Spaugstofan með allra, allra, besta móti

Mikið hrikalega fannst mér Spaugstofumönnum takast vel upp í kvöld. Fóru svolítið hægt af stað, en síðari hluti þáttarins var alveg með því besta sem hefur komið að undanförnu. Þið sem misstuð af getið bæði séð endursýningu og skoðað hér (þátturinn ætti að detta inn hvað á hverju).

Aðildarviðræður um ESB í skugga hótana? Íslendingar ekki vanir að láta stjórnast af hótunum ráðamanna - en hvað nú?

Erfitt er að helda reiður á hvað ræður ferð í íslenskum stjórnmálum nú. Í morgun var sú hótun sem legið hefur í loftinu staðfest, Samfylkingin ætlar að slíta stjórnarsamstarfinu og stefna til kosninga eigi síðar en í vor, nema samstarfsflokkurinn, Sjálfstæðismenn hlýði þeim og samþykki að fara í aðildarviðræður. Sama dag vill svo til að tveir forsvarsmanna Sjálfstæðismanna hafa komist að þeirri niðurstöðu að halda skuli í aðildaviðræður. Annar þeirra yfirlýstur andstæðingur ESB-aðildar og mér er þessi niðurstaða hans nokkur ráðgáta, burtséð frá því hvort hann treystir á það að þjóðin muni fella aðild að ESB að samningum loknum. Vissulega hef ég sömu trú á þjóðinni, en mér finnst tilviljunin og tímasetningin á hótuninni annars vegar og þessari yfirlýsingu, rúmum mánuði FYRIR landsfund Sjálfstæðismanna (sem hefði átt að taka þessa ákvörðun, hélt ég) alveg stórfurðuleg. Annað ekki síður merkilegt er að Samfylkingin skuli þarna vera að gefa Sjálfstæðisflokknum fyrirheit um að hann geti setið enn um sinn, meira að segja komin með verðmiða á það. Var að fá sendan link á blogg sem hefur sínar skýringar á því, Samfylkingin þykist bara vilja kosningar, en það henti betur að setja verðmiða á áframsetuna: http://blogg.gattin.is/blog.php?view=post&id=i0w63hk1dm

Of margar ákvarðanir hafa verið teknar í skugga hótana ráðamanna að undanförnu, og ekki allar mjög skynsamlegar.

  • Að setja hryðjuverkalög á íslenskan banka í Englandi var auðvitað ekkert nema hótun breskra stjórnvalda í garð Íslendinga.
  • Hótanir stórra og sterkra ríkja, það er ESB-þjóðanna innan alþjóða gjaldeyrissjóðsins hefur svínbeygt stjórnvöld í samningum við sjóðinn.
  • Og nú er varla hægt að skilja mál öðru vísi en svo að hræðsla Sjálfstæðismanna, alla vega í valdastólum, við kosningar í vor, hafi leitt þá til þeirrar niðurstöðu að láta undan kröfu Samfylkingarinnar um aðildarviðræður og að öruggast sé að koma með svona skýr skilaboð sex vikum fyrir landsfund, sem ætla hefði mátt að myndi skera úr um málið. Vissulega er óttinn við kosningar mikill hjá flokki sem er í sögulegu lágmarki samkvæmt könnunum. Samt hef ég heyrt í fjölmörgum óbreyttum Sjálfstæðismönnum sem eru hreint ekki til í aðildaviðræður og þora alveg í kosningar.

Þjóðin hefur gallvösk harðneitað því að landinu sé stjórnað í skugga hótana og með því að láta undan hótunum og þessi krafa hefur verið sterk á síðustu, erfiðu tímum. Fróðlegt að fylgjast með framhaldinu. Krafa þjóðarinnar hefur líka verið að tímabært sé að efna til kosninga í vor. Fljótlega býst ég við að niðurstöður úr skoðanakönnun um það hversu margir vilja kosningar komi í dagsljósið, ég lenti nefnilega í úrtakinu á slíkri könnun og veit að hún er í gangi, spennt að sjá niðurstöðurnar.


Forvitnilegt, ef heimildir Björns eru réttar, þá eru þetta tíðindi í þessum hópi, þótt vitað sé um hópa á móti, þá hefur forystan eflaust viljað sjá aðra niðurstöðu

Mér finnst þessi frétt nokkuð forvitnileg. Ef heimildir Björns eru réttar, þá eru þetta tíðindi í þessum hópi, þótt vitað sé um hópa (útvegsmenn eru víst enn inni) á móti (nema kannski Samherji), þá hefur forystan, alla vega Vilhjálmur, eflaust viljað sjá aðra niðurstöðu. Ætli þeim sé stætt á öðru en að birta niðurstöðurnar?
mbl.is Dómsmálaráðherra: Hvers vegna birtir SA ekki niðurstöðu könnunar?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bragð er að þá Uffe finnur - Uffe Elleman-Jensen varar Íslendinga við inngöngu í ESB við núverandi aðstæður, að ætla að fara inn til þess að ,,leysa" allan efnahagsvanda, ESB sé ekki töfralausn við efnahagserfiðleikum.

Á dauða mínum átti ég von en ekki því að heyra Uffe Elleman-Jensen vara Íslendinga við að fara inn í ESB við þær aðstæður sem nú eru hér á Íslandi, með þá tálsýn að ESB-aðild muni leysa einhverjar efnahagslegar flækjur, sem við erum í. Hann var í Kastljósi í kvöld og upptakan ætti að detta inn á RUV hvað á hverju, enn er þátturinn frá í gær fremstur, en þetta er hlekkurinn þar sem hægt er að horfa þegar að því kemur:

http://www.ruv.is/kastljos/


Hvað næst? Lafir sú leiða stjórn?

Enginn velkist í vafa um að þjóðin vill ríkisstjórnina frá. Var að ræða málið við vinkonu mína um daginn og ég var ekki í vafa um að hún færi frá fyrir vorið. Fjárlagafrumvarpið, breytingarnar sem nú eru gerðar við aðra umræðu, breytir ekki þeirri skoðun minni. Það er hvorki verið að taka á málum eins og þarna sé ríkisstjórn sem ætli að lafa, né heldur eru skerðingarnar þannig að þær auki kyrrðina í samfélaginu. Sannarlega ekki.

Í algleymi myndlistarinnar - jaðrar við jólastemmningu

Smá tóm til að sinna myndlistinni núna, eftir frekar ásetta síðustu viku. Er í endurvinnslunni á fullu ennþá, það er að búa til alveg ný myndverk byggð á eldgömlum módelmyndum sem ég á í fórum mínum í stöflum, þrátt fyrir mikla grisjun að undanförnu. Rakst á eina gamla og góða sem er frá því aaaaCIMG4159að Ingólfi Erni Arnarssyni, sem eitt sinn kenndi mér módelteikningu í Myndlistaskólanum í Reykjavík datt í hug að láta okkur mála vængi á módelin sem við vorum að teikna og/eða mála. CIMG4201Þegar ég var að vinna upp úr þessari datt mér í hug að það væri sennilega öruggara stækka vængina, ekki svo að skilja að hún (engillinn) gæti flogið á þessu, en enn síður á gömlu vængjunum. Eftir hrikaleg mistök í gær í bakgrunninum, framhaldsvinnslu heima í tölvunni, þá er ég orðin nokkuð sátt við blessaðan engilinn og fékk svo smá útrás í viðbót með spaðann í hendi, áhald sem ég á enn eftir að finna út hvort ég á að vinna með að ráði í framtíðinni eður ei. Sé eins og allaf smálegt sem ég ætla að lappa uppá á morgun eða eftir áramót, eftir því hvenær ég finn mér næst tíma til þess að skjótast og mála smávegis.

Það er alltaf svolítið fjör að vinna frjálst, það er að segja ekki eftir fyrirmyndum, eins og gömlu CIMG4202myndunum mínum, en að sama skapi er ekki eins auðvelt að átta sig á því hvenær maður er að hitta í markog hvenær ekki. Stundum er það tíminn sem sker úr um það, stundum veit maður það strax. Með þessa hér, þá er ég ekki viss, ekki enn.


Einhver sagði að það væru fimmtán dagar til jóla, skynja það ekki!

Í fyrsta sinn í mörg ár er ég ekki að fara í próf fyrir jól eða með stór skil á verkefnum tímasett. Fannst að það hlyti að vera merkilegt að geta farið nokkuð óstressuð inn í jólin. Það var nú alveg óþarfi að láta bankahrun leysa prófin af hólmi ;-/

Ég hélt ég fylgdist með ... en!

Tvö símtöl í dag hafa skilið mig eftir hrikalega hugsandi, og þótt ég hafi svo sem alls ekki tíma til þess að hugsa allt það sem ég er að hugsa, þá kemst ég líklega ekki hjá því. Ábyrgð stjórnvalda á þeirri stöðu sem við erum í var umræðuefnið og satt að segja verður sú mynd svartari með hverjum deginum, alvarlegast er ef einhverjar yfirhylmingar eru í gangi. Ef þetta er torskilið þá bendi ég ykkur bara á að fara í huganum yfir allar þær fréttir sem yfir okkur dynja varðandi skort á samráði við þjóðina varðandi setningu Icesave-laganna (af einhverju freudisku ,,slippi" var ég búin að skrifa Iceslave) og svo hvarflaði hugurinn (eða var stýrt) í átt að því sem er að gerast í Luxembourg. Og kannski er þetta bara toppurinn á ísjakanum. En ég hef ekki komist yfir að fylgjast nógu vel með ... þarf að bæta úr því.

Merkilegur þáttur um HIV - undrandi á viðhorfunum

Horfði á þátt á RUV (missti reyndar framan af honum) þar sem Stephen Fry fjallaði um aðstöðu HIV smitaðra í Bretlandi og víðar, m.a. í Suður-Afríku þar sem veikin er útbreiddust. Það sem stakk mig var fáfræði og fordómar og hugrekki viðmælenda Stephen Frys. Ótrúlegur þáttagerðarmaður, þessi frábæri leikari, fyrst tókst honum að gera þunglyndið (sem hann stríðir sjálfur við) svo áhugavert að það lá við að það væri skemmtilegt í dauðans alvöru sinni og þessir þættir lofa góðu. Ég er ekki sú besta í að fylgjast reglubundin við nokkrum þáttum, en ég hugsa að ég tékki aftur á þessari þáttaröð, sem mér heyrist að sé að byrja. Alveg sama hvað allri kreppu líður, það er ýmislegt annað sem þarf að minna sig á af og til.

Að vera eða vera ekki - kominn yfir það versta, þar er efinn!

Mér finnst ekki hægt annað en fagna því að krónan er aftur á uppleið, þótt við vitum ekki hversu mikinn þátt gjaldeyrishömlurnar eiga í þeirri staðreynd. Hins vegar tala allir mjög varlega um ástandið, tortryggnin í garð stjórnvalda, fjármálayfirvalda og þess háttar, er svo sannarlega ekki að ástæðulausu. Kraumandi ólga sem fær aðgerðarsinna til þess að ráðast inn í alþingi og efinn í svörum næsta manns, þegar fólk spyr hvert annað: Ætli við séum komin yfir það versta, eru tvær hliðar á sama pening, trúnaðarbresti sem orðið hefur. Það er mikið verk að vinna í uppbyggingarstarfi. Mér líst vel á framlag VG til umræðunnar, en áherslur fundar flokksráðs VG er nákvæmlega það sem ég held að skipti máli núna.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband