Heitar tilfinningar og mögulegt stjórnarsamstarf

Kvennalistanum var legið á hálsi á sínum tíma fyrir að fara ekki í ríkisstjórn þegar færi gafst, jafnvel þótt ljóst væri að aldrei stæði til að samtökin fengju að komast til nokkurra áhrifa í þeim ríkisstjórnum sem sóttust eftir að starfa með þeim. Heilshugar studdi ég þessar erfiðu ákvarðanir og tel að engar forsendur hafi verið fyrir því fyrir Kvennalistann að fara í ríkisstjórn, því miður. Þá var talað um að (Kvennalista)konur væru aldrei tilbúnar að axla ábyrgð. Bæði fyrr og síðar fóru þó Kvennalistakonur í meirihluta í stærstu bæjarfélögum landsins, fyrst á Akureyri og síðan í Reykjavík, innan Reykjavíkurlistans, og þá með nógu miklu trukki til að hafa raunveruleg áhrif. Mér er sérstaklega minnisstætt að ein svo óskaplega sanngjörn krafa var sett fram sem forsenda fyrir stjórnarþátttöku Kvennalistans: Raunverulegar aðgerðir til að minnka (og smátt og smátt eyða) kynbundnum launamun. Viðbrögðin sem Kvennalistakonur fengu voru: Stelpur, þið megið ekki vera svona ósveigjanlegar! Ekki einu sinni tilboð um hvernig stíga mætti einhver skref í þessa átt, bara tilboð um að finna þessum málum farveg innan einhvers ráðuneytisins.

Nú er sú staða komin upp að ef Vinstri græn fara í ríkisstjórn (og þar sé ég eins og sakir standa ekki annan kost en DV stjórnina og hef fært fyrir því rök) þá væri hreyfingin í allt annarri aðstöðu en Kvennalistinn var á sínum tíma. Helsti munurinn, og sá sem mestu máli skiptir, er að VG færi í stjórn á þeim forsendum að geta haft veruleg áhrif í stjórnarsamstarfi. Annar munur er að eins og pólitísk staða er núna þá getur þurft að hugsa fyrir því að afstýra annarri og verri ríkisstjórn í leiðinni, tveir aðrir ríkisstjórnarkostir eru uppi á borðinu, annars vel raunhæfur, en báðir þessir kostir eru að mínu mati svo varasamir að ekki er hægt að láta þá yfir sig ganga án þess að reyna að spyrna við fótum. Þar er ég að tala um möguleika á stórfelldu bakslagi hvað varðar hag sjúklinga og annarra sem eiga undir högg að sækja, með einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu, sem myndi skila okkur dýrara kerfi, bæði fyrir þjóðarbúið og sjúklingana. Ennfremur möguleika á áframhaldandi og jafnvel vaxandi stóriðjustefnu. Hins vegar skil ég óskaplega vel þá sem segja, VG má ALDREI gera þetta eða hitt, aðallega aldrei fara í stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum. Gengið er út frá því að ekki sé mögulegt að fara í slíkt stjórnarsamstarf nema að sæta einhverjum afarkostum. Ég veit ekki um neinn innan Vinstri grænna sem býst við slíkum tilboðum eða væri reiðubúinn að taka þeim.

Æi, kæru landar og löndur sem ekki tóku afstöðu gegn áframhaldandi stjórnarmeirihluta. Hvað lífið væri miklu auðveldara ef stjórnin hefði nú bara fallið. En væntalega skýrist málið, ekki endilega fljótlega, þótt það sé trú mín að svo verði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Þetta skýrist fyrir helgi Anna mín.  Flottur pistill.

Jenný Anna Baldursdóttir, 16.5.2007 kl. 02:29

2 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Ég sé aðeins í pistlinum - hverju VG getur afstýrt. Spurningin er hins vegar, finnst mér - hverju þeir geta hrint í framkvæmd.

María Kristjánsdóttir, 16.5.2007 kl. 08:41

3 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Takk fyrir ábendinguna, María, ég held alltaf að allir viti fyrir hvað við stöndum. Og rétt er það að ég held að mikilvægara sé að stoppa ótæpilega stóriðjustefnu og einkavæðingu en að ná öllu sínu fram. En í svona samkomulagi (sem kannski verður að engu) þá tel ég að VG eigi að ná fram eftirfarandi: 1) Stóriðjustoppi og aukinni áherslu á umhverfismál, fyrir því er jarðvegur hjá sumum Sjálfstæðismönnum. 2) Eftirfarandi áherslum í velferðarmálum: Betri kjörum fyrir aldraða gegnum skattkerfi og/eða almannatryggingakerfi; Smærri skrefum í öðrum áherslumálum VG í velferðarmálum. 3) Stórátaki gegn launamisrétti milli kynjanna. Aðferðin verður ábyggilega ekki sú sama og vinstri stjórn myndi nota, en konurnar í Sjálfstæðisflokknum munu hjálpa til. 4) Átaki gegn kynferðisofbeldi og ofbeldi gegn börnum, bæði algfæringar á lagaumhverfi og aðrar aðgerðireru mögulegar. VG myndi koma málinu á dagskrá, held að Framsókn muni ekki gera það, Samfylking gæti gert hluta af því sem VG vildi, sem er skárra en ekkert.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 16.5.2007 kl. 15:10

4 Smámynd: Jón Sigurgeirsson

Ef um samstarf svo ólíkra flokka sem VG og Sjálfstæðisflokks hlýtur það að byggjast á afarkostum á báða bóga.

Jón Sigurgeirsson , 16.5.2007 kl. 17:05

5 Smámynd: Vilborg G. Hansen

Hæ Anna mín, smá leiðrétting! 
Það er enginn að tala um einkavæðingu í heilbrigðisgeiranum.  Það er verið að tala um þjónustusamninga sem gætu létt verulega á rekstri heilbrigðiskerfisins.  Þetta er tvennt ólík.  Ríkið væri alltaf að greiða fyrir þjónustuna eins og nú nema hvað það stæði ekki í rekstri bygginga og batterís.  Nefni dæmi Heilsugæsluna í Salahverfi en þar er t.d. ekki bið eftir að komst til læknis eins og almennt gerist á hinum stöðvunum.  Þessi aðferð þar hefur gefið góða raun, betri þjónusta og betri rekstur. Þekki það sjálf af eigin raun.  Einkavæðing og þjónustusamningar eru tvennt ólíkt og það fyrrnefnda er ekki inni í myndinni.

Vilborg G. Hansen, 16.5.2007 kl. 17:17

6 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Það þarf að ræða hvað felst nákvæmlega í öllum lausnum og ég vona sannarlega að ég hafi rangt fyrir mér varðandi einkavæðinguna í heilsugæslunni, allra hluta vegna. Kannski verður þessi umræða tekin í kjölinn, mér finnst það alla vega líklegra ef D og V ákveða að ræða saman en ef aðrir kostir verða ofan á.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 16.5.2007 kl. 22:04

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband