Verð með skoðun dagsins í Meinhorninu á Útvarpi Sögu kl. 12:40 á morgun, þriðjudag

Á morgun, þriðjudag, mátulega eftir hádegisfréttir á tveimur öðrum stöðvum (sem fréttafíklar hlusta auðvitað á líka), verð ég með ,,skoðun dagsins" í Meinhorninu á Útvarpi Sögu. Þetta er 20 mínútna pistill og hefst kl. 12:40. Hvet alla sem áhuga hafa til þess að kveikja á útvarpinu og hlusta, Útvarp Saga er eins og eflaust allir vita á tíðninni 99.4.

Forval sem mun skila góðri niðurstöðu - hver sem hún verður

Það yfirskyggir ýmislegt annað í tilverunni þessa dagana að taka þátt í forvali VG í Reykjavík. Í dag var kynningarfundur frambjóðenda, feikivel sóttur fundur og ég kom með mjög góða tilfinningu í sálinni eftir þennan fund. Stuttar kynningar og heilmikið spjall á eftir. Fullt af nýju fólki komið til liðs við okkur sem höfum verið vinstri græn frá upphafi, liðsstyrkur sem áreiðanlega mun skila sér á flottan framboðslista. Vissulega er ég að stefna á eitt af þremur efstu sætunum í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu og vona að ég fái brautargengi í það. En það er góð tilhugsun að vita að hvernig sem þessum 32 frambjóðendum yrði raðað á listann, þá fengjum við ekkert minna en dúndurlista úr úr því og í framhaldi af því vil ég sjá VG í ríkisstjórn áfram, helst sem leiðandi flokk!

Jafnrétti - kvenfrelsi - mannréttindi

Var á skemmtilegum fundi í morgun þar sem VG fólk er að fjalla um jafnréttismál, enda flokkur sem kennir sig við kvenfrelsi og þar sem konur hafa verið í framlínu frá fyrstu tíð, og það vægast sagt frábærar konur, allar saman.

Það sem kemur út úr umræðu þessa hóps er enn í mótun en ég get lofað því að enginn mun verða fyrir vonbrigðum, það er hins vegar ekki rétt að einhver ein(n) úr hópnum fari að þjófstarta þeirri umræðu, þetta er hópstarf.

En þessi fundur og viðtal sem ég tók um daginn þar sem jafnréttismál bar mikið á góma rifjaði hins vegar upp hvers vegna ég fór út í pólitík á sínum tíma.

Fyrstu pólitísku afskiptin voru eflaust þegar í gaggó á málfundum, þar sem stelpurnar voru ekki mikið að hafa sig í frammi enda árið líklega 1966 eða svo, en þar æddi ég samt upp og fór að rífast við bekkjarbróður minn, Eggert Þorleifsson, um jafnréttismál auðvitað. Síðan hef ég eiginlega aldrei hætt að tala um þessi mál.

Auðvitað er ég ánægð með að talsvert hefur þokast síðan þá. En það er samt með ólíkindum að enn skuli ekki vera búið að ná launajafnrétti og sigrast á ofbeldi gegn konum, ég held að þorri fólks geri sér grein fyrir að við getum ekki sætt okkur við svoleiðis órétt. 

Réttlætiskennd margra er misboðið nú eftir efnahagshrunið. Fólk sem ekki fann sér farveg í gróðærinu er núna komið til starfa að móta nýtt samfélag. Hvernig væri að skapa nú samfélag jafnréttis kvenna og karla, frelsis til að lifa mannsæmandi lífi og velja sér menntun og lífsstefnu og njóta þeirra mannréttinda að þurfa ekki að búa við ógn eða ofbeldi. Það hlýtur að vera hægt að virkja réttlætiskenndina sem nú ræður umræðunni og laga þessi mein. Ég er sannfærð um að með Vinstri græn við stjórnvölinn eftir kosningar verður sú leið greiðari en nokkru sinni fyrr.


Þetta þarf að verða að lögum sem fyrst - fylgjumst grannt með hvort og hverjir verða á móti

Ríkisstjórnin er búin að samþykkja að leggja fram mikilvægt frumvarp um skattlagningu arðs í skattaparadísum og vonandi ber alþingi gæfu til þess að samþykkja það hið allra fyrsta. Það er auðvitað með ólíkindum að þessi lög, sem eru hliðstæð lögum í nágrannalöndunum, skuli ekki hafa verið í gildi hér á landi. Þetta er eitt af mörgum skrefum sem þarf að stíga í átt til meiri jöfnuðs og réttlætis. Lagaumhverfið í landinu er greinilega fáránlega rýrt þegar kemur að réttlæti í því að bera sameiginlegu byrðarnar.
mbl.is Tekið á skattaparadísum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki bara pólitík ... smá tónlistarsagnfræði: Kinks á Íslandi 1965, ásamt Tempó og Bravó

Á síðu Dr. Gunna á Eyjunni og áður hjá Agli Helgasyni er að finna tengil á upptöku frá tónleikum Kinks í Austurbæjarbíói. Þetta er tónlistarsagnfræði af bestu gerð og þar að auki staðfestir þetta myndband það sem mig minnti, þetta voru ótrúlega flottir tónleikar. Trúi því varla að þetta hafi verið árið 1965, það merkir nefnilega að ég hef ekki verið nema 13 ára í æpandi mannhafinu sem sótti tónleikana, fékk meira að segja sæti frekar framarlega, þannig að ef þið sjáið stelpu með sítt hár, topp og svört ,,Manfred Mann" gleraugu - austarlega í salnum (fyrir ykkur sem eruð áttvís í Reykjavík) á ca. 7.-8. bekk, þá gæti það verið ég, en hef ekki leitað af neinu viti.

YouTube býður ekki uppá að fella þetta myndskeið inn í aðrar síður en hér er tengillinn og njótið vel:

http://www.youtube.com/watch?v=t3oe0k9KyOA 

 


Forvalsbæklingur VG í Reykjavík kominn á vefinn

Forvalsbæklingur VG í Reykjavík er kominn á vefinn. Þar er kynning á öllum 32 frambjóðendum VG í Reykjavík (þar af innan við þriðjungur konur). Þar er einnig kynning á forvalsreglum og fyrirkomulagi. Eins og ég hef þegar nefnt þá stefni ég á toppinn í þessum frábæra félagsskap. Það er hægt að skrá sig í VG í Reykjavík alla næstu viku fram á föstudag. Allir geta skráð sig í Reykjavíkurfélagið ef þeir vilja, án tillits til búsetu, en þeir geta auðvitað ekki kosið nema í einu kjördæmi.

Bæklingurinn er á þessari slóð og hægt að skoða hann sem .pdf skjal: http://www.vg.is/frettir/eldri-frettir/nr/3924


Nýr seðlabankastjóri á morgun, hægir á verðbólgu, gengið að styrkjast og næsta vaxtaákvörðun vonandi í rétta átt

Sú lamandi tilfinning sem flestir fundu fyrir þegar á vikunum fyrir jól, að ekkert væri verið að gera til að koma efnahagsmálum aftur á réttan kjöl var án efa einnig ein helsta undirrót búsáhaldabyltingarinnar sem varð þegar þing kom saman eftir áramót. Þá var illur grunur staðfestur, fátt hafði verið gert, ef eitthvað þá var það ekki upplýst og ekkert stóð til að gera annað en ræða brennivín og tóbak á alþingi eftir jólaleyfið.

Loksins þegar ný ríkisstjórn tók við, eftir smá upphlaup Framsóknar, voru ermar brettar upp, ákvarðanir teknar og nú erum við að byrja að sjá bjartsýnina koma til baka. Bjartsýni sem svo sárlega hefur vantað. Reyndar þykir bjartsýni virðulegri undir dulnefninu ,,jákvæðar væntingar" en niðurstaðan er sú sama, hjólin fara að snúast á nýjan leik, lamað kerfi hins opinbera og einkageirans fer að þora að setja verk af stað og búa til vinnu handa fólki. Stofnanir þora að fara að taka á vandanum sem hlaðist hefur upp í aðgerðarleysismókinu.

Það eru til lausnir á jafnvel erfiðustu málum, en þær finnast ekki meðan setið er með hendur í skauti og beðið eftir kraftaverki eða kollsteypu.


Verðtryggingin

Steingrímur J. er kominn í fjármálaráðuneytið og hann hefur haft hugrekki til að setja spurningamerki við verðtrygginguna, sem er að leika marga grátt um þessar mundir. Það eru ekki bara fórnarlömb myntkörfulána sem hafa farið illa á hækkunum lána, verðtryggð innlend lán hækka og hækka. Vitanlega er bent á hina hliðina á málinu, eigendur fjárins, þá sem spara, lífeyrisþega og lífeyrissjóðina, og í venjulegu árferði hafa þau rök dugað til að halda henni áfram. En eins og staðan er núna, þegar fjöldi manns mun ekki geta borgað af lánum sínum tapa allir. Frysting í ár gæti verð fyrsta skrefið og að nota tímann sem skapast til að leita varanlegri lausna. Það er allt hægt ef vilji er fyrir hendi, viljinn er til staðar hjá VG.

Komst inn á gmail, vona að ykkur hinum gangi líka vel

Þá komst ég inn á gmail og ósköp var það gott. Vona að það sé ekki bara tilfallandi, heldur að vandinn sé leystur.

 

 


Gangi þeim vel að koma póstinum okkar upp aftur

Þá er komin skýring á því sem ég var að pirra mig á í morgun, gmail-inn minn er raunverulega niðri, þótt einhverjum hafi tekist að brjótast í gegn, kannski áður en hann hrundi endanlega. Vona að vel gangi að koma þessu upp. Vefþjónustupóstur er orðinn svo snar þáttur í lífi velflestra að svona árás eða tæknivandamál (ekki ljóst um hvort er að ræða þykist ég vita) er alltaf bagaleg. Mér er enn í fersku minni þegar hotmail lagðist á hliðina í heila þrjá daga í febrúar 2001. Ástæðan er sú að ég var að snurfusa handrit að sögu Sandgerðis (sem dregist hefur að gefa út þannig að á endanum var ég beðin bæta nokkrum árum við það - en það er önnur saga). Og þar sem ég var stödd úti á Kanaríeyjum þegar ég taldi mig vera búna að fínpússa handritið, þá kom sér illa að geta ekki sent það gengum hotmail frá eina netkaffi Ensku strandarinnar sem þá var starfandi. Sem betur fór var ég með annað netfang hjá strik.is en það var talsvert hæggengara á þeim tíma, en sendingin tókst á endanum og eftir þrjá daga var hotmail aftur komið í lag.
mbl.is Gmail þjónustan liggur niðri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband