Léttir og leiðindi: Mun eigingirni Sjálfstæðismanna ráða för og er það sanngjarnt gagnvart þjóðinni? Hlýðir forsetinn Geir?

Finn fyrir raunverulegum létti yfir því að núverandi stjórnarsamstarf skuli hafa verið blásið af. Hvort sem það var raunsæi Framsóknarmanna eða áhugaleysi Sjálfstæðismanna sem réð för, forvitnilegt að vita hvort eitthvað lekur út um það.

Þá eru það leiðindin. Geir tók af skarið strax í dag að hann ætlaði að tala við Samfylkinguna (forsetinn þarf þó væntanlega að samþykkja það, Geir! Það var alveg óþarfi að hnýta í hann í leiðinni með því að segja að hann ætti að hlýða þér og vinna vinnuna sína - sem þú sagðir óbeint). Fylgi hugur máli, sem ætla má, þá getur stefnt í langa og leiðinlega stjórn (það sagði ég líka þegar Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn tókum höndum saman fyrir 12 árum og hafði því miður rétt fyrir mér). Mér finnst það ákveðin eigingirni hjá Sjálfstæðismönnum að ætla að túlka úrslit kosniganna sem svo að þeim beri að mynda stjórn sem er þægilegust fyrir Sjálfstæðismenn. Því það er ástæðan sem Geir gaf upp: Styttra milli Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks en milli Sjálfstæðisflokks og VG.

Ég get bara alls ekki túlkað kosningurslitin þannig að þær snerust um að velja þægilegasta samstarfsflokkinn fyrir Sjallana. Það var kannski hægt að réttlæta að fyrst stjórnin hélt velli væri tilefni til að ræða áframhaldandi samstarf. Ótvíræður sigurvegari kosninganna var VG, Sjálfstæðisflokkur var rétt að lappa upp á ástandið eftir stórtap fyrir fjórum árum. Samt ætla Sjálfstæðismenn að tala við Samfylkinguna, ef forsetinn veitir Geir stjórnarmyndunarumboðið.


Skúbb RÚV - Framsókn á fundi

Þegar boðað er til fundar með 15 mínútna fyrirvara, menn þungbúnir og loft lævi blandið þá hlýtur eitthvað að gerast. Bíð spennt eftir frekari fréttum af Framsókn.

Jæja, eigum við ekki að tala um veðrið? (Og sjá hvert sú umræða leiðir okkur).

Fyrst ekkert er að frétta (á yfirborðinu alla vega) af stjórnarmyndunarviðræðunum, þá er alveg nauðsynlegt að tala um veðrið aðeins. Eftir himneskan sumardag á Akureyri, þegar ég skrapp til að fagna með Málmfríði vinkonu minni, þá hef ég ekki haft neitt óskaplega mikla vortilfinningu. 20 stigin fyrir norðan breyttust í frost og snjókomu á svipstundu en ég var flogin suður áður en til þess kom. 

Mig langar svo óskaplega til að fá sumar, sól, logn og hlýju, helst um allt land, í sumar. Til vara alla vega hér á þéttbýlasta horninu, þar sem flestir geta notið þess. Nú er rétt búið að aflýsa ísöld hér á norðurhveli, í kjölfar gróðurhúsaáhrifanna, þannig að við þurfum ekki að selja húsin og finna fjallstind á Kanarí (út af hækkun sjávarstöðu) til að þrauka til æviloka. Nóg eru áhrifin samt og þótt þessum ragnarökum hafi verið aflýst í bili, þá þýðir auðvitað ekkert að taka úðabrúsana og úða út í loftið eða grípa til annarrar ábyrgðarlausrar hegðunar. 

Mig langar í betri almenningssamgöngur, helst rafmagnslestir, hef aldrei skilið þetta lestaleysi hér á landi, þetta er skemmtilegasti ferðamáti sem um getur, minni bið en í flugi, hraði, þægindi og furðu mikið öryggi. Sé fyrir mér leiðina Vatnsmýri - Kársnes (um göng) - Gálgahraun (um göng) - Hafnarfjörður - Vogar - Bláa lónið (hverjir eru bíllausir á Íslandi?-  túristar!) - Keflavíkurflugvöllur. Alveg hugfangin af hugmyndinni. Þyrfti bara að taka tengivagn í 2-3 km (eða rölta út í hraun á góðum sumardegi) og þá væri ég komin í miðbæinn.


Heitar tilfinningar og mögulegt stjórnarsamstarf

Kvennalistanum var legið á hálsi á sínum tíma fyrir að fara ekki í ríkisstjórn þegar færi gafst, jafnvel þótt ljóst væri að aldrei stæði til að samtökin fengju að komast til nokkurra áhrifa í þeim ríkisstjórnum sem sóttust eftir að starfa með þeim. Heilshugar studdi ég þessar erfiðu ákvarðanir og tel að engar forsendur hafi verið fyrir því fyrir Kvennalistann að fara í ríkisstjórn, því miður. Þá var talað um að (Kvennalista)konur væru aldrei tilbúnar að axla ábyrgð. Bæði fyrr og síðar fóru þó Kvennalistakonur í meirihluta í stærstu bæjarfélögum landsins, fyrst á Akureyri og síðan í Reykjavík, innan Reykjavíkurlistans, og þá með nógu miklu trukki til að hafa raunveruleg áhrif. Mér er sérstaklega minnisstætt að ein svo óskaplega sanngjörn krafa var sett fram sem forsenda fyrir stjórnarþátttöku Kvennalistans: Raunverulegar aðgerðir til að minnka (og smátt og smátt eyða) kynbundnum launamun. Viðbrögðin sem Kvennalistakonur fengu voru: Stelpur, þið megið ekki vera svona ósveigjanlegar! Ekki einu sinni tilboð um hvernig stíga mætti einhver skref í þessa átt, bara tilboð um að finna þessum málum farveg innan einhvers ráðuneytisins.

Nú er sú staða komin upp að ef Vinstri græn fara í ríkisstjórn (og þar sé ég eins og sakir standa ekki annan kost en DV stjórnina og hef fært fyrir því rök) þá væri hreyfingin í allt annarri aðstöðu en Kvennalistinn var á sínum tíma. Helsti munurinn, og sá sem mestu máli skiptir, er að VG færi í stjórn á þeim forsendum að geta haft veruleg áhrif í stjórnarsamstarfi. Annar munur er að eins og pólitísk staða er núna þá getur þurft að hugsa fyrir því að afstýra annarri og verri ríkisstjórn í leiðinni, tveir aðrir ríkisstjórnarkostir eru uppi á borðinu, annars vel raunhæfur, en báðir þessir kostir eru að mínu mati svo varasamir að ekki er hægt að láta þá yfir sig ganga án þess að reyna að spyrna við fótum. Þar er ég að tala um möguleika á stórfelldu bakslagi hvað varðar hag sjúklinga og annarra sem eiga undir högg að sækja, með einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu, sem myndi skila okkur dýrara kerfi, bæði fyrir þjóðarbúið og sjúklingana. Ennfremur möguleika á áframhaldandi og jafnvel vaxandi stóriðjustefnu. Hins vegar skil ég óskaplega vel þá sem segja, VG má ALDREI gera þetta eða hitt, aðallega aldrei fara í stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum. Gengið er út frá því að ekki sé mögulegt að fara í slíkt stjórnarsamstarf nema að sæta einhverjum afarkostum. Ég veit ekki um neinn innan Vinstri grænna sem býst við slíkum tilboðum eða væri reiðubúinn að taka þeim.

Æi, kæru landar og löndur sem ekki tóku afstöðu gegn áframhaldandi stjórnarmeirihluta. Hvað lífið væri miklu auðveldara ef stjórnin hefði nú bara fallið. En væntalega skýrist málið, ekki endilega fljótlega, þótt það sé trú mín að svo verði.


Tókum að okkur að flýta fyrir og skipta ráðuneytum milli flokka (DV)

Við mæðgurnar tókum að okkur að flýta aðeins fyrir og skipta ráðuneytum milli Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna. Hér er listinn - þetta er ekki óskalisti heldur raunsæ tillaga. Tókum mið af því að Geir hefur sagt að flokkur hans vildi gjarnan fá heilbrigðisráðuneytið og Steingrímur J. hefur lýst áhuga á fjármálaráðuneytinu.

1. Forsætisráðuneytið - D

2. Fjármálaráðuneytið - V

3. Utanríkisráðuneytið - D

4. Innanríkisráðuneytið - V

Hér er þörf á skýringu. Við teljum að ýmis hlutverk núverandi dómsmálaráðuneytis, forsætisráðuneytis og mögulega annarra ráðuneyta séu í raun málefni innanríkisráðuneytis. Einkum á það við um dómsmálaráðuneytið sem er að vasast í mörgum samræmingarmálum stjórnsýslunnar.  Dómsmálaráðuneyti á að einbeita sér að dómsmálum. Undir þetta ráðuneyti ætti m.a. að falla veiting ríkisborgararéttar, kirkjumál (ef þau verða enn á hendi ríkisins) og þau hlutverk sem við höfum á hendi eftir blessunarlega brottför hersins.

5. Heilbrigðisráðuneyti - D

6. Félagsmálaráðuneyti - V

7. Viðskiptaráðuneyti - D

8. Atvinnumálaráðuneyti - V

Hér þarf enn að gefa skýringu: Landbúnaður og sjávarútvegur og fljotlega komi iðnaður með þegar endurskoðun ráðuneyta er lengra komin (ekki undanskilinn eins og mögulega mátti túlka Þorgerði Katrínu).

9. Samgönguráðuneyti - D

10. Umhverfisráðuneyti - V

11. Iðnaðarráðuneyti - D

12. Menntamálaráðuneyti - V


Mögulegar lausnir í stóra Eurovision málinu

Þótt þetta sé auðvitað bara aðallega fyndið, þá er samt gaman að velta fyrir sér möguleikum til lausnar í stóra Eurovision málinu. Reyndar er búið að afsanna að hluta allar samsæriskenningar (með einhverri tölfræði) en ég gef mér að þær haldi.

1. Þessi er frá Björgvin Halldórssyni: Fólk er hætt að hlusta á lögin og sönginn, breytum Eurovision í útvarpsþátt.

2. Skiptum Noregi í ný ríki eftir málsvæðum (lönd fyrrum Noregs). Nóg af atkvæðum.

3. Sendum pólskumælandi innflytjanda næst. Þeir eru áreiðanlega jafn hæfileikaríkir og við ef við veljum rétta einstaklinginn.

4. Hættum í Eurovision.

 


mbl.is Breskur þingmaður krefst þess að Evróvisjón-kosningunni verði breytt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Salt í sárin ... eða verður það: Þetta sagði ég þér

EF núverandi ríkisstjórnarflokkar ákveða í trássi við vilja þjóðarinnar, í trássi við heilbrigða skynsemi og í trássi við hag þjóðarinnar að hanga saman áfram þá held ég að ég verði, enn og aftur, að taka upp litlu dálkana mína, Salt í sárin og ef til vill seinna: Þetta sagði ég þér.

Þannig að:

1. Ef Árni Johnsen neitar að samþykkja fjárlög nema fá göng út í Eyjar, strax, þá skal ég segja: Þetta sagði ég þér!

2. Ef samkomulagið innan ríkisstjórnarinnar verður stirt, þá munu fjölmiðlar vera fljótir að fá einhverja til að segja eitthvað ljótt, sem aftur verður salt í sárin sem urðu til þegar einhverjir þorðu ekki að búa til almennilega ríkisstjórn. 

3. Ef Framsókn heldur enn áfram að tapa í fylgiskönnunum (þið skuluð ekki ímynda ykkur að tími skoðanakannanna sé liðinn) þá verður það enn meira salt í sárin, eftir þessar hrakfarir Framsóknar nú.

4. Ef Kristinn Há Gunnarsson hlakkar yfir því að hafa skipt um flokk tímanlega, þá skal ég bara segja: Þetta sagði ég þér.

5. Ef stjórnarþingmenn fá óvenju mörg dýr og ólógísk kjördæmamál samþykkt næsta haust, þá ætla ég líka að segja: Þetta sagði ég þér.

Ykkur er velkomið að bæta við þennan lista, ég veit að hann getur alveg verið lengri. En andleysi hrjáir mig nokkuð eftir langa og stranga kosninganótt.


Fátt er svo með öllu gott ...

Fátt er svo með öllu gott að ekki boði nokkuð illt - eða þannig. Auðvitað á ég að vera ánægð með úrslit kosninganna. Samt lafir stjórnin og mér finnst hugmynd um að halda áfram stjórnarsamstarfi vera að breytast í ásetning, úff, það hljómar verulega illa. Vona sannarlega að ég hafi rangt fyrir mér. Mér finnst líka afleitt að Guðfríður Lilja hefði þurft að komast inn á þing, og það merkilega er að ég hef ekki hitt nokkra manneskju sem er mér ekki sammála. En kommon! Það þarf þá væntanlega að kjósa hana líka og einhverjir hafa greinilega verið aðeins of volgir. Hins vegar ég veit að það voru afskaplega margir sem merktu við hana og Ögmund, sem er líka einn okkar fremstu fulltrúa af mörgum aldeilis yndislegum, bæði sem náðu kjöri og koma inn næst. Þannig að ég held að það megi jafnvel íhuga það, ef VG fer í ríkisstjórn, hvort Guðfríður Lilja ætti ekki að fá hlutverk við hæfi, hvort sem er ráðuneyti eða annað verðugt hlutverk. Það er auðvitað alltaf erfitt að skipta með verkum þegar svo mörgum hæfum einstaklingum er á að skipa, en svona til íhugunar alla vega, varpa ég þessu fram.

VG og valkostirnir

Þessar dæmalausu kosningar enduðu jafn klúðurslega og spár höfðu bent til. ,,Allt opið" og enginn góður kostur. Kaffibandalagið (sem ég hefði gjarnan viljað sjá án sumra frjálslyndra) er ekki inni og þá er sú spurning nærtækust: Hvaða kostir eru í stöðunni? 

Mér finnst Vinstri græn skulda kjósendum sínum það að komast í stjórn, fyrir allan stuðninginn. Eða, ég leiðrétti mig: Skulda þeim það að komast til áhrifa, og það er best gert í ríkisstjórn. Nú er það ekki dagljóst að VG geti efnt það fyrirheit, því enn leyfi ég mér að óttast SS stjórn, sem ég tel vondan kost. Það eru tveir nokkuð jafnir kostir í stöðunni: DV stjórnin, eins og ég hef heyrt samstjórn Sjálfstæðisflokks og VG kallaða og vinstri stjórn með Framsókn innan borðs. Ég veit svei mér ekki hvort kosturinn er ásættanlegur, hvorugur er nein sérstök óskastjórn.

DV: Gömul nýsköpunarstjórnarrómantík er vissulega til í ýmsum, þegar Sósíalistaflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn fóru saman í stjórn fyrir mörgum áratugum, þá varð það mjög farsæl stjórn að margra mati. Kostir: Semja þyrfti um allt, því flokkarnir eru rosalega ólíkir, það getur verið kostur umfram SS stjórn, þar sem hægri öflin í Samfylkingunni fengju byr undir báða vængi. Í DV stjórn fengju sósíaldemókratísku öflin í Sjálfstæðisflokknum líklega farveg, sem út af fyrir sig væri allt í lagi. Sjálfstæðisflokkur hefur spilað passívur í stóriðjumálum og það yrði væntanlega hægt að slá af einkavæðingaráform, sem engin trygging er fyrir að SS stjórn myndi gera. Velferðarmál yrðu áreiðanlega vandmeðfarin í þessum félagsskap, þótt Geir sé vissulega mildari ásýnd en Davíð í þeim málum. Evrópusambandsmál yrðu ekkert vandamál, áfram frjálst land. Önnur utanríkismál, alveg eins ruglað og í svokallaðri ,,vinstri stjórn". 

Vinstri stjórn með Framsókn. Helsti kostur yrði virkileg áhersla á velferðarmálin. Ókostur að vinna með Framsókn í sárum, ég er sammála Steingrími að því leyti að Framsókn er varla ríkisstjórnarhæf í því ástandi sem hún er nú, þó með þeirri undantekningu að ég held að Sunnlendingarnir myndu mæta galvaskir til leiks. Mér finnst frábært að Guðni skuli vera kominn með Bjarna Harðar sér við hlið, einkum minnkar það hættuna á að Samfylkingin geri eitthvert bandalag við hægri Framsókn (Valgerði og co) um að þrýsta á að hefja aðildarviðræður að ESB. Verk Framsóknar í umhverfismálum og afstaða sumra Samfylkingarmanna gæti orðið meiri fyrirstaða en samvinna við Sjálfstæðisflokkinn í sama málaflokki, merkilegt nokk. Samt held ég ekki að nokkur stjórnmálaflokkur með fullu viti muni mæla áframhaldandi stóriðju bót. Málefnalega eigum við ágæta samleið með vinstri Samfylkingarfólki og myndum vonandi efla það gegn hægri kratisma sem ég tel ljóð á ráði annarra Samfylkingarmanna. 

Margt fleira spilar inn í. Hvað finnst ykkur hinum?


Vinstri grænn sigur - vinsamlegast ekki stela honum!

Einu raunverulegu sigurvegarar þessara kosninga eru vinstri græn. Enn eru ekki öll kurl komin til grafar hvort stjórnin heldur eða fellur, en það má greina ákveðinn vilja nú þegar til að stela þessu sigri frá VG, spekingar ræða SS stjórn og áreiðanlega ekki út í loftið, þar sem Sjálfstæðisflokkur kallar smá uppálöppun á eins verstu afhroð seinni ára ,,sigur" og Samfylkingin sitt tap ýmist sigur eða varnarsigur, og jafnvel Jón Sig hefur notað nóttina í að hagræða orðalagi sínu úr ,,munum ekki sitja áfram" í ,,munum ekki skorast undan ábyrgð". Allt var þetta vissulega fyrirsjáanlegt, en vonbrigðin eru þau sömu. 

Eitt er þó eftir í stöðunni. Falli stjórnin formlega, sem enn getur gerst, þá hefst kapphlaup flokksforingja og ég vona að einhver meining hafi verið á bak við yfirlýsingar um að ,,að sjálfsögðu sé stjórnarsamstarfs stjórnarandstöðunnar fyrsti kostur".  En við sjáum til, í augnablikini gruna ég ýmsa um græsku, vonandi að ósekju.

Ég er engan veginn farin að sofa, enda bæði með sveigjanlegar svefnvenjur og afskaplega edrú eftir æsispennandi kosninganótt á þægilegri heimaslóð. Hins vegar er tími til kominn að færa sig úr tölvunni, taka linsurnar úr augunum og leyfa útvarpinu að upplýsa mig á milli lestrarlota. Spennusaga sem hefur verið vænrækt að undanförnu verður án efa fulllesin fyrr en varir og svo má alltaf grípa í stærðfræðina, sem er furðu skemmtileg lesning.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband