvernig hann spreyjaði á örlítið lausa og hangandi lista sem héngu utan á bílnum hans og pússaði þá af natni, sem minnti óþægilega mikið á fyrstu fimm bílana mína af aldri og útliti að sjá. Og pússaði mjög vafasama hliðar bílsins, sem ég var dauðhrædd um að létu undan.
Mórallinn í sögunni er: Það er greinilega vor í lofti! Þegar ég kom úr búðinni og sá hvaða hlutar bílsins höfðu sloppið við mjúkar strokur kústsins skrapp ég á tvö plön og þau voru bæði sneisafull af fólki í sömu erindagjörðum, þannig að ég varð frá að hverja með hann Flekk minn. En núna er dóttirin komin með bílinn í lán og smá hint um að það megi ljúka þessu verki. Hún lofaði engu, en það er aldrei að vita.
Þarf Vodafone ekki að ættleiða Dr. Spock?
17.4.2008 | 11:58
Mein sem er innbyggt í kerfið
16.4.2008 | 23:08
Flestir munu sammála um að fiskveiðistjórnun sé nauðsynleg og ekki megi ofgera stofnunum. Hins vegar virðist sem eitthvert fólk - sem jafnvel tekur ákvarðanir um fiskiveiðistjórnun - haldi að það sé einhver lausn að vera með kerfi sem tekur ekki á brottkasti nema með takmörkuðu og fjársveltu eftirliti og kattarþvotti sem vonar að þetta sé nú ekki svo slæmt!
Meðan ég var að skipta mér af pólitík fékk rauk ég eitt sinn upp í pontu og talaði eitthvað um brottkast og fékk í kjölfarið símtal sem ég hef oft vitnað til. Það var frá einum af þekktustu útgerðarmönnum landsins sem lét sér sæma að öskra á mig í símann, eflaust eitthvað um að svona ,,stelpur sem hefðu ekki hundsvit á sjávarútvegi" ættu að halda kjafti. Ég öskraði á móti og við skildum í fullum fjandskap. Sótrauð kom ég fram og hlammaði mér á milli þeirra Guðjóns A. Kristjánssonar og Steingríms J. sem litu forviða á mig. Ég hreytti út úr mér: Það hefur aldrei bröndu verið kastað í sjóinn! og sagði þeim hver heimildarmaður minn væri. Guðjón skellti uppúr og Steingrímur J. varð hugsandi á svip.
Ástandið hefur ekki skánað meira en svo að í stað þess að afneita þessari staðreynd, þá gera menn nú orðið bara lítið úr þeim. Man að Einar Oddur (áður en hann settist á þing) sagði eitt sinn á þingi fiskvinnslunnar að það væri einkennilegt hvað afli sem kæmi að landi væri alltaf alveg nákvæmlega af jafn stórum fiski, skyldu ekki veiðast fiskar sem væru af annarri stærð? Mest var hann þá að vísa til þess afla sem unnin var um borð í frystitogurum.
En þetta var þá. Margt hefur breyst og nú er lag að fá þjóðarsátt um fiskveiðimál, og þótt fyrr hefði verið, þjóðarsátt sem tryggir að allur afli komi að landi, að fiskvinnslulottóinu linni, kvóti fylgi byggðarlögum og vinnslu ekkert síður en útgerð og í kerfinu sé ekki hvatt til brottkasts eins og nú er. Tonnið sem komið er með að landi er jafn stórt og tonnið sem veitt er, þótt 400 kílóum sé kastað og aðeins 600 kíló komi að landi. Verðmætin eru kannski ekki þau sömu, en með hvertjandi aðgerðum til að fá undirmálsfisk að landi svo verðmæti aflans sé ekki enn einn hvatinn að brottkasti, mætti komast langt. Það ætti að vera hægt að reikna út skynsamlega meðalsamsetningu afla og jafna út á árið hjá hverju kvótahafa fyrir sig og kanna sérstaklega aðstæður ef aflasamsetning einhvers aðila er óeðlileg. Hjálpartæki gætu verið upplýsingar um mið og rannsóknir á aflasamsetningu á svipuðum slóðum. Sóknarmark er annað sem stundum er talin möguleg leið til að takmarka brottkast, ekki endilega óskaleiðin, en ef það gæti stemmt stigu við brottkasti þá væri það sannarlega vel þess virði - treysti fólk sér ekki í aðrar aðferðir.
Mórallinn í sögunni er, núverandi kerfi mælir ALLS EKKI réttan heildarafla og getur því ekki verið nógu góður grunnur að úthlutun heildarkvóta.
Miðað við núverandi ástand þá þyrfti að fara bil beggja, auka heildarkvóta til dæmis um helming þess afla sem nú er talið að sé kastað á brott. Þannig fengist hvatning og minni afli væri dreginn úr sjó.
![]() |
Segir brottkast að aukast gífurlega |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:10 | Slóð | Facebook
Foreldrahúsið í nýtt húsnæði, listsýning í háskólanum á vegum Skyns og krakkarnir í Álftanesskóla
16.4.2008 | 01:23
Mikið var gaman að sjá nýja húsnæðið undir Foreldrahús Vímulausrar æsku, sem var vígt í dag. Gamla Foreldrahúsið við Vonarstræti var löngu sprunigið undan starfseminni en þetta húsnæði er hreinn draumur. Vinir og velunnarar Foreldrahússins fjölmenntu og unglingarnir sem hafa verið í eftirmeðferðinni í Foreldarhúsinu fengu okkur sem vorum viðstödd til að muna að með því að gefast aldrei upp bætist alltaf í hóp þeirra fíkla sem komast yfir vandann. Oftar en ekki liggur að baki elja og eldmóður fjölskyldunnar og stuðningur Foreldrahússins, en þau eru engu að síður sigurvegararnir.
Annar sigurvegari var með listsýningu í Hámu á Háskólatorginu, það var ung þýsk stúlka, Freddie, sem er á leið í doktorsnám hér á Íslandi þrátt fyrir sértæka námserfiðleika sem eflaust hefðu stoppað einhverja hæfileikaríka manneskju af. Hún er líka listakona og ég vona að sem flestir hafi séð verk hennar á Háskólatorginu, en ég var auðvitað allt of sein að plögga fyrir þessa sýningu, afsakið það. Missti reyndar sjálf af Fabúlu sem söng í tilefni þessarar sýningar, og það var auðvitað alveg afleitt. Félagið Skyn er nýtt í háskólaflórunni, það er félag stúdenta með sértæka námsörðugleika, svo sem lesblindu, ADHD og ýmislegt fleira. Mér heyrist að háskólasamfélagið, til dæmis námsráðgjöfin, ætli að taka þessu félagi fagnandi, en það er frekar ungt og ómótað enn sem komið er.
Flesta vetur fæ ég tækifæri til að vera með krökkunum í 4. bekk í Álftanesskóla þegar byrjað er að kenna námsefni um Álftanes, sem ég ber ábyrgð á. Það er eiginlega alveg ólýsanlegt hvað það er gaman að segja krökkunum hérna á nesinu frá þessari lygilegu sögu sem við Álftnesingar eigum og þessir tímar eru alltaf skemmtilegir. 60 mínútur með krökkunum eru eiginlega allt of fljótar að líða. Þessar 60 mínútur voru einmitt í dag, þannig að þessi dagur hefur verið nokkuð sérstakur í tilverunni.
Hungur í heiminum - American Idol og rifjaðar upp gamlar hugsjónir
15.4.2008 | 00:37
Það er einn kostur við American Idol, það er hægt að gera heilmargt á meðan. Og svo hverf ég ekki frá því að þarna innan um er mikið af hæfileikafólki, svo mjög að ef frá eru taldir David-arnir tveir og Carly (þetta seinasta er ég stundum svolítið ein um) þá getur hver sem er farið heim hvernær sem er. Í kvöld var ekkert Vá! í gangi meðal keppenda en Jason Castro var með skemmtilega útgáfu af Somwhere Over the Rainbow, en hana var ég reyndar búin að sjá á netinu.
En aðaltónleikar kvöldsins voru eflaust Idol gives back. Mér finnst hvaða aðferð sem er eiga rétt á sér í svona tilvikum, og þarna safnast fullt af peningum til góðra málefna. Auðvitað er það skömm að yfir höfuð skuli ekki vera búið að leysa þessi vandamál, sem mörg eru auðleyst, það var einmitt rifjað upp í útvarpi í dag að fyrir svona 40 árum var maður að rölta um og safna fyrir Herferð gegn hungri og hélt að það yrði seinasta stóra söfnunin, það var svo sannarlega ætlunin að leysa málið þá. Tveimur eða þremur árum seinna vorum við enn með talsverð vonbrigði í sálinni á hungurvöku í Casa Nova í Menntó, enn vegna sama málefnis. Við vitum hvernig hefur gengið - ekki nógu vel - en það merkir ekki að leggja eigi árar í bát. Þetta kveikti alla vega heitar umræður á heimilinu, um stefnu okkar Íslendinga í þróunarmálum (friðargæsla í Afganistan, er það brýnasta verkefnið?) og hvernig lítils háttar stuðningur og breytingar geta skipt sköpum í Afríku. Og skotin frá Ameríku voru líka sláandi, einkum ofbeldið og þau verkefni sem eru í gangi til að finna leið úr þeim vítahring.
Í fréttum í dag hefur lika mikið verið fjallað um yfirvofandi matvælaskort vegna nýrrar hættu, of dýrra matvæla fyrir fátækustu þjóðirnar og þjóðfélagshópana. Nokkuð langt er síðan farið var að benda á hættuna af því að eldsneytisframleiðendur færu að yfirbjóða matvælakaupmenn til að búa til ,,lífrænt" eldsneyti úr korni. Það er ekki aukandi á vandann og tími til kominn að taka upplýstar ákvarðanir áður en það er of seint. Vonandi verður umræðan nógu fljótt nógu heit til að snúa blaðinu við meðan enn er tími til. Alla vega tel ég að fjölmiðlar séu að standa sig í stykkinu og rétt að geta þess, svo oft sem ég er að naggast í þeim.
Tvær lúðrasveitarmyndir
14.4.2008 | 01:40
Netið okkar hefur verið leiðinlegt um helgina, og reyndar af og til að undanförnu, en ég ætla samt að henda inn tveimur lúðrasveitarmyndum frá því að frændur mínir voru að spila í gær. Reyni ekki að setja myndbrotið sem ég tók upp fyrr en þetta ástand skánar.
Hér er Sveinn Rúnar frændi minn nákvæmlega fyrir miðju.
Og hér má sjá Kjartan á klarinettið rétt vinstra megin við miðju.
Vaknaði við alhvíta jörð og ESB áróður, enn einu sinni ...
13.4.2008 | 14:07
Ég hélt það væri komið fram í miðjan apríl. Það þýðir ekkert að tala um páskahret, páskarnir voru snemma í ár, mjög snemma. En alla vega þá kann ég ekki allskostar að meta þessi frjálsu framlög úr loftinu. Undanfarna daga hefur verið þetta fína gluggaveður og ,,gula fíflið", eins og gamall vinnufélagi minn kallaði sólina svo óvirðulega, verið duglegt við að láta sjá sig. Ekki var betra að hlusta á Silfur Egils, sem í þetta sinn var reyndar Pjátur Egils. Hann er nefnilega farinn að safna æði mörgum Evrópusambandssinnum saman í þættina sína (sumum reyndar undir því yfirskyni að þeir vilji ,,bara" taka upp evru, sem þeir vita mæta vel að merkir Evrópusambandsaðild). Eins og Egill er nú mætur þáttastjórnandi, svona yfirleitt (Kiljan er betri en blikkið), og bráðskemmtilegur oft að auki, þá finnst mér þetta óþarfa tilraun til heilaþvottar. Hann hefur reyndar aldrei haldið því fram að hann vilji vera fullkomlega óvilhallur, þannig að hann er svo sem ekki einu sinni að sigla undir föslku flaggi, bara frekar leiðinlegu flaggi að mínu mati.
En nú hlýtur vorið að fara að koma og lýsa inn í hræddar sálir samlanda okkar. Hér er veðurspáin í næstu viku alla vega og vonandi að þetta skánandi tíðarfar nái til kjarks, skynsemi og ábyrgðartilfinningar okkar sem ættum að geta að rekið hér besta samfélag allra samfélaga, með aðeins færri ál-plástralausnum með tilheyrandi efnahagssveiflum, aðeins meiri hollustu gagnvart umhverfinu og mörgum smáum lausnum í atvinnumálum, þar sem hugvitið, sem oft er mært á tyllidögum, fengi að njóta sín. Held að fólk skilji ekki alveg eða vilji taka ábyrgð á þeim breytingum sem við höfum sjálf í hendi okkar, stjórn efnahagsmála. Það er aldrei nauðsynlegra en í alþjóðlegri viðskiptakreppu að hafa góða stjórn á eigin efnahagsmálum. Nú stefnir í tvö ný álver, þenslu, (mjög líklega verður lítið búið að lærast um óheilbrigði eyðslufyllerísins) og enn eina niðursveiflu í kjölfarið þegar allir verða búnir að gleyma þessari. Hvar er skynsemin og bjartsýnin eiginlega núna?