Fallin með 4,9???

Skyldi ríkisstjórnin ekki örugglega vera fallin?

Skyldi hún vera fallin með 4,9?

Ef þetta verður tæpt, hvað gerist þá?

Við vissum alltaf að þetta yrði spennandi kosninganótt, nú vantar mig bara Guðfríði Lilju inn, sem viðbót við góðan hóp þegar kosinna VG-þingmanna. Gott að hafa fengið sér blund í dag, ekki veitir af. Nú bíð ég bara eftir feðgunum heim, einn að lesa og/eða djamma og annar að klára skyldustörf í kjörstjórn. En fyrir smá stundu var ég reyndar með tvær sjónvarpsstöðvar í gangi og tvö blogg líka. Aðeins að róast í bili, en þetta verður óbærileg spenna, væntanlega í alla nótt. 


Kosningadraumar - skyldi annað hvort okkar vera berdreymið?

Mig dreymdi Ingibjörgu Sólrúnu í nótt, ekki oft sem mig dreymir hana, en ég vona að það sé fyrir því að Samfylkingin og Vinstri grænir nái saman í ríkisstjórn. Var að ræða þetta í kosningakaffi hjá VG í dag og heyrði þá af ansi merkilegum draumi sem einn af þungavigtarmönnum Sjálfstæðismanna hafði dreymt (sá er talinn mjög berdreyminn). Hann dreymdi að Sjálfstæðismenn fengju 24 þingmenn og mér líst bara nokkuð vel á það, ef Framsókn fær sína sex menn, já, þá er þetta bara einföld stærðfræði. Hann dreymdi ekki þingmannatölu annarra en þessi draumur hafði þó verið mjög hagstæður vinstri grænum, og ég ætla sannarleg að vona að hann sé að dreyma fyrir daglátum. Ólíklegur maður, sem gerir þetta jafnvel enn trúverðugra. 

X-V fyrir velferð, visku og von (og helst betra veður líka)

Stund sannleikans rennur upp á morgun og á góðum degi gæti ríkisstjórnin fallið. En þá er það spurningin, hvað kemur í staðinn? Vinstri græn eiga mikið erindi í ríkisstjórn, ekki síst einmitt núna, þegar misskipting og mistök í umhverfismálum lita lífið á þessu annars ágæta landi okkar.

Ég vil að það verði aukin velferð fyrir alla

Ég vil að stjórnviska ráði ferðinni, efnahagsstefna án þenslu sem fylgir stórframkvæmdum

Og ég leyfi mér að halda í þá von að einhverju verði bjargað af því sem verið er að og til stendur að fórna á altari stóriðjunnar

Svo er ég líka í hópi þeirra sem trúa því að loftslagsbreytingar séu af mannavöldum, og eins og ég er nú sólarsækin manneskja, þá met ég það samt svo að gott veður í framtíðinni byggist á ábyrgð í umhverfismálum. Óeðlilegir þurrkar, bráðnun á íshellum og annað slíkt getur leitt yfir okkur aðstæður sem við ráðum ekki við, það er tími til kominn að átta sig á feiknarkrafti náttúrunnar.  


Við verðum að vinna ...

Smá stund fyrir utan Nóatún í Kópavogi eftir vinnu að dreifa bæklingum fyrir VG, svona í leiðinni þegar ég átti annað erindi á kosningaskrifstofuna. Það er alltaf svolítið lærdómsríkt að spjalla við fólk fyrir kosningar, mestanpart jákvæð viðbrögð, mikið af hvatningarorðum og brýningum og svo heyrir maður alltaf reynslusögur fólks sem er búið að fá nóg af núverandi ástandi. Þarna hitti ég konu sem ég hitti var búin að vinna hörðum höndum, þrátt fyrir ungan aldur, í mörg ár er hún missti heilsuna. Hún sagðist vera að verða uppgefin á því að búa hér á Íslandi, hún er á örorku en greiðir samt 170 þúsund krónur fyrir allsendis ófullnægjandi húsnæði. Hún ætlar að gera sitt og kjósa breytingu eins og við hin vinstri græn, en við skuldum henni og fleirum sem eru í svipuðum sporum það að snúa við blaðinu NÚNA og bjóða upp á manneskjulegra samfélag þar sem meiri jöfnuð er að finna. 

Glímuskjálfti og fréttatúlkanir

Það er greinilega kominn í mig glímuskjálfti. Guðfríður Lilja er kyrfilega inni í könnunum dagsins, og svoleiðis á það líka að vera. Hins vegar sá ég einhverja könnun núna síðustu dagana þar sem hún var í fallhættu og ég ætlaði hreinlega ekki að trúa því. Mögulega hafði eitthvað slíkt áhrif á fleiri því núna gefa kannanir henni mikinn byr, sem verðskuldað er. Í staðinn er Mogginn eitthvað að hræða okkur varðandi Steingrím J. og Þuríði í Norðausturkjördæmi  og ég vona bara að það hafi sömu áhrif. Ekki alveg viss um að það sé meining Moggans, en ég yrði ekki hissa þótt menn rönkuðu við sér við svoleiðis hrakspár og sneru þeim upp í andhverfu sína og þau flygju bæði inn með góða prósentu að baki sér. 

Klúðrum ekki tækifærinu - komum Guðfríði Lilju á þing

Það er gaman að vera Vinstri græn í Kraganum núna. Listinn sem við kjósum á laugardaginn er glæsilegur. Ögmundur er öruggur inni og enginn deilir um það að hann er mikill óskafulltrúi fyrir sjónarmið vinstri grænna. Við getum auðvitað ekki annað en unnið með hann á þingi og kannski óþarfa tilætlunarsemi að biðja um meira. En ég ætla samt að gera það, því það eina sem ég er að biðja um er að fólk hlýði innri röddinni og noti það tækifæri sem er í sjónmáli.

Sem sagt: Við eigum raunhæft tækifæri til að koma Guðfríði Lilju líka á þing, því ef við teflum þessa skák rétt þá verður hún þingkona vinstri grænna frá og með næstkomandi laugardegi. Hún og Katrín Jakobsdóttir (sem við Kragakjósendur vildum auðvitað líka eiga tækifæri til að kjósa, en látum öðrum það eftir) hafa komið inn í kosningabaráttuna sem sigurvegarar, geislandi persónuleikar með mikið fram að færa. Árangur þeirra er engin tilviljun og það sem enn betra er, þær eru aðeins hluti af okkar glæsilega hópi sem kemur nýr inn í pólitíkina um þessar mundir. Þetta er fólk á öllum aldri sem hefur verið að koma fram á sjónarsviðið að undanförnu, skriðan hefur í rauninni verið allt þetta kjörtímabil og endaði með glæsilegum árangri ungra feminista í forvalinu í vetur. 

Held ég þurfi ekki að kynna Guðfríði Lilju hér í bloggheimum, hún gerir það best sjálf, en það sem mér liggur á hjarta er einfalt: Við höfum tækifæri til að fá hana í fullt starf til að vinna að hagsmunamálum okkar og við eigum endilega að nýta það! Hún er öflugur málsvari umhverfisverndar, snjöll að greina og benda á hvar pottur er brotinn í mannréttindum og órög við að gefa sig alla í baráttunni. 


Þá þarf maður ekki að horfa á Eurovision á laugardaginn :-(

Ég er frekar fúl yfir því að Eiríkur komst ekki áfram - viðurkenni það hér og nú. Núna þarf maður bara ekkert á horfa á laugardaginn, nema hvað ég er reyndar mjög ánægð með að ungverski blúsinn komst áfram, en ekki nóg til að fylgjast endilega með Eurovision á laugardaginn. ,,Þau eru súr!" sagði refurinn. 

Af hverju í ósköpunum er manni ekki sama um Eurovision?

Ég er reyndar löglega afsökuð í dag þar sem höfundur lagsins er úr vinahópi dóttur minnar, eins og ég þreytist ekki á að segja. Svenni samdi þetta frábæra lag og má vera stoltur. Mér hefur líka alltaf þótt Eiríkur flottur og ég er ekkert hissa á því að hann segir að núna sé hann óvenju spenntur fyrir að lagið nái árangri, þetta er nefnilega lag fyrir rokkara og Eiríkur er rokkari. Það er meira rokk í Eurovision núna en oft áður, hef ég heyrt, og þótt það sé ekki allt jafnt af gæðum, tékkneskja Lordi stælingin er til dæmis alveg skelfileg. En núna er að styttast í úrslitin, hvort Eiríkur kemst áfram í aðalkeppni Eurovision. 

Þannig að rokkið er ástæðan fyrir því að mér er ekki sama um Eurovision, í fyrra var mér ekki sama um útkomuna af því mér fannst Sylvia Nótt drottning diss-sins og það var bara gaman. Og þaráður hafði ég ábyggilega einhverja aðra afsökun .... 


SS stjórn yrði ekki góður kostur

Á meðan ég skrapp í leikhús (þið hin eruð víst orðin of sein að sjá Eilífa hamingju, og ég var næstum búin að klúðra því líka) þá skilst mér að Samfylking og Sjálfstæðisflokkur hafi eitthvað verið að daðra. Ekki líst mér vel á það mynstur, hrædd um að hún yrði arftaki þeirra stjórna sem ég man eftir með Alþýðuflokki og Sjálfstæðisflokki, sem voru hver annarri verri þótt þær væru kenndar við einhver vöff, Viðey eða viðreisn. Nei, það er miklu betra að kjósa bara V-ið ómengað og fá annars konar vaff-stjórn, það er umhverfisvæna vinstri stjórn. 

Flýtur milli Framsóknar og Sjálfstæðismanna?

Svo virðist sem nokkuð af fylgi Sjálfstæðismanna sé að fljóta til baka til Framsóknarflokksins. Ákall Valgerðar virðist virka á þá sem vilja halda dauðahaldi í ríkisstjórnina. En það er ekki nema helmingurinn, hinn helmingurinn sem vill stjórnina burt verður vonandi áberandi stærri.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband